Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 204  —  185. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun).


Flm.: Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp til að kortleggja leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og útrýma fátækt.
    Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, EAPN Ísland, Félag eldri borgara, Jafnréttisstofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Öryrkjabandalag Íslands, og fjármála- og efnahagsráðherra tilnefni einn fulltrúa hvert í starfshópinn en einn fulltrúa skipi félags- og húsnæðismálaráðherra án tilnefningar og verði hann formaður starfshópsins.
    Verkefni starfshópsins verði að leita leiða til að tryggja öllum borgurum skilyrðislausa grunnframfærslu, við þá vinnu verði:
     a.      lagt mat á kosti og galla ólíkra leiða í skilyrðislausri grunnframfærslu, m.a. með hliðsjón af núverandi almannatryggingakerfi og öðrum framfærslukerfum, flækjustigi þeirra, markmiðum og árangri og áhrifum þeirra á afkomu og kaupmátt ólíkra samfélagshópa,
     b.      teknar saman þær hugmyndir um grunnframfærslu og neysluviðmið sem komið hafa fram hér á landi og lagt mat á kosti þeirra og galla,
     c.      kostnaðargreindar mögulegar leiðir við upptöku skilyrðislausrar grunnframfærslu með hliðsjón af rekstrarkostnaði núverandi kerfis.
    Við starfið verði litið til reynslu annarra ríkja þar sem gerðar hafa verið tilraunir með grunnframfærslu, þar á meðal með tilliti til sparnaðar sem hefur fengist með minnkuðu flækjustigi og minni rekstrarkostnaði og til kostnaðar sem hefur orðið, sem og annarra samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa. Þá verði leitað aðstoðar og leiðsagnar innlendra og erlendra sérfræðinga sem og hagsmunaaðila og hjálparsamtaka eftir þörfum.
    Félags- og húsnæðismálaráðherra kynni niðurstöður starfshópsins með skýrslu til Alþingis eigi síðar en á haustþingi 2015.

Greinargerð.

1. Framfærsla og mannréttindi.
    „Hugtökin velferð og mannréttindi fela í sér grundvallarmun, því velferð er ekki lagalegt hugtak og vísar ekki til mannréttinda í sjálfu sér, og hafa þarf hugfast að ríkinu ber skylda til að tryggja að tilteknum þörfum íbúa landsins sé mætt; ekki á grundvelli velferðar eða ölmusu, heldur á grundvelli lagalegs réttar.“ 1
    Fátækt á Íslandi er að miklu leyti afleiðing íslenskrar velferðarstefnu sem byggist á skilyrtri velferðarforsjá í formi lágmarksaðstoðar og áherslu á góðgerðarstarfsemi og ölmusu fyrir þá verst settu. Íslenska ríkið hefur í gegnum árin sett lög og reglugerðir sem veita fólki svo lágar bætur að upphæðirnar eru innan fátæktarmarka. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru á árinu 2013 rúmlega 42 þúsund manns, eða 13,7% landsmanna, undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun.
    Rannsóknir sem gerðar hafa verið á lífi og aðstæðum fátækra sýna mjög greinilega hversu alvarlegar afleiðingar fátækt hefur fyrir samfélagið í heild. Afleiðingar fátæktar birtast m.a. í miklu andlegu álagi og vanlíðan, niðurlægingu sem leiðir til skertrar sjálfsvirðingar, sorgar yfir aðstæðum og hlutskipti og niðurbrots á heilsufari, bæði andlegu og líkamlegu. Þetta stuðlar að því að fátækt fólk, þar á meðal börn, dregst út úr þátttöku í samfélaginu og missir samkeppnisfærni og nýtur þar af leiðandi ekki þeirra tækifæra og gæða sem teljast sjálfsögð og eðlileg í samfélaginu. Niðurstöður sýna að börn sem fædd eru inn í fátæktaraðstæður eru í verulegri hættu á að fara út í lífið með brotna sjálfsmynd og upplifa sig sem annars flokks þegna. Ef markmiðið er að tryggja að allir borgarar landsins geti tekið virkan þátt í lýðræðislegu samfélagi verða efnahagsleg og félagsleg réttindi að eiga sama sess í lögum og borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Afleiðingar þess að útiloka frá þátttöku í samfélaginu umræddan hóp fólks sem býr við skert félagsleg réttindi munu verða okkur dýrkeyptar til lengri tíma. Óskasamfélag Íslendinga hlýtur að vera samfélag þar sem rík áhersla er lögð á mannréttindi, lýðræði og frelsi.

