Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 162  —  6. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögbann og dómsmál
til að vernda heildarhagsmuni neytenda, nr. 141 21. desember 2001,
með síðari breytingum (innleiðing EES-gerðar).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið. Frumvarpið var lagt fram á 143. löggjafarþingi (þskj. 655, 351. mál) og er það nú lagt fram aftur í óbreyttri mynd. Nefndin afgreiddi málið 6. maí og lagði til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt (þskj. 1055, 351. mál).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Breytingarnar má rekja til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn en þá var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB, frá 23. apríl 2009, um setningu lögbanns til verndar hagsmunum neytenda, felld inn í samninginn. Nýja tilskipunin felur í sér kerfisbindingu, þ.e. að ákvæði löggjafar, ásamt breytingum sem gerðar hafa verið á henni, eru felld brott og í staðinn endurútgefin sem heildarlöggjöf í ljósi skýrleika og hagræðis.
    Frumvarpið felur í sér að til staðar verði réttarúrræði til þess að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem stríðir gegn ákveðnum tilskipunum sem taldar eru upp í viðauka við tilskipun 2009/22/EB og skaðar háttsemi neytenda. Þá er í frumvarpinu lagt til að í stað þess að þær EES-gerðir sem falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB séu taldar upp í lögunum muni ráðherra gefa út reglugerð þar sem upptalninguna verður að finna. Einnig er lagt til að horfið verði frá því að það ráðuneyti sem fer með framkvæmd laganna geti leitað lögbanns eða höfðað mál fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðrum EES- ríkjum.
    Með tilskipun 98/27/EB sem innleidd var hér á landi með lögum nr. 141/2001 var lagt til grundvallar að í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins væru til réttarúrræði til að stöðva ólögmæta markaðsfærslu eða viðskiptahætti sem væru í andstöðu við tilskipanir á sviði neytendaverndar samkvæmt lista þar að lútandi. Heimildin nær eingöngu til þeirra athafna sem kunna að brjóta gegn þeim lögum sem hlutaðeigandi ríki hafa sett vegna lögleiðingar á þessum tilskipunum. Nefndin bendir á að frumvarpið felur í sér einföldun á þann hátt að í hvert sinn sem viðauka við tilskipunina er breytt þarf ekki að eiga sér stað lagabreyting. Sú breyting sem frumvarpið felur í sér, að falla frá því að telja upp þær tilskipanir sem falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB, er sambærileg norskri löggjöf en þar er viðeigandi ráðuneyti falið að gefa út reglugerð með upptalningu gerðanna. Nefndin áréttar að slík birting er jafngild réttarheimild til að byggja lögbannskröfu á eins og gerðirnar væru upp taldar í lögum.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að stjórnvöld og félagasamtök á sviði neytendamála, sem ráðherra útnefnir, geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál fyrir stjórnvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að vernda heildarhagsmuni íslenskra neytenda, enda hafi afleiðinga athafnarinnar gætt hér á landi. Nefndin bendir á að ákvæðið felur í sér að það er ávallt ákvörðun stjórnvaldsins, hins opinbera, að höfða mál í þessu sambandi en viðkomandi félagasamtök á sviði neytendamála muni fara fyrir málinu. Þann kostnað sem fellur til mun stjórnvaldið, þ.e. íslenska ríkið, bera. Nefndin vísar einnig til auglýsingar nr. 1320 frá árinu 2011 um tilnefningu stjórnvalda og samtaka sem rétt hafa til lögbannsaðgerða í þágu heildarhagsmuna neytenda, en þar er að finna þau stjórnvöld og samtök sem hafa heimild til að leita lögbanns eða höfða dómsmál í samræmi við heimildir laga nr. 141/2001. Þau stjórnvöld sem þar eru tilnefnd eru innanríkisráðuneytið, Neytendastofa, Lyfjastofnun, fjölmiðlanefnd. Þau samtök sem eru tilnefnd eru Neytendasamtökin, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Alþýðusamband Íslands og Hagsmunasamtök heimilanna. Nefndin fékk upplýsingar um að stefnt væri að endurskoðun málaflokksins í heild sinni. Eitt af þeim atriðum sem skoða eigi í því sambandi er hvort fjölga eigi þeim stjórnvöldum og samtökum sem hafa heimild til að leita lögbanns eða höfða dómsmál í samræmi við heimildir laganna. Nefndin fagnar slíkri endurskoðun og hvetur til þess að í þeirri vinnu verði litið til þess að fjölga þeim stjórnvöldum og samtökum sem hafi heimildir til að leita lögbanns eða höfða dómsmál í samræmi við heimildir laganna.
    Halldóra Mogensen skrifar undir álitið með eftirfarandi fyrirvara: „Þar til Alþingi gerir breytingar á lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, nr. 141/2001, í samræmi við dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-415/11 sem varðar neytendavernd við nauðungarsölur og aðrar fullnustugerðir og byggist á tilskipun 93/13/EBE, verður ekki til staðar réttarúrræði til að stöðva með lögbanni á grundvelli laganna nauðungarsölur og aðrar fullnustugerðir á fasteign þar sem eigandi heldur heimili. Því þó að tilskipun 93/13/ EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum falli undir tilskipun 98/27/EB sem innleidd var hér á landi með lögum nr. 141/2001, og hér er verið að uppfæra, þá hefur Hæstiréttur Íslands dæmt í máli nr. 636/2012 á skjön við áðurnefndan dóm Evrópudómstólsins og hafnað lögbanni til að stöðva nauðungarsölu á heimili fólks með þeim rökum að réttarreglur um skaðabætur tryggi að fullu mögulega hagsmuni neytenda. Lögbannsákvæði þessara laga verður því áfram óvirkt til að vernda lántakendur með óréttmæta skilmála í neytendasamningum þar til löggjafinn virkjar það. Samkvæmt nýlegri ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014 á þetta við um flest húsnæðislán á Íslandi, en þar segir: „Í ljósi þess að verðtrygging neytendalána hér á landi taki ekki tillit til verðlagsvísitölubreytinga sem geti eða hafi orðið vegna fjárhagshegðunar lánveitenda sjálfra verði ekki hjá því komist að líta á slíka verðtryggingu sem óréttmæta viðskiptahætti.““
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 23. september 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Ólína Þorvarðardóttir. Halldóra Mogensen,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.