Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 424. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1300  —  424. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um endurskoðun á rekstrarformi háskóla og framhaldsskóla.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað felst í endurskoðun sem fram kemur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 að standi til á rekstrarformi háskóla og framhaldsskóla?
     2.      Er vinna hafin við þá endurskoðun og hverjir munu koma að henni?


    Bæði háskólar og framhaldsskólar hafa á undanförnum árum mátt þola samdrátt í framlögum eins og aðrir málaflokkar ríkisins án þess að dregið hafi mikið úr umfangi skólakerfisins. Þetta hefur leitt til þess að huga hefur þurft að endurskipulagi á þessum skólastigum.
    Að því er háskólastigið varðar hefur sjónum undanfarið verið beint að framtíðarlausnum á starfsumhverfi landbúnaðarháskólanna tveggja, Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) og Hólaskóla. Hefur það verið gert í samræmi við áherslur og ábendingar fjárlaganefndar Alþingis og Ríkisendurskoðunar um að ráðuneytið grípi þegar til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta á rekstrarstöðu skólanna. Auk bágrar rekstrarstöðu hefur gæðaráð háskólanna bent á ákveðna veikleika sem tengjast stærð skólanna og getu þeirra til að standast þær gæðakröfur sem gerðar eru til háskóla.
    Undanfarið hafa verið kannaðir kostir þess að sameina LbhÍ og Háskóla Íslands. Niðurstaða þeirrar könnunar bendir til þess að margvíslegur ávinningur hlytist af slíkri sameiningu, bæði fjárhagslegur og faglegur. Slík sameining gæfi ný tækifæri til nýsköpunar í kennslu og rannsóknum á sameiginlegum sviðum skólans. Sameinaður háskóli yrði betur í stakk búinn til að auka fjölbreytni og gæði menntunar, svo sem á sviði auðlinda-, landbúnaðar-, skipulags-, umhverfis- og náttúruvísinda, hagfræði, matvælaverkfræði, matvælaframleiðslu og tengdra greina, og laga sig þannig að síbreytilegum kröfum. Ekki hefur enn orðið af sameiningunni.
    Hvað viðkemur framhaldsskólastiginu vinnur ráðuneytið nú að endurskipulagningu náms á framhaldsskólastigi í samræmi við lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og aðalnámskrá frá 2011 með það að markmiði að stytta námstíma til lokaprófa og auka skilvirkni. Áætlað er að flestir framhaldsskólar muni í áföngum hefja kennslu á þriggja ára námsbrautum til stúdentsprófs haustið 2015. Verið er að greina áhrif þeirra breytinga á einstakar skólastofnanir og hvernig stuðlað verði að því að þjónusta á framhaldsskólastigi sem stenst gæðakröfur sé í boði fyrir nemendur á öllu landinu. Gert er ráð fyrir að slíkar aðgerðir geti falið í sér breytingar á skipulagi og rekstrarfyrirkomulagi einstakra skólastofnana.
    Ekki eru að svo stöddu áform uppi um að breyta rekstrarformi opinberra háskólastofnana eða framhaldsskóla.