Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 240  —  211. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum.


Flm.: Guðmundur Steingrímsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


1. gr.

    Orðin „og leigja á heimavist eða á námsgörðum“ í 2. málsl. 5. mgr. 7. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var flutt á 140. löggjafarþingi (112. mál), 141. þingi (49. mál) og 143. þingi (72. mál) en náði ekki fram að ganga. Málið hlaut jákvæða efnislega umfjöllun hjá velferðarnefnd á 140. þingi sem lagði til að það yrði samþykkt óbreytt (þskj. 1577).
    Húsnæðisvandi námsmanna á framhalds- og háskólastigi er allverulegur og námsgarða skortir mjög. Fjölmargir námsmenn grípa því til þess ráðs að leigja íbúð á hinum almenna leigumarkaði. Oft er íbúðinni deilt með öðrum námsmönnum og það fyrirkomulag haft á að hver og einn hefur sitt herbergi en bað og eldhús er sameiginlegt.
    Meginreglan varðandi þá sem búa í herbergjum með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi og baðherbergi er sú að þeir skulu ekki njóta húsaleigubóta, enda teljist slíkt fyrirkomulag ekki til „íbúðarhúsnæðis“. Árið 2001 var réttur til húsaleigubóta hins vegar rýmkaður hvað varðar námsmenn á framhalds- og háskólastigi. Sú breyting var gerð að þeir námsmenn sem leigðu á heimavist eða á námsgörðum skyldu njóta réttar til húsaleigubóta þó svo að þeir deildu aðgangi að eldhúsi og baði. Rétt var talið að telja slíka aðstöðu námsmanna til íbúðarhúsnæðis, enda kölluðu félagslegar aðstæður námsmanna á slíkt fyrirkomulag.
    Breytingin var einskorðuð við þá sem bjuggu á heimavist eða á námsgörðum. Í ljósi þess að ekki er nægilegt framboð af heimavist eða námsgörðum, og fjölmargir námsmenn geta því ekki nýtt sér slíkt búsetuúrræði, er hér lagt til að sú takmörkun verði felld brott. Þar með verði aðstæður stúdenta jafnaðar og þeir njóti sama stuðnings hvort sem þeir leigja á námsgörðum eða á almennum markaði.
    Vart þarf að taka fram að nauðsynlegt er að hafa ríkt samráð við fulltrúa sveitarfélaga varðandi breytingu af þessu tagi. Áætla þarf kostnaðaraukann sem af þessu hlýst og leita leiða til þess að mæta honum. Hugtakið „kostnaðarauki“ er þó vandmeðfarið í þessu tilliti. Líklegt er að ef námsgarðar væru fyrir hendi eins og eðlilegt væri – og stefnt er að – mundu húsaleigubætur greiðast flestum þeim námsmönnum sem hér um ræðir.