Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 272  —  243. mál.



Frumvarp til laga

um Rauða krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Rauði krossinn á Íslandi, sem var stofnaður 10. desember 1924, er sjálfstætt og óháð félag sem starfar að mannúðarmálum í samræmi við Genfarsamningana frá 12. ágúst 1949 og viðbótarbókanir við samningana frá 8. júní 1977 og 8. desember 2005. Félagið vinnur samkvæmt grundvallarhugsjónum alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Rauði krossinn á Íslandi er eina félagið á Íslandi sem getur samkvæmt lögum þessum átt aðild að Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Félagið gegnir stoðhlutverki gagnvart stjórnvöldum í mannúðarmálum. Starfsemi þess nær til alls landsins og byggist aðallega á sjálfboðavinnu.
    Merki félagsins er rauður kross á hvítum grunni.

2. gr.

    Öðrum en Rauða krossinum á Íslandi er óheimilt að nota nafn félagsins og merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans eða Rauða kristalsins eða nöfn eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi.
    Rauða krossinum er heimilt að veita öðrum aðilum leyfi til að nota merki félagsins á friðartímum, svo sem með því að auðkenna ökutæki sem notuð eru til sjúkraflutninga og til að merkja hjálparstöðvar sem veita ókeypis hjúkrun sjúku fólki og særðu, þegar notkunin samræmist að öðru leyti Genfarsamningunum frá 12. ágúst 1949, viðbótarbókunum við samningana frá 8. júní 1977 og 8. desember 2005 og öðrum alþjóðlegum reglum sem við eiga og íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að hlíta og halda uppi. Þá er heimilt á grundvelli umferðarlaga að nota rauðan kross á hvítum grunni til að gefa til kynna heilsugæslustöð eða stað þar sem slysahjálp er veitt.
    Hver sem án heimildar notar nafn eða merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans eða Rauða kristalsins eða nöfn eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða i öðrum sambærilegum tilgangi skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum, ef brot er ítrekað.

3. gr.