2. Hugmyndin um skilyrðislausa grunnframfærslu.
    Skilyrðislaus grunnframfærsla er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega, gera það réttlátara og sömuleiðis uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í samfélaginu. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum. Þessi upphæð er hugsuð sem grunnframfærsla til að tryggja þau efnahagslegu og félagslegu réttindi sem Ísland er samningsbundið til að tryggja samkvæmt alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Með öðrum orðum er þetta tegund af grunnframfærslu sem er frábrugðin þeirri skilyrtu grunnframfærslu sem notast er við í ýmsum löndum í Evrópu vegna þess að hún er greidd:
     1.      til einstaklinga fremur en heimila,
     2.      óháð öllum öðrum tekjum,
     3.      án kröfu um að einstaklingur hafi verið í vinnu áður eða sé viljugur að taka þá vinnu sem er í boði.
    Nokkur ríki hafa gert tilraunir með skilyrðislausa grunnframfærslu. Í Norður-Ameríku voru á árunum 1968–1980 gerðar fimm mismunandi tilraunir á „Guaranteed Annual Income“ (GAI) sem er tilbrigði af skilyrðislausri grunnframfærslu. Tilgangur tilraunanna var aðallega sá að rannsaka áhrif GAI á vinnumarkaðinn. Fyrsta tilraunin átti sér stað í New Jersey og Pennsylvaníu á árunum 1968–1972 þar sem áhrif GAI á borgarbúa voru skoðuð. Önnur tilraun var gerð í Gary, Indiana, til að kanna áhrif GAI á einstæða foreldra. Þriðja tilraunin fór fram í Norður-Karólínu og Iowa til að rannsaka áhrifin á landsbyggðina. Fjórða tilraunin í Seattle-Denver var stærst og náði til mun stærri hóps íbúa. Tilraunin hét „Income Maintenance Experiment“ (SIME-DIME). Seinasta tilraunin með GAI, sem var einnig sú frægasta, var nefnd MINCOME og átti sér stað í bænum Dauphin í Manitoba í Kanada á árunum 1974–1979.
    Niðurstöður þessara mismunandi tilrauna þóttu koma á óvart þar sem lítil áhrif virtust vera á vinnumarkaðinn en töluverð áhrif voru á líkamlega og andlega heilsu fólks og tækifæri þess til menntunar. Þeir sem hættu að vinna eða minnkuðu vinnutíma voru aðallega konur sem kusu að verja meiri tíma í heimilið og börnin og ungt fólk sem kaus að mennta sig frekar og seinkaði þannig komu sinni á vinnumarkaðinn. Í Norður-Karólínu sýndu börn tilraunafjölskyldna bættan árangur í grunnskólaprófum. Í New Jersey var prófgögnum ekki safnað en jákvæð áhrif voru á skólagöngu barna þar sem mikil minnkun var á brottfalli. Í SIME- DIME tilrauninni var mikil aukning á endurmenntun fullorðinna. Þessar niðurstöður þóttu frekar merkilegar í ljósi þess að fræðimenn hafa lengi talið nánast ómögulegt að hafa áhrif á prófárangur, brottföll eða menntunarákvarðanir með beinni íhlutun. Í Gary, Indiana, rannsókninni fundust jákvæð áhrif á fæðingarþyngd í þeim hópum sem voru í mestri áhættu. Niðurstöður í Manitoba-tilrauninni sýndu fækkun sjúkrahúsinnlagna og þá sérstaklega innlagna vegna slysa og meiðsla og geðsjúkdóma. Reiknaður sparnaður í heilbrigðiskerfinu var 8,5% á tímabilinu sem rannsóknin stóð yfir.
