Ferill 14. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 14  —  14. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um þriggja ára áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu,
menntakerfis og velferðarþjónustu.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir,
Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sem fái það hlutverk að gera þriggja ára áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu út frá endurskoðaðri ríkisfjármálaáætlun. Áætlunin verði lögð fyrir þingið eigi síðar en 1. febrúar nk. og höfð til hliðsjónar við vinnslu fjárlaga á komandi árum.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 142. löggjafarþingi (19. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er því flutt á nýjan leik með uppfærðri greinargerð.
    Á árunum eftir hrun íslensku bankanna réðst þáverandi ríkisstjórn í meiri háttar aðgerðir til að rétta af fjárlagahalla og treysta stoðir ríkisfjármála. Þessar aðgerðir lögðu grunninn að batnandi stöðu ríkisfjármálanna og efnahagslífsins almennt, sem og góðum horfum til framtíðar. Ef hagvaxtarspár ganga eftir er því ekki óvarlegt að ætla að allnokkurt svigrúm myndist í ríkisrekstri til að efla á nýjan leik þær mikilvægu samfélagslegu undirstöður sem kreppa undanfarinna ára þrengdi óumflýjanlega að. Lagt er til að stjórnvöld geri áætlanir um hvert það svigrúm getur orðið á næstu fjórum árum og leggi jafnframt fram forgangsröðun um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu.

I. Góður efnahagsgrunnur frá fyrri ríkisstjórn.
    Fyrir liggur að núverandi ríkisstjórn tók við allt öðru og betra búi í ríkisfjármálum vorið 2013 en við blasti í upphafi síðasta kjörtímabils. Þrátt fyrir gífurlegt efnahagsáfall í tengslum við hrun íslensku bankanna síðla árs 2008, með tilheyrandi skuldsetningu og tekjutapi ríkissjóðs, hófst efnahagsbati strax í lok árs 2010. Það hefur skilað sér í jafnt og þétt batnandi afkomu ríkissjóðs og nú er svo komið að tekjuhalli ríkissjóðs reyndist aðeins 732 millj. kr. á árinu 2013, sem er mun lægra en þeir 3,7 og 19,7 milljarðar kr. sem fjárlög og fjáraukalög gerðu ráð fyrir. Þegar halli ársins 2013 er borinn saman við hallann í ríkisreikningi ársins 2010 kemur í ljós að hann hefur batnað um rúma 120 milljarða kr. og jafnt og þétt. Hallinn hefur farið úr 123,3 milljörðum kr. árið 2010 í 89,4 milljarða kr. árið 2011, þaðan í 35,8 milljarða kr. árið 2012 og loks undir milljarð króna árið 2013, eins og áður segir. 1
    Sé haldið rétt á spilunum ætti útlitið jafnframt að vera bjart fram undan í efnahagsmálum þjóðarinnar. Samkvæmt nýjustu hagspá Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, verður 2,7% hagvöxtur á Íslandi á þessu ári (2014) og 3,2% á því næsta (2015). Enn fremur er spáð jafnt og þétt minnkandi atvinnuleysi, 4,5% á þessu ári (2014) og 4,2% á því næsta (2015). 2 Rétt er að minna á að grunnurinn að þessum góðu fréttum var lagður á síðasta kjörtímabili, enda hefur hagvöxtur verið jákvæður og atvinnuleysi farið minnkandi allt frá árinu 2011. Rétt eins og í ríkisfjármálunum má því fullyrða að núverandi ríkisstjórn almennt nýtur góðs af erfiðum en árangursríkum aðgerðum þeirrar ríkisstjórnar sem þurfti að glíma við afleiðingar efnahagshrunsins síðla árs 2008.

II. Svigrúm til uppbyggingar á næstu árum.
    Eitt stærsta verkefni síðustu ríkisstjórnar var að styrkja tekjustofna ríkisins, enda höfðu þeir verið kerfisbundið veiktir í tíð fyrri ríkisstjórna og stóðu engan veginn undir þeim miklu útgjöldum og tekjutapi ríkissjóðs sem efnahagshrunið hafði í för með sér. Ríkisfjármálin njóta nú góðs af þessari styrkingu tekjustofna því að með auknum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi undanfarin ár og komandi ára má gera ráð fyrir að þessir tekjustofnar skili verulegum tekjuauka í ríkissjóð samfara því að ýmis hruntengd útgjöld fara minnkandi. Í þessu samhengi er það að sjálfsögðu höfuðatriði að tekjustofnar ríkisins verði ekki aftur veiktir frá því sem nú er. Tilburðir í þá átt sjást vissulega frá núverandi ríkisstjórn, enda voru það meðal fyrstu verka hennar að stórlækka veiðigjöld og framlengja ekki auðlegðarskattinn.