    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, að fenginni umsögn Rauða krossins á Íslandi.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er samið á vegum innanríkisráðuneytisins. Leitað var til Gunnars Narfa Gunnarssonar, lögfræðings og sérfræðings í mannréttindum, til að yfirfara eldri frumvarpsdrög sem unnin höfðu verið hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir nokkrum árum. Þá var refsiákvæði frumvarpsins yfirfarið af refsiréttarnefnd. Frumvarpið er lagt fram til að uppfylla ákvæði Genfarsamninganna frá 1949 og viðbótarbókana við samningana frá 1977 og 2005, sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt, og á grundvelli sameiginlegs áheits stjórnvalda og Rauða krossins á Íslandi sem lagt var fram á alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans árið 2003. Þar segir að fara eigi „gaumgæfilega yfir ákvæði íslenskra laga er varða stöðu Rauða krossins á Íslandi og meta þörfina fyrir að sett verði sérstök lög um Rauða krossinn“. Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja það að merki félagsins njóti sérstakrar verndar og jafnframt að koma í veg fyrir misnotkun merkjanna.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Rauða krossinn á Íslandi og landsnefnd um mannúðarrétt, en nefndina skipa fulltrúar frá utanríkisráðuneyti, innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti og Rauða krossinum á Íslandi.
    Í flestum ríkjum heims þar sem landsfélög Rauða krossins starfa hafa verið sett lög til verndar félögunum og um starfsemi félaganna og til að koma í veg fyrir misnotkun á merkjum þeirra.
    Í Genfarsamningunum frá 1949 er kveðið á um að aðildarríkjum beri að veita merkjum og auðkennum alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans fullnægjandi vernd í landsrétti hlutaðeigandi ríkja.
    Genfarsamningarnir hafa verið fullgiltir af nær öllum ríkjum heims. Í 44. gr. Genfarsamnings frá árinu 1949, um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna á vígvelli (fyrsti Genfarsamningur), segir um merki Rauða krossins:
             „Að undanteknum tilvikum sem greinir í síðari málsgreinum þessarar greinar er notkun merkis Rauða krossins á hvítum grunni og orðanna „Rauði krossinn“ eða „Genfarkrossinn“ óheimil, bæði á friðar- og stríðstímum, nema til þess að auðkenna eða vernda hjúkrunarsveitir, sjúkrastofnanir, starfslið og búnað sem njóta verndar samnings þessa og annarra alþjóðasamninga um áþekk efni. Sama gildir um þau merki sem greinir í 2. mgr. 38. gr. að því er varðar þau lönd sem nota þau. Landsfélög Rauða krossins og önnur samtök sem greinir í 26. gr. eiga rétt á notkun einkennismerkisins sem veitir vernd samningsins, en aðeins innan ramma þessarar málsgreinar.
             Jafnframt geta landsfélög Rauða krossins (Rauða hálfmánans, Rauða ljónsins og sólarinnar) í samræmi við viðkomandi landslög notað nafn og merki Rauða krossins á friðartímum í tengslum við starfsemi þeirra sem er í samræmi við reglur sem alþjóðaráðstefnur Rauða krossins hafa sett. Þegar þess háttar starfsemi er fram haldið á ófriðartímum skal skilyrðum fyrir notkun merkisins háttað þannig að ekki verði talið að það veiti vernd samningsins. Þá skal merkið vera tiltölulega smátt í sniðum og óheimilt að koma því fyrir á armborðum eða húsþökum.
             Alþjóðastofnunum Rauða krossins og viðurkenndu starfsliði þeirra er ávallt heimil notkun merkis Rauða krossins á hvítum grunni.
             Í undantekningartilvikum, í samræmi við landslög og að fengnu skýlausu samþykki eins landsfélaga Rauða krossins (Rauða hálfmánans, Rauða ljónsins og sólarinnar), má nota merki samningsins á friðartímum í því skyni að auðkenna ökutæki sem notuð eru til sjúkraflutninga og til að merkja hjálparstöðvar sem veita ókeypis hjúkrun sjúkum mönnum og særðum.“
    Í 53. gr. samningsins er fjallað um misnotkun á merki Rauða krossins og segir þar í 1. mgr.:
             „Notkun einstaklinga, félaga, fyrirtækja eða stofnana, á vegum einstaklinga eða hins opinbera, annarra en þeirra sem rétt eiga samkvæmt samningi þessum, á merkinu eða nafninu „Rauði krossinn“ eða „Genfarkrossinn“, svo og hvers konar eftirgerð á þessum táknum eða heitum, hver svo sem tilgangur slíkrar notkunar kann að vera, og án tillits til þess hvenær það var tekið upp, er ávallt bönnuð.“
    Loks er í 54. gr. ákvæði um að aðildarríkjum samningsins beri að setja lög sem koma í veg fyrir misnotkun á merki Rauða krossins:
             „Hinir háttvirtu samningsaðilar skulu, ef löggjöf þeirra er ekki þegar fullnægjandi, grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir og stemma í hvívetna stigu við þeirri misnotkun sem um getur í 53. gr.“
    Á alþjóðaráðstefnum Rauða krossins og Rauða hálfmánans hafa verið gerðar samþykktir sem árétta þá skyldu stjórnvalda að vernda nafn og merki Rauða kross-félaga. Í starfsáætlun (e. Plan of Action) fyrir árin 2000–2003, sem samþykkt var samhljóða á ráðstefnunni 1999, kemur t.d. fram að ríki muni taka nauðsynleg skref til að hrinda Genfarsamningunum í framkvæmd, m.a. með því að vernda merki Rauða krossins.
    Merki alþjóðahreyfingar Rauða krossins eru þrjú, þ.e. rauður kross, rauður hálfmáni og rauður kristall, og þau njóta verndar samkvæmt ákvæðum Genfarsamninganna og viðbótarbókana við þá. Þar er að finna ákvæði sem skilgreina hverjir mega nota merkin og í hvaða skyni það er heimilt. Notkun merkjanna er ávallt háð reglum, þ.e. hvort sem vopnuð átök eiga sér stað eða friður ríkir. Merkin má annars vegar nota í verndarskyni með ákveðnum hætti og hins vegar í auðkenningarskyni á tiltekinn hátt af Rauða kross-hreyfingunni og aðilum sem henni tengjast. Samkvæmt umræddum reglum eru það fyrst og fremst hjúkrunarsveitir sem tengjast herjum og félög og stofnanir Rauða krossins eða Rauða hálfmánans sem mega nota merkin. Þá má heimila sjúkrahúsum og lækningastöðvum (e. medical units), að þröngum skilyrðum uppfylltum, að nota merkin á tiltekinn hátt. Viðurkenning merkjanna og rétt notkun þeirra er afar mikilvæg til að unnt sé að láta hlutlausa og óháða mannúðaraðstoð í té og til að þeir sem á þurfa að halda fái notið þeirrar aðstoðar og verndar sem þeir eiga rétt á samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Aðildarríkjum að Genfarsamningunum og viðbótarbókunum við þá ber að tryggja að umrædd merki séu einungis notuð svo sem heimilt er samkvæmt viðeigandi ákvæðum samninganna og bókana þeirra. Í því skyni þurfa ríkin, hvert samkvæmt sínum landsrétti, að skilgreina hvaða merki eru viðurkennd og varin, hvaða stofnun eða aðili er fyrir því ábyrgur og til þess bær að taka ákvarðanir varðandi notkun merkjanna og hafa eftirlit með hvaða aðilar það eru sem mega nota merkin og í hvaða skyni heimilt er að nota þau. Þá þarf hvert ríki að tryggja að innlend löggjöf hafi fullnægjandi ákvæði til að banna óheimila notkun merkjanna og refsa fyrir hana. Þau ákvæði þurfa að ná til allrar persónulegrar og viðskiptalegrar notkunar merkjanna og banna eftirlíkingar og hönnun sem getur valdið ruglingi gagnvart merkjunum.

II. Meginefni frumvarpsins og markmið.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að kveða með skýrum hætti á um stöðu Rauða kross Íslands sem sjálfstæðs og óháðs félags sem starfi að mannúðarmálum í samræmi við Genfarsamningana frá 1949 og síðari viðbótarbókana við þá og sem gegni stoðhlutverki gagnvart stjórnvöldum í mannúðarmálum. Markmið frumvarpsins er því að viðurkenna Rauða krossinn á Íslandi með formlegum hætti í lögum, en hingað til hefur viðurkenning stjórnvalda á félaginu takmarkast við bréf forsætisráðherra Íslands frá 9. mars 1925. Þá er með frumvarpinu kveðið á um að öðrum en Rauða krossinum á Íslandi sé óheimilt að nota merki Rauða krossins, rauðan kross á hvítum fleti, eða nafn félagsins, eða nöfn eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi nema notkunin sé í samræmi við Genfarsamningana og viðbótarbókanir við þá, sem og aðrar alþjóðlegar reglur sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að fara eftir. Hið sama á við um merki og nafn Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins.
    Í samræmi við þær skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir á grundvelli Genfarsamninganna og viðbótarbókana við þá um að setja nauðsynleg refsilög vegna brota á samningunum og bókununum, er með frumvarpinu kveðið á um viðurlög við óheimilli notkun á nafni og merkjum Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins, eða nafni og merkjum sem þeim líkjast.
    Loks er lagt til að ráðherra sem fer með mannréttindamál, þ.e. innanríkisráðherra samkvæmt forsetaúrskurði, hafi heimild í lögum til þess að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, að höfðu samráði við Rauða krossinn á Íslandi.

