Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 12  —  12. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög
og lögum um ársreikninga (samþykktir o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Í hvaða sveitarfélagi hér á landi hlutafélag telst hafa heimilisfang við stofnun þess; breytingar á heimilisfangi milli sveitarfélaga skulu ákveðnar á hluthafafundi.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      2. tölul. fellur brott.
     b.      13. tölul. fellur brott.

3. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 55. gr. laganna orðast svo: Félagi sem hefur fengið hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) er þó ekki heimilt að kaupa eigin hluti á hærra verði en nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra.

4. gr.

    5. málsl. 1. mgr. 63. gr. laganna orðast svo: Í skýrslu stjórnar í ársreikningi skal sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 148. gr. laganna:
     a.      Í stað „1.–3., 5. og 9.–13. tölul.“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 1., 3., 5. og 9.–12. tölul.
     b.      Á eftir 1. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Í hvaða sveitarfélagi hlutafélag telst hafa heimilisfang.
     c.      2. mgr. orðast svo:
             Tilkynning skal undirrituð af öllum stjórnarmönnum félags.
     d.      Í stað orðanna „Sönnur fyrir því“ í 3. tölul. 3. mgr. kemur: Skrifleg yfirlýsing um.


II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Í stofnsamningi skal ávallt greina í hvaða sveitarfélagi hér á landi einkahlutafélag telst hafa heimilisfang við stofnun þess; breytingar á heimilisfangi milli sveitarfélaga skulu ákveðnar á hluthafafundi.

7. gr.

    2. tölul. 2. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    22. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    6. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna orðast svo: Í skýrslu stjórnar í ársreikningi skal sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 122. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: ákvæði samþykkta félagsins um það efni er greinir í 1., 3., 5. og 9. tölul. 2. mgr. og 1.–3. tölul. 3. mgr. 7. gr.
     b.      Á eftir 1. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: í hvaða sveitarfélagi einkahlutafélag telst hafa heimilisfang.
     c.      4. tölul. 1. mgr. fellur brott.
     d.      2. mgr. orðast svo:
             Tilkynning skal undirrituð af öllum stjórnarmönnum félags.
     e.      Í stað orðanna „sönnur fyrir því“ í 3. tölul. 3. mgr. kemur: skrifleg yfirlýsing um.

III. KAFLI
Breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum.

11. gr.

