Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 99  —  99. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994, með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „tækja sem lögin“ kemur: vara sem lög þessi.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lög þessi skulu tryggja samræmi í merkingum og stöðluðum upplýsingum vara sem tengjast orkunotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins og frjálst flæði á slíkum vörum á sam­eigin­legum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
     c.      Greinin fær fyrirsögnina: Markmið.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Lög þessi taka til merkinga og staðlaðra upplýsinga um vörur sem tengjast orkunotkun. Í reglugerð skal kveðið á um hvaða kröfur slík vara skal uppfylla svo setja megi hana á markað og taka í notkun hér á landi.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Farþega- og vöruflutningar og notaðar vörur falla utan gildissviðs þessara laga. Lög þessi taka ekki til merkiplatna eða sambærilegrar öryggismerkingar vöru.
     c.      Greinin fær fyrirsögnina: Gildissvið.

3. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna hugtaka sem hér segir:
     1.      Birgðasali: Framleiðandi, fulltrúi hans eða sá er markaðssetur vöru.
     2.      Seljandi: Smásali eða annar aðili sem selur, leigir, býður upp á kaupleigu eða sýnir endanlegum notendum vörur.
     3.      Setja á markað: Að bjóða fram vöru í fyrsta sinn á markaði á Evrópska efnahagssvæðinu til dreifingar eða til notkunar óháð því hvort varan er seld eða gefin til kynningar.
     4.      Taka í notkun: Að nota vöru með tilætluðum hætti í fyrsta sinn á Evrópska efnahagssvæðinu.
     5.      Upplýsingablað: Tafla með upplýsingum um vöru.
     6.      Vara sem tengist orkunotkun: Vara sem er sett á markað og/eða tekin í notkun og nýtir orku til að virka sem skyldi eða hefur áhrif á orkunotkun þegar hún er í notkun. Hér teljast einnig með íhlutir orkutengdrar vöru.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Birgðasali og seljandi skulu láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun, orkunýtni, hávaða og annað er varðar rekstur þeirra vara sem eru seldar eða leigðar með beinum hætti eða óbeinum hætti með fjarsölu eða netsölu og eru jafnframt tilgreindar í reglugerð settri á grundvelli laga þessara. Upplýsingar þessar skulu vera á íslensku og þær skal samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð vera að finna á merkimiðum, sérstökum upplýsingablöðum eða veggspjöldum.
     b.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Upplýsingar skv. 1. mgr. eru aðeins veittar að því er varðar innbyggðar eða uppsettar vörur þegar þess er krafist í viðkomandi reglugerð.
                  Feli auglýsing í sér orku- eða verðupplýsingar skal jafnframt birta tilvísun í orkunýtniflokk vörunnar ef varan sem um ræðir tengist orkunotkun og er tilgreind í reglugerð settri á grundvelli laga þessara.
                  Allt tæknilegt kynningarefni sem varðar vörur sem tengjast orkunotkun og lýsir sérstökum tæknilegum kennistærðum vöru, nánar tiltekið tæknileiðbeiningar og kynningarrit framleiðenda, hvort sem er á prenti eða rafrænu formi, skal látið endanlegum notendum í té ásamt nauðsynlegum upplýsingum um orkunotkun eða tilvísun í orkunýtniflokk vörunnar.
     c.      Greinin fær fyrirsögnina: Upplýsingaskylda birgðasala og seljanda.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „tækja“ í 4. tölul. 2. mgr. kemur: vöru.
     b.      Í stað orðanna „frá því tækið var síðast framleitt“ í 3. mgr. kemur: frá því að varan var síðast framleidd.
     c.      Greinin fær fyrirsögnina: Tæknileg gögn.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Birgðasali og seljandi bera ábyrgð á því að sýna merkimiða á tilhlýðilegan hátt þannig að þeir séu sýnilegir og læsilegir og að upplýsingablaðið sé í kynningarriti um vöruna eða öðrum skjölum sem fylgja vörunni þegar hún er seld endanlegum notendum.
     b.      Greinin fær fyrirsögnina: Ábyrgð birgðasala og seljanda.

