Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 582. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1312  —  582. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur,
Þórunni Egilsdóttur og Björt Ólafsdóttur um þjónustu fyrir þolendur ofbeldis.


    Við vinnslu svars við fyrirspurninni var m.a. stuðst við skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála árið 2013 sem gefin var út af velferðarráðuneytinu. Auk þess var leitað upplýsinga hjá Barnaverndarstofu, félagsmálastjórunum á Akureyri, í Reykjanesbæ og Reykjavík, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilsugæslunni á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Jafnréttisstofu og Landspítalanum.
    Í svarinu er þjónusta við þolendur ofbeldis sundurgreind eftir stofnunum og eðli þjónustu. Þjónusta við þolendur ofbeldis byggist þó oft á samvinnu ýmissa aðila, svo sem félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, lögreglu og frjálsra félagasamtaka.

     1.      Hvaða þjónusta er í boði fyrir þolendur ofbeldis og hverjir veita hana?
Aflið.
    Aflið er systursamtök Stígamóta og var stofnsett á Akureyri árið 2002. Aflið er fyrir alla sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og/eða heimilisofbeldi og aðstandendur þeirra, svo sem maka, foreldra, systkini og vini sem óska eftir ráðgjöf. Samtökin eru með símavakt allan sólarhringinn. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl og starfræktir eru sjálfshjálparhópar fyrir þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis. Boðið er upp á fyrirlestra um kynferðis- og heimilisofbeldi og afleiðingar þess og er farið í skóla, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök eftir beiðnum.

Barnahús.
    Barnahús er úrræði á vegum Barnaverndarstofu og er tilgangur þess að skapa vettvang fyrir samstarf stofnana sem bera ábyrgð á rannsókn og meðferð mála er varða kynferðisofbeldi gegn börnum, þ.e. dómara, ákæruvalds, lögreglu, barnaverndaryfirvalda og lækna. Tilgangurinn er jafnframt að tryggja barni viðeigandi greiningu og meðferð. Barnaverndarnefndir bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu Barnahúss. Börn og foreldrar þeirra geta með tilvísun barnaverndarnefnda fengið alla þjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu. Barnaverndarnefndir geta leitað til Barnahúss vegna gruns um annars konar ofbeldi gegn börnum. Í þjónustu hússins felast m.a. rannsóknarviðtöl/skýrslutökur, læknisskoðun ásamt greiningu og meðferð þannig að börnin þurfa aðeins að fara á einn stað þegar grunur vaknar um ofbeldi gegn þeim.

Drekaslóð.
    Samtökin Drekaslóð eru samtök sem aðstoða þolendur ofbeldis. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl, hópastarf og fræðslu. Samtökin hafa frá upphafi lagt áherslu á að bæði kynin séu velkomin til Drekaslóðar.

Embætti lögreglu.
    Ávallt er hægt að leita til lögreglunnar ef ofbeldi á sér stað. Sé rökstuddur grunur um að tiltekinn aðili beiti aðra á heimilinu ofbeldi er hægt að óska eftir því að lögregla beiti viðkomandi nálgunarbanni eða brottvísun af heimilinu, sbr. lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011. Dæmi eru um að fólki sem er í hættu á að verða fyrir ofbeldi standi til boða neyðarhnappur sem lögregla vaktar.

Félagsþjónusta sveitarfélaga og barnaverndarnefndir.
    Félagsþjónusta sveitarfélaga veitir þolendum ofbeldis ráðgjöf, sbr. V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, um félagslega ráðgjöf. Innihald ráðgjafarinnar getur t.d. falist í upplýsingagjöf og stuðningi. Auk þess beitir félagsþjónustan öðrum úrræðum svo sem félagslegu leiguhúsnæði og fjárhagsaðstoð til þess að styðja þolendur ofbeldis, t.d. varðandi ferðakostnað til þess að komast til Reykjavíkur og í Kvennaathvarfið.
    Mögulegum fórnarlömbum mansals, sem dvelja hér á landi, er vísað til félagsþjónustunnar sem finnur viðeigandi búsetuúrræði auk annars stuðnings í samræmi við aðgerðaáætlun gegn mansali sem samþykkt var í ríkisstjórn 2013.
    Barnaverndarnefndir starfa á vegum sveitarfélaga og geta foreldrar barna leitað til þeirra ef börn hafa orðið fyrir ofbeldi eða ef grunur leikur á því. Nefndirnar fá einnig tilkynningar um ofbeldi sem börn verða fyrir og hefur verið lögð áhersla á að veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Starfsfólk barnaverndarnefnda aðstoðar foreldra við að leita sér viðeigandi meðferðar og veita börnum sérhæfða meðferð, oft með því að semja við sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Barnaverndarnefndir tilkynna eftir atvikum mál til lögreglu.