1. Íslenskur réttur.
    Hér er gerð grein fyrir hvernig vernd merkja alþjóðahreyfingar Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins er háttað samkvæmt íslenskum lögum. Umfjöllunin miðast einkum við það merki sem notað er og hefur verið notað af Rauða krossinum á Íslandi, þ.e. rauður kross á hvítum grunni, en gera má ráð fyrir að vegna þess að það er merki félagsins og hefur verið notað þannig hér á landi um langan tíma kunni staða þess að íslenskum rétti að vera nokkuð önnur en hinna merkjanna, þ.e. Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins.
    Í íslenskri löggjöf er ekki að finna ákvæði sem vernda umrædd merki sérstaklega. Hvað vernd þeirra áhrærir sýnast því eftirfarandi lagaákvæði helst koma til álita:
          Í 117. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, er svohljóðandi ákvæði: „Hver, sem vísvitandi eða af gáleysi notar opinberlega eða í ólögmætum tilgangi einkenni, merki eða einkennisbúning, sem áskilinn er íslenskum eða erlendum stjórnvöldum eða hermönnum, eða einkenni, merki eða búning, sem er svo áþekkur hinum ofannefndu, að hætta er á, að á verði villst, skal sæta sektum.“
          Í 1. mgr. 16. gr. d laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. lög nr. 50/2008, segir: „Óheimilt er að selja eða hafa á boðstólum vörur sem merktar eru sjálfar eða á miða eða umbúðir eða með tilsvarandi heitum, alþjóðamerki hjúkrunar- og mannúðarstarfsemi eða öðrum hliðstæðum auðkennum, svo og að nota slík merki, auðkenni eða nöfn í heimildarleysi á auglýsingaspjöldum, auglýsingum, reikningum, vöruskrám eða öðrum verslunarskjölum.“
    Neytendastofa fer með eftirlit samkvæmt lögum nr. 57/2005 og getur gripið til aðgerða og viðurlaga (stjórnvaldssekta) og/eða þvingunarúrræða vegna brota gegn ákvæðum þeirra. Þá geta brot gegn lögunum varðað refsingu, þ.e. sektum eða fangelsi.
    Í lögum nr. 45/1997, um vörumerki, er að finna ákvæði er varða stofnun og vernd vörumerkjaréttar. Einkaleyfastofa annast framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 3. gr. þeirra segir:
    „Vörumerkjaréttur getur stofnast með:
     1.      skráningu vörumerkis fyrir vöru eða þjónustu í samræmi við ákvæði laga þessara, eða
     2.      notkun vörumerkis sem er og hefur verið notað hér á landi fyrir vöru eða þjónustu.“
    Merki Rauða krossins á Íslandi, þ.e. rauður kross á hvítum grunni, mun ekki hafa verið skráð og því á 1. tölul. lagaákvæðisins ekki við um það. Hins vegar má gera ráð fyrir að merkið sé verndað skv. 2. tölul. ákvæðisins.
    Í 14. gr. sömu laga er fjallað um skráningu vörumerkja og segir þar m.a.:
    „Vörumerki má ekki skrá:
     1.      ef heimildarlaust eru í merkinu ríkistákn , opinber alþjóðamerki, merki íslenskra bæjar- eða sveitarfélaga, opinber skoðunar- og gæðamerki, sérstök heiti greindra einkenna eða annað sem til þess er fallið að villst verði á því og framangreindum merkjum og táknum; […].“
    Ákvæðið ætti að koma í veg fyrir að Einkaleyfastofa skrái vörumerki ef í því er heimildarlaust rauður kross á hvítum grunni, rauður hálfmáni eða rauður kristall eða „annað sem til þess er fallið að villst verði á því“ og þeim merkjum. Unnt er að krefjast lögbanns sýslumanns við athöfn sem brýtur gegn vörumerkjarétti og fá notkun tiltekins merkis bannaða með dómi. Þá geta brot gegn ákvæðum laganna varðað refsingu, þ.e. sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar. Bent skal á að þó að fyrrgreind lagaákvæði veiti umræddum merkjum nokkra vernd er markmið þessara ákvæða fyrst og fremst að vernda viðskiptalega hagsmuni, neytendur og eignarrétt. Hagsmunir þeir sem alþjóðlegu reglunum um merkin er ætlað að vernda eru hins vegar annars eðlis, þ.e. að stuðla að því að einstaklingar fái notið þeirrar sérstöku verndar sem þeir eiga rétt á samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Því má vel hugsa sér að tiltekin misnotkun merkis brjóti ekki í bága við fyrrgreind ákvæði íslenskra laga en ógni engu að síður þeim hagsmunum sem alþjóðlegu reglunum um merkin er ætlað að vernda og fari í bága við þær reglur.
    Þá er rétt að nefna hér að í 11. gr. reglugerðar nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, er að finna ákvæði um þjónustumerki (þ.e. merki sem er „ætlað að gefa vegfarendum upplýsingar um þjónustu sem í boði er á leið þeirra“). Þar er m.a. kveðið á um að tiltekin tvö merki sem þar eru sýnd, „Slysahjálp“ og „Heilsugæsla“, skuli notuð til „að gefa til kynna stað þar sem slysahjálp er veitt“ og „til að vísa á heilsugæslustöð sem aðeins er opin hluta sólarhrings á virkum dögum“. Bæði merkin eru ferköntuð með blárri umgjörð en að öðru leyti er síðarnefnda merkið rauður kross á hvítum grunni en það fyrrnefnda er samsett og er rauður kross á hvítum grunni hluti þess. Reglugerðin er sett á grundvelli umferðarlaga, nr. 50/1987.