7. gr.

    6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Framkvæmd og eftirlit.

    Ráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Eftirlit og dagleg stjórnsýsla á því sviði sem lög þessi ná til er þó á hendi Mannvirkjastofnunar. Mannvirkjastofnun tekur við tilkynningum um vörur sem ekki eru í samræmi við kröfur laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og annast samskipti vegna þeirra við önnur eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu.

8. gr.

    7. gr. laganna fær fyrirsögnina: Eftirlit.

9. gr.

    Í stað 8. og 9. gr. laganna koma sjö nýjar greinar, 8.–14. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (8. gr.)

Markaðseftirlit Mannvirkjastofnunar.

    Mannvirkjastofnun tekur við ábendingum og fer með markaðseftirlit í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim.
    Mannvirkjastofnun getur falið faggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit eða faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort vara sem fellur undir lög þessi uppfylli kröfur laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Um faggildinguna gilda ákvæði laga um faggildingu o.fl., nr. 24/2006. Beiting réttarúrræða skv. 10. gr. skal vera á hendi Mannvirkjastofnunar.
    Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans hér á landi skal halda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans.

    b. (9. gr.)

Heimild til skoðunar og upplýsingaskylda.

    Mannvirkjastofnun, eða eftir atvikum faggiltri skoðunarstofu, er heimilt að skoða vöru hjá seljanda, birgðasala eða viðurkenndum fulltrúa hans, taka sýnishorn af vöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, svo sem aðgang að skrá yfir þá sem hafa vöruna á boðstólum, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
    Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans ber kostnað vegna þeirra sýnishorna vöru sem tekin eru til rannsóknar. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum. Sýnishorn vöru samkvæmt þessari grein er að jafnaði eitt eintak vöru eða lágmarksfjöldi sem er nauðsynlegur til að framkvæma rannsókn.
    Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans ber allan kostnað af athugun á því hvort vara sé í samræmi við settar reglur, svo sem kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, flutningskostnað, svo og annan kostnað sem er í beinum og efnislegum tengslum við eftirlitið. Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans greiðir auk þess allan kostnað af tilkynningum sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum.
    Mannvirkjastofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að upplýsingarnar, sem veittar eru við málsmeðferðina, teljist trúnaðargögn þegar slíkt telst réttmætt.
    Mannvirkjastofnun skal tilkynna ákvarðanir um bann og afturköllun á vörum til Eftirlitsstofnunar EFTA.
    c. (10. gr.)

Réttarúrræði Mannvirkjastofnunar.

    Mannvirkjastofnun getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu vöru sem tengist orkunotkun ef hún uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, þ.m.t. um merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk.
    Mannvirkjastofnun er heimilt að beita dagsektum, allt að 500.000 kr. á dag, til að knýja á um þær skyldur sem lög þessi kveða á um eða að látið sé af ólögmætu atferli. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn.
    Ef ákvörðun er skotið til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir. Ákvörðun Mannvirkjastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála liggur fyrir.
    
    d. (11. gr.)

Viðurlög.

    Mannvirkjastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn ákvæðum laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og ákvörðunum eftirlitsaðila. Slíkar sektir geta numið allt að 5 millj. kr. og skulu þær renna í ríkissjóð.

    e. (12. gr.)

Kæra ákvarðana Mannvirkjastofnunar.

    Ákvörðunum sem Mannvirkjastofnun tekur á grundvelli laga þessara má skjóta til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála sem starfar á grundvelli laga um úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála.
    Ákvörðun Mannvirkjastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála liggur fyrir. Nú vill aðili ekki una úrskurði úrskurðarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð úrskurðarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.

    f. (13. gr.)

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    Heimilt er að kveða á um nánari reglur um kæru ákvarðana Mannvirkjastofnunar í reglugerð.

    g. (14. gr.)

Innleiðing tilskipunar.

