Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 42  —  42. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu ísaldarurriðans í Þingvallavatni.


Flm.: Össur Skarphéðinsson, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir,
Páll Jóhann Pálsson, Páll Valur Björnsson,
Kristján L. Möller, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að setja á laggir vinnuhóp sérfræðinga sem kanni leiðir til að efla viðkomu ísaldarurriðans í vatnakerfi Þingvalla­vatns. Verkefni hans skulu m.a. felast í eftirfarandi:
     1.      Meta hvort bæta megi riðstöðvar með riðmöl þar sem stofnar eru taldir veikir, hafa horfið eða þar sem tilraunir til að koma stofnum upp á nýjan leik ganga hægt. Skal skoða sérstaklega svæði sem tengjast eyjunum syðst í Úl­fljótsvatni, Efra-Sogi öllu, Útfallinu, en einnig Grafningsánum báðum. Jafnframt skal meta hvort hægt sé og réttlætanlegt að bæta hrygningarskilyrði með sama hætti í farvegi Öxarár.
     2.      Greina reynslu af fyrri sleppingum sumaralinna og ársgamalla seiða, sem og greftri frjóvgaðra hrogna í riðmöl, í því skyni að leggja til aðferðir sem líklegastar eru til að styrkja eða koma á fót nýjum átthagabundnum stofnum. Einkum skal þá horft til Útfallsins, Efra-Sogs, Villinga­vatnsár og annarra smærri hrygningarstaða.
     3.      Kanna leiðir til að styrkja hrygningu örstofna við uppsprettur, svo sem fyrir Nesjahrauni og Eldborgarhrauni.
     4.      Skoða hvort æskilegt sé að settar verði samræmdar veiðireglur varðandi urriða fyrir allt Þingvallavatn og Efra-Sog.
    Vinnuhópurinn skili ráðherra niðurstöðum fyrir 1. júní 2015.

Greinargerð.

    Frá níunda áratugnum hefur ýmsum aðferðum verið beitt til að efla viðgang ísaldarurriðans í vatnakerfi Þingvalla­vatns. Á þeim tíma var orðið ljóst að stofninn var í miklum háska eftir virkjun Efra-Sogs árið 1959 og notkun Þingvalla­vatns sem miðlunarlóns. Fyrir aðgerðunum stóðu Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur í samráði við sérfræðinga. Stofnanirnar gerðu hlé á þeim eftir 2004. Á þeim tíma var þó hugsanlegur árangur fráleitt kominn fram.
    Í dag bendir hins vegar ýmislegt til að aðgerðirnar hafi skilað árangri. Það birtist m.a. í meiri urriðagengd í Öxará, og aukinni veiði stangveiðimanna í vatninu. Athyglisvert er að á allra síðustu árum er vaxandi fjöldi mjög stórra urriða að koma fram í veiðinni.
    Allgóðar vísbendingar eru um að með aðgerðunum hafi tekist að koma upp vísi að stofnum á nýjan leik í Útfallinu og Efra-Sogi. Í kjölfar sleppinga seiða af Öxarárstofni í suðurhluta ­vatnsins og hrognagreftri hefur jafnframt orðið vaxandi urriðagengd við Ölfus­vatnsá í Grafningi. Þar hefur veiði glæðst á seinni árum, og þó mest á líðandi ári, og varað lengur fram eftir sumri en áður.
    Í ljósi jákvæðs árangurs af sleppingum og endurbótum á riðstöðvum má færa góð rök fyrir því að ótímabært hafi verið að hætta stuðningsaðgerðum við stofnana. Flestir eru þeir enn langt frá fyrri stærð. Því til stuðnings benda flutningsmenn á að samkvæmt upplýsingum í svari iðnaðar- og við­skipta­ráðherra í þingskjali 1061 í 542. máli 143. þings kemur fram að hrygning sem hófst á síðasta áratug í Útfallinu og Efra-Sogi virðist ekki hafa aukist að neinu ráði frá því 2009. Því er sérlega mikilvægt að haldið sé áfram liðsinni við stofna sem þar verjast í vök. Um leið þarf að grafast fyrir ástæður þess að hrygning þar hefur ekki náð sér á frekara strik.
