Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 243  —  214. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008
(rafræn námsgögn o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði þessarar greinar taka einnig til skólameistara, annarra faglegra stjórnenda og náms- og starfsráðgjafa.

2. gr.

    H-liður 1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: að kennsla fari fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi.

3. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra gefur út reglugerð um starfstíma framhaldsskóla.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og efnisgjalds“ í 1. málsl. 1. mgr. og sömu orða í 2. mgr. kemur: efnisgjalds og gjalds fyrir rafrænt námsefni; og: efnisgjalds og gjaldtöku fyrir rafrænt námsefni.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Heimilt er í tilraunaskyni með sérstöku leyfi ráðherra að innheimta gjald fyrir rafrænt námsefni sem framhaldsskólar ákveða og er veigamikill hluti af námsefni í námsáfanga á skráðri námsbraut viðkomandi nemenda eða í áfanga sem þeir hafa ákveðið að stunda sem valgrein.

5. gr.

    Í stað orðsins „endurgjalds“ í 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: kvaða eða gjalda.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Frumvarpið hefur að geyma tillögur um breytingu á ákvæðum gildandi laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Það frumvarp sem nú er lagt fram var hluti þess frumvarps sem lagt var fyrir á 143. löggjafarþingi (380. mál). Eftir 2. umræðu um málið á Alþingi gekk málið til allsherjar- og menntamálanefndar sem skilaði af sér nefndarálit með breytingartillögu. Breytingartillagan var um að 1.–4. gr. þess frumvarps yrðu felldar brott í ljósi þess hve stuttan tíma nefndin fékk til að kynna sér frumvarpið til hlítar. Nú eru þær greinar lagðar fram á ný auk þess sem 3. gr. þessa frumvarps hefur verið bætt við, en hún á rætur sínar að rekja til kjarasamninga sem gerðir voru í vor.
    Í fyrsta lagi er í frumvarpi þessu kveðið á um rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof. Í öðru lagi er fjallað um viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla. Í þriðja lagi hefur frumvarpið að geyma heimild fyrir ráðherra til að gefa út reglugerð um starfstíma framhaldsskóla. Í fjórða lagi er kveðið á um gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna. Í fimmta og síðasta lagi er mælt fyrir um afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins koma til vegna ábendinga Kennarasambands Íslands þess efnis að rétt sé að náms- og starfsráðgjafar, með tilskilda menntun og réttindi, njóti sömu réttinda til launaðra námsorlofa og kennarar og skólastjórnendur. Rök Kennarasambandsins byggjast helst á því að þróun laga og kjarasamninga hefur verið með þeim hætti að nú er staða náms- og starfsráðgjafa hliðstæð stöðu annarra félagsmanna Kennarasambands Íslands sem starfa í framhaldsskólum. Réttur náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof hefur hins vegar hvorki í lögum né kjarasamningum fylgt rétti annarra félagsmanna Kennarasambands Íslands sem starfa í framhaldsskólum.
    Sú breyting sem 2. gr. frumvarpsins kveður á um er lögð til með hliðsjón af ákvæðum laga og reglugerða um opinbert byggingareftirlit sem fer fram hjá öðrum stjórnvöldum en ráðuneytinu. Þar er kveðið á um fullnægjandi eftirlit með húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram en ráðuneytið hefur ekki haft sérstakt eftirlit með húsnæði einkaskóla á framhaldsskólastigi umfram lögbundið eftirlit opinberra eftirlitsstofnana.
    Með 3. gr. er mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð um starfstíma framhaldsskóla. Aðdraganda greinarinnar má rekja til þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í apríl sl. við aðila Kennarasambands Íslands sem starfa í framhaldsskólum. Í viðauka við yfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðherra við umrædda kjarasamninga segir að ráðherra ætli, í samræmi við yfirlýsingu ráðherra dags. 4. apríl 2014, að gangast fyrir breytingu á 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 6/2001 um starfstíma framhaldsskóla og leyfisdaga.
