Ferill 34. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 34  —  34. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mat á heildarhagsmunum vegna hvalveiða.


Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Björt Ólafsdóttir,
Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Óttarr Proppé, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að láta fara fram óháð mat á hagsmunum Íslands vegna hvalveiða í íslenskri lögsögu. Metnir verði efnahagslegir og viðskiptalegir hagsmunir, þ.m.t. verðmæti útflutnings og þróun markaðar fyrir hvalkjöt, bæði hér heima og í Japan. Jafnframt verði metinn kostnaður við kynningu af hálfu stjórnvalda vegna hvalveiðistefnunnar og leitað álits fræðimanna, hagsmunaaðila og viðeigandi félagasamtaka um áhrif hvalveiðistefnu stjórnvalda á afkomu ferðaþjónustu og sjávarútvegs og áhrif hvalveiða á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og á samskipti við einstök ríki, einkum Bandaríkin. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um hagsmunamatið í síðasta lagi fyrir lok mars 2015.


Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga sama efnis var flutt á 143. löggjafarþingi (518. mál) en hún hlaut ekki afgreiðslu og er því endurflutt lítillega breytt.
    Í mars 2010 kom út skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands til sjávarútvegsráðherra um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Í skýrslunni kom fram að tap var af hrefnuveiðum árið 2009. Það árið veiddust samtals 81 hrefna en árin þar á eftir drógust hrefnuveiðar töluvert saman, 60 dýr veiddust árið 2010, 58 dýr árið 2011, 52 árið 2012 og 35 á síðasta ári. Árið 2013 hófust veiðar á langreyðum að nýju eftir tveggja ára hlé og veiddust 134 dýr. Veiðarnar eru umdeildar þar sem langreyður er á lista CITES yfir dýr í útrýmingarhættu. Bandarísk lög – Pelly-viðaukinn við lög um fiskveiðistjórn – kveða á um að veiki ríki alþjóðlegar aðgerðir til verndar lífríkinu skuli forsetinn kynna fyrir þinginu til hvaða refsiaðgerða hann hyggist grípa gegn viðkomandi ríki. Barack Obama hefur tvívegis virkjað hinn svokallaða Pelly- viðauka sem veitir forsetanum rétt til að ákvarða þvingunaraðgerðir af ýmsu tagi. Hefur forsetinn fyrirskipað diplómatískar refsiaðgerðir sem gera samskipti við bandarísk stjórnvöld erfiðari en ella. Leggja þarf mat á bæði efnahagsleg og pólitísk áhrif þessara refsiaðgerða.

Hrefnustofninn við Ísland.
    Heimildum ber ekki saman um fjölda hrefna hér við land. Mat vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins frá 2008 er 10.680 dýr og er það mat byggt á tölum frá alþjóðlegri hvalatalningu T-NASS frá árinu 2007. Samkvæmt Hafrannsóknastofnun og NAMMCO, the North Atlantic Marine Mammal Commission, er stofninn um 20 þúsund dýr og byggist það mat á NASS 2007, auk nýrri gagna. Fyrra stofnstærðarmat eftir talningu NASS árið 2001 var ríflega 44 þúsund dýr.
    Þegar árið 2008 bentu Hvalaskoðunarsamtök Íslands á að mun færri hrefnur sæjust á Faxaflóa en áður. Síðan þá virðist sem hrefnum á hvalaskoðunarslóðum, sem og á veiðisvæðum hafi fækkað nokkuð jafnt og þétt. Um það ber bæði hvalaskoðunarfyrirtækjum og hrefnuveiðimönnum saman. Nú er svo komið að Hvalaskoðunarsamtök Íslands telja að hrefnuveiðar í Faxaflóa ógni þessari vaxandi atvinnugrein. Hvað sem veldur þessari fækkun er mikilvægt að fram komi hvort þessi fækkun hrefna hér við land hafi eða muni hafa neikvæð áhrif á ferðamannaiðnaðinn.

CITES.
    CITES, Convention on Trade in Endangered Species of Fauna and Flora, samningurinn um alþjóðleg viðskipti með dýra- og jurtategundir í útrýmingarhættu, bannar verslun með afurðir hrefna og langreyða. Ísland gerðist aðili að samningnum árið 2000 en gerði fyrirvara við flokkun áðurnefndra hvalategunda, auk allra annarra hvalategunda á lista CITES yfir dýr í útrýmingarhættu. Önnur ríki sem hafa gert fyrirvara eru Rússland, Japan og Noregur. CITES er talinn mikilvægasti alþjóðlegi samningurinn um verndun dýrategunda frá útrýmingu. Á hinn bóginn hefur verið óljóst hver stefna Íslands er á vettvangi samningsins.
    Á undanförnum missirum hafa málefni sem falla undir CITES verið mikið í deiglunni. Til að mynda kynnti Barack Obama aðgerðaáætlun í vetur leið til að stöðva ólöglega verslun með dýr í útrýmingarhættu.

