Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 122  —  120. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga,
með síðari breytingum (hreyfanleiki viðskiptavina).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    14. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Vátryggingartaki getur á vátryggingartíma sagt upp vátryggingarsamningi sem endurnýjast sjálfkrafa ef hann hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna, fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður sem réttlæta uppsögn eða til að flytja vátrygginguna til annars félags.
    Vátryggingartaki skal tilkynna félaginu um uppsögn með 30 daga fyrirvara og miðast uppsögn við næstu mánaðamót þar á eftir. Upplýsa skal til hvaða vátryggingafélags er flutt og frá hvaða tíma.
    Sé um hópvátryggingu að ræða er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. í vátryggingarsamningi.

2. gr.

    Við 17. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Sé áhætta misjöfn á samningstímabili vátryggingar, og tekið er tillit til slíks við ákvörðun iðgjalds, má setja í skilmála að við útreikning á endurgreiðslu iðgjalds til vátryggingartaka skuli taka tillit til slíkra áhættusveiflna í uppgjöri.
    Vátryggingafélagi er ekki heimilt að taka gjald vegna kostnaðar þess við það að vátryggingu er sagt upp á samningstímabili.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Á árinu 2009 tók Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til skoðunar hvort aðkoma íslenska ríkisins að endurreisn vátryggingafélagsins Sjóvár samrýmdist ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins. Skoðun ESA leiddi til þess að málið var sett í formlega rannsókn. Í kjölfar fyrirspurnar ESA lýsti íslenska ríkið sig reiðubúið til að undirgangast tilteknar skuldbindingar gagnvart ESA ásamt því að lýsa yfir vilja til að stuðla að aukinni samkeppni á vátryggingarmarkaði til mótvægis við áhrif endurreisnar félagsins á samkeppni.
    Viljayfirlýsing íslenska ríkisins fól meðal annars í sér að fjármála- og efnahagsráðherra mundi setja á fót sérfræðihóp til að endurskoða ákvæði laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, til að kanna hvort breytingar á lögunum, sem mundu auðvelda uppsagnir á vátryggingarsamningum, gætu aukið hreyfanleika viðskiptavina milli vátryggingafélaga. Sérstaklega skyldi í þessu sambandi horft til nýlegra breytinga á löggjöf Noregs (lov om forsikringsavtaler) um sambærileg ákvæði svo og ákvæða laga um fjármálafyrirtæki í Danmörku (lov um finansiel virksomhed) um hreyfanleika. Yrði niðurstaða sérfræðihópsins sú að slíkar breytingar væru til hagsbóta fyrir vátryggingarmarkaðinn mundi ráðherra leggja fram frumvarp þess efnis fyrir lok árs 2014.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði starfshóp í byrjun árs 2014 sem skilaði skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra í ágúst 2014 með tillögum að breytingum á lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Megintillögur starfshópsins voru fjórar. Í fyrsta lagi að vátryggingartaki gæti sagt upp vátryggingarsamningi til að flytja vátryggingu til annars félags. Í öðru lagi að uppsögnin skyldi vera með 30 daga fyrirvara og miðast við næstu mánaðamót þar á eftir. Í þriðja lagi að taka mætti tillit til þess við uppgjör ef áhætta er misjöfn á samningstímabili vátryggingar og í fjórða lagi að vátryggingafélag mætti ekki taka gjald vegna kostnaðar sem getur hlotist af því að vátryggingu er sagt upp á samningstímabili.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í 14. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, er heimild fyrir vátryggingartaka til þess að segja upp vátryggingarsamningi og er ákvæðið svohljóðandi:
    „Nú vill vátryggingartaki segja upp vátryggingarsamningi þegar komið er að endurnýjun hans og verður hann þá að tilkynna félaginu um það innan mánaðar frá því að það sendi venjulega tilkynningu um gjalddaga hins nýja tímabils. Honum er þó ekki skylt að tilkynna félaginu um uppsögn fyrr en tvær vikur eru til loka tímabilsins.