    Með lögum þessum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/ 30/ESB frá 19. maí 2010 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin) eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 217/2012 frá 7. desember 2012, sem birt var 21. mars 2013 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18/2013, ásamt frekari tilskipunum sem innleiddar verða með reglugerðum samkvæmt heimild í lögum þessum.

10. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Mannvirkjastofnun sem gert er ráð fyrir samkvæmt frumvarpinu að fari með markaðseftirlit og framkvæmd laga um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994. Á fyrri stigum var haft samráð við Neytendastofu sem áður hafði eftirlitsskyldu með lögunum.
    Frumvarpið byggist á tilskipun 2010/30/ESB sem breytir gildissviði fyrri tilskipunar, 92/75/EBE. Síðarnefnda tilskipunin var innleidd með lögum nr. 72/1994. Gildandi lög frá 1994 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum eru rammalöggjöf sem leggur grundvöll fyrir frekari reglusetningu og hefur fjöldi reglugerða verið settur á grundvelli þeirra laga um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun einstakra vöruteg­unda.
    Frumvarpið tekur mið af frumvarpi allsherjar- og menntamálanefndar um færslu markaðseftirlits með rafföngum frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar, sem varð að lögum nr. 39/2014 á 143. löggjafarþingi. Frumvarpið tekur sömuleiðis mið af frumvarpi iðnaðar- og við­skipta­ráðherra um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku, sem lagt var fram á 143. löggjafarþingi (187. mál) en náði ekki fram að ganga.

2. Tilefni, nauðsyn og meginefni lagasetningar.
    Markmið frumvarpsins er að innleiða með tilhlýðilegum hætti tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB frá 19. maí 2010 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin).
    Markmiðið með tilskipun 2010/30/ESB er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem nýta orku („energy-related products“). Tilskipunin leggur skyldur á herðar þess aðila sem markaðssetur vöru að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun og orkunýtni vöru sem seld er eða leigð. Birgðasali skal taka saman tæknileg gögn og ber hann ábyrgð á því að upplýsingar á merkimiðum og upplýsingablöðum séu réttar.
    Tilskipun 2010/30/ESB kemur í stað eldri tilskipunar, 92/75/EBE, um sama efni. Sú tilskipun var rammatilskipun, sem innleidd var hér á landi með lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., með síðari breytingum. Á grundvelli þeirrar tilskipunar voru jafnframt settar nokkrar tilskipanir um merkingar og vörulýsingar á einstökum heimilistækjum, sem teknar voru upp í EES-samninginn á sínum tíma og hafa verið innleiddar hér á landi á með reglugerðum á grundvelli laga nr. 72/1994.
    Tilskipun 2010/30/ESB er einnig rammatilskipun eins og fyrirrennari hennar. Gildissvið hennar er víðtækara en hinnar fyrri að því leyti að hún nær til allra vara með notkun sem tengist orku (e. „energy-related products“), en ekki bara heimilistækja.
    Margar orkutengdar vörur búa yfir miklum möguleikum til umbóta, t.d. með því að draga úr um­hverfisáhrifum og ná fram orkusparnaði. Eitt af meginmarkmiðum tilskipunarinnar er að stuðla að orkusparnaði með því að neytendur verði betur upplýstir um orkunotkun vara og hvetja til þess að orkunýtnari vörur verði keyptar.
    Lagasetningin er nauðsynleg til þess að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-rétti um samræmda löggjöf á EES-svæðinu og til að koma í veg fyrir að heimilt verði að flytja til landsins vörur sem tengjast orkunotkun og uppfylla ekki kröfur annars staðar á EES-svæðinu. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á efniskröfum um orkunýtingu vara sem nota orku.
    Með frumvarpinu er enn fremur stefnt að því að auka og skilgreina betur valdheimildir Mannvirkjastofnunar vegna brota á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. Breyting á valdheimildum er til komin vegna reynslu af framkvæmd eftirlitsins og er einnig hluti af innleiðingu tilskipunar 2010/30/ESB. Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að eftirlit sé skilvirkt, öflugt og hafi nægileg úrræði. Í tilskipun 2010/30/ESB er aðildarríkjum veitt ákveðið svigrúm til framsetningar og útfærslu eftirlitsins. Það eftirlit sem mælt er fyrir um í þessum lögum er ekki umfram það sem tilskipun 2010/30/ESB mælir fyrir um og felur ekki heldur í sér neinar undanþágur. Ákvarðanir Mannvirkjastofnunar er unnt að kæra með stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála sem starfar á grundvelli laga um úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála.

3. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Neytendastofu og Mannvirkjastofnun og tekið tillit til þeirra ábendinga og sjónarmiða sem þar komu fram.

4. Mat á áhrifum.
    Innleiðing tilskipunar 2010/30/ESB hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. Þannig er gildissvið laganna afmarkað við merkingu og upplýsingar um heimilistæki, bifreiðar og tæki eða búnað til hitunar húsnæðis og upphitunar á vatni, en gildissvið tilskipunarinnar er hins vegar víðtækara þar sem hún nær til allra vara sem eru með orkutengda notkun (e. „energy-related products“).
    Neytendastofa hefur hingað til í flestum tilvikum haft eftirlit með merkingum og upplýsingaskyldu orkutengdra vara. Fram til 1. september 2014 annaðist Neytendastofa jafnframt markaðseftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum, sbr. lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Nú hefur það eftirlit verið flutt til Mannvirkjastofnunar, sbr. lög nr. 36/2014. Skv. 5. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, annast Mannvirkjastofnun markaðseftirlit með byggingarvörum samkvæmt ákvæðum VIII. kafla þeirra laga. Jafnframt annast Mannvirkjastofnun markaðseftirlit með rafföngum, sbr. lög nr. 146/1996. Framangreind löggjöf um markaðseftirlit með byggingarvörum og rafföngum byggist á löggjöf Evrópusambandsins sem snýr aðallega að öryggi þessarar vöru. Löggjöf Evrópusambandsins um orkumerkingar snýr að öðrum þáttum en um sömu vöruflokka að ræða og hafa framleiðendur þeirra því hingað til verið háðir markaðseftirliti tveggja stofnana. Með því að færa markaðseftirlit vegna orkumerkinga til Mannvirkjastofnunar er eftirlitið einfaldað og fært á eina hendi. Tilskipunin eykur umfang eftirlitsins að því leyti að hún tekur einnig til orkutengdra vara, svo sem byggingarvara.
    Verði frumvarpið að lögum mun það kalla á aukna upplýsingagjöf fyrirtækja sem framleiða, selja eða flytja inn orkutengdar vörur. Markmið tilskipunarinnar er að upplýsa neytendur um orkunotkun vöru og að samræmdar upplýsingar liggi fyrir sem kunna að aðstoða neytendur við að taka upplýsta ákvörðun um kaup á vörum.
    Meðal vöruflokka sem eftir breytingu geta fallið undir lögin eru vörur sem notaðar eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, svo sem gluggar, einangrunarefni og vörur sem eru ætlaðar fyrir vatnsnotkun, t.d. sturtuhausar eða kranar. Hingað til hafa það aðallega verið rafföng sem fallið hafa undir ákvæði laganna, svo sem sjónvörp, kæliskápar, þvottavélar, þurrkarar, ljósaperur og lampar. Þessar vörur eru almennt ekki framleiddar hér á landi. Með frumvarpi þessu bætast við vöruflokkar sem eru framleiddir hér á landi. Sem dæmi má nefna að aðilar hér á landi framleiða glugga og einangrunarefni. Þar sem innlendir framleiðendur byggingarvara eru almennt frekar lítil fyrirtæki geta áhrifin verið nokkur. Vegna þess er mikilvægt að standa vel að leiðbeiningum og upplýsingagjöf til innlendra aðila um þær kröfur sem gerðar eru og einfalda eins og kostur er allt eftirlit.
    Innflytjendur og dreifingaraðilar verða að tryggja að vörur sem þeir selja og markaðssetja séu í samræmi við ákvæði gildandi laga, reglugerða og staðla sem kunna að gilda um framleiðslu vörunnar hverju sinni. Jafnframt ber seljendum að tryggja að neytendur fái ávallt þær upplýsingar sem kveðið er á um í gildandi lögum varðandi orkumerkingar.
    Með auknum upplýsingum um orkunýtni orkutengdra vara eru neytendur betur upplýstir um mögulegan orkusparnað sem getur haft áhrif á vöruval þeirra. Ef veittar eru nákvæmar, viðeigandi og samanburðarhæfar upplýsingar um sértæka orkunotkun orkutengdra vara ætti það að verða til þess að endanlegur notandi velur fremur vörur sem nota minni orku, eða leiða óbeint til minni notkunar á orku. Þannig geta neytendur tekið upplýsta ákvörðun um að velja orkunýtnari vörur, sem leiðir til aukins sparnaðar fyrir viðkomandi og orkusparnaðar í heildarsamhenginu.
    Sem áður segir breytir frumvarpið hlutverki Mannvirkjastofnunar og skilgreinir betur valdheimildir stofnunarinnar vegna brota á lögum nr. 72/1994. Varðandi kostnaðarleg áhrif vísast nánar til meðfylgjandi kostnaðarumsagnar um frumvarpið, en ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lögð til útvíkkun þannig að lögin gildi um vörur sem tengjast orkunotkun en nái ekki einungis til tækja.
    Tilgreint er með ítarlegri hætti en áður markmið laganna og tekið fram að eitt af markmiðunum er að tryggja frjálst flæði vara á sam­eigin­legum markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Frjálst flæði vöru er ein af meginreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og samræmdar reglur á sviði orkumerkinga eiga að tryggja að vara sem uppfyllir kröfur tilskipunar 2010/30/ESB verði óhindrað flutt milli markaða á Evrópska efnahagssvæðinu.

