Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 117  —  115. mál.




Fyrirspurn



til dómsmálaráðherra um aðgengi handhafa rannsóknarheimilda að upplýsingum.

Frá Helga Hrafni Gunnarssyni.


     1.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda á grundvelli sakamálalaga og sérlaga sent inn beiðnir um afrit af tölvupóstum til erlendra yfirvalda og stofnana og hversu oft hefur þeim verið hafnað? Á hvaða lagaheimildum eru slíkar beiðnir byggðar? Svar óskast sundurliðað eftir ári, handhafa rannsóknarheimilda, lagaheimild, móttökuríki og niðurstöðu.
     2.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda öðlast aðgengi að upplýsingum um staðsetningu einstaklinga í gegnum GPS-búnað símtækja þeirra og á grundvelli hvaða lagaheimildar? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, lagaheimild og ári.
     3.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa verið lögð fram í sakamáli af hálfu ákæruvalds sönnunargögn sem fengin hafa verið af samskiptamiðlum? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda er aflaði gagnsins ásamt þeirri deild hjá honum er fór með rannsókn málsins, dómstól er tók á móti gagninu, samskiptamiðli og ári.
     4.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda gert búnað upptækan og notfært sér upplýsingar sem á búnaðinum eru, eins og skilaboð notanda og símtalaskrá, án þess að dómsúrskurður hafi legið fyrir áður en upplýsingarnar voru skoðaðar? En á grundvelli dómsúrskurðar? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, dómstól og ári.
     5.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda notfært sér tæknibúnað einstaklinga, sem þeir hafa gert upptækan, til þess að öðlast aðgengi að upplýsingum sem eru hýstar utan þess tæknibúnaðar sem um ræðir? Var beðið um dómsúrskurð í þeim tilfellum? Ef svo var, á hvaða lagaheimild grundvölluðust þær beiðnir? Var eiganda/eigendum búnaðarins í öllum tilfellum tilkynnt um það aðgengi handhafa rannsóknarheimilda og hvenær var það gert? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, þjónustu sem aðgangurinn er hjá (Facebook, Twitter o.s.frv.) og ári.
     6.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda krafist upplýsinga á grundvelli 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga? Hversu mörgum þeirra var hafnað? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, fjarskiptafyrirtæki, hvort það var gert á grundvelli almannaöryggis eða rannsóknar sakamáls, niðurstöðu beiðni og ári.
     7.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda farið fram á úrskurð dómara um að leggja hald á bréf og aðrar sendingar á grundvelli 70. gr. laga um meðferð sakamála? Hversu mörgum þeirra var hafnað? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, dómstól, tegund sendingar (bréf, tölvupóstur, símskeyti, fjarskiptaumferð o.s.frv.), tegund brots sem verið var að rannsaka, niðurstöðu úrskurðar og ári.
     8.      Hvaða eftirlit er haft með aðgengi handhafa rannsóknarheimilda í framangreindum liðum að persónuupplýsingum um einstaklinga sem geymdar eru í búnaði sem hefur verið gerður upptækur? Séu gögnin afrituð úr búnaði sem hefur verið gerður upptækur eða sótt á grundvelli aðgengis að slíkum búnaði, hvenær er þeim upplýsingum eytt?


Skriflegt svar óskast.