Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 125  —  123. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um bætt starfsumhverfi erlendra sérfræðinga.


Flm.: Guðmundur Steingrímsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Sigrún Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa þriggja manna starfshóp sem vinni tillögur að bættu starfsumhverfi erlendra sérfræðinga á Íslandi. Í tillögum hópsins verði m.a. útfært hvernig laða megi erlenda sérfræðinga að landinu með tímabundnum ívilnunum, sambærilegum þeim sem boðið er upp á annars staðar á Norðurlöndum, og hvernig gera megi afgreiðslu á umsóknum þeirra um atvinnu- og dvalarleyfi einfaldari og skjótari. Þá horfi hópurinn einnig til annarra þátta, svo sem hvernig efla megi alþjóðlegt nám fyrir börn erlendra sérfræðinga hér á landi. Hópurinn skili ráðherra tillögum að lagabreytingum og breytingum á reglugerðum eigi síðar en 1. janúar 2016.

Greinargerð.

    Greitt aðgengi erlendra sérfræðinga inn á íslenskan vinnumarkað er einn lykilþátturinn í því að fjölbreytt atvinnulíf með ríkri áherslu á fyrirtæki sem byggjast á nýsköpun, rannsóknum og þróun geti vaxið og dafnað hér á landi.
    Víða um heim, þar á meðal annars staðar á Norðurlöndum, tíðkast að veita erlendum sérfræðingum sérstakar tímabundnar skattaívilnanir í ýmsu formi svo að þeir komi frekar til starfa í fyrirtækjum viðkomandi lands eða fyrirtækjum með starfsstöð þar í landi. Fáar ef nokkrar slíkar ívilnanir innan skattkerfisins eða annars staðar eru fyrir hendi af hálfu hins opinbera hér á landi. Þetta þýðir að í alþjóðlegri samkeppni vinnumarkaðarins um störf sérfræðinga eru Íslendingar aftarlega á merinni. Flutningsmenn telja mikilvægt að breyta því. Ívilnanir til erlendra stórfyrirtækja, t.d. á sviði stóriðju, hafa lengi tíðkast hér á landi með þeim rökum að koma þeirra til landsins skapi tekjur og störf. Sömu rök gilda um erlenda sérfræðinga sem geta skapað verðmæti víða í atvinnulífinu, aukið skatttekjur og orðið fyrirtækjum í vexti ómetanleg og í mörgum tilvikum lífsnauðsynleg innspýting. Margt smátt gerir eitt stórt.
    Jafnframt er mikilvægt að umsókn um dvalarleyfi og atvinnuleyfi sé ekki of þung í vöfum fyrir erlenda sérfræðinga. Í alþjóðlegri samkeppni um störf þeirra getur slíkt verið úrslitaatriði. Að mati flutningsmanna ætti það að vera verkefni starfshópsins að hanna afgreiðsluferli umsókna fyrir erlendra sérfræðinga sem tæki ekki lengri tíma en tvær til þrjár vikur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá væri aðgengi erlendra sérfræðinga inn á íslenskan vinnumarkað orðið sambærilegt við það sem þekkist víða annars staðar.
    Því má halda fram að ýmislegt í umhverfi og stöðu Íslands geri það að verkum að Íslendingar þurfi að huga sérstaklega að því umfram aðrar þjóðir að laða að erlenda sérfræðinga. Veðrátta getur verið óblíð, landið er afskekkt að margra mati og tungumálið flestum illskiljanlegt. Þar að auki eru gjaldeyrishöft við lýði nú um stundir sem virka fráhrindandi á erlent vinnuafl. Eins og hér hefur verið nefnt eru skattaívilnanir og greiðari afgreiðsla umsókna mikilvægir þættir í að liðka fyrir málinu, en einnig þarf að huga að öðru. Fjölskyldur erlendra sérfræðinga þurfa að geta treyst því að viðeigandi þjónusta sé fyrir hendi og ber þar fyrst að telja alþjóðlega skóla sem sinnt geta menntun barna. Einhver þróun hefur verið í þeim efnum á undanförnum árum en betur má ef duga skal. Einnig þarf að horfa til margra annarra atriða og er gert ráð fyrir að það verði meðal verkefna starfshópsins. Ráðherra er í sjálfsvald sett hvaða einstaklinga hann skipar í starfshópinn en mikilvægt er að þeir hafi sérþekkingu á viðfangsefninu bæði innan úr stjórnsýslunni og úr atvinnulífinu.