Heilbrigðisstofnanir, heilsugæslustöðvar og sjúkrahús.
    Ávallt er hægt að leita til heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva ef ofbeldi á sér stað. Á sumum heilsugæslustöðvum er skimað fyrir áföllum varðandi ofbeldi í mæðravernd og veitt meðferðarviðtöl ef tilefni er til. Dæmi eru um að innan heilsugæslunnar sé þolendum ofbeldis í nánum samböndum boðinn stuðningur sem miðar að því að auðvelda þeim að greina frá ofbeldinu svo hægt sé að meta afleiðingar þess á heilsu þeirra og vísa á viðeigandi úrræði eða meðferð.
    Heilsugæslan kemur að heilbrigðisþjónustu við möguleg fórnarlömb mansals en býður almennt ekki upp á sértæka þjónustu fyrir þennan hóp.
    Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis var stofnuð 1993 og er starfrækt á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Markmið neyðarmóttökunnar er að tryggja velferð og stöðu þeirra sem leita til móttökunnar vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis. Þjónustan er fyrst og fremst bráðaþjónusta hjúkrunarfræðinga og lækna fyrir þá sem nýlega hafa verið beittir kynferðisofbeldi og leita sér aðstoðar, hvort heldur er til ráðgjafar og stuðnings eða til þess að fá læknisskoðun og meðferð, þ.m.t. kvenskoðun. Réttarlæknisfræðileg skoðun, taka og varðveisla sakargagna er gerð í nýlegum málum. Þjónustan er veitt allan sólarhringinn. Boðin er sálfræðiþjónusta þar sem veittur er andlegur stuðningur, aðstoð við úrvinnslu vegna áfallsins og meðferðarvinna. Á vegum neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis starfar teymi lögfræðinga sem veitir þolendum kynferðisofbeldis lögfræðiaðstoð og aðstoðar þá í samskiptum við lögreglu og dómara.
    Á áfallamiðstöð Landspítala er þolendum ofbeldis í nánu sambandi sem leita læknisaðstoðar, meðferðar og stuðnings á bráðamóttöku Landspítala veittur sálrænn stuðningur og ráðgjöf. Þar er jafnframt gert fyrsta mat á áhættuþáttum í samráði við þolanda. Vísað er til áfallamiðstöðvar Landspítala og þeim sem það vilja er veittur frekari andlegur stuðningur og fyrsta úrvinnsla eftir áfallið. Þolanda er síðan vísað í frekari úrræði og meðferð innan eða utan sjúkrahússins, allt eftir eðli og alvarleika málsins.
    Að lokum veitir Landspítali þolendum mansals sálgæslu og byggir á vinnu út frá áfallastreituröskun.

Karlar til ábyrgðar.
    Verkefnið Karlar til ábyrgðar var endurvakið í maí 2006. Um er að ræða sérhæft meðferðartilboð fyrir karla sem beita maka sinn ofbeldi. Sálfræðingar annast meðferðarstarfið en markmið verkefnisins er að veita körlum sem beitt hafa heimilisofbeldi meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar. Áhersla er lögð á að gerendur komi sjálfviljugir í meðferð og axli sjálfir ábyrgð á ofbeldinu. Meðferðin byggist á einstaklingsviðtölum og getur staðið frá sex mánuðum til tveggja ára. Á árinu 2013 kom kvenkyns sálfræðingur til starfa við verkefnið. Tilkoma hennar hefur gert verkefninu kleift að auka stuðning við maka og veita konum sem beita ofbeldi á heimili meðferð. Í desember 2011 var sett á fót meðferðarúrræði á vegum verkefnisins á Akureyri, sem ætlað er að þjóna Norðurlandi. Verið er að leggja lokahönd á úttekt á meðferðarúrræðinu Karlar til ábyrgðar og verða niðurstöður birtar haustið 2014. Þegar niðurstöður árangursmatsins liggja fyrir er stefnt að því að kanna hvort rétt sé að heimila að menn verði dæmdir til meðferðar til að losna úr vítahring ofbeldis.

