Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 233  —  207. mál.Frumvarp til laga

um úrskurðarnefnd velferðarmála .

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
I. KAFLI
Hlutverk, skipan og starfshættir.
1. gr.
Hlutverk.

    Úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og veita álit eða úrskurða í öðrum ágreiningsmálum eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Úrskurðarnefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum.

2. gr.
Nefndarskipan.

    Nefndin skal skipuð níu nefndarmönnum sem skipaðir skulu þannig:
     1.      Ráðherra skipar formann úrskurðarnefndar velferðarmála og tvo varaformenn í fullt starf til fimm ára að undangenginni auglýsingu samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um embættismenn og að fenginni umsögn matsnefndar skv. 2. tölul. Þeir skulu uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Um réttindi þeirra og skyldur fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Laun og starfskjör þeirra skulu ákveðin af kjararáði.
     2.      Ráðherra skal skipa þrjá menn í matsnefnd sem meta skal hæfni umsækjenda um embætti nefndarmanna í úrskurðarnefnd velferðarmála. Tveir nefndarmanna í matsnefnd skulu tilnefndir af Hæstarétti og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Matsnefndin skal láta ráðherra í té skriflega rökstudda umsögn um umsækjendur.
     3.      Ráðherra skipar sex aðra nefndarmenn og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn. Þrír þeirra skulu hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði og einn skal vera læknir. Þess skal gætt að innan nefndarinnar sé jafnan nauðsynleg sérþekking á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.

3. gr.
Starfshættir.

    Formaður nefndarinnar gegnir jafnframt embætti forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar, hefur yfirstjórn hennar með höndum og ber ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Hann fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við. Forstöðumaður ræður starfsfólk nefndarinnar.
    Að jafnaði skulu þrír nefndarmenn eiga sæti í úrskurðarnefndinni þegar fjallað er um mál sem nefndinni berst. Ef mál er viðamikið eða fordæmisgefandi getur formaður ákveðið að fimm menn eigi sæti í nefndinni við umfjöllun um það. Formaður ákvarðar hvernig nefndin er skipuð í hverju máli. Hann skal gæta þess að í nefndinni eigi sæti þeir sem bestu þekkingu hafa til úrlausnar málsins. Formaður eða varaformaður stýrir störfum nefndarinnar við umfjöllun máls. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
    Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn við meðferð einstakra mála. Skulu þeir starfa með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns.

4. gr.
Þagnarskylda.

    Nefndarmönnum, starfsmönnum og ráðgjöfum nefndarinnar er óheimilt að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

II. KAFLI
Málsmeðferð.
5. gr.
Kærufrestur.

    Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kæra telst nógu snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið póstlagt áður en fresturinn er liðinn.
    Um málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt ákvæðum laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, laga um fjöleignarhús og húsaleigulaga fer samkvæmt ákvæðum þeirra laga.

6. gr.
Upplýsingaskylda og gagnaöflun.

    Stjórnvöldum er skylt að láta úrskurðarnefnd velferðarmála í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar sem hún telur nauðsynlegar vegna úrlausnar máls. Um upplýsingaskyldu og gagnaöflun fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga sem stjórnsýslukæra eða beiðni um úrskurð eða álit nefndarinnar byggist á.

7. gr.
Málsmeðferð.

    Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni skal að jafnaði vera skrifleg. Nefndin getur þó ákveðið að kalla málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund.
    Úrskurðarnefndin skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni máls áður en nefndin kveður upp úrskurð sinn eða gefur álit í ágreiningsmáli, enda telji nefndin að afstaða hans og rök fyrir henni liggi ekki fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft.
    Úrskurðarnefndin skal kveða upp úrskurð eða gefa álit svo fljótt sem kostur er og að jafnaði innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál nema sérstakar ástæður hamli, og skal kærandi eða álitsbeiðandi þá upplýstur um ástæður tafar og hvenær vænta má úrskurðar eða álits. Um afgreiðslutíma mála sem kærð eru til nefndarinnar samkvæmt ákvæðum 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, fer samkvæmt þeim lögum.
    Úrskurðir og álit nefndarinnar eru endanleg á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

8. gr.

Réttaráhrif og aðfararhæfi.


    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar nema á annan veg sé mælt í lögum sem kæranleg ákvörðun byggist á. Úrskurðarnefndinni er þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar ef sérstakar ástæður mæla með því.
    Um aðfararhæfi úrskurða nefndarinnar fer samkvæmt ákvæðum laga sem kæranleg ákvörðun byggist á.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
9. gr.
Birting úrskurða og álita. Ársskýrsla.

    Nefndin skal birta helstu úrskurði sína og álit með aðgengilegum og skipulegum hætti. Þeir skulu birtir án nafna, kennitalna og annarra persónugreinanlegra auðkenna.
    Nefndin skal árlega skila ráðherra skýrslu um störf sín og helstu niðurstöður og þær leiðbeinandi reglur sem greina má út frá úrskurðum eða álitum nefndarinnar.

10. gr.
Kostnaður.

    Kostnaður við starfsemi úrskurðarnefndar velferðarmála greiðist úr ríkissjóði. Kostnaður af málum sem kærð eru til nefndarinnar samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skal þó greiddur úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæðum þeirra laga.

11. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra getur sett nánari ákvæði um úrskurðarnefndina í reglugerð, þ.m.t. um erindi til nefndarinnar, starfshætti, málsmeðferð og birtingu úrskurða og álita.
    Nefndin getur sett sér verklagsreglur þar sem nánar verður kveðið á um störf nefndarinnar. Þær skulu staðfestar af ráðherra.

12. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015. Ákvæði 2. gr. og ákvæði til bráðabirgða I taka þó þegar gildi.

13. gr.

Breytingar á öðrum lögum.


    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Barnaverndarlög, nr. 80/2002, með síðari breytingum:
       a.      Í stað orðanna „kærunefnd barnaverndarmála“ í 2. mgr. 3. gr., 2. mgr. 47. gr., 4. mgr. 51. gr. og 1. mgr. 52. gr. laganna kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
       b.      6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Úrskurðarnefnd velferðarmála.


                  Heimilt er að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála. Enn fremur er unnt að skjóta til nefndarinnar ákvörðunum Barnaverndarstofu skv. 3., 5. og 6. mgr. 15. gr., 66. gr., 3. mgr. 84. gr., 4. mgr. 89. gr. c og 2. mgr. 91. gr.
       c.      Í stað orðanna „kærunefndar barnaverndarmála“ í 7. mgr. 15. gr., 2. mgr. 19. gr., 4. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 23. gr., 2. mgr. 25. gr., 3. mgr. 26. gr., 4. mgr. 33. gr., 2. mgr. 49. gr., 1. og 2. mgr. 50. gr., 1. mgr. 51. gr., 4. mgr. 52. gr., 2. mgr. 67. gr. b, 6. og 8. mgr. 74. gr., 2. mgr. 74. gr. a, 3. mgr. 77. gr., 6. og 9. mgr. 81. gr., 6. mgr. 82. gr., 2. mgr. 89. gr. og 4. mgr. 89. gr. c laganna kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála.
       d.      Í stað tilvísunarinnar „1. mgr. 6. gr.“ í 1. mgr. 51. gr. laganna kemur: 6. gr.
       e.      Í stað orðsins „Kærunefnd“ í 2. mgr. og tvisvar í 3. mgr. 51. gr. laganna; og í stað orðsins „kærunefndin“ í 4. mgr. sömu greinar kemur: Úrskurðarnefndin; og: úrskurðarnefndin.
       f.          Í stað orðsins „kærunefnd“ tvívegis í 2. mgr.; orðsins „Kærunefnd“ þrívegis í 3. mgr.; og orðsins „kærunefndin“ í 4. mgr. 52. gr. laganna kemur: úrskurðarnefnd; Úrskurðarnefndin; og: úrskurðarnefndin. Jafnframt orðast fyrirsögn sömu greinar svo: Málsmeðferð barnaverndarmála fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.
       g.      Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Málsmeðferð barnaverndarmála fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.
       h.      Orðin „störfum kærunefndar barnaverndarmála svo og“ í 1. mgr. 88. gr. laganna falla brott.
     2.      Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, með síðari breytingum:
       a.      Í stað orðanna „kærunefndar greiðsluaðlögunarmála“ í 2. málsl. 4. mgr. 7. gr., 3. málsl. 1. mgr. 15. gr., 2. málsl. 2. mgr. 18. gr., 2. mgr. 19. gr., 4. málsl. 3. mgr. 24. gr., 5. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna og 3. málsl. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála.
       b.      Í stað orðsins „kærunefndar“ í 3. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndar.
       c.      Í stað orðsins „kærunefndin“ í 4. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndin.
       d.      32. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Kærur til úrskurðarnefndar velferðarmála.