Um 2. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar til að víkka gildissvið laganna þannig að þau gildi einnig um vörur sem tengjast orkunotkun í stað þess að ná aðeins til þeirra sem nota orku. Orkutengdar vörur eru vörur sem geta leitt til minni orkuþarfar. Sem dæmi mætti nefna vörur sem eru notaðar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eins og glugga, einangrunarefni eða tilteknar vörur sem eru ætlaðar fyrir vatnsnotkun, t.d. sturtuhausa eða krana. Þéttir gluggar geta leitt til þess að minni þörf er á því að hita upp herbergi og þar með sparast orka. Sturtuhausar og kranar sem eru betur hannaðir og sóa ekki eins miklu vatni leiða einnig til betri orkunýtingar.
    

Um 3. gr.

    Við lögin bætast nýjar skilgreiningar. Mikilvægt er að skilgreina hvenær vara telst vera sett á markað og hvenær hún er fyrst tekin í notkun. Þessi hugtök hafa sérstaka þýðingu og eru notuð í mörgum tilskipunum og reglugerðum Evrópusambandsins. Á meginlandi Evrópu eru sam­göngur milli landa greiðari en frá Íslandi til annarra Evrópulanda og skapast geta mörg álitaefni um það hver beri ábyrgð á vöru. Þá er orkutengd vara skilgreind sem er lykilhugtak vegna breytinga á gildissviði laganna. Með greininni eru jafnframt hugtökin birgðasali og seljandi skilgreind og hvað upplýsingablað er.

Um 4. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 3. gr. laganna svo að upplýsingaskylda nái yfir vörur sem falla undir gildissvið laganna. Auk þess er gildissviðið látið ná yfir fjarsölu og netsölu hvers konar. Upplýsingar fyrir innbyggðar eða uppsettar vörur fylgja með aðeins ef viðkomandi reglugerð fyrir vöruna krefst þess. Ef birtar eru orku- eða verðupplýsingar í auglýsingum um orkutengda vöru sem reglugerð nær yfir skal jafnframt birta þar upplýsingar um orkunýtniflokk vörunnar. Greinin skýrir hvað skal felast í tæknilegu kynningarefni sem er afhent endanlegum neytendum.