2. Norrænn réttur.
2.1 Danmörk.
    Í Danmörku eru ekki í gildi nein sérstök lög um Rauða krossinn sem mæla fyrir um hvernig starfsemi hans skuli háttað. Viðurkenning á danska Rauða krossinum byggist á ákvörðun stjórnvalda frá 26. júní 1876 eftir að félagið hafði verið stofnað undir nafninu „Foreningen af syge og såredes pleje under krigsforhold“, sem var síðan breytt í núverandi nafn árið 1921 (d. Dansk Røde Kors).
    Merki og tákn hjálparsamtaka á borð við Rauða krossinn njóta hins vegar verndar í dönsku hegningarlögunum (d. Straffeloven), í 14. kafla um brot gegn opinberum stjórnvöldum (d. Forbrydelser mod den offentlige myndighed m.m.). Segir þar eftirfarandi í 2. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 132. gr. laganna: „Med bøde straffes den, som forsætligt eller ved uagtsomhed på retsstridig måde benytter kendetegn eller betegnelse, som er forbeholdt personer, indretninger og materiel, der er bestemt til at yde hjælp til sårede eller syge i krig“ (2. tölul. 1. mgr. 132. gr.). „Bestemmelsen i stk. 1 finder tilsvarende anvendelse med hensyn til efterligninger af de nævnte kendetegn, dragter og betegnelser“ (2. mgr. 132. gr.). Samkvæmt þessum ákvæðum skal því refsa þeim með sekt sem af ásetningi eða gáleysi notar á ólögmætan hátt merki eða auðkenni sem ætlað er einstaklingum, mannvirkjum eða búnaði sem nota á eða ætlað er til þess að hlúa að slösuðum eða sjúkum í stríði. Þá er að sama skapi refsivert að nota eftirlíkingu umræddra merkja og auðkenna. Ekki er mælt fyrir um fangelsisrefsingu í ákvæðinu og þá er sömuleiðis ekki að finna refsihámark eða -lágmark sekta. Almenn ákvæði um sektir er hins vegar að finna í 6. kafla hegningarlaganna sem fjallar um refsingar.
    Við þetta má síðan bæta að í dönsku markaðssetningarlögunum (d. markedsføringsloven) og vörumerkjalögunum (d. varemærkeloven) er að finna ákvæði um refsiábyrgð vegna óheimillar notkunar á merkjum eða auðkennum lögpersóna. Loks má nefna að í dönsku herrefsilögunum nr. 530/2005 (d. militær straffelov) er ákvæði í 36. gr. sem kveður á um að sá sem af ásetningi misnotar í vopnuðum átökum eða virðir ekki merki eða auðkenni sem ætlað er einstaklingum, mannvirkjum eða búnaði sem nota á eða ætlað er til þess að hlúa að slösuðum eða sjúkum í stríði, skuli sæta allt að lífstíðarfangelsi: „Den, som under væbnet konflikt forsætligt misbruger eller ikke respekterer kendetegn eller betegnelse, som er forbeholdt personer, indretninger og materiel, der er bestemt til at yde hjælp til sårede eller syge, straffes med fængsel indtil på livstid.“
    Í dönskum rétti hafa dómar fallið þar sem reynt hefur á ákvæði 132. gr. hegningarlaganna. Hinn 20. maí 2009 féll dómur á lægsta dómstigi (d. byret) í Randers í máli þar sem höfundur alfræðirits um lyfjaplöntur hafði merki með rauðum krossi á hvítum grunni á heimasíðu sinni. Kvaðst hann hafa notað merkið með þessum hætti til þess að vekja athygli á fyrstu hjálp. Var maðurinn dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 2.000 danskar krónur. Þá má nefna dóm á lægsta dómstigi í Hobro frá 18. janúar 2000 þar sem ákærði var dæmdur til greiðslu samtals 600 danskra króna, en til vararefsingar fjögurra daga fangelsi, fyrir að hafa ekið langferðabifreið til Danmerkur en í afturglugga bifreiðarinnar hafði verið komið fyrir rauðum krossi. Taldi rétturinn að um yfirsjón hafi verið að ræða hjá ákærða að fjarlægja ekki merkið þegar ekið var yfir landamæri Danmerkur, en þar sem líkindi hefðu verið milli þess merkis sem ákærði hafði komið fyrir í glugganum og merkis Rauða krossins hefði verið um óheimila eftirlíkingu að ræða í skilningi ákvæðisins. Loks má nefna dóm á lægsta dómstigi í Kaupmannahöfn frá 23. maí 2000 þar sem fyrrverandi formaður kúrdíska Rauða hálfmánans var dæmdur til greiðslu samtals 600 danskra króna, en til vararefsingar fjögurra daga fangelsi, fyrir að hafa notað merki Rauða hálfmánans á bréfsefni og kort félagsins.