    Flutningsmenn telja því tímabært að hæfustu sérfræðingar meti árangur allra aðferða sem beitt hefur verið og hvernig ráðlegast sé að halda áfram þeim sem best hafa virkað. Í því felst ábyrg afstaða gagnvart framtíð ísaldarurriðans og lífríki vatnakerfis Þingvalla.
    Vakin er athygli á því að í skýrslu frá 2011 um vistheimt í kjölfar virkjana þar sem aðgerðir til að endurreisa urriðann í Þingvallavatni eru metnar virðist Landsvirkjun vera sömu skoðunar. Niðurstaða hennar er að aðgerðirnar hafi skilað ágætum árangri „…en þær hafi ekki verið fullreyndar.“

Efnisatriði tillögunnar.
     Niðurburður riðmalar. Í fyrsta lið tillögugreinarinnar er lagt til að metið verði hvort hægt sé að bæta hrygningarskilyrði enn frekar með því að bera niður riðmöl á þeim stöðum sem þar eru upp taldir. Farsæl hrygning urriða krefst súrefnisríks straum­vatns og heppilegrar riðmalar. Samkvæmt fyrrnefndu svari iðnaðar- og við­skipta­ráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns virðist sú aðferð þegar hafa gefið góða raun í vatnakerfi Þingvalla­vatns.
    Meta þarf hvort hægt væri að ná upp aukinni hrygningu á hinum fornu riðstöðvum í Útfallinu með því að auka enn frekar riðmöl þar sem aðstæður eru taldar heppilegar miðað við straum. Sama mat þarf að fara fram á öllu svæði Efra-Sogs en að óbreyttu er botn þess ekki sérlega hagstæður fyrir hrygningu. Hugsanlega mætti því stórauka framleiðslugetu Efra-Sogs með endurbótum bæði á fornfrægum riðstöðvum í efri hluta árinnar en einnig með því að bæta riðmöl í neðri hluta hennar.
    Um farveg Efra-Sogs rennur nú jafnmikið vatn og Öxará sem í dag stendur undir hrygningarstofni ríflega 800 stórurriða. Alþingi hefur þegar samþykkt að gerður verði fisk­vegur úr vatninu niður í Efra-Sog. Samanlagt gætu þessar aðgerðir hugsanlega skapað möguleika á að koma upp stærri hrygningarstofni en á sér óðul í dag undan Drekkingarhyl í Öxará. Þá þarf í senn að skapa góð hrygningarskilyrði og tryggja greiða för bæði seiða og hrygningarfiskjar milli árinnar og vatnsins. Tækist að ná stórum stofni upp í Efra-Sogi mundi það gulltryggja framtíð ísaldarurriðans í vatnakerfi Þingvalla­vatns.
    Úl­fljótsvatn er hluti af vatnakerfi Þingvalla­vatns. Nýlegar merkingar á urriðum í Þingvallavatni sýna að stórurriði gengur um Efra-Sog niður í Úl­fljótsvatn. Áður en Úl­fljótsvatn var hækkað í þágu orkuframleiðslu hrygndi urriðinn í vatninu, einkum við eyjarnar í suðurhluta vatnsins. Í skýrslum Veiðimálastofnunar hefur verið bent á að í straumnum við eyjarnar mætti hugsanlega koma upp hrygningu á nýjan leik með því að bæta í riðmöl.
    Mögulega gæti niðurburður á riðmöl bætt hrygningarskilyrði Villinga­vatnsár og Ölfus­vatnsár. Hugsanlega gildir sama um uppsprettur sem falla í vatnið og urriði nýtti forðum til hrygningar.
    Í Öxará hefur hrygning allt að tífaldast frá því að rannsóknir á urriðastofni hennar hófust. Nú ganga ríflega 800 urriðar í ána til hrygningar. Hún er þó einungis fiskgeng á 650 metra kafla en langmest af hrygningunni er þó á stuttum kafla, ríflega 100 metra löngum, skammt neðan Drekkingarhyls. Ekki er útilokað að hægt væri að auka framleiðslu Öxarár með nýrri riðmöl á heppilegum stöðum. Það er þó álitamál þar sem hinn fiskgengi hluti árinnar liðast um helgasta stað þjóðarinnar, þar sem Alþingi var háð frá 930 til 1799.