                  Heimilt er að skjóta ákvörðunum samkvæmt ákvæðum laga þessara til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.
       e.      Í stað orðanna „kærunefnd greiðsluaðlögunarmála“ í 4. málsl. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
     3.      Húsaleigulög, nr. 36/1994, með síðari breytingum:
       a.      Í stað orðanna „kærunefnd húsamála“ í 4. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
       b.      84. gr. laganna fellur brott.
       c.      Í stað orðanna „kærunefndar húsamála“ í 1. mgr.; orðsins „kærunefndar“ í 2. mgr.; orðsins „kærunefnd“ tvisvar í 3. mgr.; og orðsins „kærunefndin“ í 5. og 7. mgr. 85. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála; úrskurðarnefndarinnar; úrskurðarnefnd; og: úrskurðarnefndin. Jafnframt falla 4. og 8. mgr. sömu greinar brott.
       d.      Fyrirsögn XVII. kafla laganna verður: Álit vegna ágreiningsmála.
     4.      Lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, með síðari breytingum:
       a.      Í stað orðanna „kærunefndar húsamála“ í 3. og 4. mgr. og tvisvar sinnum í 5. mgr. 11. gr., 1., 2. og 3. mgr. 12. gr., 3. mgr. 14. gr. og 2. og 6. mgr. 27. gr. laganna og í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála.
       b.      Í stað orðanna „kærunefnd húsamála“ í 5. og 8. mgr. 12. gr., 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
       c.      Í stað orðsins „kærunefnd“ í 6. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: úrskurðarnefnd.
       d.      Í stað orðsins „kærunefndinni“ í 7. og 9. mgr. 12. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndinni.
       e.      Í stað orðsins „kærunefndar“ í 10. mgr. 12. gr. og 2. málsl. 6. mgr. 27. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndar.
       f.          25. gr. laganna orðast svo:
                  Hlutaðeigandi aðila er heimilt að vísa ágreiningsefni á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.
       g.      Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
        1.    Í stað orðanna „kærunefndar húsamála“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála.
        2.    Í stað orðsins „kærunefndin“ tvisvar sinnum í 2. mgr. kemur: úrskurðarnefndin.
        3.     3., 5., 8. og 9. mgr. falla brott.
        4.     Í stað orðsins „kærunefnd“ í 4. mgr. kemur: úrskurðarnefndin.
        5.     Í stað orðanna „kærunefnd húsamála“ í 7. mgr. kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
       h.      Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
        1.    Í stað orðanna „kærunefnd húsamála“ í 1. mgr. kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
        2.     2. mgr. fellur brott.
        3.     3. mgr. orðast svo:
                       Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum og lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.
        4.     Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Álit úrskurðarnefndar velferðarmála og málsmeðferð.
       i.          2. mgr. 29. gr. laganna fellur brott.
     5.      Lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum:
       a.      Í stað orðanna „kærunefndar húsamála“ í 5. mgr. 16. gr. a og 4. mgr. 22. gr. a laganna kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála.
       b.      Í stað orðanna „kærunefnd húsamála“ í 6. mgr. 33. gr. a og 4. mgr. 33. gr. d laganna kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
       c.      Eftirfarandi breytingar verða á 80. gr. laganna:
        1.     Í stað orðanna „kærunefndar húsamála, sbr. húsaleigulög, nr. 36/1994, með síðari breytingum“ í 1. mgr. kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.
        2.     2. mgr., 1. og 2. málsl. 3. mgr. og 4. og 7. mgr. falla brott.
        3.     Í stað orðsins „kærunefnd“ í 3. mgr. kemur: úrskurðarnefnd.
        4.     Í stað orðsins „kærunefndin“ í 5. mgr. kemur: úrskurðarnefndin.
        5.     Fyrirsögn V. kafla laganna verður: Eldri samningar, kynning laganna, úrskurðarnefnd, gildistaka o.fl.
     6.      Lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum: Í stað orðsins „almannatrygginga“ í 1., 2. og 4. mgr. 36. gr. laganna; og í stað orðsins „almannatryggingar“ í 1. mgr. sömu greinar kemur: velferðarmála; og: úrskurðarnefnd velferðarmála.
     7.      Lög um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, með síðari breytingum: Í stað orðsins „almannatrygginga“ í 16. gr. laganna kemur: velferðarmála; og í stað orðsins „almannatryggingar“ í sama ákvæði kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
     8.      Lög um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum: Í stað orðsins „almannatrygginga“ í 14. gr. laganna kemur: velferðarmála.
     9.      Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum:
       a.      Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
        1.     1., 3. og 4. mgr. falla brott.
        2.     2. mgr. orðast svo:
                       Úrskurðarnefnd velferðarmála skal kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.
        3.     6. mgr. orðast svo:
                       Kostnaður af starfsemi úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ágreiningsmála sem vísað er til nefndarinnar á grundvelli 2. mgr. greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvörðun ráðherra.
        4.     Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Málskot.
       b.      Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
        1.     1., 2., 3. og 5. mgr. falla brott.
        2.     Í stað orðsins „stjórnsýslulaga“ í 6. mgr. kemur: laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.
        3.     Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.
       c.      Í stað orðanna „atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða“ í 5. mgr. 39. gr. laganna kemur: velferðarmála.
     10.      Lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, með síðari breytingum: 9. gr. laganna orðast svo:
                  Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar velferðarmála. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála og lögum um atvinnuleysistryggingar.
     11.      Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum:
       a.      63. gr. laganna orðast svo:
                  Málsaðili getur skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 64. gr.
       b.      Í stað orðanna „félagsþjónustu og húsnæðismála“ í 64. gr. laganna kemur: velferðarmála.
       c.      65. gr. laganna fellur brott.
     12.      Lög um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum:
       a.      42. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála.


