Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 6  —  6. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, nr. 141 21. desember 2001,
með síðari breytingum (innleiðing EES-gerðar).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eftirtöldum tilskipunum sem þar gilda“ kemur: EES-gerðum sem taldar eru upp í viðauka við tilskipun 2009/22/EB.
     b.      1.–12. tölul. falla brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ráðherra kveður á um hvaða EES-gerðir falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB í reglugerð.

2. gr.

    Í stað „98/27/EB“ í 1. málsl. 2. gr. laganna kemur: 2009/22/EB.

3. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnvöld og félagasamtök á sviði neytendamála, sem ráðherra útnefnir, geta leitað lögbanns eða höfðað dómsmál skv. 4. gr. fyrir stjórnvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að vernda heildarhagsmuni íslenskra neytenda, enda hafi afleiðinga athafnarinnar gætt hér á landi. Setja má í reglugerð nánari skilyrði fyrir þessari heimild og notkun hennar.
    Ráðherra skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir skv. 1. mgr. og um nánari skilyrði, sem kunna að verða sett um heimild þeirra í reglugerð, til að fá þau tekin þar á skrá, sbr. 2. gr.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB frá 23. apríl 2009, um setningu lögbanns til verndar hagsmunum neytenda, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30/2010, bls. 38.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Var það lagt fram á 143. löggjafarþingi (þskj. 655, 351. mál). Innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu á 79. fundi löggjafarþingsins og í kjölfarið var það sent til allsherjar- og menntamálanefndar. Nefndin óskaði eftir umsögnum hagsmunaaðila og bárust henni tvær umsagnir, frá Alþýðusambandi Íslands og Neytendastofu, og mæltu báðir aðilar með því að frumvarpið yrði samþykkt. Nefndin afgreiddi málið þann 6. maí 2014 og lagði einróma til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt (þskj. 1055, 351. mál). Ekki gafst þó tími til að ljúka málinu fyrir þingfrestun 16. maí 2014 og er það því lagt hér fram aftur í óbreyttri mynd.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, með síðari breytingum. Breytingar þessar eiga að mestu leyti rætur að rekja til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn. Með þeirri ákvörðun var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB, frá 23. apríl 2009, um setningu lögbanns til verndar hagsmunum neytenda, felld inn í samninginn. Ákvörðun nr. 35/2010 var birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 35, 10. júní 2010, bls. 38. Tilskipun 2009/22/EB var birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 10, 24. febrúar 2011, bls. 217.
    Aðrar breytingar sem felast í frumvarpinu eru þær að í stað þess að lista yfir tilskipanir, sem falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB, sé að finna í lagatextanum sjálfum er lagt til að ráðherra muni gefa út reglugerð þar sem þennan lista er að finna. Þar sem efnislegar breytingar eru litlar og ekki íþyngjandi gagnvart hagsmunaaðilum var ekki talin þörf á sérstöku samráði við gerð þess.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilskipun 2009/22/EB kemur í stað eldri tilskipunar 98/27/EB um sama efni. Hin nýja tilskipun felur í sér svokallaða kerfisbindingu (e. „codification“) hinnar eldri og þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á henni. Með kerfisbindingu er átt við að ákvæði löggjafar, ásamt breytingum sem gerðar hafa verið á henni, eru felld brott og í staðinn endurútgefin sem ný heildarlöggjöf (COM (2001) 645 Final, bls. 6).
    Tilskipun 98/27/EB var innleidd hér á landi með lögum nr. 141/2001. Með henni var lagt til grundvallar að í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins væru til réttarúrræði til þess að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem stríddi gegn ákveðnum tilskipunum sem taldar voru upp í viðauka við tilskipun 98/27/EB, eins og þær höfðu verið innleiddar í landsrétt aðildarríkjanna, og skaðaði hagsmuni neytenda. Þá veitti tilskipunin erlendum stjórnvöldum og samtökum heimild til að leita lögbanns eða höfða dómsmál hér á landi, til að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem ætti sér stað á Íslandi og bryti gegn framangreindum tilskipunum og áhrif brotsins kæmu fram í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í ljósi þess að tilskipun 98/27/EB hafði verið breytt fimm sinnum í veigamiklum atriðum þótti rétt, í þágu skýrleika og hagræðis, að kerfisbinda hana. (Sjá COM (2003) 241 Final (12. júní 2003), bls. 2.)

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum nr. 141/2001.
     Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að þær EES-gerðir, sem falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB, sé að finna í lögunum sjálfum muni ráðherra gefa út reglugerð þar sem listann er að finna.
     Í öðru lagi er lagt til að tilvísunum í tilskipun 98/27/EB sé breytt í tilskipun 2009/22/EB.
     Í þriðja lagi er lagt til að horfið sé frá því að ráðuneytið, sem fer með lögin í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Nánar er gerð grein fyrir efnisatriðum í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að fallið verði frá því að telja upp þær tilskipanir sem falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB. Er þessu þannig háttað í Noregi, sbr. 44. gr. laga nr. 2/2009 (n. „lov om kontroll med markedsføring og avtalevilkår mv.“), en þar er viðeigandi ráðuneyti falið að gefa út reglugerð með upptalningu gerðanna. Þá er lagt til að í stað þess að vísa í „tilskipanir“ sem falla undir viðaukann, þá sé vísað í „EES-gerðir“. Ástæðan fyrir því er sú að nú hefur reglugerð verið felld undir viðaukann, sbr. 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 524/2013.

Um 2. gr.

    Um skýringar sjá nánar í almennum athugasemdum.

Um 3. gr.

    Með þessari grein er lagt til að fallið sé frá því fyrirkomulagi að ráðuneytið geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál, fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Er þetta í samræmi við fyrirkomulag sem tíðkast í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. (Stjórnartíðindi Evrópusambandsins C 97, bls. 1.) Þá eru slík stjórnvöld og samtök betur í stakk búin en ráðuneytið til að leita eftir lögbanni eða höfða dómsmál í slíkum málum.
    Þess í stað mun ráðuneytið eingöngu útnefna önnur stjórnvöld og félagasamtök á sviði neytendamála til að fara fram á lögbann eða höfða dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Þá ber ráðherra að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir samkvæmt þessari grein.

Um 4. og 5. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 141/2001,
um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda,
með síðari breytingum (innleiðing EES-gerðar).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslensk lög tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB, um setningu lögbanns til verndar hagsmunum neytenda. Tilskipunin er breyting á eldri tilskipun 98/27/EB, um sama efni og felur í sér svokallaða kerfisbindingu (e. codification) hinnar eldri tilskipunar og þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á henni. Frumvarpið felur í sér að til staðar verði réttarúrræði til þess að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem stríðir gegn ákveðnum tilskipunum sem taldar eru upp í viðauka við tilskipun 2009/22/EB og skaðar hagsmuni neytenda. Þá er í frumvarpinu lagt til að horfið verði frá því að telja upp þær gerðir sem falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB en þess í stað muni ráðherra gefa út reglugerð þar sem upptalninguna verði að finna. Þá er einnig lagt til að horfið verði frá því að ráðuneytið, sem fer með framkvæmd laganna, geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðrum EES- ríkjum.
    Verði frumvarpið lögfest verður ekki séð að það muni hafa í för með sér teljandi kostnað fyrir ríkissjóð.