     Seiðasleppingar, gröftur hrogna. Í öðrum lið tillögunnar er lagt til að metið verði hvaða leiðir við fjölgun urriða séu heppilegastar, þ.e. slepping sumaralinna seiða, ársgamalla, og/ eða gröftur frjóvgaðra hrogna í riðmöl. Í fyrrnefndu svari iðnaðar- og við­skipta­ráðherra kemur skýrt fram að sleppingar í suðurhluta vatnsins, og gröftur hrogna, hafa skipt máli án þess að mikilvægi einstakra aðferða sé greint. Þessar aðgerðir hafa samanlagt leitt til styrkingar stofnsins í Ölfus­vatnsá og búið til vísi að nýjum, staðbundnum stofnum, bæði í Útfallinu og Efra-Sogi. Mikilvægt er að fá tillögur sérfræðinga um hvaða leiðir séu líklegastar til að efla hrygningu á þessum stöðum enn frekar. Sama gildir um önnur svæði sem hugsanlega mætti nýta til aukinnar viðkomu ísaldarurriðans.
     Örstofnar við uppsprettur. Þriðji liður tillögugreinarinnar lýtur að því að meta hvort, og þá hvernig, hægt væri að efla hrygningu örstofna við lindir sem koma upp um hraunsprungur sem ganga um strandlengju vatnsins. Hjá mörgum gætir vantrúar á að hrygning sem máli skiptir eigi sér stað við slíkar aðstæður. Líffræðilega virðist það þó rökrétt. Hjá laxfiskum er þekkt að svolítill hluti stofna leitar milli hrygningarstaða. Í góðu árferði þegar mikið er um urriða, ekki síst ef allar hrygningarslóðir eru fullsetnar, er líklegt að kynþroska urriði notfæri sér öll svæði þar sem straumur og möl bjóða upp á hrygningu. Þannig er líklegt að hrygning örstofna hafi í árdaga hafist við uppsprettur. Seiðin, sem þar hafa klakist, hafa efalítið líkt og annað ungviði laxfiska bundist átthagaböndum við fæðingarstrauminn, og leitað þangað aftur við kynþroska. Þannig hefur í upphafi orðið til sérstakur örstofn við hverja lind þar sem skilyrði voru til hrygningar. Niðurstöður Jóhannesar Sturlaugssonar benda til að seiði tengist átthagaböndum við sleppistaði. Í Mývatni hrygnir urriði líka við uppsprettur þar sem súrefnisríkt vatn leitar upp um malarborið hraun.
    Gamlir bændur, svo sem Ingólfur Ottesen í Miðfelli og Óskar Ögmundsson í Kaldár­höfða, voru sannfærðir um hrygningu örstofna við lindir og nefndu nokkur svæði þar sem þeir sáu urriða í hrygningu við uppsprettur. Benedikt Sveinsson, sem fylgst hefur með urriðaferð í landi Ölfus­vatns, sá bæði þegar hrygning lagðist af við lindir á grynningum upp úr 1990 og þegar hún hófst aftur á síðasta áratug. Í bókinni Urriðadansi er lýst hátt á annan tug mögulegra hrygningarstaða örstofna og byggt þar á reynslu bænda við vatnið. Ein skýringin á góðri urriðaveiði síðustu missirin kann að vera sú að töluverður stórurriði sé að koma inn í veiðina frá slíkri örhrygningu víðs vegar um vatnið. Samkvæmt Jóni Ólafssyni prófessor falla a.m.k. 14 uppsprettur í Þingvallavatn fyrir Nesjahrauni og nokkrar eru þekktar fyrir Eldborgarhrauni.