                  Málsaðili getur skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem falið hefur verið verkefni húsnæðisnefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.
       b.      Í stað orðanna „félagsþjónustu og húsnæðismála“ í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum kemur: velferðarmála.
     13.      Lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum: Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. a laganna:
       a.      Í stað orðanna „félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga“ í 1. mgr. kemur: velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.
       b.      Í stað orðanna „félagsþjónustu og húsnæðismála“ í 2. mgr. kemur: velferðarmála.
       c.      3. og 4. mgr. falla brott.
       d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.
     14.      Lög um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum: Í stað orðsins „félagsþjónustu“ í 1. málsl. 16. gr. og 5. mgr. 17. gr. laganna kemur: velferðarmála. Jafnframt orðast 2. málsl.16. gr. laganna svo: Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.
     15.      Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum:
       a.      Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
        1.     1. og 4. mgr. falla brott.
        2.     Í stað orðanna „Hlutverk úrskurðarnefndar er að“ í 2. mgr. kemur: Úrskurðarnefnd velferðarmála skal.
        3.     Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Málskot.
       b.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
        1.     1.–4., 6. og 7. mgr. falla brott.
        2.     Í stað orðsins „nefndinni“ í 5. mgr. kemur: úrskurðarnefnd velferðarmála.
        3.     Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.
       c.      Í stað orðanna „fæðingar- og foreldraorlofsmála“ í 5. mgr. 15. gr. a, 5. mgr. 17. gr. og 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: velferðarmála.
     16.      Lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum: 7. gr. laganna orðast svo:
                  Heimilt er að kæra ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi foreldra langveikra barna og alvarlega fatlaðra barna sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar velferðarmála. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála og 6. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.
     17.      Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, nr. 40/2009, með síðari breytingum: 7. gr. laganna orðast svo:
                  Heimilt er að kæra ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi líffæragjafa sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar velferðarmála. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.
     18.      Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum: Við 1. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Nefndarmenn í úrskurðarnefnd velferðarmála sem hafa það starf að aðalstarfi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Starfsmönnum úrskurðarnefndar almannatrygginga og þeim starfsmönnum ráðuneytisins sem haft hafa störf fyrir úrskurðar- og kærunefndir að aðalstarfi skal boðið starf hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

II.

    Málum sem við gildistöku laga þessara hafa verið tekin til efnismeðferðar eða ákvörðunar um framsendingu eða frávísun á fundi úrskurðar- eða kærunefndar skal lokið hjá þeirri nefnd sem hefur þau til meðferðar. Ráðherra er heimilt að framlengja skipunartíma nefndar þar til hún hefur lokið öllum málum sem hún hafði tekið til efnismeðferðar, þó aldrei lengur en í sex mánuði eftir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Á málefnasviði velferðarráðuneytisins starfa eftirtaldar úrskurðar- og kærunefndir:
     1.      Kærunefnd barnaverndarmála.
     2.      Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála.
     3.      Kærunefnd húsamála.
     4.      Kærunefnd jafnréttismála.
     5.      Úrskurðarnefnd almannatrygginga.
     6.      Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
     7.      Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.
     8.      Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
     9.      Úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.
    Allar þessar nefndir eru sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem falið hefur verið að endurskoða ákvarðanir stjórnvalda í málum einstaklinga eða skera úr ágreiningi milli einstaklinga eða félaga og einstaklinga og eru úrskurðir nefndanna endanlegar ákvarðanir innan stjórnsýslunnar. Þegar nefndum hefur verið falið að gefa álit í ágreiningi milli einstaklinga eða lögaðila og einstaklinga er litið svo á að álitin séu ráðgefandi en ekki bindandi fyrir málsaðila. Einstaklingum og lögaðilum er ávallt frjálst að leita til dómstóla til að fá endanlega niðurstöðu um mál sín.
    Í hverri úrskurðar- eða kærunefnd eru þrír nefndarmenn og eru störf þeirra í nefndunum aukastarf sem þeir sinna að jafnaði með öðrum störfum, gegn greiðslu þóknunar. Ein þessara nefnda, úrskurðarnefnd almannatrygginga, hefur sérstaka skrifstofu utan ráðuneytisins, en starfsmenn ráðuneytisins starfa fyrir aðrar úrskurðar- og kærunefndir.
    Velferðarráðuneytið hefur unnið að undirbúningi frumvarps þessa frá því snemma árs 2013. Í frumvarpinu er lagt til að sjö úrskurðar- og kærunefndir á málefnasviði ráðuneytisins verði sameinaðar í eina nefnd, úrskurðarnefnd velferðarmála. Nefndin verði sjálfstæð stofnun utan ráðuneytisins og formaður nefndarinnar gegni embætti forstöðumanns. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að kærunefnd jafnréttismála verði felld undir úrskurðarnefnd velferðarmála, a.m.k. ekki að svo stöddu. Ástæða þess er sú að á þessu þingi er jafnframt fyrirhugað að leggja fram tvö frumvörp, þar sem gert er ráð fyrir auknu og breyttu hlutverki kærunefndar jafnréttismála, þ.e. frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Þá er ekki gert ráð fyrir að starfsemi úrskurðarnefndar um ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar verði felld undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Ástæða þess er að um er að ræða afar sérhæfðar ákvarðanir á viðkvæmu sviði. Nefndinni berast ekki mörg mál og hafa nefndarmenn séð um alla þætti starfsins án aðkomu starfsmanna ráðuneytisins. Ekki þykir því rétt að hrófla við starfsemi nefndarinnar.
    Þær breytingar sem felast í frumvarpinu eru í samræmi við tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar frá 11. nóvember 2013 um aukna framleiðni og skilvirkni í ríkisrekstri, en í 22. lið tillagnanna segir m.a.: „Haft verði frumkvæði að því að sameina úrskurðarnefndir og auka hagkvæmni í störfum þeirra.“
    Vakin er athygli á því að ráðherra hyggst einnig leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, en þar er ákvæðum þeirra laga um úrskurðarnefnd almannatrygginga breytt til samræmis við frumvarp þetta.

II.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilgangur breytinganna er að auka hagkvæmni og bæta vinnubrögð með því að sameina sjö úrskurðar- og kærunefndir í eina nefnd. Felld eru brott ákvæði sérlaga um skipan úrskurðar- og kærunefnda og almenn ákvæði um málsmeðferð, en ekki eru gerðar tillögur um breytingar á kæruheimildum laganna í frumvarpi þessu.
    Á síðustu árum hefur orðið mikil fjölgun á kærum til úrskurðar- og kærunefnda á sviði velferðarráðuneytisins. Þannig bárust nefndunum samtals 638 kærur árið 2008, en árið 2013 voru þær samtals 911. Mest varð fjölgunin hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, en hjá hinni síðastnefndu biðu 318 mál úrskurðar 1. janúar 2014.
    Í hverri úrskurðar- eða kærunefnd sitja þrír nefndarmenn og jafnmargir til vara. Samtals sitja því 27 aðalmenn og jafnmargir til vara í nefndunum. Hér er um að ræða aukastarf sem nefndarmenn sinna með öðrum störfum, gegn greiðslu þóknunar. Nefndirnar þurfa því mikinn fjölda starfsmanna, bæði lögfræðinga og aðstoðarfólk, til að unnt sé að anna þessum mikla kærufjölda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur sérstaka skrifstofu utan ráðuneytisins en störfum fyrir aðrar nefndir á sviði ráðuneytisins er sinnt af starfsmönnum ráðuneytisins. Ekki hefur verið unnt að fjölga starfsmönnum nefndanna í samræmi við fjölgun mála þar sem ekki hafa fengist viðbótarfjárveitingar vegna þessa verkefnis. Þá eiga þær nefndir, þar sem málafjöldi er mestur, í erfiðleikum með að anna þessum fjölda, jafnvel þótt starfsmenn undirbúi heildardrög að úrskurðum og álitum. Almennt er gert ráð fyrir að nefndirnar fundi u.þ.b. tvisvar í mánuði, en jafnvel þótt fundað sé vikulega ná þær nefndir sem flest mál hafa engan veginn að hafa undan. Það er því ljóst að það fyrirkomulag að fela nefndum sem skipaðar eru fulltrúum sem hafa nefndarstörfin að aukastarfi gengur ekki upp þar sem málafjöldi er mikill. Þetta ásamt því að nefndirnar hafa ekki haft nægilega marga starfsmenn hefur leitt til þess að afgreiðslutími kærumála hefur lengst smám saman hjá þeim nefndum þar sem málafjöldinn er mestur og hefur umboðsmaður Alþingis margsinnis gert athugasemdir við að úrskurðir hafi ekki verið kveðnir upp innan lögbundinna fresta. Úrskurðir varða oft mikilsverða hagsmuni kærenda, í sumum tilvikum lífsafkomu þeirra, og er því brýnt að úr þessu verði bætt.
    Í gildandi ákvæðum 19 sérlaga á sviði velferðarráðuneytisins er kveðið á um rétt almennings til að skjóta stjórnsýsluákvörðunum og í nokkrum tilvikum ágreiningi milli einstaklinga til sjálfstæðrar úrskurðar- eða kærunefndar og fá niðurstöðu innan tiltekins frests og er þar yfirleitt miðað við þrjá mánuði. Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur ekki reynst unnt að uppfylla ákvæði fyrrgreindra laga um endurskoðun stjórnvaldsákvarðana, annars vegar vegna þess að ekki hefur verið veitt fjármagn til nauðsynlegrar og sívaxandi starfsemi nefndanna og hins vegar vegna þess að núverandi fyrirkomulag, þar sem gert er ráð fyrir að seta í nefndunum sé aukastarf, er löngu úrelt og óframkvæmanlegt hvað varðar þær nefndir þar sem málafjöldi er meiri en 40–50 á ári. Markmið þeirra breytinga sem hér eru lagðar til er að tryggja að unnt verði að uppfylla ákvæði laga um þessa mikilvægu og umfangsmiklu starfsemi, jafnt hvað varðar sjálfstæði nefndanna, málshraða og vandaða málsmeðferð.