Kvennaathvarfið.
    Kvennaathvarfið hefur verið rekið í Reykjavík af Samtökum um kvennaathvarf frá árinu 1982. Kvennaathvarfið er fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis eiginmanns, sambýlismanns eða annarra og fyrir konur sem hefur verið nauðgað. Þar er veitt ráðgjöf og upplýsingar með það að markmiði að efla fræðslu og umræðu um kynbundið ofbeldi, m.a. til að auka skilning í þjóðfélaginu á eðli ofbeldis og afleiðingum þess og stuðla að því að þjóðfélagið, lög þess og stofnanir, verndi og aðstoði þau er slíkt ofbeldi þola. Í Kvennaathvarfinu er boðið upp á viðtalsþjónustu fyrir konur sem búa við ofbeldi og konur sem eru að vinna úr afleiðingum ofbeldis. Neyðarsími Kvennaathvarfsins er opinn allan sólarhringinn allan ársins hring. Konur sem beittar hafa verið ofbeldi eiga kost á því að ganga í sjálfshjálparhópa. Þá er mögulegum fórnarlömbum mansals nú veitt húsaskjól í Kvennaathvarfinu eftir atvikum.

Samstarfsteymi um heimilisofbeldi.
    Samstarfsteymi um heimilisofbeldi var skipað vorið 2013 en þar eiga sæti fulltrúar velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, lögreglu, Barnaverndarstofu, Jafnréttisstofu og Samtaka um kvennaathvarf. Hlutverk samstarfsteymisins er að fylgja eftir samræmdri stefnu um aðgerðir gegn heimilisofbeldi frá árinu 2011. Samstarfsteyminu er ætlað að gera samstarfssamninga um tiltekna þjónustu og sjá til þess að tilraunaverkefnum sé hrint í framkvæmd. Samstarfsteyminu er einnig ætlað að koma á föstu samstarfi milli félagsþjónustu, barnaverndar, heilbrigðisþjónustu, Jafnréttisstofu, lögreglu og félagasamtaka. Samstarfsteymið beitir sér fyrir því að öll sveitarfélög á Íslandi setji sér aðgerðaáætlun og að skipulega verði farið yfir hvar skimun verði viðkomið í félags- og heilbrigðisþjónustu.

Sólstafir.
    Sólstafir eru systursamtök Stígamóta, stofnsett á Ísafirði árið 2007. Markmið samtakanna er að bæta aðgengi þolenda kynferðisbrota að hjálp í sínu byggðarlagi. Frá stofnun hafa samtökin boðið upp á einstaklingsviðtöl fyrir þolendur og aðstandendur þeirra og staðið fyrir fræðslu og forvörnum.

Stígamót.
    Stígamót voru stofnsett árið 1990 og eru ráðgjafar- og upplýsingamiðstöð fyrir þá sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi. Samtökin veita fórnarlömbum kynferðisofbeldis margþætta aðstoð í formi einstaklingsmiðaðrar ráðgjafar og sjálfshjálparhópa. Stígamót starfrækja verkefnið Stígamót á staðinn sem hefur það að markmiði að veita fólki á landsbyggðinni tækifæri til að nýta sér þjónustu Stígamóta í sinni heimabyggð. Nú er boðið upp á viðtöl á Egilsstöðum hálfsmánaðarlega og stefnt er að því að fjölga viðkomustöðum á næstu mánuðum samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu samtakanna. Samtökin hafa lagt áherslu á að veita fötluðum konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi ráðgjöf og einnig körlum og hafa ráðið karl til starfa í þeim tilgangi.

     2.      Hversu miklir fjármunir á fjárlögum fyrir árið 2014 fara í þjónustu fyrir þolendur ofbeldis?
    Árið 2014 voru eftirfarandi fjármunir á fjárlögum eyrnamerktir fyrir þjónustu við þolendur ofbeldis af fjárliðum velferðarráðuneytis (félags- og húsnæðismálaráðherra):
    Karlar til ábyrgðar: 10,5 millj. kr.
    Kvennaathvarfið: 56,1 millj. kr.
    Samstarfsteymi um heimilisofbeldi: 10,0 millj. kr.
    Stígamót: 71,4 millj. kr.
    Samtals: 148 millj. kr.

    Styrkir af safnliðum fjárlaga til félagasamtaka, sem ýmist hafa það að markmiði að vinna gegn ofbeldi með fræðslu og forvörnum og/eða veita þolendum þjónustu, eru eftirfarandi árið 2014:
    Aflið: 2,5 millj. kr.
    Barnaheill: 4,0 millj. kr. (að hluta)
    Blátt áfram: 2,5 millj. kr.
    Drekaslóð: 5,0 millj. kr.
    Samtals: 14 millj. kr.