    Í Alaska hófst árið 1977 vinnsla olíu úr stærstu olíulind sem uppgötvuð hefur verið í Norður-Ameríku. Skömmu síðar var gerð stjórnarskrárbreyting sem gerði ríkinu kleift að setja á fót sjóð sem nefnist „Alaska Permanent Fund“ þar sem settur er til hliðar hluti (að minnsta kosti 25%) af tekjum olíuvinnslunnar fyrir komandi kynslóðir. Þegar sjóðurinn var stofnaður var ætlunin að koma í veg fyrir að allar tekjur olíuframleiðslunnar lentu í höndum stjórnmálamanna þar sem óttast var að peningum yrði sóað. Alaska-sjóðurinn er fjárfestingarsjóður með það að markmiði að hagnast um 5% á ári og eru þær fjármagnstekjur sem sjóðurinn fær greiddar út árlega til allra borgara Alaska. Þrátt fyrir að upphæðirnar séu ekki nægilega háar til að duga fyrir grunnframfærslu, 900 dollarar á hvern einstakling árið 2013, er Alaska-sjóðurinn ein birtingarmynd þess hvernig skilyrðislaus grunnframfærsla gæti verið útfærð.
    Í Namibíu var byrjað að rannsaka áhrif skilyrðislausrar grunnframfærslu árið 2007 og stóð sú rannsókn yfir í tvö ár. Rannsóknin var gerð í litlu þorpi sem heitir Otjivero þar sem ríkti gríðarleg fátækt, glæpir voru tíðir og mikið atvinnuleysi. Þar var ákveðið að greiða öllum íbúum svæðisins (að undanskildum þeim sem höfðu náð 60 ára aldri og þá þegar fengu skilyrðislausar lífeyrisgreiðslur frá ríkinu) mánaðarlega upphæð sem næmi helmingi þeirrar upphæðar sem skilgreind var sem fátæktarmörk. Niðurstöður þessarar tilraunar voru margvíslegar en til að nefna þær helstu þá fækkaði tilkynntum glæpum til lögreglunnar um 36,5%, hlutfall vannærðra barna féll úr 42% niður í 10%, brottfall úr skólum minnkaði um 42%, atvinnuleysi fór úr 60% niður í 45% og atvinnuþátttaka jókst, meðaltekjur, að undanskildum styrknum, jukust um 29% og fjöldi nýrra fyrirtækja var stofnaður.
    
3. Saga skilyrðislausrar grunnframfærslu.
    „[Þ]að er ekki góðgerðarstarfsemi, heldur réttindi, ekki ölmusa heldur réttlæti, sem ég tala fyrir.“ 2 Hugmyndin að skilyrðislausri grunnframfærslu á sér langa sögu innan heimspekinnar og hagfræðinnar en upphafið að hugmyndinni má rekja til ársins 1516 þegar enski heimspekingurinn og lögfræðingurinn Thomas More skrifaði bókina Útópíu. Í bókinni lýsir More hugmynd sinni að eins konar fyrirmyndarsamfélagi þar sem áhersla er lögð á að fyrirbyggja glæpi með útrýmingu fátæktar frekar en að notast við refsikerfi í samfélagi þar sem beinlínis er stuðlað að glæpum með gífurlegum ójöfnuði. More bendir á að þar sem maður sem er að verða hungurmorða lætur ekki hugsanlega refsingu stöðva sig í því að stela til að fæða sig og fjölskyldu sína, væri farsælla að skapa samfélag þar sem enginn væri neyddur til þess að stela sér til matar. Í gegnum árin hafa margir hugsuðir tekið hugmyndir Thomas More og þróað þær áfram í nútímalegri mynd. Mikilvægt skref í þeirri þróun átti sér stað árið 1797 þegar heimspekingurinn og rithöfundurinn Thomas Paine lagði fram hugmyndir sínar um borgaralaun í bæklingnum „Agrarian Justice“ en þar fer hann skrefinu lengra en More og fjallar um borgaralaun sem náttúrulegan og meðfæddan rétt allra borgara. Röksemdafærsla hans gengur út frá því að „jörðin, í sínum náttúrulega ham er, og verður alltaf, sameiginleg eign allra jarðarbúa.“ Paine vildi meina að allir, hvort sem þeir væru ríkir eða fátækir, ættu að fá greiddan arð af sameiginlegum auðlindum landsins. Árið 1918 kom svo út bók Bertrands Russel, heimspekings og Nóbelsverðlaunahafa, sem nefnist „Proposed Roads to Freedom: Socialism, Anarchism, and Syndicalism“. Í þeirri bók kemur hugmyndin að algildri grunnframfærslu fram nánast fullmótuð eins og hún er skilgreind nú.