    Við 65. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í skýrslu stjórnar opinberra hlutafélaga og hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal upplýsa um hlutföll kynjanna í stjórn.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 11. gr. gildir um ársreikninga og samstæðureikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2014 eða síðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, í tengslum við vinnu sem þegar er hafin við undirbúning rafrænnar fyrirtækjaskrár. Um er að ræða einföldunarverkefni sem mun gera einstaklingum og lögaðilum kleift að skrá hlutafélag og einkahlutafélag með rafrænum hætti. Auk þess er að finna í frumvarpinu ákvæði er lýtur að heimild félags sem hefur skráð hlutabréf sín á skipulegan verðbréfamarkað eða á markaðstorg fjármálagerninga til að kaupa eigin hluti, sem og breytingar vegna tilkynninga til hlutafélagaskrár um kynjahlutföll í stjórnum félaga.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi en var ekki rætt. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju óbreytt.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar er að stærstum hluta einföldun. Þannig miða breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu að því að einfalda lagaumhverfi, tilkynningar og kröfur um gögn frá einkahlutafélögum og hlutafélögum án þess þó að opinberir aðilar og viðskiptalífið verði af nauðsynlegum upplýsingum. Jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæði laga um hlutafélög um eigin hluti.
    Fyrirtækjaskrá vinnur nú að uppsetningu rafrænnar fyrirtækjaskrár sem gerir einstaklingum og lögaðilum kleift að útbúa stofngögn, undirrita rafrænt og senda til fyrirtækjaskrár á einfaldan og öruggan hátt.
    Rafrænni fyrirtækjaskrá fylgja margir kostir, m.a. þessir:
          Rafrænar undirskriftir eru mun öruggari en aðrar og minni líkur á skjalafalsi.
          Tölvuforrit mun yfirfara stofngögn og minnka líkur á misræmi og villum í stofngögnum áður en til innsendingar kemur.
          Skráningartími ætti að styttast.
    Við undirbúning á uppsetningu rafrænnar fyrirtækjaskrár var farið yfir lagaumhverfi einkahlutafélaga og hlutafélaga og með gagnrýnum augum metinn tilgangur og nauðsyn upplýsinga sem berast fyrirtækjaskrá og hvernig þær eru framsettar. Í þeirri vinnu komu fram ýmsar hugmyndir til að einfalda lagaumhverfið. Helst ber þar að nefna einföldun á samþykktum félaga, svo að ekki þurfi að breyta samþykktum þótt minni háttar breyting verði á rekstri félags, og að fella út tilkynningarskyldu sem er óþörf.
    Ráðuneytinu hafa borist ábendingar m.a. frá Kauphöll Íslands þess efnis að ákvæði þar sem skráðum hlutafélögum er gert skylt að framkvæma viðskipti með eigin hluti á fastákveðnu verði sem tekur mið af síðasta dagslokagengi á markaði áður en samningur var gerður sé íþyngjandi og erfitt í framkvæmd og stangist auk þess á við skilyrði í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Eru því lagðar til breytingar á ákvæðinu.
    Að ábendingu fyrirtækjaskrár er lögð til breyting á skyldu hlutafélaga og einkahlutafélaga til að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár. Telja verður að breytingin sé til þess fallin að ákvæði um hlutfall kynjanna í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga verði skýrara og markvissara og jafnframt að auðvelt verði að fylgjast með því gegnum hlutafélagaskrá hvort hlutafélög og einkahlutafélög fylgi ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þríþættar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, í tengslum við vinnu sem þegar er hafin við undirbúning rafrænnar fyrirtækjaskrár. Um er að ræða einföldunarverkefni. Með rafrænni fyrirtækjaskrá er einstaklingum og lögaðilum gert kleift að útbúa stofngögn vegna stofnunar hlutafélaga og einkahlutafélaga, undirrita þau rafrænt og senda til fyrirtækjaskrár á einfaldan og öruggan hátt. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að einfalda samþykktir félaga svo að ekki þurfi að breyta samþykktum þótt minni háttar breyting verði á rekstri félagsins. Lagt er til að ekki þurfi að tilgreina í samþykktum hlutafélags eða einkahlutafélags í hvaða sveitarfélagi hér á landi félag skuli teljast hafa heimilisfang. Þess í stað er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að framangreindar upplýsingar skuli greina í stofnsamningi og að breytingar þar á skuli samþykktar á hluthafafundi. Lagt er til að ekki verði skylt að hafa í samþykktum hlutafélags ákvæði um fjölda framkvæmdastjóra séu þeir fleiri en þrír. Enn fremur er lagt til að látið verði nægja að tilkynning um stofnun hlutafélags eða einkahlutafélags sé undirrituð af öllum stjórnarmönnum félags en ekki verði lengur gerð krafa um að undirskriftir stjórnarmanna skuli staðfestar af lögbókanda, lögmanni, löggiltum endurskoðanda eða tveimur vottum. Að lokum er lagt til að kveðið verði á um að tilkynningu um stofnun hlutafélags eða einkahlutafélags skuli fylgja skrifleg yfirlýsing um að stofnendur félags uppfylli þau skilyrði sem um ræðir í 3. gr. laganna, að stjórnendur og framkvæmdastjórar uppfylli skilyrði 66. gr. laga um hlutafélög og 42. gr. laga um einkahlutafélög og að endurskoðendur eða skoðunarmenn uppfylli hæfisskilyrði laga um ársreikninga.
    Í öðru lagi er að finna í frumvarpinu tillögu að breytingu á ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög, er lýtur að verði í kaupum hlutafélags sem hefur skráð hlutabréf sín á skipulegan verðbréfamarkað eða á markaðstorg fjármálagerninga (MTF) á eigin hlutum. Lagt er til að hlutafélagi sem fengið hefur hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) verði ekki heimilt að kaupa eigin hluti á hærra verði en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem hærra er.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um tilkynningar til hlutafélagaskrár um kynjahlutföll í stjórnum félaga. Lagt er til að í stað þess að í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skuli sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn hlutafélags eða einkahlutafélags þá skuli slíkar upplýsingar koma fram skýrslu stjórnar í ársreikningi.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Tillögurnar eru í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