    4. gr. frumvarpsins má rekja til þess að rafrænt námsefni hefur smám saman verið að festa sig í sessi í framhaldsskólum og þykir líklegt að það muni leysa hefðbundna námsgagnaútgáfu af hólmi að talsverðum hluta í náinni framtíð. Hafa útgefendur og áhugamenn um rafrænt námsefni bent á að tryggja verði greiðslur fyrir rafrænt efni. Eðli málsins samkvæmt þarf greiðslumáti vegna slíkra gagna að vera með öðrum hætti en almennt gerist um prentað námsefni, einna helst vegna þess að útbreiðsla gagna á internetinu veldur því að auðvelt er að nálgast gögnin án þess að greiða fyrir þau. Með þeirri breytingu sem nú er mælt fyrir um er leitast við að tryggja útgefendum námsefnisins greiðslur frá notendum þess. Með þessari breytingu er gert ráð fyrir að staðið verði fyrir tilraunaverkefni um miðlun og gjaldtöku fyrir rafrænt námsefni.
    5. gr. frumvarpsins má rekja til gildistöku laga nr. 92/2008. Með 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. núgildandi laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er mælt fyrir um að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án endurgjalds. Þetta orðalag kom fyrst inn í íslenska löggjöf með núgildandi lögum um framhaldsskóla sem leystu lög um framhaldsskóla, nr. 80/1996, af hólmi. Nú er lagt til að snúa aftur til þess orðalags sem var í lögum nr. 80/1996 en þar var kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda. Hvorki af greinargerð, sem fylgdi frumvarpi sem varð að núgildandi lögum, nr. 92/2008, né öðrum lögskýringargögnum verður séð að vilji löggjafans hafi staðið til þess að gera þá breytingu að ríkið skyldi framvegis greiða gatnagerðargjald af umræddum lóðum.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Lögð er til breyting á því hvaða fagstéttir hafa rétt á að taka námsorlof skv. 11. gr. laga um framhaldsskóla. Verði frumvarp þetta að lögum verða það ekki eingöngu kennarar, skólameistarar og aðrir faglegir stjórnendur sem hafa rétt á slíku heldur einnig náms- og starfsráðgjafar. Náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskólum hafa ekki fylgt réttindum annarra félagsmanna Kennarasamband Íslands sem starfa í framhaldsskólum að þessu leyti og hefur Kennarasamband Íslands bent á þá staðreynd.
    Kveðið er á um breytingu á h-lið 1. mgr. 12. gr. laga um framhaldsskóla. Nú er þar mælt fyrir um að eitt þeirra skilyrða, sem einkaaðilar sem sækja um viðurkenningu til að starfrækja framhaldsskóla þurfa að uppfylla, lýtur að „starfsaðstöðu og aðbúnaði kennara og nemenda og þjónustu við þá“. Með frumvarpi þessu er lagt til að skilyrði fyrir viðkenningu lúti að því að kennsla fari fram í húsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi.
    Mælt er fyrir um að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Rafrænt námsefni hefur verið að festa sig í sessi í framhaldsskólum landsins og má telja líklegt að það muni í náinni framtíð leysa hefðbundið námsefni af hólmi. Hvað rafrænt námsefni varðar er oft auðvelt fyrir notendur að nálgast efnið án þess að greiða fyrir það. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er leitast við að tryggja útgefendum greiðslur frá notendum. Vandséð er hvort slíkur kostnaður fáist greiddur með öðrum hætti en þeim að skólum verði veitt heimild til að krefja nemendur um greiðslur fyrir aðgang að rafrænu efni sem þeim er gert að nýta í námi. Er því lagt til að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Leitast er við að auka fjölbreytni í útgáfu rafræns námsefnis og að verð fyrir námsefni komi til með að lækka vegna hagnýtingar á nýrri tækni. Tillagan gerir ráð fyrir því að ráðherra veiti skólum heimild, í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma og bundið við tilteknar námsgreinar, til að innheimta gjald fyrir rafrænt námsefni. Ráðherra mun kveða nánar á um útfærslu ákvæðisins með reglugerð.
    Lagt er til að horfið verði aftur til þess orðalags sem var í lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, sem núgildandi lög, nr. 92/2008, leystu af hólmi. Kveðið er á um orðalagsbreytingu á 1. mgr. 47. gr. laganna. Verði frumvarpið að lögum verður þannig horfið frá núgildandi orðalagi, sem kveður á um að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án endurgjalds, til þess að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda.
    Þá er að finna reglugerðarheimild í 3. gr. þessa frumvarps sem kveður á um skyldu ráðherra til að gefa út reglugerð um starfstíma framhaldsskóla.