    Alls fóru því 162 millj. kr. af fjárliðum velferðarráðuneytis (félags- og húsnæðismálaráðherra) árið 2014 beint til verkefna í þjónustu við þolendur ofbeldis og/eða forvarna á sviðinu.
    Þá eru ótaldar fjárveitingar til opinberra stofnana þar sem hluti starfseminnar er þjónusta við þolendur ofbeldis en hér undir eru fjárveitingar til Barnaverndarstofu, lögregluembætta, heilbrigðisstofnana, heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa og Umboðsmanns barna, auk félagsþjónustu og barnaverndarstarfs sveitarfélaga.

     3.      Hvernig er eftirliti með nýtingu fjármuna og faglegri þjónustu háttað?
    Eftirlit með heilbrigðisþjónustu heyrir undir Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Embætti landlæknis vinnur að gæðaþróun heilbrigðisþjónustu og fylgist með að faglegar kröfur séu uppfylltar. Hlutverk Sjúkratrygginga Íslands er að semja um veitingu heilbrigðisþjónustu við heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einstaklinga og sjá um úttektir á þeim samningum. Þannig annast Sjúkratryggingar eftirlit með gæðum og árangri þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu. Markmið eftirlitsins er að sjá til þess að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Eftirlitinu er beitt á kerfisbundinn og hlutlægan hátt og það byggist á markvissum úttektum. Um er að ræða reglubundið eftirlit og einnig sértækt eftirlit að gefnu tilefni.
    Fjárframlög til stofnana og málaflokka eru ákvörðuð í fjárlögum sem samþykkt eru á Alþingi hvert ár. Ríkisendurskoðun sinnir sérstöku eftirliti með framkvæmd fjárlaga í samræmi við lög um stofnunina. Verkefnið felst í því að kanna hvort stofnanir fara að ákvæðum fjárlaga, fjárreiðulaga og reglugerðar um framkvæmd fjárlaga.
    Eftirlit, gæðaþróun og mat á öryggi og gæðum í félagsþjónustu og barnavernd heyrir ekki undir eina sérstaka stofnun, eins og reyndin er með heilbrigðisþjónustuna. Á sviði barnaverndar sinnir Barnaverndarstofa gæðaþróun og mati en velferðarráðuneytið hefur yfirtekið eftirlitsþáttinn. Eftirlit með hinum ýmsu þjónustuþáttum á sviði félagsþjónustu fer fram með ýmsum hætti. Það getur byggt á:
     *      Lögum, en grunnur að öllu þjónustumati og eftirliti byggir á lögum sem eru oft almenns eðlis en eftirlit þarf að byggjast á skýrt skilgreindum kröfum og viðmiðum. Andi og innihald laga er ávallt leiðarljós við alla kröfugerð og setningu viðmiða um þjónustuna.
     *      Þjónustusamningi þar sem fylgir kröfulýsing og kveðið er á um með hvaða hætti öryggis skuli gætt og hvaða kröfur þjónustan beri að uppfylla.
     *      Staðli, en hann er skilgreining á gæðakröfu eða lýsing á því hvernig vel sé staðið að einstökum verkþætti.
     *      Reglugerð þar sem eru skýr ákvæði um þætti sem ber að uppfylla, bæði hvað varðar þjónustu og stjórnsýslu.
     *      Framkvæmdaáætlun, en þar má finna aðgerðaáætlun sem auðveldar mat á framgangi og árangri og þar með eftirlit.
     *      Samningi sem gerður er við þjónustuveitendur, svo sem félagasamtök eða einstaklinga, þar sem um styrki er að ræða við starfsemi. Í samningunum eru ákvæði um árleg skil á reikningshaldi, upplýsingar um fjölda notenda o.fl.
     *      Notendur þjónustu geta einnig skotið ákvörðun um beiðni um þjónustu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.
    Ráðherra hefur því ákveðið að endurskoða stjórnsýslu ríkisins á sviði félagsþjónustu og barnaverndar til að tryggja betur eftirlit, mat á öryggi og gæðum í félagsþjónustu og barnavernd. Skipuð verður nefnd sem falið verður að vinna að útfærslu á þessu verkefni, en í því felst m.a. að fara yfir fyrirliggjandi gögn, benda á nauðsynlegar lagabreytingar og leggja fram tillögu að nýrri stjórnsýslustofnun á sviði félagsþjónustu og barnaverndar.