2.2 Noregur.
    Á sama hátt og í Danmörku þá gilda ekki sérstök lög í Noregi um starfsemi norska Rauða krossins. Viðurkenning á norska Rauða krossinum byggist hins vegar á konunglegri tilskipun frá 14. ágúst 1907 um stöðu hans sem hjálparsamtök á stríðstímum sem var staðfest af norska varnarmálaráðuneytinu 6. apríl 1984. Staða félagsins á friðartímum var síðan formlega viðurkennd með konunglegri tilskipun 21. ágúst 2009 (n. Anerkjennelse av Norges røde kors rett til bruk av navn og emblem som Norges nasjonale forening i samsvar med Genève-konvensjonene) og er því ætlað stoðhlutverk gagnvart norskum stjórnvöldum í mannúðarmálum. Þá var með tilskipuninni viðurkenndur réttur norska Rauða krossins til notkunar á merki alþjóðahreyfingar Rauða krossins í merkingu Genfarsamninganna.
    Svipuð ákvæði gilda um vernd tákna og merkja hjálparsamtaka í norsku hegningarlögunum (n. Almindelig borgerlig Straffelov) og í þeim dönsku, og eru þau í 34. kafla norsku laganna (n. Forseelser mod den offentlige Myndighed). Segir þar eftirfarandi í 1. mgr. og b- og c-lið 2. mgr. 328. gr. laganna: „Med bøter eller med fengsel inntil 3 måneder straffes den som […] På samme måte straffes den som uheimlet bruker offentlig eller i rettsstridig øyemed; kjennetegn eller betegnelse som ved mellomfolkelig overenskomst som Norge er bundet av, er bestemt til bruk i samband med hjelp til sårete og syke eller vern av kulturverdier i krig“ (b-liður); „betegnelse, merke, segl eller kjennetegn som lett kan forveksles med noe som nevnt under bokstav a–b“ (c-liður). Samkvæmt þessum ákvæðum skal refsa með sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum þeim sem opinberlega með ólögmætum hætti eða í refsiverðum tilgangi notar merki eða auðkenni sem ætluð eru til notkunar í tengslum við aðstoð til handa særðum eða sjúkum eða til verndar menningarverðmætum á stríðstímum og sem norska ríkið er bundið af alþjóðasamningi að virða. Helsti munurinn á norsku og dönsku ákvæðunum er að viðurlögin samkvæmt norsku lögunum eru fangelsisrefsing allt að þrír mánuðir, en ekki einungis sektarrefsing eins og er í dönsku hegningarlögunum, auk þess sem norsku ákvæðin ná einnig til verndar menningarverðmæta á stríðstímum.
    Í Noregi hafa nýlega fallið nokkrir dómar þar sem reynt hefur á ákvæði 328. gr. norsku hegningarlaganna Í einu þeirra kærði norski Rauði krossinn tannlæknastofu fyrir að nota merki sem líktist merki Rauða krossins, en merkið samanstóð af rauðum krossi með bókstafnum A á hverjum armi og tönn í merkinu miðju. Tannlæknastofan var sýknuð á bæði fyrsta dómstigi og millidómstigi, en báðir dómstólarnir töldu ekki vera nægileg líkindi milli merkis stofunnar og Rauða krossins þannig að það gætti misskilnings í skilningi 328. gr. norsku hegningarlaganna. Hæstiréttur Noregs var á öðru máli og taldi að lægri dómstigin hefðu ekki túlkað lögin með réttum hætti og vísaði málinu til nýrrar efnismeðferðar. Málið var síðan tekið fyrir að nýju og í niðurstöðu millidómstigs (n. Borgarting Lagmannsrett) frá 14. janúar 2011 var tannlæknastofan talin hafa brotið gegn 328. gr. laganna og dæmd til greiðslu sektar að fjárhæð 40.000 norskar krónur. Í öðru máli hafði læknastöðin Walk-in Clinic látið birta á heimasíðu sinni merki sem líktist rauðum krossi, auk þess sem búið var að koma fyrir merkinu á skiltum fyrir utan útibú stöðvarinnar. Nánar tiltekið var um þrjú tengd merki að ræða, hlið við hlið, en á merkinu vinstra megin var teiknuð mynd af tveimur einstaklingum, á miðjumerkinu var ör sem benti til hægri og hægra megin var merki með rauðum krossi. Í niðurstöðu lægsta dómstigs Óslóar (n. tingrett) frá 17. apríl 2013 var talið að félagið sem rak læknastöðvarnar hefði brotið gegn 328. gr. hegningarlaganna þar sem of mikil líkindi væru milli rauða kross merkis læknastöðvarinnar og merkis Rauða krossins þannig að auðvelt væri að ruglast á þeim. Var læknastöðin dæmd til greiðslu sektar að fjárhæð 40.000 norskar krónur.

