Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 37  —  37. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl.,
með síðari breytingum (lögbann, fjárhagslegir hagsmunir).

Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir,
Brynhildur Pétursdóttir, Birgitta Jónsdóttir.


1. gr.

    2. tölul. 3. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: ef sýnt þykir að lögbannið valdi gerðarþola skaða eða óhagræði sem bersýnilega er ekki í réttu hlutfalli við hagsmuni lögbannsbeiðanda af því að lögbannsbeiðni nái fram að ganga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þetta frumvarp var áður flutt á 143. löggjafarþingi (281. mál). Það gekk til allsherjar- og menntamálanefndar en fór ekki í umsagnarferli og hlaut ekki afgreiðslu. Það er endurflutt án breytinga.
    Lengi hefur verið stuðst við þá kenningu að hagsmunamat takmarki svigrúm til að leggja á lögbann. Lögmæti eða ólögmæti athafnar hefur þá ráðist af hagsmunamati þar sem vegnir og metnir hafa verið hagsmunir þess sem hefst að og hagsmunir þess sem telur athöfn raska rétti sínum. Sumir hafa bent á að miklir og yfirgnæfandi hagsmunir framkvæmdaraðila gætu gert athöfn löglega á þann hátt að fjárhagslegir yfirburðir hans gætu gert að engu eignar- og umráðarétt þess sem fyrir tjóni hefur orðið vegna framkvæmdarinnar. Lagabreytingin, sem þetta frumvarp miðar að, felst í því að afnema þá skipan að fjárhagslegir yfirburðir hafi áhrif á það hvort lögbannsbeiðni nái fram að ganga.
    Sigurður Gizurarson hæstaréttarlögmaður benti á það í greininni „Gálgahraun og peningar“, sem birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2013, að 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 skyldar sýslumann til þess að synja um kröfu um lögbann við tiltekinni framkvæmd ef hagsmunir framkvæmdaraðila eru miklir og reidd er fram trygging fyrir hugsanlegu tjóni af lögbanninu. Veldur þetta því, að mati lögmannsins, að fjárhagsleg sjónarmið ber hærra en önnur við mat á forsendum lögbanns og fjárstyrkur ræður því í raun hvort aðili fær varist lögbanni eða ekki. Ákvæði þess efnis að hagsmunamat geti leitt til þess að lögbann verði talið ólögmætt og setningu þess hafnað er að finna í norskri og danskri löggjöf. Í Noregi er mælt fyrir um þetta í „Tvisteloven“, sjá § 34-1, 2. tölul., 1 og í Danmörku gildir 2. mgr. 414. gr. „Retsplejeloven“. 2 Þessi ákvæði innleiða meðalhófsreglu í lögbannsákvæðin sem gerir stjórnvaldi skylt að vega og meta hagsmuni gerðarbeiðanda og gerðarþola með tilliti til áhrifa lögbannsins. Danska ákvæðið er talið undantekningarákvæði sem einungis verði beitt þá sjaldan verulegur munur reynist vera á hagsmunum lögbannsbeiðanda af því að fá lögbanninu komið á og þeim skaðlegu afleiðingum sem lögbannið veldur gerðarþola, sbr. Reform af den civile retspleje VII. Midlertidige afgørelser om forbud og påbud. Betænkning nr. 1530. København 2012, bls. 24, 108–109. Þetta mat skal fara fram án tillits til getu gerðarbeiðanda til að leggja fram tryggingu. Verði frumvarp þetta að lögum verður sami háttur tekinn upp í íslenska löggjöf og fortakslausu skylduákvæði breytt í heimildarákvæði. Með því verður dregið úr áhrifum peningavalds á lögbannsbeiðnir og möguleikar sýslumanns á að leggja á þær hlutlægt mat auknir.
Neðanmálsgrein: 1
1     Ákvæðið hljóðar svo: „(2) Midlertidig forføyning kan ikke besluttes dersom den skade eller ulempe som saksøkte blir påført står i åpenbart misforhold til den interesse saksøkeren har i at forføyning blir besluttet.“
Neðanmálsgrein: 2
2     Ákvæðið hljóðar svo: „Retten kan nægte at meddele forbud eller påbud, hvis det vil påføre modparten skade eller ulempe, der står i åbenbart misforhold til partens interesse i meddelelse af forbuddet eller påbuddet.“