IV. Samráð.
    Frumvarpið er nú lagt fram í annað sinn og er það að mestu leyti óbreytt síðan þá að því undanskildu að 3. gr. þess hefur verið bætt við. Áður en frumvarpið var lagt fram á 143. löggjafarþingi (380. mál) var haft samráð við eftirfarandi aðila: Kennarasamband Íslands um ákvæði í frumvarpinu sem fjallar um rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof og Félag íslenskra bókaútgefenda í tengslum við ákvæði frumvarpsins sem kveður á um að skólum verði, með sérstöku leyfi ráðherra, heimilað í tilraunaskyni að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Þar að auki var að höfðu samráði við ríkislögmann lagt til ákvæði þess efnis að framvegis skuli sveitarfélög leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda.

V. Mat á áhrifum.
    Lagt hefur verið mat á þau áhrif sem frumvarp þetta mun hafa í för með sér.
    Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að réttur til námsorlofa skv. 11. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, verði útvíkkaður svo hann nái einnig til náms- og starfsráðgjafa. Áfram mun mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsa eftir umsóknum um námsorlof ár hvert. Með umræddri breytingu er ekki ætlunin að fjölga námsorlofum og því ekki gert ráð fyrir að breytingin hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.
    Með 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að orðalag h-liðar 1. mgr. 12. gr. laga um framhaldsskóla verði í samræmi við aðra lagabálka sem og þá framkvæmd sem hefur tíðkast við viðurkenningu á einkaaðila til kennslu á framhaldsskólastigi. Þessi breyting kemur ekki til með að hafa í för með sér nokkurn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.
    Með 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra skuli gefa út reglugerð um starfstíma framhaldsskóla. Ákvæðið er í samræmi við viðauka við yfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðherra í kjölfar kjarasamninga sem gerðir voru í apríl sl. Ekki verður séð að reglugerðarheimildin hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.
    Með 4. gr. frumvarpsins er leitast við að tryggja að notendur rafræns námsefnis greiði fyrir kostnað við útgáfu þess með það að markmiði að útgefendur námsefnisins fái greitt fyrir útgáfu þess og þannig verður stuðlað að aukinni fjölbreytni í útgáfu rafræns námsefnis og að verð muni lækka vegna hagnýtingar á tækni nútímans. Ekki verður séð að þetta fyrirkomulag muni valda auknum útgjöldum fyrir ríkissjóð.
    Með 5. gr. fumvarpsins er kveðið á um breytingu á 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. núgildandi laga um framhaldsskóla. Í núgildandi lögum er mælt fyrir um að lóðir undir framhaldsskóla skuli sveitarfélög leggja til án endurgjalds. Með frumvarpinu er lögð til sú orðalagsbreyting að kveðið verði á um að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda. Þannig verður horfið til orðalags í sambærilegu ákvæði eldri laga, nr. 80/1996. Ekki verður séð að ríkið verði fyrir auknum kostnaði vegna þessa verði frumvarp þetta að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Kennarasamband Íslands hefur óskað eftir því við mennta- og menningarmálaráðuneyti að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur réttur til að sækja um þau launuðu námsorlof sem veitt eru ár hvert. Í lögum um framhaldsskóla eru kennarar, skólameistarar og aðrir faglegir stjórnendur framhaldsskóla sagðir einir eiga rétt á að sækja um námsorlof. Sömu aðilar eru tilgreindir í reglugerð um námsorlof kennara og stjórnenda framhaldsskóla, nr. 762/2010. Þar af leiðandi hefur námsorlofsnefnd synjað umsóknum frá náms- og starfsráðgjöfum um námsorlof í framhaldsskólum. Kennarasamband Íslands segir í erindi sínu til ráðuneytisins að vegna samspils laga og kjarasamninga og með tilliti til hefðar eigi náms- og starfsráðgjafar, með tilskilda menntun og réttindi, að njóta sama réttar til launaðra námsorlofa og kennarar og skólastjórnendur. Við mat á málinu bendir Kennarasambandið á að veiting námsorlofa byggist m.a. á því sem áunnist hefur í kjarasamningagerð. Þeir kjarasamningar sem taka til veitingar námsorlofa í framhaldsskólum taka jafnt til kennara, skólastjórnenda og náms- og starfsráðgjafa.
    Af framansögðu má ráða að réttur náms- og starfsráðgjafa hefur ekki í lögum og kjarasamningum fylgt rétti félagsmanna Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum til að sækja um launuð námsorlof. Því verður að telja tímabært að skýra rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof með því að geta þeirra í þeirri grein laga um framhaldsskóla sem kveður á um rétt tiltekinna starfsmanna til að sækja um launuð námsorlof.

