Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 28  —  28. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um jafnt aðgengi að internetinu.Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna aðgerðaáætlun um jafnt aðgengi allra landsmanna að internetinu óháð búsetu og fjárhag. Í áætluninni komi fram:
     a.      hvernig jafnt aðgengi allra landsmanna að internetinu verði tryggt í samræmi við „nethlutleysis“-hugmyndafræðina, eftir atvikum með lagasetningu um skyldubundna lágmarksþjónustu netveitna,
     b.      hvernig sanngjörn og sem jöfnust gjaldtaka fyrir slíka lágmarksþjónustu verði tryggð.
    Ríkisstjórnin kynni aðgerðaáætlunina fyrir Alþingi ásamt kostnaðarmati á verkþáttum hennar eigi síðar en 1. mars 2015. Frumvörp um nauðsynlegar lagabreytingar til að ná markmiðum áætlunarinnar verði lögð fram á haustþingi 2015 og nægilegar fjárveitingar tryggðar meðan á framkvæmd áætlunarinnar stendur.

Greinargerð.


    Aðgangur almennings að internetinu mun án efa teljast til mikilvægustu mannréttinda framtíðarinnar. Internetinu hefur verið lýst sem einu áhrifamesta verkfæri 21. aldar til að auka gagnsæi, tryggja aðgang að upplýsingum og efla virka þátttöku almennings í lýðræðislegu samfélagi. Því standa rík rök til þess að tryggja öllum landsmönnum öruggan aðgang að internetinu. Internetið er margt í senn. Það hýsir nánast alla fjölmiðlaumfjöllun samfélagsins, öll gögn og upplýsingar, auk þess sem samskipti fólks fara að miklu leyti fram á internetinu. Internetið er einnig afar dýrmætur vettvangur til tjáningar fyrir fólk sem á erfitt með að tjá sig með einföldum hætti á annan máta, auk þess sem það getur brúað bil milli ólíkra tungumála. Því verður að telja mikilvægt að tryggja aðgengi almennings að neti í þágu upplýstrar umræðu og lýðræðis.
    Mikið hefur verið fjallað um tilraunir stórfyrirtækja til að hefta svokallað „Net Neutrality“ sem hér verður nefnt „jafnt aðgengi að internetinu“. Jafnt aðgengi þýðir að allir geti fengið sambærilegt aðgengi að netinu á sama hraða og öll gögn séu meðhöndluð til jafns og hefur þetta jafnræði stuðlað að þeirri öru þróun sem hefur gert netið að því sem það er í dag. Það er ekki erfitt að setja það í samhengi við aðgengismun á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Nýlegar tilraunir stórfyrirtækja til að hafa áhrif á lagasetningu á fjarskiptamarkaði í Bandaríkjunum um svokallaða internet-hraðbraut hafa vakið áleitnar spurningar um hvað slíkt fyrirkomulag felur í sér. Í dag hefur netið þróast á þann veg að nánast er ómögulegt að lifa eðlilegu nútímalífi án þess að nota það til daglegra nauðsynja, langflestir Íslendingar nota það t.d. til að skila inn skattframtali, skoða framvindu barna í skóla, sækja um alls konar þjónustu, fara í netbanka, vera í samskiptum við vini og vandamenn með Skype eða Facebook, læra, skoða vörur og þjónustu, til afþreyingar, til að versla, til að afla sér þekkingar eða horfa á ýmiss konar skemmtilegt myndefni. Sum okkar munum eftir því hvernig það var að nota netið á „dial up“-tengingu, en ljóst er að mikið af því efni sem við notum daglega ferðast um netið á hraða snigilsins nema fyrirtækin sem hýsa gögnin borgi meira fyrir tenginguna en slíkt mundi verða t.d. mikill aukakostnaður fyrir menntastofnanir og fyrirtæki sem eru að hefja sín fyrstu skref eða eru smá og meðalstór. Stóru fyrirtækin sem hafa burði til að kaupa sér aðgang að hraðbrautinni munu halda áfram að vaxa á meðan engin framþróun verður hjá hinum. Þá munu opinberar stofnanir þurfa að skera niður annars staðar til að geta boðið upp á nauðsynlega þjónustu. Þeir sem nú þegar búa við skerta þjónustu hérlendis munu þá fá enn lakari þjónustu sem er ekki boðlegt á sama tíma og þróunin er á þann veg að krafan um hraða vex dag frá degi. Þessar tilraunir til að breyta eðli netsins hafa mætt mikilli andstöðu og fengið jafnvel örgustu andstæðinga til að stilla bökum saman til að berjast gegn þessu, aðgerðasinnar og stóru risarnir á netinu eins og t.d. Facebook, Amazon, Netflix og Google vinna saman með Save the Internet, Freepree og Access Now.