III.     Meginefni frumvarpsins.
3.1 Helstu breytingar.
    Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Sjö úrskurðar- og kærunefndir eru sameinaðar í eina níu manna nefnd.
     2.      Formaður og tveir varaformenn nefndarinnar verði skipaðir í fullt starf, en hinir sex verði skipaðir til nefndarstarfa.
     3.      Þrír nefndarmenn fjalli að jafnaði um hvert mál.
     4.      Kveðið er á um almennar málsmeðferðarreglur.
     5.      Formaður verði forstöðumaður nefndarinnar og stýri starfsemi hennar.
     6.      Felld eru brott ákvæði sérlaga um skipun úrskurðar- og kærunefnda og almennar reglur um málsmeðferð. Ákvæði um sérstök frávik frá þeim verði áfram í sérlögum á viðkomandi sviði.
    Gert er ráð fyrir að ákvæði 6. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þess efnis að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði kostnað vegna starfsemi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsmála gildi áfram með þeirri breytingu að vísað verði til úrskurðarnefndar velferðarmála. Enn fremur er gert ráð fyrir að ákvæði gildandi laga um kæruheimild eða rétt til að leita álits eða úrskurðar verði óbreytt. Verði frumvarp þetta að lögum mun það því ekki hafa áhrif á rétt aðila samkvæmt gildandi lögum til að kæra stjórnvaldsákvarðanir til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar eða leita álits eða úrskurðar um ágreiningsmál.

3.2 Hvernig nær frumvarpið því markmiði sem stefnt er að?
    Hér er gert ráð fyrir að ein níu manna nefnd, þar af þrír nefndarmenn í fullu starfi, komi í stað sjö nefnda þar sem nefndarmenn sinna að jafnaði starfinu sem aukastarfi. Þá er gert ráð fyrir að nefndin hafi fasta starfsmenn í stað þess að starfsmenn ráðuneytisins starfi fyrir nefndirnar, oft samhliða öðrum störfum. Þannig ætti að vera betur tryggt að nefndarmenn og starfsmenn geti annað þessum störfum og öðlist meiri þekkingu og reynslu í störfum sínum. Þá ættu samræmdar málsmeðferðarreglur og möguleikar til að jafna álag á nefndarmenn og starfsmenn vegna breytilegs fjölda kærumála á mismunandi sviðum að fela í sér tækifæri til aukinnar hagræðingar. Það ætti einnig að tryggja betur samræmda og vandaða málsmeðferð. Loks verður sjálfstæði úrskurðarnefndarinnar betur tryggt þar sem starfsmenn ráðuneytisins koma ekki lengur að undirbúningi úrskurða.

3.3 Gildandi lög og reglur um úrskurðar- og kærunefndir á sviði velferðarráðuneytisins.
     Kærunefnd barnaverndarmála. Aðilar barnaverndarmáls geta skotið ákvörðunum barnaverndarnefnda, sem ekki verður skotið til dómstóla, til kærunefndar barnaverndarmála. Skjóta má tilteknum ákvörðunum Barnaverndarstofu til kærunefndar barnaverndarmála. Ákvörðun heimilis eða stofnunar má einnig skjóta til nefndarinnar. Kærunefnd barnaverndarmála starfar á grundvelli 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
     Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Til nefndarinnar er unnt að kæra ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, og laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, nr. 103/2010. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála starfar á grundvelli 32. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010.
     Kærunefnd húsamála. Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um ágreining milli eigenda í fjöleignarhúsum, milli leigjenda og leigusala íbúðar- og atvinnuhúsnæðis og milli leigusala og leigutaka lóða undir hús í frístundabyggð. Kærunefnd húsamála starfar á grundvelli 84. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, sbr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, og 25. og 26. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008.
     Kærunefnd jafnréttismála. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sem telja að ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála. Jafnréttisstofa getur óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar. Kærunefnd jafnréttismála starfar á grundvelli 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.
     Úrskurðarnefnd almannatrygginga. Til nefndarinnar er unnt að kæra ágreining sem rís um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um sjúkratryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um sjúklingatryggingu. Einnig fjallar nefndin um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu skv. 55. gr. laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefnd almannatrygginga starfar á grundvelli 7. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, 16. gr. laga um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, og 36. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.
     Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hlutverk nefndarinnar er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða starfar á grundvelli 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
     Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Hlutverk nefndarinnar er að skera úr ágreiningsmálum sem kunna að rísa vegna ákvarðana félagsmálanefnda á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og vegna ákvarðana húsnæðisnefnda og Íbúðalánasjóðs á grundvelli laga um húsnæðismál og laga um húsaleigubætur. Jafnframt er fötluðum einstaklingi heimilt að kæra til nefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála starfar á grundvelli 65. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, og 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.
     Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála. Til nefndarinnar er unnt að kæra ágreining sem kann að rísa á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof, ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi foreldra langveikra barna og alvarlega fatlaðra barna og ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar aðstoðar. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála starfar á grundvelli 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, sbr. 7. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, og 7. gr. laga um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, nr. 40/2009.
     Úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Til nefndarinnar er unnt að kæra ágreining um hvort framkvæma skuli fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð. Landlæknir eða sjúkrahúslæknir getur vísað máli til nefndarinnar. Úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir starfar á grundvelli 28. gr. laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975.

IV.     Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki sérstakt tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar, enda er ekki um að ræða breytingar á inntaki réttar til endurskoðunar heldur einungis á skipulagi starfseminnar. Rétt er þó að benda á að með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu ætti að vera betur tryggt að réttur til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana sé í raun virkur.

V.     Samráð.
    Frumvarpið varðar þá almannahagsmuni að réttur einstaklinga til að fá endurskoðun sjálfstæðs óháðs aðila á stjórnvaldsákvörðunum innan ásættanlegs tíma sé virkur. Þar sem ekki er um að ræða breytingu á inntaki réttar til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana, heldur einungis formbreytingu sem ætlað er að tryggja betur sjálfstæði endurskoðunaraðila og vandaða og hraða málsmeðferð þótti ekki ástæða til kynna frumvarpið sérstaklega fyrir almenningi.

