Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 163  —  158. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði
og skemmtanahald, nr. 85/2007 (hæfi dyravarða).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Nánar skal kveða á um hæfi og þjálfun dyravarða í reglugerð og er heimilt að kveða þar á um að dyraverðir skuli hafa náð 20 ára aldri, að þeir hafi ekki gerst sekir um ofbeldis- eða fíkniefnabrot á síðastliðnum fimm árum og að dyraverðir skuli sækja sérstök námskeið þar sem farið er yfir atriði sem á reynir við dyravörslu, svo sem ákvæði áfengislaga, hjálp í viðlögum, viðbrögð við óspektum og hvernig þekkja megi merki um neyslu og sölu ólöglegra vímuefna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í þeim tilgangi að tryggja að ákvæði reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 585/2007 standist grundvallarkröfu stjórnskipunarréttar um lagastoð.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta felur í sér breytingu á 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Breytingin varðar hæfi og kröfur sem gerðar eru til dyravarða á veitinga- og skemmtistöðum.
    Ákvæði 18. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald kveður á um fortakslausar kröfur sem gera skal til umsækjenda um leyfi til að verða dyravörður. Annars vegar er um að ræða kröfu um 20 ára aldurstakmark og hins vegar kröfu um að umsækjandi hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot. Að mati ráðuneytisins veitir ákvæði 6. gr. áðurnefndra laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald ekki nægjanlega stoð fyrir svo fortakslausum skilyrðum í reglugerð en í lagaákvæðinu kemur aðeins fram að nánar skuli kveða á um skyldu til dyravörslu og framkvæmd námskeiða í reglugerð.
    Ráðuneytið telur eðlilegt að gera framangreindar kröfur til umsækjenda um leyfi til að starfa sem dyravörður en telur þó rétt að takmarka tímabilið við fimm ár, þ.e. gera þá kröfu að viðkomandi hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot á síðustu fimm árum, en lögreglan hefur unnið eftir slíku fyrirkomulagi síðustu ár.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að við 2. mgr. 6. gr. bætist þau skilyrði sem áður eru nefnd, þ.e. krafan um ákveðið aldurstakmark og einnig krafa um að umsækjandi megi ekki hafa gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot á síðastliðnum fimm árum áður en sótt er um leyfið.
    Eðlilegt þykir að miða við að dyraverðir skuli hafa náð 20 ára aldri enda gegna þeir mikilvægu hlutverki við að gæta að öryggi gesta á veitinga- og skemmtistöðum.
    Þá er auk þess gerð sú krafa að umsækjandi um leyfi til að gerast dyravörður hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot á grundvelli almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, á síðustu fimm árum. Skilyrði þetta skal túlkað þannig að umsækjandi hafi ekki hlotið dóm eða gengist undir greiðslu sektar vegna ofbeldis- eða fíkniefnabrots á grundvelli laganna. Ákvæði 18. gr. reglugerðar nr. 585/2007 gerir ekki ráð fyrir fimm ára takmörkuninni en unnið hefur verið eftir slíkri takmörkun af hálfu lögreglunnar sem veitir leyfi til dyravörslu.
    Með þessari breytingu er stoðum skotið undir ákvæði núgildandi reglugerðar svo tryggt sé samræmi við ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnuréttindi þegnanna. Þannig munu nú koma fram í lagaákvæðinu þau takmörk og umfang réttindaskerðingar sem nauðsynleg er talin í þessu samhengi.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta er lagt fram m.a. í þeim tilgangi að tryggja samræmi laga við stjórnarskrá, sbr. það sem fram hefur komið hér að framan.

V. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögfest verði skilyrði sem þegar koma fram í reglugerð nr. 585/2007 og unnið hefur verið eftir í allmörg ár. Ekki er því gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til breytinga á ferli við leyfisveitingar til dyravörslu samkvæmt lögum nr. 85/2007.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um hæfi og þjálfun dyravarða og tiltekið að umsækjandi um leyfi til að starfa sem dyravörður á veitinga- og skemmtistöðum skuli hafa náð 20 ára aldri og auk þess gert að skilyrði að umsækjandi hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot á síðastliðnum fimm árum. Hér er gert ráð fyrir að umsækjandi hafi hvorki hlotið dóm né gengist undir greiðslu sektar vegna ofbeldis- eða fíkniefnabrots á síðustu fimm árum. Þá er einnig tiltekið að dyraverðir skuli sækja sérstök námskeið þar sem farið er yfir ákvæði áfengislaga, hjálp í viðlögum, viðbrögð við óspektum og hvernig þekkja megi merki um neyslu og sölu ólöglegra vímuefna. Lögreglan veitir leyfi til að starfa við dyravörslu.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði,
gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 (hæfi dyravarða).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum er varðar hæfi og kröfur sem gerðar eru til dyravarða á veitinga- og skemmtistöðum. Gert ráð fyrir að gerð verði sú krafa að umsækjandi um leyfi til að verða dyravörður skuli hafa náð 20 ára aldurstakmarki og hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot.
    Ekki verður séð að frumvarpið muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði það að óbreyttu lögfest.