    Umræðan um skilyrðislausa grunnframfærslu náði hámarki í Bandaríkjunum á 7. áratug síðustu aldar þegar 1.200 hagfræðingar, þar á meðal tveir Nóbelsverðlaunahafar, sendu áskorun til Bandaríkjaforseta um að skoða upptöku skilyrðislausrar grunnframfærslu þar í landi. Núna er skilyrðislaus grunnframfærsla til skoðunar hjá mörgum stjórnmálaflokkum í Evrópu, t.d. flokkum í Noregi, Pírataflokkum víðs vegar um Evrópu og hjá Húmanistaflokknum hér á landi sem gerði skilyrðislausa grunnframfærslu að einu af stefnumálum sínum í síðustu alþingiskosningum. Upptaka þessa kerfis hefur verið mikið í umræðunni í Sviss og þar verða greidd atkvæði um það árið 2016.

4. Núverandi framfærslukerfi og gallar þeirra.
    Samkvæmt gildandi kerfi geta einstaklingar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fengið ákveðna framfærslu í gegnum almannatryggingakerfið, atvinnuleysistryggingakerfið eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Námsmenn geta þar að auki tekið námslán til að tryggja sér ákveðna grunnframfærslu séu þeir í viðurkenndu námi. Öll þessi kerfi eiga það sameiginlegt að vera bundin ákveðnum og misströngum skilyrðum sem hafa þarf virkt eftirlit með.
    Stefán Ólafsson, formaður stjórnar Tryggingastofnunar, hefur lýst göllum almannatryggingakerfisins þannig að það sé flókið og ógagnsætt. Í því séu of margir bótaflokkar, samskiptaörðugleikar séu milli almannatrygginga og lífeyrissjóða með óheppilegri virkni skerðingarreglna (tekjutenginga), lífeyrir almannatrygginga sé of lágur og í kerfinu séu ófullnægjandi virknihvatar. Bæta mætti við þessa gagnrýni hversu dýrt kerfið er í rekstri og hversu óvinsamlegt það getur verið þeim sem þurfa á því að halda. Þegar kerfi er óvinsamlegt er lítill hvati til að bera virðingu fyrir því eða fara vel með það. Flókið og óvinsamlegt kerfi eykur mjög líkurnar á bótasvindli.
    Almannatryggingakerfið byggist á skilyrtri grunnframfærslu sem felur í sér gífurlega upplýsingasöfnun og eftirlit. Flækjustig kerfisins gerir það að verkum að eftirlit er flókið og þungt. Eins og Stefán bendir á eru ófullnægjandi virknihvatar fylgikvillar skilyrtrar grunnframfærslu. Vegna skerðinga og flækjustigs er oft hagstæðara að vera á fullum bótum en að taka einhverja vinnu, ef heilsa leyfir, til að ná endum saman og því er hugsanlegt að einhverjir kjósi að skrimta einungis á bótunum jafnvel þó að vinna sé í boði. Ef framfærslan væri aftur á móti skilyrðislaus þá mundi einhver vinna alltaf bæta hag viðkomandi þar sem að hún legðist ofan á grunnframfærsluna.
    Atvinnuleysistryggingakerfið er að mestu sama marki brennt og almannatryggingakerfið. Það er þungt í vöfum, byggist á mikilli upplýsingasöfnun og kostnaðarsömu eftirliti. Bótasvik eru vandamál sem erfitt hefur reynst að koma í veg fyrir. Þá er réttur atvinnuleitenda í kerfinu tímabundinn og finni þeir ekki vinnu innan tiltekins tíma þurfa þeir annaðhvort að stóla á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eða skrá sig í nám og stofna til námslána.
    Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er háð ýmsum skilyrðum og eru reglur sveitarfélaga um aðstoðina ekki samræmdar, hvorki hvað varðar þau skilyrði sem hún er bundin eða fjárhæð aðstoðarinnar. Aðstoðin er tímabundin og sækja þarf um hana síendurtekið. Þó svo að reglur sveitarfélaganna um aðstoð séu misjafnar eiga þær það þó sameiginlegt að umsókn um fjárhagsaðstoð hefur í för með sér mikla vinnu við upplýsingaöflun og úrvinnslu.
    Það segir sig sjálft að þegar grunnframfærslan er orðin skilyrðislaus minnkar flækjustigið töluvert, eftirlit verður óþarft og þetta þunglamalega skriffinnskubákn getur vikið. Ljóst er að skilyrt framfærsla er nú þegar greidd í gegnum nokkur mismunandi kerfi. Skýr lög um skilyrðislausa grunnframfærslu gætu því ekki eingöngu haft í för með sér ákveðin samfélagslegan sparnað, líkt og rannsóknir gefa til kynna, heldur gæti komið til raunverulegs sparnaðar ríkis og sveitarfélaga.
    Þá er vert að benda á að skilyrðislaus grunnframfærsla næði til allra, einnig námsmanna. Einstaklingar ættu því auðveldara með að afla sér menntunar og þyrftu ekki að leita á náðir Lánasjóðs íslenskra námsmanna með tilheyrandi skuldabagga næstu tugi ára. Slík breyting hefði í för með sér ákveðið hagræði auk þess sem hún mundi efla fjárhagslega stöðu fólks sem væri að koma inn á vinnumarkaðinn úr námi.

5. Framtíðin.
    Samkvæmt skýrslu sem gefin var út árið 2013 hjá Oxfordháskóla og nefnist „The Future of Employment: How Susceptible are Jobs to Computerisation?“ virðist sem 47% af öllum störfum í Bandaríkjunum séu í hættu á að hverfa vegna tækniframfara. Höfundar skýrslunnar spá því að flest störf sem tengjast samgöngum og flutningum, ásamt meginþorra skrifstofu- og stjórnsýslustarfa auk framleiðslustarfa séu í mestri hættu.
    Nefna má sem dæmi að á næstu tveimur áratugum eru 99% líkur á því að símasölustörf verði tölvuvædd, 94% líkur á að störf endurskoðenda hverfi, 92% líkur á að smásölustörf verði óþörf og 86% líkur á að fasteignasalar heyri sögunni til. Niðurstöðurnar gefa til kynna að þau störf sem eru í mestri hættu eru láglaunastörf sem krefjast lítillar þekkingar. Eftir því sem tæknin þróast þurfa þeir sem sinnt hafa þessum störfum að taka að sér ný störf sem eru síður viðkvæm fyrir tölvuvæðingunni, störf sem krefjast sköpunar- og félagsgreindar, en til þess að verða ekki undir í þessum tæknivædda heimi þá þarf þessi hópur fólks að geta sótt sér þessa nýju kunnáttu í menntakerfinu. Einhvern veginn þarf ríkið að koma til móts við þetta fólk og styðja við bak þess á þessum umbreytingatímum. Ljóst er að núverandi almannatryggingakerfi mun ekki geta borið kostnaðinn af þessum miklu tækniframförum sem munu koma til með að lita framtíðarþjóðfélag okkar.