    Hugmyndafræðin um nethlutleysi (e. net neutrality) felst í því að öll fjarskiptaumferð sé meðhöndluð á jafnræðisgrundvelli. Ekki megi hraða á, tefja eða hindra fjarskipti á grundvelli þess hver sendandi eða móttakandi er og ekki heldur eftir innihaldi fjarskiptanna. Þar að auki er óheimilt að krefjast endurgjalds á grundvelli framangreindra þátta. Með öðrum orðum eiga veitendur fjarskiptaþjónustu að miðla umferð til og frá notendum án aðgreiningar. Í þessu felst meðal annars að nauðsynlegt er að skilgreina fyrirtæki sem veita aðgang að internetinu (netveitur) sem almenna burðaraðila (e. common carriers) en ekki sem gagnaveitur (e. data service provider).
    Hugmyndafræðin er ekki algerlega án takmarkana en í innleiðingu eru að jafnaði sett þau mörk að aðgreina megi fjarskiptaumferð til að lágmarka umferðartafir ásamt því að verja áreiðanleika og öryggi fjarskiptanetsins, fjarskiptaþjónustunnar eða endapunktanna. Þá sé einnig heimilt fyrir endanotendur að samþykkja sérstaklega slíkar takmarkanir fyrir fram. Skiptir þá máli í þessu sambandi að samþykki eða skortur á því hafi ekki áhrif að öðru leyti á viðskiptasamband notanda og fjarskiptafyrirtækisins.
    Þegar internetið kom fyrst til sögunnar bundu margir vonir við að það þýddi að fólk óháð búsetu ætti möguleika á að vinna og læra til jafns í dreifbýli sem þéttbýli. Fjarvinna, fjarfundir, fjarnám og ýmiss konar sérhæfð fjarþjónusta ætti að vera jafn sjálfsögð og að mæta til vinnu 9–5. En því miður hefur þessi þróun aðeins orðið í mýflugumynd vegna þess að það sitja ekki allir við sama borð. Netgæði víðsvegar um land eru ekki samkeppnishæf við þau netgæði sem er að finna til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir háleit markmið þegar Síminn var seldur. Þrátt fyrir að þetta sé veruleikinn, ekki bara hérlendis heldur víðsvegar um heim þar sem einkafyrirtæki sjá sér engan hag í að færa hraðnet á afskekkta staði, þá á enn að auka ójöfnuðinn. Baráttan um netið er rétt að hefjast og þau lífsgæði sem fólk fer á mis við ef það hefur ekki aðgengi að almennilegri nettengingu. Það stendur til að bjóða upp alvöru misskiptingu tækifæra. Ef notandi er tilbúinn að borga kemst hann á hraðbrautina á meðan restin af netinu verður svo hægvirk að fjarvinna eða fjarnám verður aldrei raunhæfur kostur til að hjálpa þeim sem hafa áhuga á að búa t.d. annars staðar á landinu en í Reykjavík og nágrenni. Það er hægt að fyrirbyggja slíkt stórslys með því að heimila ekki tvær akreinar. Það að sumir þurfi að notast við hestafl á meðan aðrir notast við þotuafl mun auka á misskiptingu og draumur ríkjandi afla um stétt með stétt eða ljós í fjós mun dvína og deyja út.
    Tengimöguleikar íbúa landsins við internetið eru mjög misjafnir. Íbúum í nágrenni þéttbýliskjarna bjóðast oft háhraðatengingar en eftir því sem fjær dregur daprast tengingar og netið verður hægvirkara. Framkvæmdir fjarskiptafyrirtækjanna á landsbyggðinni við lagningu ljósnets hafa ekki náð til mesta dreifbýlisins og þar þyrfti að leggja ljósleiðara heim að hverjum bæ sem getur verið afar kostnaðarsamt, og hefur fjarskiptafyrirtækjum ekki þótt slíkar framkvæmdir svara kostnaði. Af því leiðir að fjöldi fólks býr við skert lífsgæði, enda internetið orðið svo snar þáttur í daglegu lífi fólks hér á landi og um heim allan. Nauðsynlegt er að hið opinbera stigi inn og komi til móts við netveitur með það að markmiði að tryggja jafnræði allra landsmanna til netaðgangs. Í því skyni mætti virkja og styrkja betur ýmsa sjóði sem þegar eru fyrir hendi. Má hér nefna alþjónustusjóð, fjarskiptasjóð og jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Flutningsmenn tillögunnar telja að lögbinding lágmarksþjónustu til jafns aðgangs að internetinu skapi skilyrði til að fólk geti stundað þá atvinnu sem það hefur menntun eða starfsreynslu til að stunda óháð búsetu. Þá skapar þetta jákvæða innspýtingu til þróunar fjarnáms og fjarvinnu. Til að tryggja nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni verður jafnt aðgengi að netinu að vera grunnstoð og hluti af skilgreindri grunnþjónustu.