2.3 Svíþjóð.
    Í sænskum rétti gilda lög nr. 771 frá 1953 um vernd og notkun á merki alþjóðahreyfingar Rauða krossins (s. Lag om skydd för vissa internationella sjukvårdsbeteckningar m.m.). Skv. 2. mgr. 2. gr. laganna er Rauða kross Svíþjóðar heimilt með leyfi stjórnvalda að nota nafn og merki Rauða krossins. Var umrætt leyfi veitt með ákvörðun stjórnvalda 29. maí 2008 og felur það í raun sér viðurkenningu á landsfélaginu. Þá er samkvæmt sömu grein öðru sænsku félagi, sem hefur það hlutverk í stríði að veita heilbrigðisaðstoð til hermanna, einnig heimilt að nota merkið. Er ákvæðið svohljóðandi: „Med regeringens tillstånd må föreningen svenska röda korset och annan svensk förening, till vars uppgift hör att i krig biträda vid militär sjukvård, begagna sagda märke och benämning.“
    Á grundvelli sömu laga er öðrum en þeim sem heimild hafa til þess frá stjórnvöldum óheimilt að nota merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sbr. 4. gr. Í 5. gr. laganna er síðan mælt fyrir um viðurlög, en þar segir í 1. mgr. að óheimil notkun á umræddum merkjum varði sektum eða fangelsi og í 2. mgr. varðar það sömu viðurlögum að nota merki sem hafa sömu eiginleika og umrædd merki og auðvelt er að ruglast á: „Den som saluhåller vara, därpå obehörigen anbragts märke, benämning eller annat kännetecken, som avses i 1, 3 eller 4 §, eller i firma obehörigen intager sådan benämning eller eljest bryter mot de i nämnda paragrafer stadgade förbuden, straffes med böter eller fängelse“ (1. mgr. 5. gr.). „Samma lag vare där någon offentligen brukar märke, benämning eller kännetecken som företer sådan likhet med märke, benämning eller kännetecken som avses i 1, 3 eller 4 § att förväxling lätt kan ske“ (2. mgr. 5. gr.). Í lögunum er þó hvorki mælt fyrir um lengd fangelsisrefsingar né hámark eða lágmark sektarfjárhæðar.
    Í skýrslu sænskrar nefndar um alþjóðleg mannúðarlög frá 2010 (SOU 2010:72) er að finna tillögur um breytingar á lögum nr. 771 frá 1953, en þar er m.a. fjallað um vernd merkis Rauða krossins og rétt Rauða kross Svíþjóðar til þess að nota það. Í skýrslunni er m.a. lagt til nýtt viðurlagaákvæði vegna misnotkunar á merki Rauða krossins og varðar slíkt sektum eða fangelsi að hámarki sex mánuðir.
    Þessu til viðbótar hafa sænsku hegningarlögin (s. Brottsbalken) að geyma ákvæði um alvarleg brot (s. svår överträdelse) vegna misnotkunar á merkjum þeim sem vísað er til í lögum nr. 771 frá 1953 og getur slíkt varðað að hámarki fjögurra ára fangelsisrefsingu. Ákvæði um þetta er að finna í 22. kafla laganna sem fjallar um landráð, en þar segir eftirfarandi í 1. mgr. 6. gr. 2. tölul.: „Den som gör sig skyldig till en svår överträdelse av något sådant avtal med främmande makt eller någon sådan allmänt erkänd grundsats, som rör den internationella humanitära rätten i väpnade konflikter, döms för folkrättsbrott till fängelse i högst fyra år. Sådana svåra överträdelser är bland andra […] 2. att missbruka […], kännetecken som avses i lagen (1953:771) om skydd för vissa internationella sjukvårdsbeteckningar m.m., […] eller andra internationellt erkända kännetecken […].“ Sé um gróft brot að ræða getur umrædd háttsemi varðar að hámarki 18 ára fangelsi eða lífstíðarfangelsi, en þar kemur m.a. til skoðunar hvort brotið hafi leitt til margra dauðsfalla eða valdið miklu eignatjóni, sbr. 2. mgr. 6. gr.: „Är brottet grovt, döms till fängelse i högst arton år eller på livstid. Vid bedömande av om brottet är grovt ska särskilt beaktas om det har förövats genom ett stort antal skilda handlingar eller om många människor dödats eller skadats eller omfattande egendomsförlust uppkommit på grund av brottet.“
    Fyrir nokkrum árum féll dómur í Svíþjóð þar sem reyndi m.a. á ákvæði laga nr. 771 frá 1953, en um er að ræða dóm markaðsdómstólsins (s. marknadsdomstolen) frá 12. nóvember 2009 (markaðsdómstóllinn er sérdómstóll, en undir hann heyra mál varðandi samkeppnisrétt o.fl.). Málið snerist um fyrirtæki sem framleiddi og markaðssetti fyrstu-hjálpar töflur sem hengdar eru á veggi á ýmsum opinberum stöðum og innihalda plástra, sárabindi og annað slíkt. Töflurnar sjálfar voru ýmist rauðar eða appelsínugular og hvítar á lit og í laginu eins og kross. Taldi dómurinn að framsetning og litasamsetning taflanna væri með þeim hætti að of mikil líkindi væru milli þeirra og merkis Rauða krossins þannig að bryti í bága við 2. mgr. 5. gr. laga nr. 771 frá 1953. Þá var háttsemi fyrirtækisins einnig talin hafa brotið gegn góðum markaðssetningarháttum, sbr. 5. og 6. gr. sænsku markaðssetningarlaganna (s. marknadsföringslagen). Var fyrirtækinu bannað að markaðssetja töflurnar með þessum hætti, en að öðrum kosti yrði því gert að greiða sekt (s. vite) að fjárhæð 750.000 sænskar krónur.

2.4 Finnland.
    Finnland er eina norræna ríkið þar sem í gildi eru sérstök lög um stöðu og starfsemi landsfélags Rauða krossins, en það eru lög nr. 238 frá 2000 (s. Lag om Finlands Röda Kors). Viðurkenningu á stöðu finnska Rauða krossins er að finna í 1. gr. laganna, en þar segir í 1. mgr. að finnski Rauði krossinn sé „en av finska staten erkänd offentligrättslig förening vars verksamhet grundas på de fyra Genèvekonventionerna“ og í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að félagið sé eina félagið í Finnlandi sem sé aðili að alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans: „Organisationen är den enda nationella föreningen i Finland som är medlem i Internationella rödakors- och rödahalvmånefederationen.“ Í 2. gr. laganna er síðan fjallað um rétt félagsins til þess að nota nafn og merki alþjóðahreyfingar Rauða krossins og er þar vísað til þess sem fram kemur í Genfarsamningunum og viðbótarbókunum við samningana, auk þess sem fram kemur í sérstökum lögum um notkun á tilteknum alþjóðlegum merkjum sem njóta verndar, sbr. lög nr. 947 frá 1979, sem síðar verður vikið að: „I fråga om organisationens rätt att använda Röda Korsets namn och emblem gäller vad som föreskrivs i de konventioner och tilläggsprotokoll som nämns i 1 § 1 mom. samt vad som bestäms i lagen om användningen av vissa internationellt skyddade beteckningar (947/1979).“ Í 3. gr. laganna er síðan að finna ákvæði um tengsl forseta Finnlands við finnska Rauða krossinn, en þar kemur m.a. fram að forsetinn geti veitt samþykki sitt til þess að vera verndari félagsins (1. mgr.) og þá getur hann skv. 4. mgr. gefið út tilskipun varðandi merki félagsins: „Republikens president kan utfärda en förordning om organisationens utmärkelsetecken.“ Þá er mælt fyrir um það í 5. gr. laganna að reglur sem aðalfundur félagsins hefur samþykkt eru gefnar út á grundvelli tilskipunar forsetans: „Stadgar som organisationens stämma har godkänt utfärdas genom en förordning av republikens president.“
    Sérstök lög um vernd merkja Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins hafa verið í gildi í Finnlandi frá árinu 1979 (með breytingum árið 2008) og nefnast þau „Lag om andvändningen av vissa internationellt skyddade beteckningar“ (lög nr. 947/1979), en lögin eru af svipuðum meiði og sænsku lögin nr. 771 frá 1953 sem áður var fjallað um. Í lögunum er því lýst hverjir hafa heimild og undir hvaða kringumstæðum að nota umrædd merki og þá er lagt bann við því að nota merki, myndir og nöfn eða hugtök sem minna á merkin, sbr. 2. gr. Í 6. gr. laganna er síðan að finna ákvæði um viðurlög gegn óheimilli notkun, en samkvæmt greininni eru viðurlögin sektir eða fangelsisrefsing að hámarki sex mánuðir, að því gefnu að strangari refsingu sé ekki að finna í öðrum lögum: „Den som i affärsverksamhet eller eljest olovligen använder i 1 och 2 §§ nämnda kännetecken, bilder eller benämningar skall för olovlig användning av internationellt skyddad beteckning dömas till böter eller till fängelse i högst sex månader, såvitt strängare straff icke är stadgat annorstädes i lag.“ Þessu til viðbótar er kveðið á um viðurlög í finnsku hegningarlögunum (s. Strafflag) við óheimilli notkun á merkjum þeim sem vísað er til í Genfarsamningunum og viðbótarbókunum við þá. Um þetta eru ákvæði í 11. kafla laganna sem fjallar um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, en þar er refsingin að lágmarki eins árs fangelsi eða lífstíðarfangelsi: „Den som i samband med krig eller en annan internationell eller intern väpnad konflikt eller ockupation i strid med Genèvekonventionerna […] eller de till 1949 års Genèvekonventioner fogade tilläggsprotokollen […], eller i strid med andra folkrättsliga regler eller sedvänjor som gäller krig, väpnade konflikter eller ockupation […] missbrukar […] ett kännetecken enligt Genèvekonventionerna eller tilläggsprotokoll I eller III till dem […] ska för krigsförbrytelse dömas till fängelse i minst ett år eller på livstid.“