    Erfitt er að benda á leiðir til að bæta hrygningu slíkra örstofna eða koma henni upp. Hugsanlega mætti skoða sleppingar við slík svæði þar sem lítið er um urriða um þessar mundir. Sá er hængur á að engar rannsóknir eru í gangi sem gefa upplýsingar um hrygningu örstofna eða magn fiskjar við uppsprettur um hrygningartímann. Þar, og annars staðar, mætti ef til vill beita ströngum reglum um veiði og hugsanlega banna meðan kannað er hvort stofnar þar nái sér á strik.
     Samræmdar veiðireglur. Veiðiálag á urriðann er að aukast hratt. Stofninn er hins vegar enn það lítill og viðkvæmur að hægt er að skemma hann verulega með kraftaveiði. Þess vegna er mikilvægt að koma á skýrum og hnitmiðuðum veiðireglum. Það gildir ekki síst um allra stærsta fiskinn einsog síðar er rökstutt. Sleppingar eru góðu heilli smám saman að verða að meginreglu hjá ábyrgum veiðimönnum, ekki síst hinum nýju kynslóðum þeirra. Þar gætir m.a. áhrifa alþjóðlegra samtaka eins og Continental Trout Conservation Fund sem berjast fyrir sleppingum veiddra urriða þegar um veika stofna er að ræða.
    Sérstaklega er mikilvægt að verja stærstu urriðana. Fyrir því eru a.m.k. þrjár ástæður: Í fyrsta lagi er hugsanlegt að með því séu varðar arfgerðir sem kunna að stýra miklum vexti. Í öðru lagi er staðreynd að stórar hrygnur framleiða miklu fleiri hrogn, þau eru stærri og seiðin úr þeim sömuleiðis stærri en úr minni hrognum. Lífslíkur þeirra eru því meiri. Þar að auki hafa rannsóknir Jóhannesar Sturlaugssonar í Öxará sýnt fram á að gagnstætt því sem áður var talið teygist hrygning fram í janúar. Hann hefur sýnt fram á að það eru einmitt stærstu fiskarnir sem hrygna þá. Þetta skiptir miklu máli fyrir viðkomu Öxæringsins. Fram eftir hausti er alltaf hætt við hamfaraflóðum í ánni sem getur spillt klaki. Í janúar er hættan á hamförum í ánni að mestu liðin hjá. Af þessum ástæðum skiptir miklu máli að vernda stóru fiskana sem hrygna í janúar. Þeir eru viðbótartrygging fyrir farsælli hrygningu í Öxará.
    Veiði á urriða er langmest í upphafi veiðitímabilsins. Urriðinn heldur sig þá við grynningar nærri ströndum og nærist á skordýrum. Þegar ferð kemur á murtuna með hækkandi hitastigi og hún gengur í ætisleit út á djúpið slæst urriðinn í för með henni. Upp við ströndina snemma vors er því urriðinn gráðugur og auðveiddur. Samræmdar veiðireglur geta því veitt honum mikilvæga vernd. Reglur Þingvallanefndar kveða skýrt á um að á þessum tíma, frá upphafi veiðitímans 20. apríl til 1. júní, megi einungis veiða á flugu, sleppa verður öllum urriða sem veiðist á stöng og ekki má veiða á báti. Orkuveita Reykjavíkur lætur sömu reglur gilda allt tímabilið fyrir sínum löndum. Mikilvægt er að fá mat sérfræðinga á því hvaða reglur eru bestar fyrir vatnið í heild og stuðla að því að allir veiðiréttarhafar taki upp sömu reglur um stangveiði.

Sérstaða ísaldarurriðans.
    Ísaldarurriðinn í Þingvallavatni hefur algera sérstöðu meðal þekktra urriðastofna. Hann er síðustu leifar stórvaxins urriða sem kom fram í lok síðustu ísaldar. Varinn af ókleifum fossum í Soginu hefur Þingvallaurriðinn lifað einangraður í níu þúsund ár og því aldrei blandast smærri urriða sem síðar nam vötn um Norður-Evrópu.