Alþjóðahvalveiðiráðið.
    Um þriggja áratuga skeið hefur Ísland staðið í hörðum deilum innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Árið 1992 ákvað Ísland að segja skilið við ráðið en gekk þar inn að nýju árið 2002 og þá með umdeildan fyrirvara við samþykkt hvalveiðiráðsins um núllkvóta frá árinu 1982. Árið 2010 lögðu Bandaríkin fram málamiðlunartillögu um framtíð ráðsins sem fól m.a. í sér að leyfðar yrðu veiðar fyrir heimamarkað en alþjóðleg verslun með hvalaafurðir skyldi bönnuð.
    Sú ástæða sem Bandaríkjastjórn tilgreinir helst fyrir andstöðu sinni við veiðar á langreyðum hér við land er að alþjóðleg verslun með hvalaafurðir stríði gegn ákvæðum CITES.

Kostnaður af hvalveiðum.
    Íslenska ríkið hefur um langt árabil lagt til mikið fé til að efla hvalveiðar og kynna málstað Íslands. Má þar nefna vísindaveiðar árin 1986–1989 og aftur 2003–2007. Enn fremur var samþykkt á Alþingi þingsályktun um hvalveiðar í mars 1999 þar sem kveðið var á um að Ísland væri ekki lengur bundið af samþykkt Alþingis frá 1983 um að hlíta hvalveiðibanninu auk þess sem ríkið mundi standa straum af kostnaði til að „kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar.“
    Til að unnt sé að meta hag Íslands af hvalveiðum er brýnt að fyrir liggi hversu miklu fé hefur verið varið af hálfu ríkisins til kynningar á hvalveiðistefnu Íslands frá árinu 1999 í samræmi við ályktun Alþingis. Mikilvægt er að fram komi hver heildarkostnaðurinn hefur verið frá árinu 1999.

Staðfestingarkærur í Bandaríkjunum.
    Í samræmi við Pelly-viðaukann við lög um fiskveiðar hafa ítrekað verið gefnar út staðfestingarkærur þess efnis að hvalveiðistefna Íslands ógni verndaraðgerðum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Bandaríkin hótuðu ítrekað að beita ákvæðum Pelly-viðaukans á árunum 1986– 1989 þegar deilan um áætlun Íslands um vísindaveiðar stóð sem hæst. Í stað 200 hvala á ári líkt og upphaflega var stefnt að var dregið úr veiðunum og síðasta árið var fjöldi veiddra dýra kominn niður í 68 dýr.

    Árið 2004 gaf viðskiptaráðherra Bandaríkjanna út staðfestingarkæru gegn Íslandi og tveimur árum síðar var hún endurnýjuð af Carlos M. Gutierrez viðskiptaráðherra. Árið 2011 var enn gefin út staðfestingarkæra og í kjölfarið sendi Obama forseti þinginu skýrslu um til hvaða aðgerða hann hygðist grípa til að fylgja eftir staðfestingarkærunni. Nýverið gaf svo bandaríska innanríkisráðuneytið út staðfestingarkæru þess efnis að hvalveiðar við Ísland brjóti gegn banni CITES við verslun með hvalaafurðir og kynnti Obama forseti aðgerðir þess vegna hinn 1. apríl sl. Mikilvægt er að fram komi um hvaða efnahagslegu og pólitísku hagsmuni er að ræða.

Jafnvægi í lífríki sjávar.
    Iðulega hafa komið fram rök þess efnis að hvalveiðar séu nauðsynlegar til að halda jafnvægi í lífríki sjávar. Mikilvægt er að slíkar fullyrðingar byggist á niðurstöðum vísindarannsókna. Við mat á hagsmunum sjávarútvegs þarf að fara yfir hvort slíkar rannsóknarniðurstöður hafi verið birtar í viðurkenndum vísindatímaritum og hvort sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar telji að núverandi hvalveiðar skipti máli fyrir jafnvægi í lífríki sjávar.

Nefnd um hvalveiðar.
    Hinn 20. nóvember 2012 skipaði þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra nefnd til að fara yfir gildandi löggjöf á sviði sjávarspendýra og til að setja fram tillögur að stefnumörkun. Nefndin átti að fjalla sérstaklega um griðasvæði hvala og dýraverndarsjónarmið. Henni var einnig ætlað að meta efnahagslega þýðingu veiðanna og stöðu ímyndarmála sem tengjast hvalveiðum og möguleg áhrif þeirra á aðrar atvinnugreinar. Mikilvægt er að hagsmunamatið taki mið af þeirri vinnu eftir því sem við á.
    Mikilvægt er að óháð mat á hagsmunum Íslands vegna hvalveiða fari fram. Þar verði skoðaður efnahagslegur ávinningur, svo sem hagnaður, útflutningstekjur og atvinnusköpun af hvalveiðum annars vegar og hvalaskoðun hins vegar. Þá verði lagt mat á hvort þessar atvinnugreinar geti þrifist samhliða á sömu slóðum. Einnig verði lagt mat á hvort hvalveiðar skaði viðskiptahagsmuni Íslands og aðra hagsmuni á alþjóðavettvangi.