Um 2. gr.

    Lögð er til sú breyting á h-lið 1. mgr. 12. gr. að fellt verði brott ákvæði þess efnis að skilyrði fyrir viðurkenningu skuli lúta að starfsaðstöðu og aðbúnaði kennara og nemenda og þjónustu við þá en þess í stað mælt fyrir um að kennsla skuli fara fram í viðurkenndu skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi.
    Í gildandi lögum er kveðið á um í h-lið 1. mgr. 12. gr. að skilyrði fyrir viðurkenningu sjálfstætt starfandi framhaldsskóla lúti m.a. að því að lagt skuli mat á starfsaðstöðu og aðbúnað kennara og nemenda og þjónustu við þá. Í reglugerð um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi, nr. 426/2010, er nánar mælt fyrir um málsmeðferð vegna viðurkenningar ráðherra. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að í viðurkenningu ráðherra á starfsemi einkaskóla felist m.a. viðurkenning á starfsaðstöðu og aðbúnaði skóla. Í c-lið 3. gr. reglugerðarinnar segir að í umsókn um viðurkenningu skuli koma fram lýsing á starfsaðstöðu, þ.e. húsnæði skóla og aðbúnaði, ásamt vottorðum frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála. Í j-lið 5. gr. reglugerðarinnar segir að meðal skilyrða viðurkenningar sé að starfsaðstaða skólans sé fullnægjandi að mati ráðuneytisins.
    Innan ráðuneytisins hefur það verið metið svo að rétt sé að breyta h-lið 1. mgr. 12. gr. gildandi laga um framhaldsskóla um úttekt á skólahúsnæði í ljósi ákvæða um opinbert byggingareftirlit sem fram fer hjá öðrum stjórnvöldum, sbr. lög um mannvirki, nr. 160/2010, byggingarreglugerð, nr. 112/2012, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002, og eldvarnaeftirlit samkvæmt ákvæðum laga um brunavarnir, nr. 75/2000, og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum. Í framangreindum lögum og reglugerðum er kveðið á um fullnægjandi eftirlit með húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram og hefur ráðuneytið ekki haft sérstakt eftirlit með húsnæði einkaskóla á framhaldsskólastigi umfram það eftirlit sem opinberar eftirlitsstofnanir hafa með atvinnuhúsnæði. Samkvæmt tillögunni mun því úttekt á skólahúsnæði lúta ákvæðum laga og reglugerða þar að lútandi, þ.e. að byggingarfulltrúi hafi lokið úttekt samkvæmt ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar og laga um mannvirki, heilbrigðiseftirlit hafi gert úttekt samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og eldvarnaeftirlit, í samvinnu við byggingarfulltrúa, gengið úr skugga um að húsnæði uppfylli kröfur samkvæmt lögum og reglugerðum um brunavarnir, auk þess sem Vinnueftirlit ríkisins hafi eftir atvikum gert úttekt á vinnuaðstöðu í skóla.

Um 3. gr.

    Mælt er fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð um starfstíma framhaldsskóla. Í viðauka við yfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðherra við kjarasamninga aðila að Kennarasambandi Íslands sem starfa í framhaldsskólum segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni í samræmi við yfirlýsingu ráðherra, dags. 4. apríl 2014, gangast fyrir breytingu á 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 6/2001 um starfstíma framhaldsskóla og leyfisdaga þannig að þær verði svohljóðandi:

„1. gr.