    Ísaldarurriðinn býr yfir einstakri arfgerð sem einkum felst í háum aldri, síðbúnum kynþroska, sem við fæðugnótt Þingvalla­vatns stuðlar að aukinni stærð. Að auki tekur hluti stofnsins sér gjarnan árshvíld frá hrygningu þegar aldurinn færist yfir og notar hana til að vaxa enn frekar. Þessir eiginleikar, ásamt auðveiddum torfufiski í formi 20–30 milljóna murta, samtals um 6–700 tonna, gera urriðann í Þingvallavatni stærri en þekkist annars staðar á byggðu bóli. Enginn laxastofn á Íslandi hefur sömu meðalstærð við kynþroska og Þingvallaurriðinn.

Áföll með virkjun Efra-Sogs.
    Stórurriðinn í Þingvallavatni hefur gengið í gegnum margvíslegar hremmingar. Þær voru ítarlega raktar í bókinni Urriðadansi (1996) og þingmálum sem varða vernd urriðans sl. 20 ár. Í stuttu máli, þá gjöreyddi virkjun Efra-Sogs 1959 langmikilvægasta hrygningarstofninum sem hrygndi úti fyrir ánni og í efri hluta hennar. Slys við gerð virkjunarinnar á þjóðhátíðardaginn 1959 leiddi til þess að riðmöl í grennd við munna jarð­ganganna niður í Steingrímsstöð sópaðist burt. Eftir stóðu naktar klappir þar sem enginn urriði gat hrygnt. Brött notkun Þingvalla­vatns sem miðlunarlóns í kjölfar virkjunar leiddi til mikilla og ónáttúrulegra sveiflna á yfirborði vatnsins. Þær höfðu mjög neikvæð áhrif á örstofna sem hrygndu við uppsprettur á grunnu vatni þar sem heppileg riðmöl var til staðar. Breytt vatnsstaða, yfirborðssveiflur og hraðsig í norðurenda vatnsins kunna að hafa leitt til þess að samhliða dró verulega úr hrygningu í Öxará. Um 1990 sáust þar sum árin aðeins örfá pör í hrygningu. Á þessum tíma lagðist því allt á eitt um ógæfu ísaldarurriðans.

Hvarf urriðans.
    Um 40 ára skeið eftir virkjun Efra-Sogs dvínaði urriðinn því verulega. Um sinn varð lítils urriða vart í veiðinni. Þannig þótti sérstakt fréttaefni um hríð ef stórurriði veiddist á stöng. Í netaveiði var urriði fyrir virkjun yfirleitt um 4–5% í norðurhluta vatnsins, svo sem Skálabrekku og Vatnskoti, um 8–10% í Miðfelli, en upp í fjórðung afla í suð­austurhluta þess. Úr tilraunaveiðum í net eru vísbendingar um að hlutfallið hafi farið niður fyrir 1%. Landsvirkjun sjálf mat stöðuna þannig í nýlegri skýrslu um vistheimt að urriðinn hafi á níunda áratugnum ekki lengur verið sjálfbær stofn.
    Engar rannsóknir höfðu verið gerðar á urriðanum áður en stærsti stofninn fór forgörðum með virkjuninni 1959. Fram að henni var Þingvallavatn enn í erfiðu vegasambandi, varðandi stangveiði var öll áhersla Íslendinga á þeim tímum á lax, og neðar í Soginu var einmitt að finna einn stærsta og frægasta stórlaxastofn landsins. Urriði var á þessum tíma í besta falli álitinn annars flokks veiðifiskur. Örfáir bændur þekktu stærð hans og magn í vatninu frá því veldi hans stóð sem sterkast fyrir virkjun. Nokkrir stangveiðimenn vissu af stórurriðanum en nær enginn sótti sérstaklega í hann. Þegar urriðinn hvarf sætti það þess vegna engum sérstökum tíðindum. Það vissu einfaldlega fáir af tilvist hans, og eftir virkjun hvarf hann að mestu úr veiðinni. Nýjar kynslóðir stangveiðimanna uxu upp án þess að hafa nokkru sinni kynnst honum nema af stopulum frásögnum.
