Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 9  —  9. mál.



Frumvarp til laga

um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska
ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

Heimild til að stofna opinbert hlutafélag.

    Ráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem verður að fullu í eigu ríkisins og hefur það að markmiði að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi, sbr. skilgreiningu á hugtökunum kolvetni og vinnsla í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.
    Hlutafé félagsins við stofnun er 20 millj. kr. sem greiðast úr ríkissjóði. Við stofnun félagsins er allt hlutafé þess í eigu íslenska ríkisins og er sala þess og ráðstöfun óheimil. Öll hlutabréf í félaginu skulu ávallt vera eign ríkissjóðs.
    Sá ráðherra sem fer með orkumál annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins.     
    Sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.
    Hlutafélaginu er óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki.
    Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

2. gr.

Tilgangur hlutafélagsins.

    Tilgangur hlutafélagsins er að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi eins og um þá starfsemi er fjallað í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001. Hlutafélagið skal sjá um alla umsýslu og framkvæmd varðandi þátttöku ríkisins í útgefnum kolvetnisleyfum, innan íslenskrar lögsögu eða utan, eða tengdri starfsemi.
    Tilgangi og verkefnum hlutafélagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

3. gr.

Rekstur hlutafélagsins.

    Hlutafélagið skal vera leyfishafi fyrir hönd íslenska ríkisins í leyfum sem ríkið er þátttakandi í og móttekur greiðslur á grundvelli þeirra. Í einstökum leyfum skal félagið hafa réttindi og skyldur sem leyfishafi í samræmi við samstarfssamninga leyfishafa í hverju tilviki fyrir sig.
    Hlutafélaginu er heimilt að starfa á landgrunni Íslands og á þeim svæðum utan landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunns Íslands þar sem íslenska ríkið á rétt á hlutdeild í leyfum samkvæmt alþjóðasamningum eða öðrum heimildum.
    Kostn­aður við umsjón, rekstur og fjárfestingar, sem og annar kostn­aður sem fellur til við umsjón leyfa samkvæmt lögum þessum, skal greiddur af hlutafélaginu.
    Ráðherra er heimilt að gera þjónustusamning við hlutafélagið þar sem skilgreind verða verkefni félagsins við umsýslu einstakra leyfa þegar ákvörðun um einstök leyfi liggja fyrir, þá starfsemi og þjónustu sem félagið mun sinna sem leyfishafi og um meðferð kostnaðar sem félagið ber áður en leyfi skila félaginu rekstrartekjum.
    Hlutafélagið getur ekki undirgengist lánaskuldbindingar eða aðrar fjárhagslegar ábyrgðir án samþykkis ráðherra.
    Hlutafélagið greiðir arð til eiganda síns, íslenska ríkisins, samkvæmt ákvörðun aðalfundar ár hvert.

4. gr.

Stjórn og stjórnendur hlutafélagsins.

    Stjórn hlutafélagsins skal skipuð þremur mönnum og einum til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
    Stjórn hlutafélagsins skal tryggja að farið sé með leyfishlut ríkisins á ábyrgan hátt í samræmi við viðurkennda við­skipta­hætti og um­hverfiskröfur og gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku félagsins í kolvetnisstarfsemi. Stjórnin skal fjalla um samsetningu á þeim leyfum sem eru í eignasafni félagsins og ef ástæða þykir til leggja fram tillögur um breytingar þar um fyrir aðalfund.
    Stjórnin ræður framkvæmdastjóra hlutafélagsins sem ræður aðra starfsmenn félagsins.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hafa haldgóða menntun og sérþekkingu á orkumálum og rekstri fyrirtækja.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum og lögum um fjármálafyrirtæki, hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri og aðrir sem starfa á vegum hlutafélagsins skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Þeir skulu jafnframt upplýsa stjórn um hagsmunatengsl eða önnur atriði sem eru til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa.

5. gr.

Skyldur stjórnar.