    Vátryggingartaki getur á vátryggingartíma sagt upp vátryggingarsamningi sem endurnýjast sjálfkrafa ef hann hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna eða fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður sem réttlæta uppsögn.
    Sé um hópvátryggingu að ræða er heimilt að víkja frá ákvæði 2. mgr. í vátryggingarsamningi.“
    Samkvæmt 2. mgr. endurnýjast vátryggingarsamningur því sjálfkrafa sé honum ekki sagt upp. Ákvæðið heimilar uppsögn ef vátryggingar er ekki lengur þörf eða ef fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður og er vátryggingartaki bundinn af því að segja upp vátryggingarsamningi þegar komið er að endurnýjun hans.
    Í frumvarpi því sem varð að lögunum kemur fram að fyrrnefnda tilvikið, þ.e. þegar vátryggingartaki hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna, mundi einkum eiga við þegar hann hefur selt hina vátryggðu hagsmuni eða losað sig við þá með öðrum hætti. Síðarnefndu tilvikin, þ.e. að fyrir hendi séu önnur sérstök tilvik, verða að vera þess eðlis að þau réttlæti uppsögn. Það verða því að vera fyrir hendi málefnalegar ástæður fyrir uppsögninni sem fela það í sér að forsendur fyrir samningssambandinu við félagið séu brostnar.
    Þá segir í frumvarpinu að það teljist t.d. ekki sérstakar ástæður í þessum skilningi þótt vátryggingartaki fyndi út að annað félag byði betri vátryggingarvernd eða sömu vátryggingarvernd fyrir lægra iðgjald. Meginreglan sé ótvírætt sú að það réttlæti ekki uppsögn þótt vátryggingartaki hafi spurnir af betri kjörum, t.d. lægra iðgjaldi, annars staðar. Það er því ljóst að það er engin heimild í lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, til að segja upp vátryggingarsamningi á miðju samningstímabili eingöngu til að flytja vátryggingar til annars vátryggingafélags til dæmis vegna þess að betri kjör bjóðast.
    Norsku lögin um vátryggingarsamninga sem eru frá 1989 voru fyrirmynd gildandi laga nr. 30/2004. Norsku lögunum var breytt á árinu 2005 og lögfest var ákvæði um rétt vátryggingartaka til að segja upp vátryggingarsamningi til að flytja vátryggingar sínar til annars félags. Einnig eru ákvæði um uppgjör iðgjalda vegna uppsagna á samningstímabili, þar á meðal að vátryggingartaki skuli fá endurgreidd ofgreidd iðgjöld.
    Í norska frumvarpinu kemur fram að rökin fyrir því að heimila uppsögn vegna flutnings vátryggingar til annars vátryggingafélags sé að uppsögnin styrki réttarstöðu vátryggingartaka og hafi í för með sér aukna samkeppni á vátryggingarmarkaði sem leiði frekar til lækkunar iðgjalda. Fram kemur að nauðsynlegt sé talið að auka hreyfanleika og samkeppni á markaðnum og þótt erfitt geti verið að meta áhrif frumvarpsins á samkeppni á vátryggingarmarkaði sé það metið þannig að ákvæði sem heimili flutning milli vátryggingafélaga á samningstímabili muni hafa jákvæð áhrif á samkeppni. Meginástæður þess að ákvæði um hreyfanleika vátryggingartaka voru sett í lögin í Noregi eru því neytendavernd og samkeppnissjónarmið.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur einnig fram að þótt lítið væri um að vátryggjendur skiptu um vátryggingafélag væri talið að einungis sá möguleiki að hægt væri að flytja vátryggingar á milli félaga gæti aukið samkeppni á vátryggingarmarkaði. Þá var kostnaður við flutning vátrygginga milli vátryggingafélaga ekki talinn svo verulegur að hann ætti að hafa áhrif á heimild til uppsagnar.
    Ákvæði dönsku laganna um hreyfanleika eru í lögum um fjármálafyrirtæki frá 2013. Ákvæðið skyldar vátryggingafélög að hafa í skilmálum neytendatrygginga að tryggingartaki geti sagt upp tryggingu með 30 daga fyrirvara.