VI.     Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það tryggja betur sjálfstæða, óháða og vandaða endurskoðun stjórnvaldsákvarðana innan ásættanlegs tíma. Þá mun sameining sjö úrskurðar- og kærunefnda með fasta starfsmenn fela í sér tækifæri til hagræðingar við endurskoðun stjórnvaldsákvarðana. Þá verður skilið betur milli þeirrar endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana sem löggjafinn hefur lagt til sjálfstæðra úrskurðar- og kærunefnda og starfsemi ráðuneyta. Einnig mun þetta leiða til þess að auðveldara verður að greina raunverulegan kostnað slíks úrræðis.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um það meginhlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana. Þar sem nokkrar þeirra úrskurðar- og kærunefnda sem nú starfa veita álit eða úrskurða í öðrum ágreiningsmálum er einnig kveðið á um það hlutverk. Þá er hnykkt á því að úrskurðarnefndin skuli vera sjálfstæð og óháð í störfum sínum eins og þær nefndir sem nú starfa.

Um 2. gr.


    Hér fjallað um skipan úrskurðarnefndar velferðarmála og er fyrirmynd einkum sótt til ákvæða 9. gr. laga um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.
    Lagt er til að nefndin verði skipuð níu nefndarmönnum. Í 1. tölul. er lagt til að formaður og tveir aðrir nefndarmenn verði skipaðir í fullt starf, að fenginni umsögn matsnefndar skv. 2. tölul., samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, um embættismenn. Um réttindi þeirra og skyldur fari samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um embættismenn og starfskjör þeirra verði ákveðin af kjararáði.
    Í 2. tölul. er lagt til að ráðherra skipi þrjá menn í nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embætti formanns og tveggja annarra nefndarmanna í úrskurðarnefnd velferðarmála. Tveir nefndarmanna í matsnefndinni skulu tilnefndir af Hæstarétti og skal annar þeirra vera formaður.
    Í 3. tölul. er lagt til að ráðherra skipi sex aðra nefndarmenn og jafnmarga til vara. Lagt er til að þrír þeirra skuli hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði. Ástæða þess er sú að störf í úrskurðarnefndinni eru í eðli sínu hliðstæð dómstörfum og því mikilvægt að tryggja að innan nefndarinnar sé nægileg þekking á ýmsum sviðum lögfræði, einkum stjórnsýslu, mannréttinda og löggjafar á þeim sviðum sem úrskurðir og álit nefndarinnar varða. Þá þykir einnig brýnt að a.m.k. einn læknir eigi sæti í nefndinni vegna álitaefna á sviði sjúkratrygginga, sjúklingatryggingar og fæðingarorlofs. Við skipan í nefndina er mikilvægt að tryggja að í nefndinni séu sérfræðingar á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni, líkt og er nú í starfandi nefndum. Þar má m.a. nefna sérfræðinga á sviði félagsmála, barnaverndarmála og fjármála. Við skoðun á ákvæðum laga um skipan starfandi úrskurðar- og kærunefnda kemur í ljós að af 24 nefndarmönnum skulu a.m.k. 15 vera lögfræðingar, í tveimur nefndum skal einn fulltrúi vera læknir og í einni nefnd skal einn fulltrúi vera verkfræðingur.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að formaður nefndarinnar gegni jafnframt embætti forstöðumanns úrskurðarnefndar velferðarmála og hafi yfirstjórn hennar með höndum. Um réttindi hans og skyldur fari því samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og ákvæðum annarra laga um réttindi og skyldur forstöðumanna ríkisstofnana, svo sem fjárreiðulaga. Það felur m.a. í sér að formaður fer með yfirstjórn starfseminnar og ræður starfsmenn nefndarinnar.
    Í 2. mgr. er lagt til að þrír nefndarmenn fjalli um hvert mál sem berst nefndinni. Þannig geti nefndin starfað í þremur deildum, enda væri að öðrum kosti útilokað að anna þeim mikla fjölda mála sem ætla má að berist nefndinni. Þó er gert ráð fyrir að formaður geti ákveðið að fimm nefndarmenn eigi sæti í nefndinni við umfjöllun um viðamikil eða fordæmisgefandi mál.
    Í 3. mgr. er að finna heimild til að kveðja sérfróða aðila til ráðgjafar við meðferð einstakra mála, en það kann að reynast nauðsynlegt í einhverjum tilvikum þótt stefnt sé að því að samsetning nefndarinnar og starfsmanna hennar sé almennt þannig að næg sérfræðiþekking sé fyrir hendi. Ákvæði 3. mgr. er m.a. byggt á ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar.

Um 4. gr.


    Hér eru ákvæði um þagnarskyldu nefndarmanna, starfsmanna og ráðgjafa nefndarinnar áréttuð. Ákvæðið er byggt á núgildandi ákvæði laga um almannatryggingar um þagnarskyldu nefndarmanna í úrskurðarnefnd almannatrygginga.

Um II. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Þar er m.a. fjallað um kærufrest, upplýsingaskyldu og gagnaöflun, málsmeðferðartíma, stöðu úrskurða og álita og frestun réttaráhrifa. Í kaflanum er leitast við að setja almennar reglur um málsmeðferð fyrir nefndinni og eru málsmeðferðarreglur í gildandi lögum um úrskurðar- og kærunefndir þá felldar brott, sjá grein um breytingar á öðrum lögum. Þó þykir í sumum tilvikum nauðsynlegt að láta sérreglur um málsmeðferð halda sér og gilda þá ákvæði þeirra laga um málsmeðferð að öðru leyti, sbr. 5. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Samkvæmt ákvæðum 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda þau þegar stjórnsýslunefndir taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, en ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en stjórnsýslulögin mæla fyrir um, halda gildi sínu. Ákvæði stjórnsýslulaganna munu því gilda um úrskurðarnefnd velferðarmála að svo miklu leyti sem ekki verður að finna strangari eða ítarlegri ákvæði í lögum um nefndina eða ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að kærufrestur stjórnsýsluákvörðunar skuli vera þrír mánuðir nema á annan veg sé mælt í lögum sem kæranleg ákvörðun byggist á. Kærufrestur er almennt þrír mánuðir samkvæmt ákvæðum gildandi laga um úrskurðar- og kærunefndir á sviði velferðarráðuneytis, sbr. t.d. ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Gert er ráð fyrir því að ákvæði um skemmri kærufrest í 51. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og ákvæði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, verði óbreytt, sjá nánar umfjöllun um breytingar á þeim lögum í athugasemdum við 1. og 2. tölul. 13. gr. hér á eftir.
    Í 2. mgr. kemur fram að um málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt ákvæðum laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, og húsaleigulaga, nr. 36/1994, fari samkvæmt ákvæðum þeirra laga.

Um 6. gr.