    Þegar ráðist var í nær tveggja áratuga rannsóknir á Þingvallavatni, vatnsbúskap þess og lífríki, þar sem m.a. bleikjuafbrigðin fjögur og meira að segja hornsílið voru rannsökuð út í hörgul, komst urriðinn aldrei á blað. Veiðimálastofnun eigum við að þakka þær fátæklegu upplýsingar sem þó urðu til um hagi urriðans í Þingvallavatni á mesta niðurlægingarskeiði hans. Af naumum efnum hefur stofnunin jafnan gert sitt besta til að fylgjast með framvindu urriðans. Rannsóknir á honum hófust svo fyrir alvöru 1999 með ákvörðun Þingvallanefndar um rannsóknirnar í Öxará. Miklu meiri rannsókna er þó þörf til að skilja flókna stöðu urriðastofnanna í vatninu og skapa þannig betri grunn aðgerða til að byggja þá upp.

Ábyrgð og frumkvæði Alþingis.
    Það var á Alþingi Íslendinga sem kastljósinu var beint að uggvænlegri og versnandi stöðu ísaldarurriðans. Upp úr 1990 varð tilvistarkreppa hans margsinnis að umræðuefni í sölum Alþingis. Í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1991–1995 var staða hans og leiðir til björgunar einnig rædd, formlega og óformlega. Úr þingtíðindum má lesa að hann átti hauka í horni meðal afrendra alþingismanna einsog Davíðs Oddssonar, Halldórs Blöndal og Guðna Ágústssonar. Bók fyrsta flutningsmanns, Urriðadans, var tilraun til að safna saman allri þekkingu um hinn einstaka fisk, bæði úr skriflegum heimildum og í munnlegri geymd meðal gamalla veiðibænda við vatnið. Tilgangur hennar var að opna augu stjórnvalda og almennings, ekki síst stangveiðimanna, fyrir því að ísaldarurriðinn væri á hraðri leið í glatkistu sögunnar yrði ekki tafarlaust gripið til aðgerða. Í kjölfarið samþykkti Alþingi m.a. tillögu nokkurra þingmanna um aðgerðir til að styrkja urriðastofna í Þingvallavatni.
    Þrýstingur á stjórnvöld leiddi til fyrstu markvissu aðgerðanna á níunda áratugnum þegar Veiðimálastofnun og Landsvirkjun stóðu fyrir sleppingum á seiðum undan klakfiski úr Öxará. Vatni var hleypt aftur í takmörkuðum mæli niður Efra-Sog, þó einungis um 1/20 af fyrra rennsli árinnar. Þá hafði um áratuga skeið mátt ganga þurrum fótum um farveginn. Strax um miðbik þess áratugar voru líka gefin fyrstu fyrirheitin um gerð fiskvegar milli Þingvalla­vatns og árinnar. Samkomulag náðist líka um takmörkun á yfirborðssveiflum í vatninu. Sú aðgerð, ásamt sleppingum, bjargaði að líkindum urriðanum þegar hann var að sogast niður í svelg sögunnar.
    Ísaldarurriðinn í Þingvallavatni er órjúfanlegur hluti af lífríki Þingvalla­vatns. Á síðustu tveimur áratugum hefur Alþingi látið málefni þess til sín taka í vaxandi mæli. Það hefur sett lög um stækkun þjóðgarðsins og sérstök lög um vernd Þingvalla­vatns. Í þeim er að finna mikilvæg ákvæði um vernd búsvæða bæði ísaldarurriðans og kuðungableikju. Önnur ákvæði sömu laga veita stjórnvöldum mikilvægar heimildir til að takmarka yfirborðssveiflur. Samþykkt svæðisins inn á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2005 var einnig afar mikilvæg með tilliti til verndunar lífríkis á svæðinu. Allar þessar aðgerðir voru innan þingsins að frumkvæði Þingvallanefndar sem þá laut vasklegri forustu Björns Bjarnasonar.

Verndaraðgerðir Þingvallanefndar.