Um 5. gr.

    Lagt er til að þessi grein og aðrar greinar frumvarpsins fái skýrandi fyrirsögn.

Um 6. gr.

    Við 5. gr. bætist ný málsgrein þar sem tilgreint er hvernig beri að sýna merkimiða þannig að þeir séu sýnilegir og læsilegir. Auk þess er krafa um að upplýsingablað verði í kynningarriti eða öðrum skjölum sem fylgja vörunni þegar hún er seld endanlegum notendum.

Um 7. gr.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á eftirlitsákvæðum laganna og af þeirri ástæðu þykir fara betur á því að breyta heiti 6. gr. eins og hér er lagt til. Hér er einnig lagt til að eftirlit með framkvæmd laganna verði á hendi Mannvirkjastofnunar.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að fjórar nýjar greinar bætist við um markaðseftirlit og réttarúrræði Mannvirkjastofnunar (8.–11. gr.), ásamt kæruákvæði (12. gr.). Úrræðin eru svipuð og þau sem sett eru fram í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun, þar sem Mannvirkjastofnun er falið eftirlitshlutverk sem er sambærilegt við það sem kveðið er á um í frumvarpi þessu.
    Um a-lið (8. gr.).
    Lagt er til að Mannvirkjastofnun verði falið markaðseftirlit samkvæmt lögunum en heimilt verði að láta faggilta skoðunarstofu annast skoðanir. Er það hliðstætt því sem heimilað er í annarri löggjöf, svo sem lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Í ákvæðunum er að finna ítarleg ákvæði um stjórnsýsluúrræði Mannvirkjastofnunar gagnvart framleiðendum, innflytjendum og seljendum og eru þau svipuð og hliðstæð ákvæði annarra laga sem fela Mannvirkjastofnun markaðseftirlit.
     Um b-lið (9. gr.).
    Í ákvæðinu er kveðið á um heimildir Mannvirkjastofnunar og faggiltrar skoðunarstofu til skoðunar auk skyldu ábyrgðaraðila til að hafa tilteknar upplýsingar tiltækar. Aðilar skulu bera kostnað af sýnatöku hvort sem varan reynist vera í samræmi við lög og reglugerðir eður ei. Gjaldendur skulu standa undir kostnaði af sýnatöku.
     Um c-lið (10. gr.).
    Hér er kveðið á um réttarúrræði Mannvirkjastofnunar vegna markaðseftirlits. Ákvæðið er hliðstætt ákvæðum annarrar löggjafar sem stofnunin starfar eftir og felur henni markaðseftirlit. Rétt þykir að samræmis sé gætt varðandi valdheimildir og úrræði Mannvirkjastofnunar vegna markaðseftirlits.
     Um d-lið (11. gr.).
    Lagt er til að Mannvirkjastofnun verði veitt heimild til álagningar stjórnvaldssekta og hámark sekta verði 5 millj. kr. Þannig er lagt til að Mannvirkjastofnun geti beitt stjórnvaldssektum þegar fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum laganna.
     Um e-lið (12. gr.).
    Hér er nánar kveðið á um með hvaða hætti megi skjóta ákvörðun Mannvirkjastofnunar til æðra stjórnvalds og eftir atvikum til dómstóla. Þykir eðlilegt að um kæruheimildir gildi sömu reglur og eru í gildi í öðrum lögum sem Mannvirkjastofnun annast eftirlit með og að ákvarðanirnar sæti kæru til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála eins og almennt gildir um ákvarðanir þeirrar stofnunar.
     Um f-lið (13. gr.).
    Með greininni er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laganna, sbr. 8. gr. gildandi laga. Gjaldskrárákvæði laganna er fellt niður þar sem það hefur ekki verið nýtt hingað til og því ekki talin vera þörf á því.
     Um g-lið (14. gr.).
    Hér er að finna tilvísun í tilskipun 2010/30/ESB en skv. 3. mgr. 1. tölul. 16. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríki vísa í hana þegar innleiddar eru reglur á grundvelli tilskipunarinnar.