    Verði tekjumöguleikar ríkisins hins vegar ekki skertir enn frekar og jafnvel styrktir með einhverjum hætti, svo sem með gjaldtöku af nýtingu auðlinda og aukinni skattlagningu fjármálafyrirtækja, má í ljósi þeirra hagspáa sem nefndar voru hér að framan gera ráð fyrir að nokkurt svigrúm myndist í ríkisfjármálunum til að hefja að nýju uppbyggingu í velferðar- og menntakerfi landsins. Ekki er óvarlegt að áætla að þetta svigrúm geti numið samtals um 50–60 milljörðum kr. á næstu þremur árum sé rétt á málum haldið í ríkisfjármálunum og það þótt gert sé ráð fyrir allverulegri lækkun ríkisskulda á sama tímabili. Tillagan sem hér er lögð fram um að hefja sókn í velferðar- og menntamálum þjóðarinnar er því varfærin og ábyrg.

III. Fjársvelt velferðarkerfi framlengja kreppur.
    Eins og hér hefur verið rakið mun skapast svigrúm í ríkisrekstri til jafnrar og hægrar uppbyggingar á innviðum samfélagsins. Fyrir slíkri uppbyggingu eru margháttuð rök. Til að mynda sýna rannsóknir innlendra og erlendra fræðimanna að of mikill niðurskurður á hinum samfélagslegu innviðum getur dýpkað og framlengt efnahagskreppur. Athyglisvert er til að mynda að skoða afleiðingar niðurskurðar á velferðarkerfinu í Suðaustur-Asíu í upphafi tíunda áratugar 20. aldar þegar þar gekk yfir kreppa í kjölfar offjárfestingar og efnahagslegrar þenslu. Þar má sjá bein tengsl milli versnandi heilsufars viðkomandi þjóða og niðurskurðar í velferðar- og heilbrigðiskerfum og eru þar nefnd dæmi af Suður-Kóreu, Tælandi og Indónesíu. Á sama tíma gekk Malasía í gegnum sömu kreppu en tryggði velferðar- og heilbrigðiskerfi sitt með þeim árangri að heilsufar íbúa hélst stöðugt og fátækt jókst aðeins um brotabrot af því sem gerðist í hinum löndunum. Sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar víðar, t.d. í Austur-Evrópu, og almennt er farið að viðurkenna nauðsyn þess að gæta sérstaklega að velferðarkerfum á krepputímum og í kjölfar þeirra.
    Sífellt fleiri fræðimenn benda einnig á að erfiðleikar á Evrusvæðinu eigi rætur sínar að rekja til of harkalegs niðurskurðar og þá sérstaklega í velferðarmálum. Þannig er Bretland oft nefnt sem dæmi þar sem niðurskurður leiðir hagkerfið í gegnum þrefalda efnahagsdýfu (e. triple dip recession). Gagnstætt leið Breta hefur bandaríski nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, talið að sú forgangsröðun í þágu velferðar sem átti sér stað á Ísland í gegnum kreppuna hafi reynst árangursrík og skýri að hluta til hvers vegna landið komst með skjótvirkum hætti undan ofvöxnu hruni. Því er nauðsynlegt að áfram sé haldið á þessari braut og ef með þarf með aukinni tekjuöflun ríkissjóðs.