    Skólaárið 2014–2015 verður starfstími nemenda í framhaldsskólum ekki skemmri en níu mánuðir. Skóladagar skulu vera 175 og samanstanda af kennsludögum og námsmatsdögum.
    Skólaárið 2014–15 ákveður skólameistari, að höfðu samráði við skólaráð og almennan kennarafund, upphaf og lok skólastarfs á bilinu 22.08– 31.05. Hann skal tilkynna kennurum og nemendum þá ákvörðun fyrir lok maí 2014.

2. gr.

    Frá og með skólaárinu 2015–16 skal árlegur starfstími nemenda í framhaldsskólum miðast við 180 kennslu- og námsmatsdaga. Skólameistari ákveður, að höfðu samráði við skólaráð og almennan kennarafund, upphaf og lok skólastarfs ár hvert á bilinu 18.08– 31.05. Hann skal tilkynna kennurum og nemendum þá ákvörðun fyrir lok næsta skólaárs á undan.“

Um 4. gr.

    Með 51. gr. núgildandi laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, kom í fyrsta sinn inn ákvæði um að í fjárlögum skuli tilgreina ár hvert þá fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Enn hefur engu fé verið úthlutað af fjárlögum í þessu skyni. Sá skilningur hefur verið ríkjandi að nemendur greiði sjálfir fyrir námsefni sitt. Um talsverðan kostnað er að ræða fyrir hvern og einn og er varlegt að áætla að nemandi í fullu námi greiði 60–90 þús. kr. á skólaári fyrir námsefni sem gerir 1,3–1,9 milljarða kr. alls á ári miðað við 21.000 nemendur í fullu námi.
    Ekki er kveðið á um það í lögum hver ber ábyrgð á útgáfu námsefnis í framhaldsskólum né hver skuli greiða kostnað af þeirri útgáfu. Raunin er sú að útgáfa efnis er í höndum einkaaðila. Stærstur hluti efnis er gefinn út af starfandi bókaforlögum og seldur í bókaverslunum og á skiptibókamörkuðum sem kaupa notaðar bækur af nemendum og selja með álagningu. Nokkuð er einnig um að nemendur kaupi til viðbótar útgefnum námsbókum margvíslegt efni sem þeim er gert að hafa tiltækt. Þar er um að ræða ítarefni, glósur og verkefni sem gefin eru út og seld nemendum í skólunum.
    Rafrænt námsefni sem er aðgengilegt á netinu hefur smám saman verið að ryðja sér til rúms í framhaldsskólum hér á landi þótt enn sé það í smáum stíl. Líklegt er að rafrænt námsefni muni leysa hefðbundna útgáfu af hólmi að talsverðum hluta í náinni framtíð. Útgefendur og áhugamenn um rafrænt námsefni hafa bent á að tryggja verði greiðslur fyrir rafræna efnið með öðrum hætti en almennt gerist um prentað námsefni. Útbreiðsla efnis á netinu sé með þeim hætti að alltaf verði auðvelt að nálgast það án þess að greiða fyrir með sama hætti og þegar prentaðar námsbækur er keyptar. Aldrei verði unnt að takmarka aðgang að rafrænu efni við þá eina sem greitt hafi fyrir það nema með mjög flóknum og dýrum aðferðum. Því verði að tryggja að þeir sem nota rafræna efnið greiði fyrir kostnað við útgáfu þess. Vandséð er að það náist öðruvísi en að skólum verði veitt heimild til að krefja nemendur um greiðslur fyrir aðgang að rafrænu efni sem þeim er gert að nýta í námi. Slík heimild er hvorki í núverandi lögum né reglugerð um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla, nr. 614/2009.
    Hér er lagt til að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Er því gert ráð fyrir að ráðherra veiti skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar. Nánar verður svo kveðið á um útfærslu, svo sem hámarksupphæðir, greiðslufyrirkomulag og upplýsingaskyldu skóla, í reglugerð.

Um 5. gr.