    Helstu rökin fyrir því að auka heimildir til þess að segja upp vátryggingarsamningi eru samkeppnissjónarmið og neytendavernd.
    Ýmis atriði stuðla að virkri samkeppni á vátryggingarmarkaði eins og hversu auðvelt er fyrir vátryggingartaka að skipta um vátryggingafélag á vátryggingartíma. Þetta skiptir sérstaklega máli þegar vátryggingartímabilið er langt. Markaðssetning vátryggingafélaga og verðvitund vátryggingartaka skipta einnig máli varðandi samkeppni á vátryggingarmarkaði. Það er því unnt að stuðla að virkri samkeppni með því að auðvelda vátryggingartaka að skipta um vátryggingafélag. Slík samkeppni ætti um leið að leiða til lækkunar á iðgjaldi vátrygginga. Sá möguleiki einn að unnt sé að skipta með einföldum hætti um vátryggingafélag getur verið samkeppnisvaldandi. Með framangreind sjónarmið að leiðarljósi er frumvarp þetta lagt fram til að stuðla að auknum hreyfanleika á íslenskum vátryggingarmarkaði.
    Verði frumvarpið að lögum hefur íslenska ríkið uppfyllt skuldbindingar gagnvart ESA vegna rannsóknar stofnunarinnar á því hvort aðkoma íslenska ríkisins að endurreisn vátryggingafélagsins Sjóvár samrýmist ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins og með því stuðlað að aukinni samkeppni á vátryggingarmarkaði.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 14. og 17. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, sem fjalla um heimild vátryggingartaka til þess að segja upp vátryggingarsamningi og uppgjör þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartímabili.
    Meginbreytingin er að lagt er til að vátryggingartaki geti sagt upp vátryggingarsamningi á vátryggingartíma til að flytja vátryggingu til annars félags. Lagt er til að uppsögnin skuli vera með 30 daga fyrirvara sem miðist við næstu mánaðamót þar á eftir. Einnig er lagt til að tekið sé tillit til áhættusveiflna við uppgjör þegar tekið er tillit til þeirra við ákvörðun iðgjalds og að lokum er lagt til að vátryggingafélag megi ekki taka gjald vegna kostnaðar þess við það að vátryggingu sé sagt upp á samningstímabili.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til sérstakrar skoðunar á samræmingu við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði. Í starfshópnum sem skilaði einróma niðurstöðu voru fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Neytendastofu auk fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum er ekki gert ráð fyrir því að lagabreytingarnar muni hafa í för með sér verulegar breytingar á hreyfingum viðskiptavina milli félaga. Það mat byggist á reynslu annarra Norðurlanda af sambærilegum breytingum á lögum um vátryggingarsamninga ásamt niðurstöðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) sem gerir skorkort í neytendamálum til að kanna stöðuna á innri markaði Evrópusambandsins út frá sjónarhóli neytenda.
    Niðurstöður skorkorts fyrir árið 2012 varðandi hreyfanleika neytenda þegar kemur að vátryggingum leiddu í ljós að um helmingur neytenda á Íslandi telur auðvelt að skipta um vátryggingafélag hvort sem um er að ræða fasteigna- eða bifreiðatryggingar. Það er mun lægra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndunum hvort sem þar eru ákvæði í lögum um skemmri uppsagnarfrest eða ekki. Í Noregi telja rúmlega 70% neytenda auðvelt að skipta um vátryggingafélag og í Svíþjóð er hlutfallið tæp 65%. Í Svíþjóð gilda sambærilegar lagareglur um uppsagnarfrest eins og á Íslandi.
    Ísland sker sig ekki úr varðandi það hvort neytendur hafi skipt um vátryggingafélag á tímabilinu. Íslenskir neytendur skipta álíka oft um vátryggingafélag og neytendur á Norðurlöndunum almennt þrátt fyrir að þeir síðarnefndu telji það erfiðara.