    Stjórn hlutafélagsins sem er sjálfstæð í störfum sínum ber ábyrgð á rekstri og starfsemi félagsins gagnvart eiganda sínum í samræmi við lög þessi, lög um hlutafélög og eigendastefnu ríkisins í hlutafélögum.
    Stjórnin skal hafa sjálfstæða aðgæslu- og eftirlitsskyldu vegna reksturs og starfsemi hlutafélagsins, hafa yfirsýn yfir starfsemina og veita stjórnendum eðlilegt aðhald.
    Stjórnin skal setja sér skriflegar starfsreglur sem fjalla nánar um hlutverk og störf stjórnar, verkaskiptingu hennar og samskipti við stjórnendur hlutafélagsins.
    Varðandi skyldur stjórnar og stjórnenda að öðru leyti vísast til laga um og reglna um hlutafélög, eigendastefnu ríkisins og samþykkta hlutafélagsins.
    

6. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda þegar ákvörðun um stofnun hlutafélags samkvæmt lögum þessum liggur fyrir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Forsaga og undir­búningur frumvarpsins.
1.1 Almennt.
    Árið 2001 voru sett hér á landi lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Í þeim lögum er heimild til þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis með þeim skilyrðum að stofnað verði hlutafélag sem hafi það að markmiði að gæta hagsmuna íslenska ríkisins í slíkri starfsemi.
    Vorið 2005 samþykkti ríkisstjórnin að hefja undirbúning fyrir hugsanlega útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á svæði norð­austur af Íslandi við Jan Mayen- hrygg, svokölluðu Drekasvæði. Niðurstöður leitarleiðangra á þessum slóðum hafa gefið vísbendingu um að olíu og gas geti verið að finna á umræddu svæði. Í kjölfar þessarar ákvörðunar hafa farið fram, á grundvelli laga nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, tvö útboð á sérleyfum til rannsóknar og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu. Fyrst árið 2009 og aftur árið 2012.
    Á grundvelli þessara útboða hafa verið veitt þrjú sérleyfi til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Tvö voru veitt í janúar 2013 og það þriðja í janúar 2014. Í öllum leyfunum er tiltekinn forgangsréttur íslenska ríkisins að því að ganga inn í leyfin, vilji einstakir aðilar selja sinn hlut í leyfunum á leyfistímanum. Petoro Iceland AS, útibú Petoro á Íslandi, er leyfishafi í öllum leyfunum fyrir hönd norska ríkisins, samkvæmt ákvörðun norska þingsins á grundvelli samnings milli Íslands og Noregs frá 1981 um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen.

1.2 Áherslur stjórnvalda.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013 kemur fram að til að stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst verði ráðist í undirbúningsvinnu vegna sam­göngumála, slysavarna og björgunarstarfa, um­hverfisverndar, innviða, samstarfs við nágrannalönd og regluverks, ásamt því að stofna sérstakt ríkisolíufélag. Tilgangur ríkisolíufélags verði að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu og leggja grunn að því að hugsanlegur ávinningur af olíuvinnslu nýtist samfélaginu öllu.
    Í fram­haldi af þessari samþykkt í stjórnarsáttmálanum hófst vinna innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við að semja lagafrumvarp þetta um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.
    Þess ber að geta að þegar er hafin skipuleg undirbúningsvinna við yfirfærslu á öllu því regluverki sem tengist olíuleit og olíuvinnslu. Fer sú vinna fram innan samráðshóps eftirlitsaðila sem starfar skv. 24. gr. laga nr. 13/2001, en alls er þar um 10 stofnanir að ræða (Mannvirkjastofnun, Geislavarnir ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Sam­göngustofu, Skipulagsstofnun, Um­hverfisstofnun og Vinnueftirlit ríkisins). Nær sú vinna til eftirlits, krafna til leyfishafa, slysavarna og björgunarstarfa, um­hverfismála, sam­göngumála, innviða og samstarfs við nágrannalönd.