    Í 1. málsl. er kveðið á um skyldu stjórnvalda til að láta úrskurðarnefndinni í té öll gögn máls ásamt þeim upplýsingum og skýringum sem nefndin telur nauðsynlegar vegna úrlausnar máls. Þótt telja megi að slík skylda sé þegar fyrir hendi þykir rétt að árétta það í frumvarpinu. Hliðstætt ákvæði er t.d. að finna í 2. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, um úrskurðarnefnd almannatrygginga. Í sumum tilvikum kann að þurfa að afla upplýsinga frá öðrum en stjórnvöldum og er í 2. málsl. gert ráð fyrir að um það fari samkvæmt ákvæðum þeirra laga sem kæra eða beiðni um úrskurð eða álit nefndarinnar byggist á. Það á t.d. við um kærur samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga, nr. 36/1994, og ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Um 7. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um það að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni skuli að jafnaði vera skrifleg, en nefndin geti kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund. Hliðstætt ákvæði er að finna í ákvæðum um nokkrar úrskurðar- og kærunefndir sem nú starfa, svo sem í ákvæðum um úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sjá 2. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Að öðru leyti gildir ákvæði 2. mgr. 30. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar er að finna heimild til að ákveða að mál skuli flutt munnlega ef það er sérstaklega vandasamt og ætla má að það upplýsist betur með þeim hætti. Hér er því ekki um efnisbreytingu að ræða.
    Í 2. mgr. er ákvæði 1. mgr. 13. gr. stjórnsýslulaga um að aðili skuli eiga þess kost að tjá sig um efni málsins áður ákvörðun er tekin áréttað.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að nefndin skuli kveða upp úrskurð eða gefa álit svo fljótt sem kostur er. Þetta er í samræmi við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Þá er lagt til að kveðið verði á um að það skuli að jafnaði gert innan þriggja mánaða nema sérstakar ástæður hamli. Sérstakar ástæður gætu t.d. verið vegna tafa við gagnaöflun eða öflun umsagna eða vegna umfangs máls eða mikils málafjölda.
    Núgildandi ákvæði um málshraða hjá úrskurðar- og kærunefndum á málasviði velferðarráðuneytisins eru mismunandi. Afgreiðslufrestur mála hjá kærunefnd barnaverndarmála og úrskurðarnefnd almannatrygginga er þrír mánuðir. Afgreiðslufrestur mála hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála og úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofs er tveir mánuðir. Afgreiðslufrestur mála hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála sem varða höfnun nauðasamninga eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðskulda er tvær vikur, en engin ákvæði eru um afgreiðslufrest kæra vegna annarra ákvarðana samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga og gilda þá ákvæði 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Afgreiðslufrestur mála hjá kærunefnd húsamála er tveir mánuðir ef um er að ræða mál sem skotið er til nefndarinnar samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga eða laga um fjöleignarhús, en þegar málum er skotið til nefndarinnar samkvæmt lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús skal nefndin leitast við að ljúka málum innan tveggja mánaða. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsmála skal „leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða“. Afgreiðslutími mála hjá fyrrgreindum úrskurðar- og kærunefndum hefur í raun verið mun lengri en lög um nefndirnar kveða á um. Sú gríðarlega fjölgun mála sem orðið hefur hjá nokkrum nefndanna á síðustu fimm árum hefur leitt til þess að afgreiðslutími hefur lengst verulega og hefur umboðsmaður Alþingis margsinnis gert athugasemdir við málshraða nefndanna. Ástæður þessa eru í fyrsta lagi að þar sem ekki hefur fengist nauðsynlegt fjármagn hefur ekki verið unnt að ráða nægilega marga starfsmenn til að undirbúa þennan mikla fjölda úrskurða, í öðru lagi hafa nefndirnar ekki getað annað þessum málafjölda, í þriðja lagi tekur gagnaöflun og veiting andmælaréttar oft langan tíma og loks eru sum mál of umfangsmikil til að unnt sé að ljúka þeim innan tveggja eða þriggja mánaða frá því að kæra berst. Hér er því lagt til að nefndin skuli að jafnaði kveða upp úrskurð „innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál nema sérstakar ástæður hamli“ og jafnframt er ákvæði 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga áréttað um skyldu til að upplýsa aðila um tafir á afgreiðslu máls, ástæður þess og hvenær vænta má niðurstöðu. Gert er ráð fyrir að samhliða framangreindum breytingum verði ákvæði laga um úrskurðar- og kærunefndir þar sem kveðið er á um afgreiðslufrest felld brott, sjá grein um breytingar á öðrum lögum. Þó er gert ráð fyrir að ákvæði 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, um tveggja vikna afgreiðslufrest mála, sem varða höfnun nauðasamninga eða greiðsluaðlögun fasteignaveðskulda, og ákvæði 3. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga um að nefndin skuli kveða upp úrskurð eigi síðar en innan þriggja mánaða haldi gildi sínu.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að úrskurðir og álit nefndarinnar séu endanleg á stjórnsýslustigi og verði ekki skotið til æðra stjórnvalds. Hér er ekki um að ræða efnisbreytingu frá gildandi lögum um úrskurðar- og kærunefndir á málefnasviði velferðarráðuneytis.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. eru áréttuð ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga um að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar nema á annan veg sé mælt í lögum. Dæmi um slíka undanþágu er að finna í 7. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, en þar segir: „Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta, sbr. 55. gr.“ Þá er kveðið á um að úrskurðarnefndinni sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar ef sérstakar ástæður mæla með því.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að um aðfararhæfi fari samkvæmt lögum þeim sem kærð ákvörðun byggist á. Ákvæði um aðfararhæfi úrskurða er m.a. að finna í 2. mgr. 9. gr., sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, 5. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og 3. mgr. 5. gr., sbr. 8. mgr. 6. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. er mælt fyrir um skyldu til að birta helstu úrskurði og álit og er ákvæðið í samræmi við ákvæði 5. mgr. 9. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, um birtingu úrskurða úrskurðarnefndar almannatrygginga, að öðru leyti en því að lagt er til að skylda til birtingar taki einnig til helstu álita. Einnig er kveðið á um birtingu úrskurða kærunefndar jafnréttismála í 8. mgr. 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Í gildandi lögum um aðrar úrskurðar- og kærunefndir á sviði velferðarráðuneytis er ekki að finna ákvæði um skyldu til birtingar úrskurða. Flestar þeirra birta þó úrskurði sína og álit, eða a.m.k. helstu úrskurði og álit, á úrskurðavef Stjórnarráðs Íslands (urskurdir.is).
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu nefndarinnar til að skila ráðherra skýrslu um störf sín, helstu niðurstöður og leiðbeinandi reglur sem leiða má af úrskurðum eða álitum nefndarinnar. Ákvæði þetta er efnislega eins og ákvæði 1. málsl. 5. mgr. 65. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í 4. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er kveðið á um að kærunefnd barnaverndarmála skuli árlega gefa út skýrslu um störf sín. Í gildandi lögum um aðrar úrskurðar- og kærunefndir á sviði velferðarráðuneytis er ekki að finna ákvæði um skyldu til skýrslugerðar.

Um 10. gr.


    Í 1. málsl. er kveðið á um að kostnaður við starfsemi úrskurðarnefndar velferðarmála skuli greiddur úr ríkissjóði. Skv. 6. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, skal kostnaður af starfsemi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða greiðast úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvörðun ráðherra. Í 2. málsl. er lagt til að það verði óbreytt. Greinin felur því ekki í sér neinar efnisbreytingar.

Um 11. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánari ákvæði um úrskurðarnefndina í reglugerð. Þar gætu t.d. verið nánari ákvæði um á hvaða formi erindi til nefndarinnar skuli vera, hvaða úrskurði og álit skuli birta og hvernig haga skuli birtingunni.
    Í 2. mgr. er nefndinni heimilað að setja sér verklagsreglur sem staðfestar skulu af ráðherra.

Um 12. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2015. Þó er gert ráð fyrir að ákvæði 2. gr. um skipan úrskurðarnefndar velferðarmála taki þegar gildi þannig að svigrúm gefist til að undirbúa skipun nefndarinnar fyrir gildistöku laganna. Loks er gert ráð fyrir að ákvæði til bráðabirgða I taki gildi strax þannig að unnt verði að ganga frá ráðningu starfsmanna nefndarinnar fyrir gildistöku laganna.