V. Samráð.
    Eins og fram hefur komið er frumvarp þetta unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til að bregðast við tillögum fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög í tengslum við vinnu sem þegar er hafin við undirbúning rafrænnar fyrirtækjaskrár. Með rafrænni fyrirtækjaskrá verður einstaklingum og lögaðilum gert kleift að skrá hlutafélag og einkahlutafélag með rafrænum hætti.
    Hvað varðar tillögu um breytingar á heimild hlutafélags sem hefur skráð hlutabréf sín á skipulegan verðbréfamarkað eða á markaðstorg fjármálagerninga til að kaupa eigin hluti hefur tillagan sem hér er sett fram verið unnin í samvinnu við Kauphöll Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Fjármálaeftirlitið.
    Varðandi tillögu að breytingum á tilkynningum til hlutafélagaskrár um kynjahlutföll í stjórnum félaga kom umrædd tillaga frá fyrirtækjaskrá þar sem núgildandi reglur um slíkar tilkynningar valda óþarfa álagi á skrána.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það einfalda framkvæmd við skráningu nýrra hlutafélaga og einkahlutafélaga og fækka tilkynningum til fyrirtækjaskrár. Áhrif samþykktar frumvarpsins á stjórnsýslu ríkisins yrðu þannig helst á fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir og felast í einföldun í framkvæmd tiltekinna verkefna sem skráin sinnir og auknum líkum á að þær tilkynningar sem skránni berast séu réttar. Verði frumvarpið að lögum mun það einnig stuðla að auknu jafnræði meðal hluthafa í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað þess að greina skuli í samþykktum í hvaða sveitarfélagi félagið hafi heimilisfang komi þær upplýsingar fram í stofnsamningi. Jafnframt er lagt til að verði gerðar breytingar þar á skuli þær ákveðnar á hluthafafundi. Þær breytingar sem lagðar eru til í 5. gr. frumvarpsins leiða til þess að verði gerðar breytingar á heimilisfangi félags skuli þær tilkynntar hlutafélagaskrá í samræmi við ákvæði 149. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 2. mgr. 9. gr. laga um hlutafélög hvað varðar atriði sem greina skal í samþykktum hlutafélags. Tillagan er sett fram til einföldunar.
    Í a-lið er lagt til að ekki verði lengur skylt að greina í samþykktum í hvaða sveitarfélagi hér á landi félagið skuli teljast hafa heimilisfang heldur skuli þær upplýsingar koma fram í stofnsamningi.
    Í b-lið er lagt til að ekki verði skylt að kveða á um fjölda framkvæmdastjóra í samþykktum hlutafélags séu þeir fleiri en þrír.

Um 3. gr.

    Núgildandi ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 55. gr. laganna kom nýtt inn með lögum nr. 68/2010, um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (minnihlutavernd o.fl.), og var hún gerð með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 29. október 2009 í máli nr. 228/2009. Með lögum nr. 68/2010 var heimild stjórnar hlutafélags, þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF), til að ákveða fjárhæð þá sem félagið má reiða fram sem endurgjald fyrir kaup á eigin hlutum, fest við síðasta skráða dagslokagengi á markaði áður en samningur um kaup var gerður.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að sett verði skilyrði varðandi hámarksverð í kaupum félags á eigin hlutum þegar um er að ræða félag sem hefur fengið hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF). Þannig er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um það að við kaup slíkra félaga á eigin hlutum skuli ekki vera heimilt að miða við hærra verð en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra. Með breytingunni er ætlunin að stuðla að auknu jafnræði meðal hluthafa og koma í veg fyrir að félag geti haft ótilhlýðileg áhrif á verðmyndun hlutabréfanna með kaupum á eigin hlutum. Tekur ákvæðið mið af þeim skilyrðum sem sett eru fram í 1. mgr. 5. gr. viðauka við reglugerð nr. 630/2005 um endurkaupaáætlanir fjármálagerninga. Áskilnaður um óhæði felur í sér að ekki sé heimilt að miða við viðskipti eða kauptilboð sem stafa frá félaginu sjálfu. Enn fremur skal litið til þess hvort síðustu viðskipti eða hæsta fyrirliggjandi kauptilboð stafi frá einhverjum þeirra aðila sem kemur að ákvörðunartöku eða hefur upplýsingar um framkvæmd kaupa félagsins á eigin hlutum.

Um 4. gr.

    Að ábendingu fyrirtækjaskrár er lögð til breyting á skyldu félaga til upplýsingagjafar til skrárinnar. Í núgildandi lögum er kveðið á um skyldu til að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár. Telur skráin nægilegt að félög upplýsi um það í skýrslu stjórnar í ársreikningi hvort þau falli undir stærðarviðmið laganna um hlutfall kynjanna í stjórnum og hvert það hlutfall er. Talið er að framangreindar breytingar leiði til þess að ákvæði um hlutfall kynjanna í stjórnum hlutafélaga verði skýrara, markvissara og jafnframt til þess fallið að auðvelt sé að fylgjast með því gegnum fyrirtækjaskrá hvort hlutafélög fylgi ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga.

Um 5. gr.

    Breytingar sem lagðar eru til í a- og b-lið eru tilkomnar vegna breytinga sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins um hvað skuli greina í samþykktum hlutafélags.
    Í c-lið er lagt til að ekki verði lengur gerð krafa um að tilkynningar um stofnun hlutafélags sem undirritaðar eru af öllum stjórnarmönnum skuli staðfestar af lögbókanda, lögmanni, löggiltum endurskoðanda eða tveimur vottum. Við rafræna skráningu hlutafélags getur reynst erfitt í framkvæmd að votta undirskrift rafrænna skjala sem undirrituð eru rafrænt. Auk þess er um einföldun að ræða við framkvæmd skráningar hlutafélaga sem ekki fer fram rafrænt.
    Í d-lið er lagt til að í stað þess að gerð sé krafa um að tilkynningu um stofnun hlutafélags fylgi sönnur fyrir því að stofnendur uppfylli skilyrði 3. gr. laganna um stofnun félags, að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri uppfylli hæfisskilyrði 66. gr. laganna og endurskoðendur eða skoðunarmenn uppfylli hæfisskilyrði laga um ársreikninga þá skuli fylgja tilkynningu skrifleg yfirlýsing þess efnis. Í dag er látið nægja að skilað sé inn skriflegri yfirlýsingu í stað þess að allir stjórnarmenn félags leggi fram sakavottorð. Þannig yrði ákvæði laganna fært til samræmis við það sem tíðkast í framkvæmd.