IV. Hætta á að barnafjölskyldur og lágtekjuhópar sitji eftir í uppgangi.
    Félagslegar afleiðingar of mikils niðurskurðar eru líka sérstakt áhyggjuefni en í skýrslu OECD um jöfnuð frá 2013 kemur fram að vegna niðurskurðar í fjölmörgum ríkjum hafi kjör þeirra er standa höllum fæti í samfélaginu og tekjulágra skerst mun meira hlutfallslega en þeirra sem mestar tekjur hafa í kjölfar efnahagskreppunnar 2008. Þessar niðurstöður voru svo ítrekaðar í nýrri skýrslu OECD um jöfnuð frá júní 2014 þar sem fram kemur að ójöfnuður jókst umtalsvert í flestum löndum OECD á milli 2007 og 2011. 3 Ísland er þar meðal fárra undantekninga sem rakið er til markvissra aðgerða fyrri ríkisstjórnar til að verja lægstu tekjuhópana, svo sem með stórauknum vaxtabótum upp á yfir 18 milljarða kr. árið 2011 og breytingum á skattkerfi með upptöku þrepaskipts skattkerfis. Sem betur fer hefur Ísland því ekki fylgt þeirri þróun sem er víðast annars staðar að tekjuójöfnuður aukist í kjölfar efnahagsþrenginga, en til að svo verði ekki á næstu árum þarf að huga sérstaklega að lægstu tekjuhópunum og öðrum sem eiga undir högg að sækja
    Þótt það hafi að ýmsu leyti tekist vel að verja kjör lægstu tekjuhópanna í tíð fyrri ríkisstjórnar eru vissulega mörg brýn úrlausnarefni sem huga þarf að á næstu árum. Samkvæmt nýlegri skýrslu Barnaheilla frá apríl á þessu ári búa 16% íslenskra barna við hættu á fátækt eða félagslega einangrun og hefur aukist frá hruni. 4 Eins og bent er á í þeirri skýrslu er menntun eins helsta leið barna út úr fátækt og einangrun og því mikilvægt að efla menntakerfið til að sporna við þessum vanda og tryggja gjaldfrelsi þess á sem flestum skólastigum. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að samkvæmt nýlegri skýrslu Hagstofunnar er skortur á efnislegum gæðum, sem er ný mæling á lífskjaravanda fólks, langtum mestur meðal einstæðra foreldra, sem eðli málsins samkvæmt nýta sér mennta- og velferðarkerfið í meiri mæli en aðrir. 5
    Jöfnuður er yfirleitt nátengdur velsæld samfélaga og það er engin tilviljun að þeim ríkjum þar sem jöfnuður hefur verið mestur í sögulegu samhengi (eins og til dæmis Norðurlöndunum) hefur líka vegnað best þegar kemur að almennri velsæld borgaranna og hagsæld samfélaganna. Ójöfnuður hefur hins vegar vaxið í alþjóðlegu samhengi en eins og kemur fram í bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty, Capital in the Twenty-First Century, á ríkasta 0,1% prósentið um það bil 20% af öllu auðmagni í heiminum og auðugasta eina prósentið (um 45 milljónir manna) á um 50% af öllum auði heimsins. Ójöfnuðurinn er enn meiri hnattrænt vegna þess að ójöfnuður milli heimshorna er mikill. Piketty telur að þessa þróun megi rekja til þess að auðmagnsrentan sé hraðari en almennur vöxtur og á þeirri þróun sé einungis unnt að hægja með framsæknu skattkerfi þar sem hinir ríku leggja hlutfallslega meira til samfélagsins af tekjum sínum en hinir tekjulægri og auðmagnið er skattlagt, helst þvert á landamæri. 6

V. Forgangsverkefni næstu þriggja ára.
    Ljóst má vera að mörg verkefni eru brýn á þessum sviðum og því þarf að leggja vinnu í að greina hvar þörfin er mest og hvernig eigi að forgangsraða. Þegar litið er á menntakerfið er til að mynda ljóst að íslenska háskólakerfið er vanfjármagnað borið saman við önnur OECD-ríki en þar er Ísland undir meðaltali þegar kemur að fjármögnun háskólastigsins. Við stofnun aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands var hafin undirbúningsvinna við að greina þessar tölur þar sem bæði er um að ræða opinbera fjármögnun og einkafjármögnun og gera áætlun um hvernig Ísland geti komist upp að hlið annarra Norðurlanda fyrir árið 2020. Ljóst er að þörf er á auknu fjármagni frá hinu opinbera eigi þetta markmið að nást.