Um 13. gr.


    Hér eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga sem fjalla um þær úrskurðar- og kærunefndir á málefnasviði velferðarráðuneytis sem lagt er til að sameinaðar verði í úrskurðarnefnd velferðarmála. Því eru öll ákvæði um skipan nefndanna felld brott og alls staðar þar sem getið er um nefndirnar kemur tilvísun til úrskurðarnefndar velferðarmála í staðinn. Í frumvarpinu er einnig að finna almenn ákvæði um úrskurðarnefnd velferðarmála, m.a. um starfshætti, þagnarskyldu, kærufresti, upplýsingaskyldu og gagnaöflun, málsmeðferð og birtingu úrskurða og álita. Sambærileg ákvæði í lögum þeim sem nú gilda um nefndirnar eru því felld brott nema sérstök ástæða sé talin til að sérákvæði um meðferð mála á tilteknu sviði haldi gildi sínu og verður gerð nánari grein fyrir því í athugasemdum hér á eftir. Ákvæði gildandi laga um kæruheimild eða rétt til að leita álits eða úrskurðar um ágreiningsmál verða hins vegar óbreytt. Um breytingar á ákvæðum laga um úrskurðarnefnd almannatrygginga er vísað til frumvarps til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, en eins og fram kemur í almennum athugasemdum verður það einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Verði frumvarp þetta að lögum mun það því ekki hafa nein áhrif á rétt aðila samkvæmt gildandi lögum til að kæra stjórnvaldsákvarðanir eða leita eftir áliti eða úrskurði um álitamál.
     Um 1. tölul.
    Hér er lagt til að ákvæði gildandi 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, um skipan kærunefndar barnaverndarmála falli brott. Þá eru ákvæði 3.–5. mgr. felld brott, enda er gert ráð fyrir í frumvarpi þessu að efnislega sambærileg ákvæði gildi um úrskurðarnefnd velferðarmála. Lagt er til að ákvæði 51. gr. laganna um málskot barnaverndarmála og ákvæði 52. gr. um málsmeðferð verði óbreytt. Þar sem getið er um kærunefnd barnaverndarmála í lögunum er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála. Um málsmeðferð barnaverndarmála gildi því ákvæði laga um úrskurðarnefnd velferðarmála og þau sérákvæði sem felast í ákvæðum 51. og 52. gr. barnaverndarlaga.
     Um 2. tölul.
    Hér er lagt til að ákvæði 1. málsl. 1. mgr. og 2.–4. mgr. 32. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, um skipun kærunefndar greiðsluaðlögunarmála falli brott. Einnig falli ákvæði 3. og 4. mgr. 32. gr. brott, enda eru efnislega sambærileg ákvæði í 4. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 11. gr. frumvarps þessa. Ekki eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um tveggja vikna kærufrest eða ákvæði 2. mgr. 18. gr. um að nefndin skuli taka afstöðu til kæru skv. 2. mgr. 18. gr. innan tveggja vikna. Að öðru leyti gildi almennar málsmeðferðarreglur úrskurðarnefndar velferðarmála. Þar sem getið er um kærunefnd greiðsluaðlögunarmála í lögunum er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 3. tölul.
    Hér er lagt til að 84. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, um skipan kærunefndar húsamála falli brott. Þá er lagt til að 4. og 8. mgr. 85. gr. falli brott, enda er í frumvarpinu gert ráð fyrir að efnislega sambærileg ákvæði verði sett um úrskurðarnefnd velferðarmála. Loks er gert ráð fyrir að þar sem getið er um kærunefnd húsamála í lögunum verði tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 4. tölul.
    Hér er lagt til að eftirtalin ákvæði laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, sem eiga sér hliðstæðu í ákvæðum frumvarps þessa um úrskurðarnefnd velferðarmála, falli brott; 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 25. gr., 3., 5. og 8. mgr. 26. gr., 2. mgr. og 1.–3. málsl. 3. mgr. 28. gr. og 2. mgr. 29. gr. Þá er lagt til að ákvæði 9. mgr. 26. gr. um afl atkvæða falli brott og um það gildi þá ákvæði 34. gr. stjórnsýslulaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 28. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði laganna um meðferð mála sem vísað er til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna haldi gildi sínu. Að öðru leyti gildi almennar málsmeðferðarreglur úrskurðarnefndar velferðarmála. Þar sem getið er um kærunefnd húsamála í lögunum er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 5. tölul.
    Hér er lagt til að þau ákvæði 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, sem eiga sér hliðstæðu í ákvæðum frumvarps þessa um úrskurðarnefnd velferðarmála, falli brott. Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði laganna um meðferð mála sem vísað er til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna haldi gildi sínu. Að öðru leyti gildi almennar málsmeðferðarreglur úrskurðarnefndar velferðarmála. Þar sem getið er um kærunefnd húsamála í lögunum er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 6. tölul.
    Þar sem getið er um úrskurðarnefnd almannatrygginga í lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 7. tölul.
    Þar sem getið er um úrskurðarnefnd almannatrygginga í lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 8. tölul.
    Þar sem getið er um úrskurðarnefnd almannatrygginga í lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 9. tölul.
    Hér er lagt til að ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem fjallað er um skipun úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, falli brott. Þá er lagt til að ákvæði 3. og 4. mgr. 11. gr. og 1., 2., 3. og 5. mgr. 12. gr. falli brott þar sem þau eiga sér hliðstæðu í ákvæðum frumvarps þessa um úrskurðarnefnd velferðarmála. Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði laganna um meðferð mála sem vísað er til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna haldi gildi sínu. Að öðru leyti gildi almennar málsmeðferðarreglur úrskurðarnefndar velferðarmála. Þar sem getið er um úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í lögunum er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 10. tölul.
    Í ákvæði 9. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, þar sem fjallað er um kæruheimild, er tilvísun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála og kveðið á um að um málsmeðferð fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála auk laga um atvinnuleysistryggingar.
     Um 11. tölul.
    Hér er lagt til að 65. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem fjallar um skipan úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og málsmeðferð, falli brott enda eiga ákvæði 65. gr. um málsmeðferð sér hliðstæðu í ákvæðum frumvarps þessa um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá er lagt til að ákvæði 63. gr. um kærufrest og frestun réttaráhrifa falli brott, enda er gert ráð fyrir að sambærileg ákvæði gildi um úrskurðarnefnd velferðarmála samkvæmt frumvarpi þessu. Þá er tilvísun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála breytt í tilvísun til úrskurðarnefndar velferðarmála.
     Um 12. gr.
    Hér er lagt til að ákvæði 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, um málskot til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála verði breytt þannig að vísað verði til úrskurðarnefndar velferðarmála og að ákvæði 42. gr. um málsmeðferð falli brott, enda er gert ráð fyrir að sambærileg ákvæði gildi um úrskurðarnefnd velferðarmála samkvæmt frumvarpi þessu.
     Um 13. tölul.
    Hér er lagt til að ákvæði 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, verði breytt þannig að tilvísun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála verði breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála, ákvæði um málsmeðferð verði felld niður og vísað til ákvæða um málsmeðferð úrskurðarnefndar velferðarmála, enda er gert ráð fyrir að sambærileg ákvæði gildi um hana.
     Um 14. tölul.
    Þar sem getið er um úrskurðarnefnd félagsþjónustu í lögum um húsaleigubætur, nr. 138/ 1997, er tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 15. tölul.
    Hér er lagt til að ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, um skipan úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála falli brott. Þá er lagt til að ákvæði 4. mgr. 5. gr. og 1.–4. og 7. mgr. 6. gr. falli brott, enda er í frumvarpinu gert ráð fyrir að efnislega sambærileg ákvæði verði sett um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá er gert ráð fyrir að þar sem getið er um úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála í lögunum verði tilvísun breytt í úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Um 16. tölul.
    Hér er lagt til að vísað verði til úrskurðarnefndar velferðarmála í 7. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, en þar er að finna heimild til að kæra ákvarðanir samkvæmt lögunum. Þá er lagt til að ákvæði um málsmeðferð falli brott og vísað verði til málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar velferðarmála, enda er í frumvarpinu gert ráð fyrir að efnislega sambærileg ákvæði gildi um hana.
     Um 17. tölul.
    Hér er lagt til að vísað verði til úrskurðarnefndar velferðarmála í 7. gr. laga um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, nr. 40/2009, en þar er að finna heimild til að kæra ákvarðanir samkvæmt lögunum. Þá er lagt til að ákvæði um málsmeðferð falli brott og vísað verði til málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar velferðarmála, enda er í frumvarpinu gert ráð fyrir að efnislega sambærileg ákvæði gildi um hana.
     Um 18. tölul.
    Í 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eru taldir þeir starfsmenn ríkisins sem teljast embættismenn samkvæmt lögunum. Í 2. gr. frumvarps þessa er lagt til að þrír nefndarmenn í úrskurðarnefnd velferðarmála verði skipaðir í fullt starf í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um embættismenn. Í samræmi við það er hér lagt til að þeir verði taldir í 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Í ákvæðinu er lagt til að starfsmönnum sem nú starfa fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga og þeim starfsmönnum ráðuneytisins sem haft hafa störf fyrir úrskurðarnefndir að aðalstarfi verði boðið starf hjá úrskurðarnefnd velferðarmála án undanfarandi auglýsingar. Eðlilegt þykir að starfsmenn sem nú starfa fyrir nefndirnar eigi kost á að sinna störfum sínum áfram hjá hinni sameinuðu nefnd. Þá er bent á að sú leið að leggja niður núverandi störf og auglýsa sambærileg störf hjá úrskurðarnefnd velferðarmála hefði óhjákvæmilega í för með sér talsverðan kostnað og gæti leitt til þess að starfsmenn sem búa yfir verðmætri þekkingu og reynslu hættu störfum.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Í ákvæðinu er kveðið á um lagaskil milli núverandi úrskurðar- og kærunefnda og úrskurðarnefndar velferðarmála. Gert er ráð fyrir að núverandi nefndir ljúki þeim málum sem tekin höfðu verið til efnislegrar meðferðar á fundum viðkomandi nefndar fyrir gildistöku laganna, en úrskurðarnefnd velferðarmála, sem tekur til starfa við gildistöku laganna, taki við meðferð annarra mála. Stefnt er að því að núverandi nefndir hafi við gildistöku laganna lokið öllum málum sem tekin höfðu verið til efnismeðferðar. Takist það ekki er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að framlengja skipunartíma viðkomandi nefndar þar til hún hefur lokið málum sem hún hafði tekið til efnismeðferðar. Skipunartími verði þó aldrei framlengdur um meira en sex mánuði.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.

