Ferill 179. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 188  —  179. mál.
Beiðni um skýrslufrá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stöðu kvenna
í landbúnaði og tengdum greinum.


Frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, Þórunni Egilsdóttur, Vigdísi Hauksdóttur,
Elsu Láru Arnardóttur, Sigrúnu Magnúsdóttur, Elínu Hirst,
Valgerði Gunnarsdóttur, Brynhildi Pétursdóttur, Björt Ólafsdóttur,
Ólínu Þorvarðardóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur,
Bjarkeyju Gunnarsdóttur, Katrínu Jakobsdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur,
Steinunni Þóru Árnadóttur og Svandísi Svavarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu kvenna í landbúnaði og tengdum greinum eigi síðar en í janúar 2015. Þess er farið á leit við ráðherra að fjallað verði um eftirfarandi í skýrslunni:
     1.      Aldursdreifingu kvenna í atvinnugreininni eftir fjölda þeirra á bilinu 18–25 ára, 26–35 ára, 36–45 ára, 46–55 ára, 56–65 ára og 66 ára og eldri.
     2.      Hjúskaparstöðu kvenna í landbúnaði.
     3.      Barneignir kvenna í landbúnaði með samanburði við konur í öðrum atvinnugreinum.
     4.      Fjölda starfandi kvenna í landbúnaði og í tengdum greinum.
     5.      Menntun kvenna í landbúnaðartengdum fræðum og í öðrum fræðum.
     6.      Hvar konur sem starfa í greininni hafa stundað nám tengt landbúnaði (innan lands, á Norðurlöndum eða annars staðar í heiminum).
     7.      Fjölda þeirra kvenna sem sækja sér endurmenntun (á hve margra ára fresti), annars vegar þeirra sem starfa í landbúnaði og hins vegar þeirra sem starfa í tengdum greinum.
     8.      Fjölda þeirra kvenna sem starfa í félagskerfi landbúnaðarins og fjölda þeirra sem sitja í stjórnum hagsmunafélaga, búnaðarfélaga, búnaðarsambanda o.s.frv.
     9.      Fjölda þeirra kvenna sem starfa í landbúnaði annars vegar og hins vegar þeirra sem starfa í tengdum greinum og sinna sveitarstjórnarstörfum (aðalmenn, varamenn, nefndarseta).
     10.      Fjölda kvenna í stjórnum eða í forsvari fyrir fyrirtæki á sviði landbúnaðar.
     11.      Launamun kvenna og karla sem starfa í landbúnaði og þróun launamála kvenna innan atvinnugreinarinnar.
     12.      Samantekt á fjölgun/fækkun kvenna sem starfa í landbúnaði og tengdum greinum og þróun þeirra mála.
     13.      Verkefni sem konur hafa efnt til í því skyni að efla íslenskan landbúnað.
     14.      Þau fyrirtæki sem konur sem starfa í landbúnaði og tengdum greinum hafa stofnað.
     15.      Upplýsingar um eignarhald kvenna í landbúnaði, jörðum, búskap og tengdum rekstri.

Greinargerð.

    Undanfarin ár hefur umræða um eflingu landbúnaðar á Íslandi verið ofarlega á baugi. Í því samhengi er helst rætt um aukna framleiðslu landbúnaðarafurða. En innan atvinnugreinarinnar hafa orðið margvíslegar breytingar. Þar má t.d. nefna breytingar í félagskerfi landbúnaðarins. Samhliða þeim breytingum hafa konur orðið meira áberandi í forsvari fyrir bændur, hvort heldur sem er innan atvinnugreinarinnar eða út á við. Við síðustu kosningu í stjórn Bændasamtaka Íslands voru í fyrsta sinn fleiri konur en karlar kosnar í stjórn.
    Það er greinilegt að miklar breytingar eru að verða í greininni og því telja flutningsmenn mikilvægt að láta kortleggja stöðu kvenna í atvinnugreininni og tengdum greinum, svo sem varðandi aldursdreifingu, störf, menntun o.fl. Með tengdum greinum er átt við þær atvinnugreinar sem tengjast inn í landbúnað á einn eða annan hátt svo sem dýralækningar, mjólkurfræði o.s.frv. Með því að gera úttekt sem þessa er hægt að nýta upplýsingar til að hvetja konur á öllum aldri til að sækjast eftir að starfa í landbúnaði, tengdum greinum og félagsmálum þar að lútandi.
    Það er von þeirra sem að beiðni þessari standa að með því að láta vinna skýrslu um stöðu kvenna í landbúnaði verði hægt að kortleggja bakgrunn kvenna sem starfa í greininni og unnt að sjá hvaða svið innan landbúnaðarins og í tengdum greinum konur leggja helst fyrir sig. Upplýsingar um aldur kvenna í atvinnugreininni ættu að gefa skýrari mynd af því hvenær konur hefja helst störf í landbúnaði og þá hvert beina þarf kröftum til að efla og styrkja greinina. Upplýsingar um þróun launamála og fjölgun eða fækkun innan greinarinnar munu nýtast sem verkfæri til frekari vinnu í jafnréttismálum.