2. Ríkisolíufélög í nágrannalöndum Íslands.
2.1 Ríkisolíufélagið Petoro í Noregi.
    Upp úr 1980 varð mikil umræða í Noregi um að ekki væri rétt að eitt fyrirtæki færi með svo stóran hlut í olíuleyfum og arði af olíuvinnslu sem Statoil gerði á þeim tíma. Í kjölfar þeirrar umræðu ákvað norska þingið árið 1985 að skipta upp hlut norska ríkisins í eignum Statoil. Var helmingur eignanna tekinn undan félaginu og sá hluti kallaður „séreign norska ríkisins í olíustarfsemi“ (Statens Direkte Økonomiske Engasjement-SDØE). Statoil var þó áfram í ríkiseigu og falin umsjón þessarar séreignar.
    Árið 2001 var Statoil að hluta til einkavætt og þá þótti ekki við hæfi að fyrirtækið hefði lengur umsjón með SDØE og var þá félagið Petoro stofnað til að fara með þennan eignarhlut ríkisins.
    Eignir ríkisins sem Petoro fer með eru m.a. um þriðjungur af olíu- og gasauðlindinni á norska landgrunninu, þ.m.t. hlutur í 33 vinnslusvæðum, auk þess sem ríkið á hlut í um 158 vinnsluleyfum þar sem félagið fer með frá 3% og upp í 59% hlut í leyfum, en algengast er að hlutur Petoro sé annaðhvort 20% eða 30%. Félagið á einnig um helming af öllum flutningsleiðslum fyrir gas á norska landgrunninu. Auk þess að fara með eignarhlut ríkisins í olíustarfsemi fer Petoro með eftirlit með sölu olíu og gass sem unnið er á þeim svæðum sem ríkið á hlut í.
    Kveðið er á um starfsemi Petoro í 11. kafla norsku olíulöggjafarinnar og er félagið í fullri eigu norska ríkisins. Skyldur fyrirtækisins eru fyrst og fremst þær að fara með hlut norska ríkisins í olíuleyfum á norska landgrunninu og samningum þeim tengdum. Sjö manna stjórn er yfir félaginu og starfsmenn þess eru um 70.

2.2 Nunaoil á Grænlandi.
    NUNAOIL er olíufélag í eigu grænlensku heimastjórnarinnar og var stofnað árið 1985. Við stofnun var eignarhaldi í félaginu jafnt skipt á milli grænlensku heimastjórnarinnar og danska fyrirtækisins Dansk olje og naturgas, síðar DONG Energy, sem þá var í meirihlutaeigu danska ríkisins.
    Árið 2006 var DONG að hluta til einkavætt og var þá hlutur DONG í félaginu seldur til danska ríkisins þar sem kveðið var á um það í samþykktum NUNAOIL að félagið skyldi vera að fullu í eigu ríkisins. Árið 2009 var hlutur danska ríkisins færður til grænlensku heimastjórnarinnar.
    Á árunum 2005–2011 tók NUNAOIL þátt í hljóðbylgjumælingum og hafði tekjur af sölu rannsóknargagna. Grænlenska heimastjórnin ákvað árið 2011 að félagið skyldi hætta þátttöku í slíkum rannsóknum sem þýðir að félagið hefur ekki lengur tekjur af sölu rannsóknargagna. Fyrirséð er að stjórnvöld þurfi að leggja félaginu til fjármagn árið 2016.
    NUNAOIL hefur rétt til aðkomu að öllum rannsóknarleyfum á grænlenska landgrunninu og fer með hagsmuni Grænlands í þeim. Félagið hefur einnig m.a. það hlutverk að fjárfesta í olíu- og gasiðnaðinum í samvinnu við sveitarfélög og alþjóðleg olíufélög. NUNAOIL fer með 8% hlut í fjórum leyfum suður af Grænlandi og 12,5% hlut í níu leyfum við Vestur- Grænland. Félagið er „carried partner“ í leyfunum sem þýðir að félagið greiðir ekki sinn hlut í leyfinu fyrr en ljóst er hvort vinnsla verður á viðkomandi svæði.
    Markmið félagsins er að byggja upp þekkingu á kolvetnisstarfsemi, bæði hvað varðar lagalegu hliðina sem og þann þátt sem lýtur að framkvæmdum. Sérstök lög gilda um NUNAOIL. Fimm manna stjórn er yfir félaginu og starfsmenn þess eru sex.