Um 6. gr.

    Lagt er til að gerð verði sambærileg breyting á ákvæðum laga um einkahlutafélög og lögð er til í 1. gr. frumvarpsins og lýtur að hlutafélögum. Hvað skýringar með ákvæðinu varðar er vísað til umfjöllunar um ákvæði 1. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Lagt er til að gerð verði sambærileg breyting á ákvæðum laga um einkahlutafélög og lögð er til í a-lið 2. gr. frumvarpsins og lýtur að hlutafélögum. Er því vísað til umfjöllunar um ákvæði 2. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að fellt verði brott ákvæði 22. gr. laganna þar sem kveðið er á um skyldu til að tilkynna hlutafélagaskrá ef einkahlutafélag, sem skráð er í eigu fleiri en eins aðila, kemst í hendur eins aðila þar sem hlutafélagaskrá heldur ekki skrá um eignarhald á einkahlutafélögum.

Um 9. gr.

    Lagt er til að gerð verði sambærileg breyting á ákvæðum laga um einkahlutafélög og lögð er til í 4. gr. frumvarpsins og lýtur að hlutafélögum. Hvað skýringar með ákvæðinu varðar er vísað til umfjöllunar um ákvæði 4. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.

    Lagt er til í a-, b-, d- og e-lið greinarinnar að gerðar verði sambærilegar breytingar á ákvæðum laga um einkahlutafélög og lagðar eru til í a–d-liðum 5. gr. frumvarpsins og lúta að hlutafélögum. Hvað skýringar með ákvæðinu varðar er vísað til umfjöllunar um ákvæði 5. gr. frumvarpsins.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að í tilkynningu um stofnun einkahlutafélags skuli greina hvort hluthafar séu einn eða fleiri og að sé hluthafi einn eða verði einn skuli skrá deili á honum. Um er að ræða tillögu að breytingu til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 8. gr. frumvarpsins. Hvað skýringar með ákvæði c-liðar varðar er vísað til umfjöllunar um ákvæði 8. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um það í lögum um ársreikninga að hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög upplýsi í skýrslu stjórnar, ef þau falla undir stærðarviðmið laga um hlutafélög, laga um einkahlutafélög og laga um samvinnufélög, um hlutföll kynjanna í stjórn félags. Breytingin er í samræmi við breytingar sem lagðar eru til í 4. og 9. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (samþykktir o.fl.).

    Í frumvarpi þessu er í fyrsta lagi um að ræða breytingar til einföldunar á ákvæðum núgildandi laga um samþykktir, stofngögn og tilkynningar til hlutafélagaskrár ríkisskattstjóra um stofnun félags. Breytingarnar miða að því að gera einstaklingum og lögaðilum kleift að útbúa rafrænt stofngögn vegna stofnunar hlutafélaga og einkahlutafélaga, undirrita rafrænt og senda til hlutafélagaskráar á einfaldan og öruggan hátt. Helst er þar um að ræða tillögur sem snúa að því að einfalda samþykktir félaga svo að ekki þurfi að breyta samþykktum þótt minni háttar breyting verði á rekstri félagsins. Í öðru lagi er um að ræða breytingu sem lýtur að heimild félags sem hefur skráð hlutabréf sín á skipulegan verðbréfamarkað eða á markaðstorg fjármálagerninga til að kaupa eigin hluti. Með þessu er ætlunin að stuðla að auknu jafnræði meðal hluthafa og koma í veg fyrir að félag geti haft ótilhlýðileg áhrif á verðmyndun hlutabréfanna með kaupum á eigin hlutum. Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að fallið verði frá skyldu félaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli til að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár en í staðinn skuli félögin veita upplýsingar um kynjahlutföllin í ársreikningi sínum. Þessi breyting er til þess fallin að einfalda framkvæmdina bæði fyrir félögin sem um ræðir og fyrir skráarsvið ríkisskattstjóra. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra er ekki gert ráð fyrir að um teljandi kostnað verði að ræða fyrir stofnunina vegna þessara breytinga þar sem unnt verði að vinna þessi verkefni með núverandi starfsmannafjölda en ekki með aðkeyptri þjónustu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð svo að nokkru nemi.