Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 606. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1309  —  606. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um afhendingu kjörskrárstofna.


     1.      Af hversu miklum tekjum hefur Þjóðskrá Íslands orðið á seinustu 15 árum vegna fyrirmæla ráðuneytisins um að afhenda stjórnmálasamtökum kjörskrárstofna, límmiða og önnur gögn endurgjaldslaust í stað þess að rukka fyrir þau samkvæmt gjaldskrá? Svar óskast sundurliðað eftir kosningum og framboðslistum sem óskað hafa eftir gögnum.
    Ráðuneytið hefur greitt Þjóðskrá Íslands (áður Þjóðskrá) fyrir afhendingu kjörskrárstofna, límmiða og annarra gagna til stjórnmálasamtaka í aðdraganda kosninga, framan af samkvæmt sérstökum verðlista en vegna alþingiskosninganna 2013 var stofnuninni greiddur útlagður kostnaður. Verður hið sama gert vegna sveitarstjórnarkosninganna í ár, en uppgjör þess kostnaðar liggur enn ekki fyrir. Að öðru leyti vísast til meðfylgjandi greinargerðar Þjóðskrár Íslands, dags. 13. júní 2014.

     2.      Hversu lengi hefur tíðkast að afhenda framangreind gögn og hversu lengi hefur það verið gert án endurgjalds?
    Eins og fram kemur í greinargerð Þjóðskrár Íslands hefur afhending þessara gagna farið fram að minnsta kosti frá árinu 1982 og hefur það ávallt verið gert án þess að tekið hafi verið endurgjald af viðkomandi stjórnmálasamtökum.

     3.      Þurfa stjórnmálasamtök sem beiðast gagnanna að skrifa undir samning í þeim tilgangi að tryggja að meðferð þeirra sé í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og önnur sambærileg lagaákvæði?
    Eins og fram kemur í greinargerð Þjóðskrár Íslands hefur þess verið gætt frá því í aðdraganda alþingiskosninganna 2013 að vekja athygli umboðsmanna eða forsvarsmanna stjórnmálasamtaka á ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að því er varðar dreifingu, úrvinnslu og aðra meðferð gagnanna og staðfestu þeir móttöku gagnanna skriflega. Þá hefur einnig frá árinu 2013 verið prentuð sérstök áminning þar að lútandi á hverja blaðsíðu kjörskrárstofnanna. Er að öðru leyti vísað til framangreindrar greinargerðar Þjóðskrár Íslands.

     4.      Hyggst ráðherra sjá til þess að farið sé eftir áliti Persónuverndar í máli nr. 2013/828 þar sem fram kemur að ekki sé fullnægjandi lagastoð fyrir afhendingu kjörskrárstofna til annarra en sveitarstjórna?
    Þó að ekki sé sérstaklega mælt fyrir um það í kosningalögum hafa framboðsaðilum um áratuga skeið verið afhent afrit kjörskrárstofna í aðdraganda kosninga og hefur þessi miðlun komið til viðbótar þeirri opinberu framlagningu kjörskrár sem kveðið er á um í kosningalögum.
    Í áliti sínu 13. mars sl. komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að vafi leiki á því hvort Þjóðskrá Íslands sé heimilt að miðla kjörskrárstofnum með þeim hætti sem gert hefur verið til framboðsaðila, þar sem slík miðlun byggist ekki á skýrri heimild í settum lögum. Jafnframt benti Persónuvernd á að tímabært væri að uppfæra þá löggjöf sem Þjóðskrá Íslands starfar eftir þar sem hún sé komin til ára sinna og hafi ekki að geyma tæmandi lýsingu á hlutverkum og verkefnum Þjóðskrár Íslands eins og hún er nú starfrækt.
    Með vísan til þessarar löngu, óslitnu og venjuhelguðu stjórnsýsluframkvæmdar var það ákvörðun ráðuneytisins að Þjóðskrá Íslands skyldi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 31. maí sl. afhenda endurgjaldslaust öllum þeim framboðsaðilum, sem eftir því mundu leita, afrit af kjörskrárstofni sveitarfélaga. Var Þjóðskrá Íslands heimilað að afhenda stofnana á pdf-formi, enda yrði tryggt að gætt væri allra viðeigandi öryggisráðstafana við meðferð upplýsinganna. Þá var Þjóðskrá Íslands einnig nú sem fyrr falið að afhenda endurgjaldslaust öllum þeim framboðsaðilum, sem eftir því leita, límmiða með áprentuðum nöfnum og heimilisföngum einstaklinga af framangreindum skrám eftir nánari tilgreiningu framboðsaðilanna, svo sem eftir tilteknum aldursbilum, enda væri þess gætt að undanskilja nöfn þeirra einstaklinga sem skráðir eru á bannskrá Þjóðskrár Íslands.
    Í ljósi framangreindrar ábendinga Persónuverndar telur ráðherra hins vegar rétt að beina því til starfandi vinnuhóps forseta Alþingis um endurskoðun kosningalaga að meta hvernig rétt sé að kveða á um slíka afhendingu kjörskrárstofna með skýrum hætti í lögum.
    Stjórnmálaflokkar, hvort sem um er að ræða eldri og starfandi flokka eða ný framboð, gegna veigamiklu og nauðsynlegu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Ráðherra telur eðlilegt að opinberar stofnanir, t.d. Þjóðskrá Íslands, veiti framboðum viðeigandi aðstoð til að ná til kjósenda og kynna stefnumál sín. Eðli málsins samkvæmt þarf þó að gæta vel að persónuverndarsjónarmiðum, auk þess sem um slíka framkvæmd er mikilvægt að ríki almenn sátt á vettvangi stjórnmála. Þannig telur ráðherra rétt að Alþingi taki málið til umfjöllunar og taki í framhaldinu ákvörðun um hvernig afhending slíkra upplýsinga skal vera til framtíðar.


Greinargerð Þjóðskrár Íslands
til innanríkisráðuneytis.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.