    Önnur umræða sem hefur verið hávær síðustu missiri og hefur skapað mikla óvissu um efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks er umræðan um tap lífeyrissjóða eftir hrun. Í munnlegri skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu lífeyrissjóðanna á Alþingi 16. febrúar 2012 veltir ráðherra fyrir sér mjög mikilvægri spurningu og segir: „hvaða afleiðingar það getur haft þegar stórir hópar hefja töku lífeyris en færri greiða til sjóðanna þegar aldurssamsetning þjóðarinnar breytist. Í dag er það þannig að það eru ríflega fimm starfandi að baki hverjum eftirlaunamanni en árið 2050 verða u.þ.b. tveir starfandi að baki hverjum eftirlaunamanni ef að líkum lætur.“

6. Samantekt.
    Í tillögu þessari er lagt til að kortlagðar verði leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu og er gert ráð fyrir því að félags- og húsnæðismálaráðherra kynni niðurstöður þeirrar vinnu fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2015. Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun almannatryggingakerfisins og er það von flutningsmanna að niðurstöður af þessari vinnu sem hér er lögð til geti orðið til þessað opna og þróa umræðu um framtíð þess kerfis. Hugmyndin sem hér er kynnt er róttæk en flutningsmenn árétta að með henni er þó ekki lagt til að þegar verði tekin upp skilyrðislaus grunnframfærsla, heldur að unnin verði fagleg greiningarvinna til að koma með tillögur að útfærslu slíkrar framfærslu sem gæti orðið dýrmætt innlegg í þá umræðu sem staðið hefur yfir síðustu ár. Mikilvægt er að opna umræðuna og koma með nýja sýn á hugmyndir um framfærslu og framfærslukerfi og er það von flutningsmanna að umræður um tillöguna, bæði á Alþingi og í samfélaginu, verði líflegar og að henni verði tekið af opnum huga.
    Grunnhugtökin sem styðja við hugmyndafræðina á bak við skilyrðislausa grunnframfærslu eru frelsi og jafnrétti, skilvirkni og samstaða, jörðin sem sameiginleg eign allra jarðarbúa, jöfn hlutdeild sameiginlegs ávinnings af tækniframförum, sveigjanleiki á vinnumarkaði og reisn hinna fátæku, baráttan gegn atvinnuleysi og ómannúðlegum vinnuskilyrðum, baráttan gegn landsbyggðarflótta og ójöfnuði á milli sveitarfélaga, efling fullorðinsfræðslu og sjálfstæði gagnvart vinnuveitanda og maka.
    Stuðst var við þessa hugmyndafræði við tillögur að uppbyggingu starfshópsins þar sem leitast var eftir að tryggja að sem breiðastur hópur þeirra sem hafa hagsmuna að gæta mundu koma að vinnunni.
    Baráttan gegn fátækt á Íslandi snýst ekki einungis um að bæta hag lítils og afmarkaðs hóps fólks í samfélaginu heldur snýst hún um grundvallarmannréttindi, jafnrétti, mannvirðingu og lýðræðisumbætur sem mundu betrumbæta samfélagið fyrir alla. Baráttan snýst um það raunverulega frelsi sem fæst með eflingu efnahagslegra- og félagslegra réttinda, aukið sjálfstæði, sem vinnst þegar miðstýring ríkisstjórnar er minnkuð, og eflingu friðhelgi einkalífs þegar eftirlitið verður óþarft. Þung og flókin kerfi, eins og við búum við núna, hafa mjög alvarleg og neikvæð áhrif á lýðræðisríki þar sem þau hefta aðgang fólks að nauðsynlegum upplýsingum um réttindi sín svo það geti verið virkir þátttakendur í lýðræðinu. Án gagnsæis og greiðs aðgangs að upplýsingum er lýðræði einungis sýndarleikur fyrir þá sem ekki kunna að greiða úr flækjum kerfisins.
    Heimurinn er að þróast og við höfum ekki efni á því að spyrna á móti þeirri þróun til lengdar. Það sem ákvarðar hvort viss þróun sé neikvæð eða jákvæð fyrir samfélag er geta okkar til að sjá hvert við stefnum og horfast í augu við óhjákvæmilega þróun og undirbúa okkur. Möguleikinn á stórkostlegum breytingum er ljós en til þess að tryggja samfélaginu þann möguleika að lenda á betri stað er mikilvægt að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum og rannsaka alla valkosti.
Neðanmálsgrein: 1
1     Aðalheiður Ámundadóttir og Rachael Lorna Johnstone. Mannréttindi í þrengingum – Efnahagsleg og félagsleg réttindi í kreppunni, 2011
Neðanmálsgrein: 2
2     Thomas Paine, 1796.