Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 95  —  95. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944,
með síðari breytingum (fánatími).

Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir,
Frosti Sigurjónsson, Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson,
Þorsteinn Sæmundsson, Ásmundur Einar Daðason.


1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Með reglugerð skal kveða á um fánadaga.
    Fána skal ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og skal hann ekki vera uppi lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
    Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. má fáni vera uppi allan sólarhringinn frá 15. maí til 15. ágúst ár hvert eða á öðrum tímum ef hann er flóðlýstur. Nú er fáni flóðlýstur og skal þá gætt að áhrifum lýsingarinnar á nánasta umhverfi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Í sex mánuði eftir samþykkt laga þessara skal ráðuneytið kynna nýjar reglur um notkun þjóðfánans með það að markmiði að auka notkun hans.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 143. þingi (86. mál).
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, í því skyni að rýmka þann tíma sem fáni má vera við hún. Lögin hafa litlum breytingum tekið frá samþykkt þeirra. Eina efnislega breytingin sem gerð hefur verið á lögunum var með lögum nr. 67/1998 en þær snerust um notkun fánans. Frumvarpið sem varð að þeim lögum var undirbúið af nefnd sem var falið að endurskoða lögin, einkum ákvæði 12. gr. (106. mál á 117. löggjafarþingi).
    Samkvæmt 7. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið skal í reglugerð kveða á um fánadaga og hve lengi halda megi fána við hún. Í 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 5/ 1991, um fánadaga og fánatíma, er kveðið á um að fána skuli ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skuli hann ekki vera lengur uppi en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis. Þá er sérstakt ákvæði um útisamkomur, opinberar athafnir o.fl. þar sem mælt er fyrir um að fáni megi vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn vari en þó aldrei lengur en til miðnættis.
    Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna. Lagt er til að ákvæði forsetaúrskurðarins hvað varðar fánatímann færist í sjálf lögin og því er í 1. mgr. kveðið á um að reglugerð ráðherra lúti þá einungis að fánadögum. Þá er lagt til að í sérstakri málsgrein verði mælt fyrir um undantekningar í þá veru að fáninn geti í ákveðnum tilvikum verið uppi fram yfir miðnætti, þ.e. annars vegar yfir bjartasta tímann hér á landi, 15. maí til 15. ágúst ár hvert, og hins vegar ef fáninn er flóðlýstur. Einnig er lagt til að breyttar reglur um notkun fánans verði sérstaklega kynntar almenningi í sex mánuði eftir að lögin öðlast gildi verði frumvarpið að lögum.
    Tilgangur frumvarpsins er að auka almenna notkun þjóðfánans. Þannig þyrfti ekki yfir sumarið að hafa áhyggjur af því að brjóta lögin heldur gæti fáninn verið við hún allan sólarhringinn. Benda má á að yfir hluta þessa tímabils er sólsetur eftir miðnætti og sólarupprás skömmu síðar.
    Á fyrri þingum hafa verið lagðar fram fyrirspurnir, tillögur til þingsályktunar og frumvörp til laga sem varða breytingar á lögunum í því skyni að rýmka fánatímann og að auka notkun fánans við markaðssetningu íslenskra vara. Á 138. löggjafarþingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um að fela forsætisráðherra að setja reglugerð um notkun þjóðfánans í því skyni að rýmka þann tíma sem fáni má vera uppi (641. mál). Á 139. löggjafarþingi var sambærileg tillaga til þingsályktunar lögð fram (9. mál). Um hana bárust umsagnir frá skátunum, Félagi þjóðfræðinga, Háskólanum á Akureyri og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Flestir sem skiluðu umsögn fögnuðu tillögunni og komu fram athyglisverðar athugasemdir, svo sem að ganga mætti enn lengra, að afla þyrfti frekari upplýsinga um óskir almennings hvað varðar notkun fánans og að ef til vill þyrfti að setja reglur um ástand og útlit fána þar sem gera mætti ráð fyrir því að fánar slitni meira með aukinni notkun. Á 140. og 141. löggjafarþingi voru enn lagðar fram tillögur til þingsályktunar sama efnis og á 141. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum sem laut að því annars vegar að rýmka fánatímann og hins vegar að auka notkun fánans við markaðssetningu íslenskra vara (39. mál). Við yfirlestur umsagna sem hafa borist þinginu um þingmál sem varða breytingar á þeim reglum sem gilda um notkun íslenska fánans má lesa vilja til þess að reglur verði rýmkaðar en einnig að fánanum verði sýnd virðing.
    Hvað varðar ástand fána sem dreginn er að húni má nefna að skv. 10. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið hefur lögreglan eftirlit með því að hvorki sé notaður þjóðfáni sem er ekki í samræmi við lögin, þ.e. þau sýnishorn sem nefnd eru í 9. gr. laganna, né fáni sem er svo upplitaður eða slitinn að hann sé verulega frábrugðinn réttum fána um lit og stærðarhlutföll reita. Lögreglan hefur samkvæmt þessu ákvæði heimild til að gera fána í slíku ástandi upptæka ef þeir eru notaðir á stöng eða sýndir úti eða inni þar sem almenningur gæti séð til.
    Líkt og framar er getið er lagt til í frumvarpinu að heimilt verði að hafa fánann uppi allan sólarhringinn ef hann er flóðlýstur. Hafa ber í huga að umrædd lýsing raski ekki um of nánasta umhverfi. Til hliðsjónar eru ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sem á við um mannvirki og þætti þeirra, sbr. 1.1.2. gr. hennar. Ljósmengun er skilgreind í reglugerðinni sem þau áhrif á umhverfi sem verða af mikilli og óhóflegri lýsingu í næturmyrkri. Jafnframt er í reglugerðinni kveðið á um að lýsing á lóðum skuli vera þannig að hún valdi hvorki óþarfa ljósmengun, nágrönnum óþægindum né trufli umferð utan lóðar. Þá er í grein 10.4.2. mælt fyrir um að við hönnun á útilýsingu skuli þess gætt að ekki verði um óþarfa ljósmengun að ræða frá flóðlýsingu mannvirkja og enn fremur að tryggja skuli að útilýsingu sé beint að viðeigandi svæði og notaðir séu skermaðir lampar sem varpa ljósi niður og valdi síður glýju og næturbjarma.
    Svo virðist sem íslenskar reglur um notkun fánans séu rýmri en annars staðar á Norðurlöndunum. Í Noregi má draga fánann að húni kl. 8 frá mars til október en kl. 9 frá nóvember til febrúar. Þá skal taka fánann niður við sólsetur en ekki seinna en kl. 21 ef sólin sest síðar en þá. Í Danmörku skal ekki draga fánann að húni fyrir kl. 8 og hann skal taka niður við sólsetur. Þá má hafa fánann dreginn að húni eftir sólsetur ef hann er upplýstur en tekið er fram í handbók um danska fánann að venjuleg götulýsing nægi til dæmis ekki. Í Svíþjóð gildir svipuð regla og í Noregi, þ.e. að frá mars til október má flagga kl. 8 og frá nóvember til febrúar kl. 9 og skal taka fánann niður í síðasta lagi kl. 21 en hann má vera lengur við hún ef hann er upplýstur.
    Í Bandaríkjunum er meginreglan sú að fáninn sé við hún frá sólarupprás til sólarlags en við sérstök tilefni má hafa hann uppi allan sólarhringinn svo fremi að hann sé upplýstur. Svipað á við í Bretlandi þar sem fáninn má vera uppi frá sólarupprás til sólarlags en hann má einnig vera uppi eftir myrkur ef hann er upplýstur.