    Með frumvarpi þessu er áformað að koma á fót einni úrskurðarnefnd velferðarmála sem komi í stað sjö kæru- og úrskurðarnefnda sem starfa á málefnasviði velferðarráðuneytis. Gert er ráð fyrir að nefndin verði sjálfstæð starfseining utan ráðuneytisins og formaður nefndarinnar gegni embætti forstöðumanns.
    Tilgangur frumvarpsins er að auka hagkvæmni og bæta vinnubrögð með sameiningunni. Frumvarpinu er ætlað að tryggja betur en hægt er að gera innan núverandi fyrirkomulags sjálfstæða, óháða og vandaða endurskoðun stjórnvaldsákvarðana innan ásættanlegs tíma. Þá leiðir af breyttu fyrirkomulagi að hægt verður að aðgreina starfsemi nefndarinnar frá stjórnsýslu og starfsemi aðalskrifstofu velferðarráðuneytisins og þar með að greina raunverulegan kostnað sem leiðir af stjórnsýslukærum.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að í stað sjö kæru- og úrskurðarnefnda með samtals 21 nefndarmann er gert ráð fyrir að skipuð verði ein níu manna nefnd. Formaður og tveir aðrir nefndarmenn verði skipaðir í fullt starf að fenginni umsögn sérstakrar matsnefndar og skulu þeir uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Formaður nefndarinnar gegnir embætti forstöðumanns úrskurðarnefndarinnar og ber ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ráðherra skipi sex aðra nefndarmenn og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn. Gert er ráð fyrir að nefndarmenn uppfylli tiltekin hæfnisskilyrði og hafi nauðsynlega sérþekkingu á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni. Um er að ræða aukastörf sem nefndarmenn sinna samhliða öðrum störfum gegn greiðslu þóknunar.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að starfsmönnum sem hafa haft að aðalstarfi störf fyrir úrskurðarnefndir verði boðið að starfa hjá hinni nýju nefnd. Ákvæði þetta getur varðað 11 starfsmenn í 8–9 störfum hjá aðalskrifstofu velferðarráðuneytis og hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að í breyttu fyrirkomulagi felist skilvirkari starfshættir og möguleikar til hagræðingar. Þar má nefna að starfsmenn munu einvörðungu sinna verkefnum er tengjast úrskurðarnefndinni. Í því, ásamt samræmdum málsmeðferðarreglum, felast möguleikar til að jafna álag milli starfsmanna vegna breytilegs fjölda kærumála eftir málefnasviðum. Þá ætti það einnig að tryggja betur samræmda og vandaða málsmeðferð.
    Áætlaður árlegur kostnaður nýrrar úrskurðarnefndar velferðarmála er 159,9 m.kr. Inni í þeim kostnaði eru laun formanns og laun tveggja varaformanna sem áætluð eru 36,4 m.kr. árlega. Auk þess eru þóknanir til sex nefndarmanna áætlaðar samtals 11,8 m.kr. Þar sem bráðabirgðaákvæði kveður á um að þeim starfsmönnum sem hafa haft að aðalstarfi störf fyrir úrskurðarnefndir bjóðist staða hjá úrskurðarnefndinni verður launakostnaður þeirra starfsmanna samtals 88 m.kr. Gert er ráð fyrir að árleg húsaleiga verði 11,8 m.kr., eignakaup og tæki nemi 1,5 m.kr. og annar starfstengdur kostnaður nemi 6,8 m.kr. Gert er ráð fyrir að aðkeypt sérfræðiþjónusta nemi samtals 3,6 m.kr. árlega. Að auki er gert ráð fyrir einskiptiskostnaði vegna kaupa á búnaði og tækjum að fjárhæð 5 m.kr. sem velferðarráðuneytið ætti að geta mætt innan síns ramma. Millifærðar verða fjárheimildir af lið 08-190-1.10 Fastanefndir, samtals 65,2 m.kr. Þá verða millifærðar 35 m.kr. frá aðalskrifstofu velferðarráðuneytis auk þess sem framlag úr Atvinnuleysistryggingasjóði nemur 10,4 m.kr. Viðbótarkostnaður nefndarinnar umfram þessar millifærðu fjárheimildir er metinn 49,3 m.kr. á ári og hefur verið gert ráð fyrir aukinni fjárveitingu sem því nemur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna þessara nefndarstarfa verði 49,3 m.kr. hærri en gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins 2014 en þegar hefur verið gert ráð fyrir þeirri hækkun í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 miðað við að þessi áform gangi eftir.