Ferill 18. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 18  —  18. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.


Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg Gunnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Einarsson, Sigrún Magnúsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að hefja vinnu við útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Útreikningarnir verði gerðir í samráði við hlutaðeigandi aðila. Í nýjum neysluviðmiðum verði tekið tillit til þeirra þátta sem núverandi neysluviðmið byggjast á en auk þess verði húsnæðiskostnaður tekinn með. Í því samhengi verði horft til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að ráðist verði í að endurskoða útreikning neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Vakin er athygli á því að það er yfirlýstur tilgangur með smíði neysluviðmiða að veita heimilum í landinu aðgang að viðmiðum til hliðsjónar við áætlun eigin útgjalda. Auk þess geta slík viðmið komið að notum við fjárhagsráðgjöf fyrir einstaklinga og verið til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Litið hefur verið svo á að neysluviðmið séu ekki endanlegur mælikvarði á hvað telst nægjanleg neysla einstakra heimila né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfæris Sníða þarf vankanta af núverandi neysluviðmiðunum til að þau geti orðið nákvæmur mælikvarði á hvað telst nægjanlegt til framfærslu fjölskyldu.
    Í núverandi neysluviðmiðum er húsnæðiskostnaður ekki innifalinn og byggist það á þeim rökum að kostnaður við húsnæði sé svo breytilegur að ekki sé rétt að gefa út viðmið í þeim efnum og að betra sé að fjölskyldur bæti raungjöldum við hin opinberu viðmið. Lagt er til í þessari tillögu að inn í neysluviðmiðin verði settir allir þættir sem snúa að húsnæðiskostnaði. Þar þarf að setja inn mismunandi dæmi eftir því um hvaða búsetuform er að ræða, staðsetningu húsnæðis og aðra þætti er skipta máli. Með hugtakinu húsnæðiskostnaður í tillögunni er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis.
    Lagt er til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna. Raunframfærslukostnaðurinn verði nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið. Reiknilíkan útreikninganna verði opinbert, eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við og má í því samhengi nefna Svíþjóð, Danmörk og Noreg.
    Það er morgunljóst að ýmsir fastir útgjaldaliðir hafa hækkað mikið undanfarin ár og hefur það haft áhrif á íslensk heimili. Það er því mat flutningsmanna að afar brýnt sé að vinna við útreikning nýrra neysluviðmiða fari fram og liggi fyrir á 144. þingi.
    Sjá má nánari upplýsingar um neysluviðmið á vef velferðarráðuneytisins:
     www.velferdarraduneyti.is/media/ritogskyrslur2011/Neysluvidmid_lokautgafa_vef.pdf.
     www.velferdarraduneyti.is/neysluvidmid/nanar/nr/33453.