    Þegar íslenskir framhaldsskólar eru bornir saman við framhaldsskóla í öðrum OECD- ríkjum kemur fram að þar er Ísland nálægt meðaltali í kostnaði. Hins vegar er ljóst að aukin krafa um framhaldsskólanám í heimabyggð í stóru og strjálbýlu landi mun hafa og hefur haft aukinn kostnað í för með sér, sem og aukin áhersla á verk- og starfsnám sem ljóst er að þarf að efla á Íslandi og beina fleirum í. Hlutfall þeirra sem sækja verk- og starfsnám að loknu grunnskólanámi er óvenju lágt og gæti verið ein skýringin á brottfalli úr framhaldsskólum. Þriðji liðurinn sem má nefna í tengslum við eflingu menntakerfisins eru kjör kennara en þar sýna tölur að íslenskir kennarar eru fremur aftarlega á merinni miðað við starfssystkin þeirra í öðrum OECD-löndum. Að lokum má nefna hugmyndir sem hafa verið uppi og voru settar fram í frumvarpi til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna um að hluti höfuðstóls námslána falli niður ef nemendur ljúka háskólanámi á tilskildum tíma og kerfið byggist þannig upp á blöndu styrkja og lána.
    Hvað varðar heilbrigðisþjónustuna er ljóst að þar eru mörg úrlausnarefni sem snúa m.a. að kjörum heilbrigðisstétta en síðasta ríkisstjórn setti af stað sérstakt jafnlaunaátak, m.a. til að bæta kjör kvennastétta innan heilbrigðisþjónustunnar. Ljóst má vera að ef uppfylla á þá sýn sem birtist í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar um að íslenska heilbrigðiskerfið verði samkeppnishæft hljóta bætt kjör heilbrigðisstétta að vera forgangsatriði. Annað risavaxið atriði er bygging nýs Landspítala sem er langtum hagkvæmast að verði ráðist í sem opinbera framkvæmd og mun þjóna landsmönnum öllum. Sú framkvæmd mun tryggja hagkvæmari og betri rekstur sjúkrahússins til lengri tíma og bæta aðstæður starfsfólks en spítalinn er rekinn á mörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
    Þá má nefna stóreflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í kerfinu sem mun væntanlega skapa langtímahagræðingu í heilbrigðisþjónustunni með því að draga úr álagi á sérfræðiþjónustu og sjúkrahús.
    Þegar kemur að velferðarkerfinu ber hæst fyrirkomulag almannatrygginga sem nauðsynlegt er að breyta til lengri tíma og tryggja þar með hag öryrkja og aldraðra til langs tíma. Enn fremur húsnæðiskerfi landsmanna en ljóst er að uppsafnaðan vanda Íbúðalánasjóðs þarf að leysa samhliða því að fyrirkomulag húsnæðismála verði endurskoðað í því skyni að það verði sem auðveldast fyrir almenning í landinu að tryggja sér þak yfir höfuðið.

VI. Lokaorð.
    Jafn og stöðugur efnahagsbati sem hófst árið 2010, ásamt með árangursríkum breytingum á tekjuöflunarkerfi ríkisins, mynda svigrúm til varfærnislegrar sóknar í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum þjóðarinnar. Eins og hér hefur verið rakið stuðlar slík sókn að áframhaldandi efnahagsbata í stað stöðnunar eða jafnvel framlengingu efnahagsþrenginga, og tryggir jafnframt að barnafjölskyldur og lágtekjuhópar sitji ekki eftir í áframhaldandi efnahagsbata sem fram undan er haldi stjórnvöld rétt á spilunum.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.fjs.is/media/rikisreikningur/Rikisreikningur-arid-2013,-Heildaryfirlit---Rafraen-undirritun.pdf
Neðanmálsgrein: 2
2     www.oecd.org/newsroom/global-economy-strengthening-but-significant-risks-remain.htm
Neðanmálsgrein: 3
3     www.oecd.org/els/soc/OECD2014-Income-Inequality-Update.pdf
Neðanmálsgrein: 4
4     www.barnaheill.is/media/PDF/Child_Poverty_and_Social_Exclusion_in_Europe_low_res3.pdf
Neðanmálsgrein: 5
5     hagstofa.is/lisalib/getfile.aspx?ItemID=16739
Neðanmálsgrein: 6
6     Piketty: Capital in the Twenty-First Century. 2014.