Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 492. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1304  —  492. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um heimild til gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra að 32. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, veiti fullnægjandi heimild til gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum miðað við 12. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um rétt almennings til að fara um landið?

    Spurt er um heimildir til gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum. Náttúruverndarsvæði eru skilgreind í 8. tölul. 3. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, á eftirfarandi hátt:
     a.      Friðlýst svæði, þ.e. þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar, og náttúruvætti.
     b.      Önnur svæði og náttúrumyndanir sem eru á náttúruminjaskrá, sbr. 67. gr.
     c.      Afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.
    Í 12. gr. sömu laga er kveðið á um almannarétt, en í ákvæðinu kemur fram að almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Að auki er kveðið á um að öllum sé skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Í 14. gr. sömu laga er kveðið á um að mönnum sé heimilt án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Almannaréttinn er hins vegar hægt að takmarka, en 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. kveður á um að á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustíga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi. Að sama skapi er för um ræktað land og dvöl þar háð samþykki eiganda þess eða rétthafa.
    Í 1. mgr. 32. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, segir að Umhverfisstofnun eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis geti ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að rekstraraðili náttúruverndarsvæðis geti ákveðið gjald fyrir aðgang að svæðinu ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum, og skuli þeim tekjum varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því.
    Í ákvæðinu er skýrt kveðið á um að eingöngu getur verið um tvenns konar gjöld að ræða, þ.e. annars vegar gjald fyrir veitta þjónustu og hins vegar aðgangsgjald þar sem spjöll hafa orðið á náttúrunni af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Ákvæðið veitir því ekki heimild til almennrar gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum, t.d. gjald fyrir að fara inn á slíkt svæði, nema verið sé að veita ákveðna þjónustu eða náttúra svæðisins hafi orðið fyrir skemmdum.
    Í 32. gr. er einnig sett það skilyrði að rekstraraðili náttúruverndarsvæðis hafi gert samning við Umhverfisstofnun um rekstur svæðisins, þ.e. í þeim tilvikum þar sem umsjónaraðili svæðisins er ekki stofnunin sjálf. Að auki kemur fram í 3. mgr. 32. gr. að Umhverfisstofnun skal eigi síðar en í september ár hvert leggja fyrir ráðherra til staðfestingar skrá yfir gjöld sem stofnunin hyggst innheimta næsta ár á eftir. Staðfesti ráðherra gjaldskrána skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda. Ef tekið er gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæði án þess að skilyrði 32. gr. séu uppfyllt er sú gjaldtaka óheimil samkvæmt lögum.