2.3 Færeyjar.
    Færeysk stjórnvöld hafa ekki tekið beinan þátt í sérleyfum á færeyska landgrunninu með ríkisolíufélagi í þeim þremur útboðum sem hafa verið haldin í Færeyjum. Hins vegar tóku tvö færeysk einkafyrirtæki þátt í umsóknum vegna leyfanna, Føroya Kolvetni (Faroe Petroleum) og Atlantic Petroleum. Í dag hefur Faroe Petroleum gefið eftir sinn hlut í leyfum á færeyska landgrunninu og einbeitir sér að leyfum í Noregi, Bretlandi og við Ísland. Atlantic Petroleum tekur nú þátt í tveimur sérleyfum við Færeyjar, en hluturinn er 1% annars vegar og 4% hins vegar.
    Í fyrsta útboði Færeyinga voru olíufélögin mjög bjartsýn á fund á útboðssvæðinu og var mikil samkeppni um leyfin. Í staðinn fyrir beina þátttöku í leyfunum létu Færeyingar fyrirtækin tilgreina í umsóknum hver tækifærin yrðu fyrir færeysk fyrirtæki við rannsóknirnar, m.a. hvernig leyfishafar mundu byggja upp þekkingu og tæknilega getu í Færeyjum, styrkja menntun á þessu sviði og stuðla að rannsóknum og þróun með beinum fjárframlögum. Þessi atriði voru metin ásamt öðrum við ákvörðun um leyfi­sveitingu.

3. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Sem áður segir má rekja tilefni frumvarps þessa til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna frá maí 2013 þar sem segir að stofnað verði sérstakt ríkisolíufélag.
    Tilgangur slíks félags er að gæta íslenskra hagsmuna með því að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu, sem íslenska ríkið kann að taka þátt í, og leggja þannig grunn að því að hugsanlegur ávinningur af olíuvinnslu nýtist samfélaginu öllu. Skýrt er tekið fram í frumvarpinu að hlutafélaginu er óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki enda er sá rekstur annars eðlis. Í því samhengi má benda á tvískiptingu í Noregi þar sem Petoro annast umsjón með hlut norska ríkisins í sérleyfum á norska landgrunninu sem og hlut Norðmanna í sérleyfunum þremur á íslenska landgrunninu en Statoil er vinnslufyrirtæki. Petoro er því óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki og getur heldur ekki sinnt stjórnsýsluhlutverki. Ólíkt Statoil í Noregi tekur Petoro því ekki beinan þátt í vinnslu kolvetnis heldur er einungis um fyrirtæki að ræða sem gætir ríkishagsmuna. Það fyrirkomulag sem í frumvarpinu er lagt til tekur mið af því fyrirkomulagi og regluverki sem gildir um Petoro.
    Ef að því kemur að norsk stjórnvöld hefja útboð á rannsóknar- og vinnsluleyfum Noregs megin á Jan Mayen-svæðinu á Ísland rétt á því að taka þátt í þeim leyfum með sama hætti (25%) og norsk stjórnvöld hafa tekið þátt í þeim þremur sérleyfum sem íslensk stjórnvöld hafa veitt á Drekasvæðinu. Er það á grundvelli samnings milli Íslands og Noregs frá 1981 um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Ef á reynir mundi það ríkishlutafélag sem frumvarp þetta kveður á um fara með eignarrétt íslenska ríkisins á hlut í þeim leyfum. Æskilegt er því að hafinn sé undir­búningur að stofnun slíks hlutafélags svo að íslensk stjórnvöld verði tilbúin að takast á við hugsanlegar leyfi­sveitingar Norðmanna til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Jan Mayen-svæðinu. Í því samhengi er þó rétt að benda á að íslenska ríkið þarf ekki að taka ákvörðun um þátttöku í leyfum á norska hlutanum fyrr en eftir að olía hefur fundist, og því líklegt að nokkur ár muni líða þar til reynir á félagið í því hlutverki.

4. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarp þetta tekur mið af öðrum sérlögum um stofnun hlutafélaga í eigu ríkisins, sbr. lög nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., lög nr. 75/2009, um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, og lög nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.
    Í frumvarpinu er kveðið á um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi. Um kolvetnisstarfsemi er fjallað í lögum nr. 13/2001, um leit, ­rannsóknir og vinnslu kolvetnis, og vísast nánar til þeirra laga varðandi skilgreiningar á hvað átt er við með vinnslu kolvetnis, rannsóknum o.fl.
    Gert er ráð fyrir að hlutafélaginu verði heimilt að starfa á landgrunni Íslands og á þeim svæðum utan landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunns Íslands þar sem íslenska ríkið á rétt á hlutdeild í leyfum samkvæmt alþjóðasamningum eða öðrum heimildum.
    Rétt þykir að ákvörðun um stofnun félagsins sé tekin af ráðherra orkumála í samráði við þann ráðherra sem fer með eignir ríkisins, þar sem tilgangur félagsins er að miklu leyti að gæta fjárhagslegra hagsmuna íslenska ríkisins. Sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í félaginu. Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um tilgang og rekstur hlutafélagsins, skipun stjórnar og skyldur stjórnar.
    Þá er tekinn allur vafi af um það að félaginu er með öllu óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki.
    Er í frumvarpinu kveðið á um að öll hlutabréf félagsins verða í eigu íslenska ríkisins við stofnun þess. Skv. 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, skulu ríkisaðilar í A-hluta hverju sinni afla heimildar í lögum, m.a. til að selja eignarhluti í félögum. Af þessum sökum getur ekki komið til sölu á hlutum ríkisins í hlutafélaginu nema með sérstakri heimild Alþingis.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nánar sé kveðið á um tilgang félagsins í samþykktum þess. Tilgangi félagsins má síðan breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum. Með því gefst nauðsynlegt svigrúm til að laga hlutverk félagsins að aðstæðum hverju sinni.     
    Með vísan til þess að líklegt er að nokkur ár muni líða þar til reynir á hlutafélagið í því starfi að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu sem íslenska ríkið kann að taka þátt í er með frumvarpinu lagt til að lögin öðlist gildi við birtingu en komi til framkvæmda þegar ákvörðun um stofnun hlutafélagsins liggur fyrir. Þar sem um heimildarlög er að ræða kann að líða einhver tími þar til félagið verði stofnað og ræðst sá tími m.a. af þróun mála á norska hluta Drekasvæðisins. Með vísan til þessa gefst rúmur tími til að undirbúa stofnun félagsins.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Að sama skapi var um­hverfis- og auðlindaráðuneytið og forsætisráðuneytið upplýst um málið, sem og samráðshópur eftirlitsaðila sem starfar skv. 24. gr. laga nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

6. Mat á áhrifum.
    Orkustofnun hefur lagt mat á það hver kostn­aður yrði við stofnun ríkisolíufélags hér á landi, undir þeim formerkjum sem lagt er til með frumvarpi þessu, og er hann talinn nema um 20–25 millj. kr. Er þar einungis um að ræða tilfallandi kostnað við undirbúning að stofnun slíks félags. Stofnféð, 20 millj. kr., er ekki inni í þeirri tölu, en fjárhæðin tekur mið af stofnfé í sambærilegum lögum sem áður er vitnað til. Erfitt er að áætla með nákvæmni hve mikið kostar að reka slíkt hlutafélag þar sem það ræðst af umfangi verkefna og fjölda leyfa. Við undirbúning stofnunar þarf m.a. að vinna áætlun um fjármögnun félagsins og framtíðartekjumöguleika.
    Þegar formleg vinna við undirbúning að stofnun ríkisolíufélags hefst er lagt til að horft verði til starfsemi slíkra félaga í Noregi og Grænlandi en í báðum löndum er að finna ríkisolíufélög þótt nokkur munur sé á starfsemi þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er kveðið á um heimild þess ráðherra sem fer með iðnaðar- og orkumál til að stofna opinbert hlutafélag um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi. Er ákvæðið til nánari fyllingar á þeirri heimild sem þegar er að finna í 8. gr. a í lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Í því ákvæði kemur fram að sá ráðherra sem fer með iðnaðar- og orkumál skuli annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við þann ráðherra sem fer með skráningu félaga.
    Ákvæði um hlutafé félagsins við stofnun og að ákvæði laga um hlutafélög gildi eru lögð til með hliðsjón af sambærilegum sérlögum um stofnun opinberra hlutafélaga, sbr. lög nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., lög nr. 75/ 2009, um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, og lög nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.
    Með sama hætti og kveðið er á um í 8. gr. a laga nr. 13/2001 er skýrt tekið fram að hlutafélaginu sé óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki. Ekki er því um að ræða að íslenska ríkið taki beint þátt í vinnslu á kolvetni heldur er um að ræða að gæta hagsmuna íslenska ríkisins er varða auðlindina sjálfa sem og fjárhagslega hagsmuni ríkisins af vinnslu kolvetnis.