    Binditími vátrygginga í lögum virðist því ekki hafa úrslitaáhrif á það hvort neytendur skipti um vátryggingafélag eða ekki.
    Megináhrif frumvarpsins felast í því að gera má ráð fyrir að samkeppni á vátryggingarmarkaði aukist vegna þess að auðveldara verður fyrir vátryggingartaka að skipta um vátryggingafélag og að réttarstaða vátryggingartaka styrkist við það. Mögulegt er að iðgjöld vátryggingafélaga lækki frekar og þjónusta batni verði frumvarp þetta að lögum vegna þeirra samkeppnisáhrifa sem það hefur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við 14. gr. laganna að vátryggingartaki geti sagt upp vátryggingarsamningi á vátryggingartíma til að flytja vátrygginguna til annars félags. Þá er lagt til að ákvæði 14. gr. um tímafresti uppsagnar verði breytt og að tilkynna skuli félagi um uppsögn með 30 daga fyrirvara sem miðist við næstu mánaðamót þar á eftir. Við uppsögn skal upplýsa til hvaða vátryggingafélags sé flutt og frá hvaða tíma.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að tveimur málsgreinum sé bætt við 17. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að tekið sé tillit til áhættusveiflna við uppgjör þegar tekið er tillit til þeirra við ákvörðun iðgjalds. Hins vegar er lagt til að vátryggingafélag megi ekki taka gjald vegna kostnaðar þess við það að vátryggingu sé sagt upp á samningstímabili.
    Í sumum tilvikum er áhætta sveiflukennd á vátryggingartímabilinu og það hefur áhrif ef vátryggingu er sagt upp á miðju samningstímabili. Þetta getur t.d. átt við um vátryggingar fyrir mótorhjól og skemmtibáta þar sem aðaláhættutímabilið er um mitt ár. Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er því lagt til að unnt sé að taka tillit til slíkrar áhættusveiflna í uppgjöri þegar vátryggingarsamningi er sagt upp á vátryggingartímabili.
    Þá er lagt til að vátryggingafélag megi ekki taka gjald vegna kostnaðar sem getur hlotist af því að vátryggingu er sagt upp á samningstímabili. Forsendur þess ákvæðis eru að sveigjanleiki vátryggingartaka og möguleiki til þess að skipta um vátryggingafélag eru talin vega þyngra en greiðsla þóknunar þar sem það eru sterkari forsendur fyrir skilvirkum markaði. Greiðsla þóknunar vegna uppsagnar væri hamlandi fyrir neytendur og gæti í raun læst þá í vátryggingarsamningi.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2015. Gildisdagsetningin er við það miðuð að vátryggingafélög hafi ráðrúm til þess að breyta verklagi og kerfum vegna frumvarpsins.Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 30/2004,
um vátryggingarsamninga, með síðari breytingum
(hreyfanleiki viðskiptavina).

    Í frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á lögum um vátryggingarsamninga að vátryggingartaki geti á vátryggingartíma sagt upp vátryggingarsamningi til að flytja vátrygginguna til annars félags. Vátryggingartaki skal tilkynna um uppsögn með 30 daga fyrirvara og miðast uppsögn við næstu mánaðamót þar á eftir. Upplýsa skal til hvaða vátryggingafélags er flutt og frá hvaða tíma. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar breytingar öðlist gildi 1. janúar 2015.
     Tilgangurinn með þessum breytingum á lögunum er að auka hreyfanleika viðskiptavina milli vátryggingafélaga og þar með að efla samkeppni á vátryggingamarkaði. Ekki er þó talið að þetta muni hafa í för með sér verulegar breytingar á hreyfingum viðskiptamanna milli vátryggingafélaga miðað við reynslu annarra Norðurlanda af sambærilegum breytingum.
    Frumvarpið varðar fyrst og fremst vátryggingafélög og vátryggingamiðlara. Lögfesting frumvarpsins mun því ekki hafa í för með sér áhrif á fjárhag ríkissjóðs.