Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 128  —  126. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um nýtingu eyðijarða í ríkiseigu.


Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Ásmundur Einar Daðason,
Jóhanna María Sigmundsdóttir, Pétur H. Blöndal,
Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leita allra leiða til að koma ónýttum/ósetnum jörðum í ríkiseigu í notkun og auka með því byggðafestu og atvinnumöguleika í dreifðum byggðum landsins. Enn fremur að greiða fyrir ábúendaskiptum á ríkisjörðum í því skyni að stuðla að markvissri búsetu og uppbyggingu þessara jarða.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðist verði í vinnu við að koma jörðum í eigu ríkisins í notkun hið fyrsta og efla landnýtingu og búsetu á þeim jörðum sem ríkið hefur þegar til ábúðar. Það er mat flutningsmanna að ótækt sé að fjöldi jarða í ríkiseigu sé í eyði, eða illa nýttur, á sama tíma og nýliðun í landbúnaði er erfiðleikum bundin. Þá er þörf fyrir meiri matvælaframleiðslu á Íslandi, sérstaklega á mjólkurvörum og nautgripakjöti og sumar þessara jarða eru heppilegar til matvælaframleiðslu. Auk þess stækkar ört sá hópur til sveita sem sinnir þjónustu við ferðamenn og kann að vera hægt að skapa atvinnutækifæri og efla jaðarbyggðir með markvissri aðgerð sem þessari.
    Ungir bændur eiga í erfiðleikum með að hefja búskap þar sem bújarðir liggja ekki á lausu og/eða eru ákaflega dýrar. Með því að koma jörðum í notkun mætti að nokkru leyti leysa vanda nýliðunar, auka matvælaframleiðslu, tryggja byggðafestu og bæta atvinnumöguleika. Þessi aðgerð er mikilvæg sem hluti af stefnu núverandi ríkisstjórnar um að efla byggð og matvælaframleiðslu. Hún kemur til viðbótar þeim úrræðum sem nú eru í boði, svo sem nýliðunarstyrkjum í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu og möguleika á styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins til atvinnuuppbyggingar á lögbýlum. Hún styður við aðrar þær aðgerðir sem óhjákvæmilega þarf að ráðast í til þess að snúa við óheppilegri byggðaþróun í mörgum héruðum og styður við þá viðleitni að styrkja matvælaframleiðslu á Íslandi á tímum vaxandi eftirspurnar eftir mat í heiminum, en minnkandi framleiðslugetu.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið heldur utan um jarðeignir ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá Jarðeignum ríkisins á ríkið um 473 jarðir og hafa eyðibýli verið talin um 160. Þó er vakin athygli á því að margar eyðijarðir eru nýttar nú þegar, oft nytjaðar af bændum í nágrenninu til beitar eða slægna. Fram kemur á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að unnið hafi verið að nákvæmri skráningu jarða á forræði ráðuneytisins undanfarin ár.
    Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er nú unnið að gerð landsskipulagsstefnu fyrir árin 2015–2026. Í henni verður sett fram stefna ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar sveitarfélögum við skipulagsgerð. Flutningsmenn telja rétt að við vinnslu skipulags landnotkunar í dreifbýli í komandi landsskipulagsstefnu verði tekið mið af tillögu þessari um nýtingu eyðijarða. Hér er lögð til einföld aðgerð af hálfu stjórnvalda sem stuðlar að sjálfbærri og meiri landnýtingu í dreifbýli.
    Einnig má benda á að með því að koma ósetnum/ónýttum jörðum í notkun þá hefði sú aðgerð jákvæð áhrif á ríkissjóð þar sem jarðirnar færu loks að skila tekjum.
    Það er mat flutningsmanna að það sé allra hagur að leitað sé leiða til að tryggja sem best nýtingu jarða sem skráðar eru í eyði og í eigu ríkisins. Nauðsynlegt er að ríkið sem landeigandi hafi skýra sýn á málaflokkinn og stuðli að þeirri landnýtingu á jörðum sínum sem almennt eru talin æskileg með tilliti til byggðar og matvælaframleiðslu á viðkomandi svæði.