Um 2. gr.

    Með greininni er kveðið á um tilgang með stofnun hlutafélagsins. Er hann fyrst og fremst að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi og skal félagið sjá um alla umsýslu í tengslum við slíka þátttöku í útgefnum leyfum innan íslenskrar lögsögu eða utan. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

Um 3. gr.

    Í greininni er kveðið á um rekstur hlutafélagsins og starfsemi þess. Sem áður segir er félagið leyfishafi fyrir hönd íslenska ríkisins í þeim kolvetnisleyfum sem ríkið ákveður að taka þátt í. Kostn­aður og umsjón við rekstur félagsins skal greiddur úr félaginu og allur ágóði af rekstri félagsins skal renna inn í félagið. Skýrt er kveðið á um að hlutafélagið getur ekki undirgengist lánaskuldbindingar, eða aðrar ábyrgðir, án samþykkis ráðherra. Gert er ráð fyrir að hlutafélagið greiði arð til eiganda síns, íslenska ríkisins. Þá er jafnframt lagt til að ráðherra verði heimilt að gera þjónustusamning við félagið þar sem skilgreind verða með ítarlegum hætti verkefni félagsins við umsýslu einstakra leyfa þegar ákvörðun um einstök leyfi liggja fyrir.

Um 4. gr.

    Með greininni er kveðið á um stjórn hlutafélagsins, skipun hennar og hlutverk. Ákvæðið tekur mið af sambærilegum ákvæðum í lögum um stofnun opinberra hlutafélaga, sbr. lög nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., lög nr. 75/ 2009, um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, og lög nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir. Nánar vísast til almennra athugasemda.

Um 5. gr.

    Með greininni er kveðið á um skyldur stjórnar hlutafélagsins. Ákvæðið tekur mið af öðrum lögum um stofnun opinberra hlutafélaga, sbr. lög nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., lög nr. 75/2009, um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, og lög nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

Um 6. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en komi til framkvæmda þegar ákvörðun um stofnun hlutafélagsins liggur fyrir. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er það lagt til með vísan til þess að líklegt er að nokkur ár muni líða þar til reynir á hlutafélagið í því starfi að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu sem íslenska ríkið kann að taka þátt í. Þannig er ekki fyrirhugað að norsk stjórnvöld hefji útboð á leyfum á Jan Mayen-svæðinu fyrr en í fyrsta lagið árið 2017. Með vísan til þess gefst rúmur tími til að undirbúa og ganga frá stofnun félagsins. Lögin eru heimildarlög og er það því í höndum stjórnvalda á hverjum tíma að ákveða á hvaða tímapunkti hlutafélagið verði stofnað. Ræðst það sem áður segir af þróun mála á þessu sviði, bæði innan lands og hjá norskum stjórnvöldum.
    Þegar að því kemur er fyrirséð að ákvörðun um stofnun hlutafélags, á grundvelli laganna, verði tekin með formlegri ákvörðun ríkisstjórnarinnar í fram­haldi af tillögu ráðherra orkumála þess efnis.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska
ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