    Þingvallanefnd hefur beitt sér fyrir vernd og eflingu ísaldarurriðans með margvíslegum öðrum hætti. Má þar nefna reglur um urriðaveiði sem Þingvallanefnd hefur sett til að vernda stofninn fyrir ofveiði. Fyrsta skrefið var tekið 2008 og fólst í að heimila einungis flugu, spún og maðk til stangveiða. Það var gert til að stemma stigu við ofstopaveiði þar sem beitt var stórum margkrækjum og ýmiss konar beitu, svo sem makríl. Vorið 2014 steig nefndin svo annað mikilvægt skref þegar hún ákvað að frá upphafi veiðitímans 20. apríl og til 1. júní yrði einungis heimilt að veiða á flugu, öllum urriða yrði að sleppa og ekki var heimilt að veiða af báti.
    Jafnframt tókst samvinna með starfsmönnum nefndarinnar og stangveiðimönnum um veiðivörslu til að sporna gegn veiðiþjófum sem lögðu sig eftir stórurriða. Komu 15 sjálfboðaliðar úr röðum stangveiðimanna til liðs við nefndina í þeirri varnarbaráttu. Það samstarf er til fyrirmyndar, sýnir lofsverða ábyrgð af hálfu stangveiðimanna og er bæði þeim og Þingvallanefnd til sóma.
    Í þessu samhengi skal bent á að engin veiðivarsla er við Efra-Sog þar sem nýr stofn hefur átt í erfiðleikum með að dafna. Iðnaðar- og við­skipta­ráðherra upplýsti í fyrrnefndu svari til fyrsta flutningsmanns að Landsvirkjun og fiskifræðingum væri kunnugt um að töluverður veiðiþjófnaður á sér þar stað. Miðað við umræður á samskiptamiðlum má ætla að hann sé umtalsverður og standi vexti hins nýja stofns fyrir þrifum. Á slíkum miðlum hafa menn jafnvel birt myndir af sér með yfir 20 punda urriða ofarlega í ánni.
    Það var einnig Þingvallanefnd sem ákvað að ráðist yrði í merkar rannsóknir á urriðastofninum í Öxará, sem hófust 1999 undir forustu Jóhannesar Sturlaugssonar fiskifræðings. Þær hafa skilað stórmerkum upplýsingum um lífshætti og atferli urriðans sem telja má einstakar í heiminum.

Mikilvægi fiskvegar.
    Upp úr aldamótum, þegar verst horfði með framtíð stofnsins, tók Þingvallanefnd svo stórt skref þegar hún samþykkti stefnumörkun til 20 ára þar sem því var lýst sem einu meginmarkmiða að gerður yrði fisk­vegur milli Þingvalla­vatns og Efra-Sogs. Tilgangurinn var að skapa skilyrði nýjum hrygningarstofni í efri hluta árinnar. Áður er rakið að hrygning þar, og í Útfallinu úti fyrir ármynninu, var langmikilvægasta stoðin undir ísaldarurriðanum fyrir virkjunina 1959.
    Undir mikilvægi fiskvegarins hafa bæði núverandi ríkisstjórn og Alþingi tekið með afdráttarlausum hætti. Í svari við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns í vor lýsti Sigurður Ingi Jóhannsson um­hverfis- og auðlindaráðherra því yfir að fisk­vegurinn væri sú aðgerð „sem skiptir líklega mestu varðandi vernd urriðans.“ (Þingskjal 1305 í 581. máli 143. þings.) Alþingi lýsti sömu skoðun með því að samþykkja þingsályktun nr. 47/143, þar sem kveðið er á um að fiskveg skuli gera milli Efra-Sogs og Þingvalla­vatns.
    Í rökréttu fram­haldi af fyrri aðkomu Alþingis að málefnum ísaldarurriðans er lagt til að þingið samþykki þær aðgerðir sem reifaðar eru í tillögunni.

Verkstjórn forsætisráðherra.
    Forsætisráðherra er sá ráðherra sem innan stjórnsýslunnar fer með málefni þjóðgarðs á Þingvöllum samkvæmt verkaskiptingu Stjórnarráðsins. Hann samræmir jafnframt samstarf ráðuneyta ef um þverfagleg verkefni er að ræða. Tillagan felur því í sér að forsætisráðherra verði falið að framkvæma tillöguna hljóti hún brautargengi Alþingis.