Um 10. gr.

    Með hliðsjón af þeim breytingum sem í frumvarpinu felast og kveða á um víðtækara gildissvið laganna þykir rétt að leggja til þessa breytingu á heiti þeirra til þess að það endurspegli betur inntak þeirra.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um merkingar
og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994,
með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

    Megintilgangur þessa frumvarps er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/ 30/EB frá 19. maí 2010, um ramma til að setja fram kröfur varðandi merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að stuðla að orkusparnaði með því að neytendur verði betur upplýstir um orkunotkun vara.
    Helstu breytingarnar sem í frumvarpinu felast eru í fyrsta lagi að víkka gildissvið laganna þannig að þau nái einnig yfir orkutengdar vörur, þ.m.t. vörur sem notaðar eru í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, eins og gluggar, einangrunarefni eða tilteknar vörur sem ætlaðar eru fyrir vatnsnotkun. Hingað til hafa það aðallega verið rafföng sem fallið hafa undir ákvæði laganna, svo sem sjónvörp, kæliskápar, þvottavélar, þurrkarar, ljósaperur og lampar. Í öðru lagi er tilskipuninni ætlað að tryggja samræmdar reglur og frjálst flæði slíkra vara á innri markaði Evrópusambandsins. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Mannvirkjastofnun verði falið markaðseftirlit samkvæmt lögunum, en hingað til hefur Neytendastofa sinnt því eftirliti, auk þess sem úrræði við eftirlitið eru styrkt. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að auka og skilgreina betur valdheimildir Mannvirkjastofnunar vegna brota á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.
    Gera má ráð fyrir að verði frumvarp þetta lögfest muni það að einhverju leyti auka umfang eftirlits Mannvirkjastofnunar þar sem það mundi eftirleiðis einnig taka til orkutengdra vara. Hins vegar er vakin athygli á því að í lögum nr. 39/2014, um breytingar á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar, er gert ráð fyrir að sá hluti markaðseftirlits raffanga, sem er undir eftirliti og forræði Neytendastofu, verði færður til Mannvirkjastofnunar þannig að forræði rafmagnsöryggismála verði hjá einni stofnun. Mannvirkjastofnun annast nú þegar markaðseftirlit með rafföngum sem eru varanlega tengd mannvirkjum samkvæmt lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/ 1996. Samkvæmt þeim lögum eru Mannvirkjastofnun markaðar tekjur af gjaldi fyrir yfireftirlit með rafföngum en í fjárlögum 2014 er gert ráð fyrir 45 m.kr. tekjum af gjaldinu. Neytendastofa hefur hins vegar haft eftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum og hafa stofnuninni samkvæmt lögunum verið markaðar tekjur af gjaldi af eftirlitsskyldum rafföngum en í fjárlögum 2014 er gert ráð fyrir 17,5 m.kr. tekjum af gjaldinu. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldi af eftirlitsskyldum rafföngum flytjist til Mannvirkjastofnunar og að kostn­aður stofnunarinnar vegna markaðseftirlits verði að fullu fjármagnaður með þessari gjaldtöku. Samkvæmt upplýsingum frá Mannvirkjastofnun er gert ráð fyrir að við flutning á þeim hluta markaðseftirlits raffanga sem enn er hjá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar muni fjöldi þeirra raffanga sem kannaður verður aukast eitthvað. Heimsóknum til söluaðila mun hins vegar ekki fjölga að ráði því um er að ræða sömu söluaðila sem hingað til hafa þurft að sæta tvöföldu markaðseftirliti. Þessi breyting mun þannig hafa í för með einhverja aukningu í vinnu stofnunarinnar og lítils háttar kostnað en gera má ráð fyrir að hann verði fjármagnaður að fullu með fyrrgreindri gjaldtöku sem ætluð er til að standa undir kostnaði við markaðseftirlitið í heild. Verði frumvarpið óbreytt að lögum og þessi áform ganga eftir verður því ekki séð að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.