Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 534. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1298  —  534. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Bjarnasyni
um framkvæmd á úrskurðum kjararáðs vegna laga nr. 87/2009 .


    Óskað var eftir upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu við vinnslu fyrirspurnarinnar og byggjast eftirfarandi svör á upplýsingum þaðan.

     1.      Hver var framkvæmd á úrskurði kjararáðs dagsettum 23. febrúar 2010 vegna laga nr. 87/2009, um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum, varðandi laun og önnur starfskjör forstjóra Samkeppniseftirlitsins (2010.4.018)?
    Föst laun fyrir dagvinnu lækkuðu um tvo launaflokka sem hafði um leið bein áhrif á álag í formi eininga. Forstjóri naut bifreiðahlunninda sem voru afnumin. Rétt er að taka fram að áður hafði stjórn og forstjóri Samkeppniseftirlitsins komist að samkomulagi um tímabundna lækkun launa. Hinn 1. apríl 2009 lækkuðu launin um einn launaflokk og fóru niður í 502-141-1, fjöldi eininga lækkaði úr 77 og niður í 64. Lækkunin samsvaraði um 11%.

     2.      Fól úrskurður í sér lækkun á launum viðkomandi og þá hve mikla í krónum og prósentum talið?
    Úrskurðurinn fól í sér lækkun launa. Heildarlaun lækkuðu um 189.897 kr. eða 15,5%. Laun og launatengd gjöld lækkuðu samtals um 237.248 kr. eða 15,8%. Samtals lækkun, að meðtalinni þeirri sem forstjóri hafði áður tekið á sig, var því samtals 338.000 kr. eða 24,7%.

     3.      Aflaði stjórn Samkeppniseftirlitsins lögfræðiálits um framkvæmd úrskurðarins og ef svo var, hver var niðurstaða álitsins?
    Stjórnin aflaði ekki lögfræðiálits um framkvæmd úrskurðarins. Á hinn bóginn kom stjórnin á framfæri sjónarmiðum sínum á vettvangi kjararáðs, auk þess sem hún gaf umsögn við þinglega meðferð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 87/2009.

     4.      Fór stjórnin eftir niðurstöðu álitsins? Ef ekki, hvaða ástæður lágu að baki þeirri afgreiðslu?
    Á ekki við.

     5.      Kom úrskurður kjararáðs til framkvæmda strax gagnvart viðkomandi í framhaldi af efnislegri umfjöllun stjórnarinnar um hvernig hann skyldi framkvæmdur eða var framkvæmd frestað, t.d. vegna uppsagnarfrests eða annarra sjónarmiða, og þá í hvað langan tíma?
    Úrskurður kjararáðs kom til framkvæmda samkvæmt efni sínu í samræmi við ákvörðunarorð úrskurðarins.



     6.      Ef framkvæmd var ekki frestað, kom til leiðréttinga á framkvæmdinni síðar, t.d. vegna uppsagnarfrests eða annarra sjónarmiða?
    Ekki hefur komið til breytinga á kjörum forstjóra, annarra en þeirra sem leiða af síðari úrskurði kjararáðs. Forstjóri er í dag í sama launaflokki og eftir úrskurð kjararáðs í byrjun árs 2010.

     7.      Ef framkvæmd var frestað eða framkvæmd leiðrétt eftir á, hvað munar miklu á heildarlaunagreiðslum á frestunartímabili miðað við að úrskurður hefði komið til framkvæmda strax?
    Á ekki við.

     8.      Var viðkomandi bættur sá munur að hluta eða öllu leyti sem var á upphaflegum kjörum og þeim sem kjararáð ákvarðaði með úrskurði sínum, t.d. með eingreiðslu, hlunnindum, launuðum aukastörfum eða með öðrum hætti? Hver var sú fjárhæð eða hlunnindi?

    Forstjóra Samkeppniseftirlitsins hefur ekki á neinn hátt verið bættur sá munur sem var á upphaflegum kjörum og þeim sem kjararáð ákvarðaði með úrskurði sínum.