Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 23  —  23. mál.
Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar


um mótun viðskiptastefnu Íslands.


Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Pétur H. Blöndal,
Vilhjálmur Bjarnason, Jón Gunnarsson, Brynjar Níelsson, Vilhjálmur Árnason,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Birgir Ármannsson,
Elín Hirst, Valgerður Gunnarsdóttir.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Alþingi ályktar að fela ráðherra að móta viðskiptastefnu sem hafi að markmiði að jafna samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendri og lækka vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur. Stefnan verði lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu fyrir 1. júlí 2015.

Greinargerð.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tillaga þessi var áður lögð fram á 141. löggjafarþingi (304. mál) og 143. löggjafarþingi (35. mál) en náði ekki fram að ganga og er hún nú endurflutt.
    Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að mótuð verði viðskiptastefna í þeim tilgangi að auka veg innlendrar verslunar og neytenda. Liður í að ná þeim markmiðum er að endurskoða fyrirkomulag skattamála, þ.m.t. tolla og vörugjalda. Ísland er ekki í tollabandalagi og hafa stjórnvöld fullt forræði á að lækka tolla. Fram til þessa hefur stefna stjórnvalda verið að lækka ekki tolla nema á grundvelli gagnkvæmra ívilnana í gegnum Alþjóðaviðskiptastofnunina, EFTA eða með tvíhliða samningum.
    Tollalöggjöf er almennt ætlað að standa undir tekjuöflun ríkissjóðs um leið og henni er beitt til verndar tilgreindum hagsmunum eins og innlendri framleiðslu. Almenn stefna stjórnvalda hefur verið að fella ekki niður tolla nema gegn opnun markaða fyrir innlendar framleiðsluvörur í landi viðsemjenda. Hafa stjórnvöld litið svo á að einhliða niðurfelling óháð uppruna vöru væri til þess fallin að veikja samningsstöðu Íslands í fríverslunarviðræðum. Eftirtektarverð eru ummæli í skýrslu Samtaka verslunar og þjónustu frá febrúar 2012 um að víðtæk notkun vörugjaldsins megi rekja til þess tíma er tollar voru lækkaðir vegna aðildar Íslands að EFTA og vörugjald lagt á innfluttar og innlendar vörur til þess að mæta tekjutapi ríkisins.
    Um leið og taka má undir mikilvægi þess að fjölga eigi fríverslunarsamningum og ýta undir fríverslun í heiminum á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana á sú viðleitni ekki að girða með öllu fyrir að íslensk stjórnvöld lækki álögur einhliða og án gagnkvæmra ívilnana.

Fátækraskattur.
    Ástandið í dag er skattur á fátækt fólk. Þeir sem ekki hafa efni á að fara til annarra landa til að versla sitja uppi með hærra vöruverð. Sem dæmi benda kannanir Capacent Gallup til þess að stór hluti af fatakaupum Íslendinga eigi sér stað erlendis (sjá meðfylgjandi fylgiskjal). Fram kemur í niðurlagi umræddrar skýrslu Samtaka verslunar og þjónustu að afnám vörugjaldsins á tilgreindum vöruflokkum mundi leiða til aukinnar sölu innan lands og þar af leiðandi aukinna tekna til ríkisins.
Fylgiskjal.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.