    Í frumvarpi þessu lagt til að ráðherra verði heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem hafi það hlutverk að gæta hagsmuna íslenska ríkisins við þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi. Samkvæmt lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, er ráðherra heimilt að ákveða um þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis, og skal hann þá beita sér fyrir stofnun hlutafélags með það að markmiði að gæta hagsmuna ríkisins vegna þátttöku þess. Frumvarp þetta er liður í undirbúningi fyrir stofnun slíks félags og í því er kveðið nánar á um hlutverk, rekstrarfyrirkomulag og stjórn félagsins, komi til þess að það verði stofnað. Samkvæmt frumvarpinu skal ríkissjóður leggja félaginu til 20 m.kr. hlutafé við stofnun þess. Skal allt hlutafé félagsins vera í eigu ríkissjóðs og sala þess og önnur ráðstöfun óheimil. Félagið skal sjá um alla umsýslu og framkvæmd á þátttöku ríkisins í útgefnum kolvetnisleyfum eða tengdri starfsemi og vera leyfishafi fyrir hönd ríkisins í þeim leyfum sem ríkið tekur þátt í. Skal félagið hafa allar tekjur af leyfunum, greiða allan kostnað við fjárfestingar, rekstur og umsjón með leyfunum og greiða arð í ríkissjóð samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni. Ráðherra verður heimilt að gera þjónustusamning við félagið um verkefni þess og fjármögnun þar til tekjur af leyfum falla til. Sérstaklega er tekið fram að félaginu verði óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki. Samkvæmt frumvarpinu skal sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins fara með eignarhlut ríkisins í félaginu. Gert er ráð fyrir að frumvarpið öðlist lagagildi við samþykkt þess en komi til framkvæmda þegar ákvörðun um stofnun hlutafélags liggur fyrir.
    Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að talið sé æskilegt að hafinn verði undir­búningur að stofnun ríkisolíufélags svo íslensk stjórnvöld verði tilbúin að bregðast við hugsanlegum leyfi­sveitingum Norðmanna til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Jan Mayen svæðinu, en Ísland á rétt á að taka þátt í þeim leyfum með sama hætti og norsk stjórnvöld hafa tekið þátt í þeim þremur sérleyfum sem íslensk stjórnvöld hafa veitt á Drekasvæðinu. Ákvörðun um þátttöku íslenska ríkisins í leyfum á Jan Mayen svæðinu þarf þó ekki að taka fyrr en eftir að olía hefur fundist þar og því er líklegt að þó nokkur ár muni líða þar til reyna mun á hvort félagið verði af þeim sökum stofnað.
    Gert er ráð fyrir að helsti kostnaðarliður félagsins, komi til stofnunar þess, verði hlutdeild í kostnaði við rannsóknir, þ.m.t. boranir og svæðisgjöld, á þeim svæðum sem ríkið verður þátttakandi í. Annar kostn­aður verður skattar og gjöld samkvæmt lögum um skattlagningu á kolvetnisvinnslu ásamt rekstrarkostnaði félagsins, en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áætlar að gera þurfi ráð fyrir a.m.k. fjórum starfsmönnum hjá félaginu fyrst í stað. Gert er ráð fyrir að tekjur félagsins komi af hlutdeild íslenska ríkisins í rannsóknar- og vinnsluleyfum kolvetnis á þessum sömu svæðum.
    Lög þessi, verði frumvarpið að lögum, eru heimildarlög og gera má ráð fyrir að ekki komi til stofnunar félags samkvæmt þeim nema fyrir liggi ákvörðun um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisvinnslu samkvæmt lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Eins og mál standa í dag virðist ekki ástæða til að ætla að það verði á allra næstu árum. Einhver kostn­aður kann að falla til við undirbúning fyrir stofnun félagsins, komi til þess að ákveðið verði að fara í þá vinnu. Erfitt er að meta þann kostnað en lausleg áætlun Orkustofnunar gefur til kynna að hann geti orðið um 20 m.kr. vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, auk vinnuframlags og ferðakostnaðar starfsmanna stofnunarinnar, m.a. til að kynna sér starfsemi ríkisolíufélaga í Noregi og á Grænlandi. Verði félag stofnað mun ríkissjóður þurfa að leggja því til 20 m.kr. í stofnhlutafé. Hlutafjárframlagið verður eignfært í reikningshaldi ríkissjóðs og mun því ekki færast sem útgjöld í rekstrarreikningi en auka hins vegar lánsfjárþörf ríkissjóðs sem nemur framlaginu. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs, enda mun rekstur félagsins, ef til kemur, ekki falla undir A-hluta ríkisstarfseminnar.