    Í 3. málsl. 4. mgr. 37. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, var svohljóðandi ákvæði: „Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda.“ Núgildandi lög um framhaldsskóla leystu lög nr. 80/1996 af hólmi. Í þeim er sambærilegt ákvæði í 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. en þó voru gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar á ákvæðinu og er það nú svohljóðandi: „Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án endurgjalds.“
    Í kjölfar gildistöku núgildandi laga hefur komið upp ágreiningur á milli ríkis og einstakra sveitarfélaga þess efnis hvort lóðir sem sveitarfélög leggja til fyrir byggingu framhaldsskólahúsnæðis skuli bera gatnagerðargjald samkvæmt lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006. Af hálfu sveitarfélaga hefur verið vísað til orðalagsbreytinga sem gerðar voru með núgildandi lögum um framhaldsskóla, þ.e. að nú er ekki tekið sérstaklega fram í 1. mgr. 47. gr. að sveitarfélag skuli leggja til lóð „án kvaða eða gjalda“. Af frumvarpi sem fylgdi núgildandi lögum um framhaldsskóla og öðrum lögskýringargögnum verður ekki séð að vilji löggjafans hafi staðið til þess að gera þá breytingu að ríkið skyldi framvegis greiða gatnagerðargjald af umræddum lóðum. Fyrir liggur staðfesting á slíkum skilningi í áliti sem ríkislögmaður veitti fjármála- og efnahagsráðuneyti 17. ágúst 2012. Með vísan til þessa er því lagt til að horfið verði aftur til þess orðalags sem var í 3. málsl. 4. mgr. 37. gr. laga nr. 80/1996.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (rafræn námsgögn o.fl.).

    Í frumvarpi þessu eru settar fram tillögur um breytingar á ákvæðum gildandi laga að því er varðar rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja launuð námsorlof, viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna, afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda og setningu reglugerðar um starfstíma framhaldsskóla.
Í frumvarpinu er lagt til að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur réttur til að sækja um launuð námsorlof. Lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008, mæla fyrir um rétt kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda til að sækja um launuð námsorlof og hefur Kennarasamband Íslands nú óskað eftir því að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur sami réttur. Breytingin felur ekki í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð þar sem fjöldi orlofa hefur verið ákveðinn í kjarasamningum. Þá er lagt til að skilyrði fyrir viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi verði breytt með þeim hætti að kennsla fari fram í viðurkenndu skólahúsnæði sem uppfyllir viðeigandi lög og reglugerðir í staðinn fyrir að kveðið sé á um að mat skuli lagt á starfsaðstöðu og aðbúnað kennara og nemenda og þjónustu til þeirra. Einnig er lagt til að í skólum verði, með sérstöku leyfi ráðherra, heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Ráðherra geti veitt skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar. Nánar verði svo kveðið á um útfærslu, svo sem hámarksupphæðir, greiðslufyrirkomulag og upplýsingaskyldur skólanna í reglugerð. Þá er lagt til að horfið verði til fyrra orðalags sem fram kemur í lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, en þar segir að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda á meðan núgildandi lög kveða á um að lóðir skuli leggja fram án endurgjalds. Á þessi breyting að fyrirbyggja ágreining um gatnagerðargjöld.
    Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að ráðherra skuli gefa út reglugerð um starfstíma framhaldsskóla. Ákvæðið er í samræmi við viðauka við yfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðherra sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga við Kennarasamband Íslands fyrr á þessu ári. Í viðaukanum kemur fram að ráðherra muni gangast fyrir breytingu á reglugerð nr. 6/2001, um starfstíma framhaldsskóla, á þá leið að skólaárið 2014–2015 verði kennslu- og námsmatsdagar 175 talsins en frá og með skólaárinu 2015–2016 skuli árlegur starfstími nemenda í framhaldsskólum miðast við 180 kennslu- og námsmatsdaga. Í tengslum við kjarasamninginn var einnig samið um innleiðingu og framkvæmd nýs vinnumats kennara í framhaldsskólum og kemur fram í bókun með samningnum að meginútfærsla vinnumatsins skuli liggja fyrir eigi síðar en 20. janúar 2015. Nýtt vinnumat verður innleitt samhliða breytingu á starfstíma kennara og hefur í för með sér að þó svo að kennslan dreifist á lengra tímabil breytist ársvinnuskylda kennara ekki heldur verður vinna kennara metin með öðrum hætti. Vegna þessa ætti áformuð fjölgun á kennslu- og námsmatsdögum ekki að leiða til kostnaðarauka í rekstri framhaldsskólanna.
    Verði frumvarpið lögfest er því ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem gert er ráð fyrir í forsendum gildandi fjárlaga.