2.5 Samanburður milli Norðurlandanna.
    Samanburður á skipan mála á Norðurlöndunum leiðir í ljós að bæði fyrirkomulag varðandi viðurkenningu á stöðu viðkomandi landsfélags Rauða krossins sem og hvernig háttað er vernd merkja alþjóðahreyfingar Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins er með mismunandi hætti. Sem dæmi má nefna að Finnland er eina ríkið þar sem í gildi eru sérstök lög um stöðu Rauða krossins í landsrétti og byggist viðurkenning finnskra yfirvalda á finnska Rauða krossinum á þeim lögum. Í Danmörku er danski Rauði krossinn viðurkenndur á grundvelli ákvörðunar stjórnvalda frá 26. júní 1876 og í Noregi er tilvist norska Rauða krossins viðurkennd með konunglegum tilskipunum, annars vegar á stríðstímum (frá 14. ágúst 1907) og hins vegar á friðartímum (tilskipun frá 21. ágúst 2009). Ákvæði um sænska Rauða krossinn er að vísu að finna í lögum, en þar er heimild hans til notkunar á merkjum alþjóðahreyfingar Rauða krossins háð leyfi sem var veitt með ákvörðun stjórnvalda frá 29. maí 2008 og felur í raun í sér viðurkenningu á landsfélaginu.
    Varðandi óheimila notkun á táknum og merkjum alþjóðahreyfingar Rauða krossins er bæði útfærsla refsiákvæða sem og refsiviðurlögin mismunandi milli ríkjanna. Í bæði Danmörku og Noregi gilda ákvæði hegningarlaga um óheimila notkun og er þar ekki vísað sérstaklega til tákna eða merkja Rauða krossins sem slíks. Í dönskum lögum eru viðurlög fyrir óheimila notkun sektir eða fangelsi, en ekki er þar kveðið á um hámark eða lágmark. Í norskum rétti eru viðurlögin sektir eða fangelsisrefsing allt að þrír mánuðir. Í sænskum rétti er mælt fyrir um viðurlög fyrir óheimila notkun í bæði almennum refsilögum sem og í sérlögum. Samkvæmt lögum nr. 771 frá 1953 eru viðurlögin fyrir óheimila notkun á merkjum Rauða krossins o.fl. sektir eða fangelsisrefsing, en ekki er kveðið á um hámark eða lágmark. Nefnd um mannúðarlög lagði hins vegar til breytingar fyrir nokkrum árum á lögunum um að viðurlögin séu sektir eða fangelsi allt að sex mánuðir. Ef um er að ræða mjög alvarleg eða gróf brot gilda hins vegar sænsku hegningarlögin og getur fangelsisrefsing þar verið allt að 18 árum eða lífstíðarfangelsi. Í finnskum rétti eru ákvæði um refsiviðurlög fyrir óheimila notkun á merkjum Rauða krossins o.fl. í sérstökum lögum nr. 947 frá 1979, en þar er refsingin sektir eða fangelsi allt að sex mánuðir. Þá eru einnig ákvæði í finnsku hegningarlögunum um misnotkun á merkjum þeim sem fjallað er um í Genfarsamningunum og viðbótarbókunum við þá, en viðurlögin þar eru að lágmarki eins árs fangelsi eða lífstíðarfangelsi ef brotið telst vera stríðsglæpur eða glæpur gegn mannkyni.

3. Tillögur um fyrirkomulag á Íslandi.
    Lagasetning um merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með fullgildingu Genfarsamninganna frá 1949 og viðbótarbókananna við þá. Þá tryggir lagasetning um Rauða krossinn á Íslandi jafnframt fullnægjandi viðurkenningu íslenskra stjórnvalda á félaginu og réttarstaða Rauða krossins á Íslandi verður skýrari en hún er í dag.
    Á Norðurlöndunum hafa Finnar einnig valið þá leið að setja um þessi mál sérstök lög. Að vel athuguðu máli og að höfðu samráði við Rauða krossinn á Íslandi hefur hér verið valin sú leið að setja hér sérstök lög um Rauða krossinn Eru þá jafnframt án vafa uppfylltar skyldur ríkisins samkvæmt Genfarsamningunum og viðbótarbókunum við samninganna.

III. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Eins og fram kemur í I. kafla athugasemdanna er frumvarpið lagt fram til að uppfylla ákvæði Genfarsamninganna frá 1949 og viðbótarbókana við samningana frá 1977 og 2005. Ekki verður séð að frumvarpið stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar.

IV. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Rauða krossinn á Íslandi og Landsnefnd um mannúðarrétt.

V. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er verið að skýra enn frekar réttarstöðu Rauða krossins á Íslandi og lögfesta sérstaka stöðu hans samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland hefur þegar fullgilt. Verður ekki séð að frumvarpið gefi tilefni til sérstaks mats á áhrifum þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður 10. desember 1924 og hlaut viðurkenningu íslenskra stjórnvalda með bréfi Jóns Magnússonar forsætisráðherra, dags. 9. mars 1925.
    Rauði krossinn á Íslandi er viðurkenndur af Alþjóðaráði Rauða krossins (ICRC) og er aðili að Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC). Tilgangur félagsins er að bregðast við neyð jafnt innan lands sem utan og veita aðstoð er gerir fólk hæfara til að takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum. Félagið stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga og starfar eftir sjö grundvallarhugsjónum Rauða kross-hreyfingarinnar sem eru: mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðin þjónusta, eining og alheimshreyfing.
    Fram kemur í 1. gr. frumvarpsins að Rauði krossinn gegni stoðhlutverki gagnvart stjórnvöldum í mannúðarmálum. Þetta er í samræmi við samþykktir sem gerðar hafa verið á alþjóðaráðstefnum Rauða krossins og Rauða hálfmánans – þar sem sæti eiga fulltrúar stjórnvalda og Rauða krossins. Á síðustu alþjóðaráðstefnu (2007) var t.d. samþykkt samhljóða ályktun þar sem ítrekað var að samstarf ríkisstjórna og landsfélaga Rauða krossins sé sérstakt, þ.e. það byggist bæði á alþjóðalögum og landslögum og það einkennist af gagnkvæmri ábyrgð og ávinningi. Þetta stoðhlutverk Rauða krossins, sem svo er oft nefnt, felur í sér að landsfélög styðja stjórnvöld á sviði mannúðarmála en þó á eigin forsendum og í samræmi við samþykktir hreyfingarinnar, landslög og grundvallarhugsjónirnar um mannúð, hlutleysi og sjálfstæði.
    Þar sem viðurkenning stjórnvalda á félaginu takmarkast við áðurnefnt bréf forsætisráðherra frá 1925 er talið nauðsynlegt að hafa hana með formlegri hætti. Landsfélög Rauða krossins hafa sérstöku hlutverki að gegna samkvæmt Genfarsamningunum og viðbótarbókunum við þá, en þar er að finna nokkur ákvæði er varða landsfélög Rauða krossins, stöðu þeirra og hlutverk (26. gr. í fyrsta samningnum, sem fjallar um bætta meðferð særðra og sjúkra á vígvellinum, 63. gr. í fjórða samningnum, um vernd almennra borgara á stríðstímum, 81. gr. í viðbótarbókun I, um vernd fórnarlamba vopnaðra átaka milli ríkja og 18. gr. í viðbótarbókun II, sem snýr að vernd fórnarlamba vopnaðra innanríkisátaka).

Um 2. gr.

    Enda þótt sá möguleiki kunni að virðast fjarlægur, gæti það gerst að stofnað yrði annað félag hér á landi sem kennt væri við rauðan kross. Slíkt hefur gerst í öðrum löndum, til að mynda þegar stríðsátök hafa brotist út, en þá hafa stríðandi fylkingar stundum stofnað sín eigin félög og kennt þau við rauðan kross eða önnur merki hreyfingarinnar. Ákvæði þetta á m.a. að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst hér á landi eða að nafn Rauða krossins og sú alþjóðlega viðurkenning sem það nýtur og sú vernd sem það veitir samkvæmt alþjóðalögum verði misnotuð með öðrum hætti. Þessari grein er því ætlað að taka af allan vafa um að einungis Rauða krossinum á Íslandi er heimilt að nota rauðan kross á hvítum grunni sem merki sitt, og felst því í greininni að Rauði krossinn á Íslandi er viðurkenndur sem eini aðilinn, félagið, stofnunin eða fyrirtækið sem er heimilt að kenna sig við rauðan kross hér á landi.
    Í fljótu bragði kann að virðast að þetta sé ekki svo stórvægilegt atriði að það krefjist lagasetningar. Hins vegar geta hér verið afar mikilvægir hagsmunir í húfi, þ.e. ef merki Rauða krossins er misnotað eða notað í öðrum tilgangi en því er ætlað samkvæmt alþjóðlegum lögum þar að lútandi. Eins og fram kemur í 44. gr. fyrsta Genfarsamningsins sem vitnað er til í I. kafla athugasemdanna er merkjum Rauða krossins ætlað að veita fórnarlömbum vopnaðra átaka vernd og einnig fólki sem sinnir særðum og sjúkum í stríðsátökum.
    Misnotkun og villandi notkun merkja Rauða krossins er að sjálfsögðu misalvarleg eftir eðli og umfangi háttseminnar. Alvarlegustu brotin eru þegar merkin eru notuð í blekkingarskyni á ófriðartímum til að koma óvinum á óvart eða til að fá vernd fyrir aðila, t.d. virka þátttakendur í vopnuðum átökum, sem ekki eiga rétt til slíkrar verndar. Slík misnotkun merkjanna telst vera stríðsglæpur í skilningi alþjóðlegra mannúðarlaga og ber ríkjum að tryggja að viðurlög við slíkum brotum séu í samræmi við hversu alvarleg brotin eru og tryggja að brotamenn séu dregnir fyrir rétt og hljóti nægilega þungar refsingar.
    Svo virðist sem margir tengi merkið „rauður kross á hvítum grunni“ við einhvers konar læknisþjónustu. Það er sennilega skýringin á því að langflest tilvik sem komið hafa upp um misnotkun á merkinu hér á landi tengjast vöru eða þjónustu á sviði lækninga eða heilsugæslu. Rauði krossinn á Íslandi hefur allnokkrum sinnum talið óhjákvæmilegt að beina athugasemdum til fyrirtækja, stofnana og einstaklinga varðandi villandi notkun umræddra merkja og mælst til þess að látið yrði af henni en ekki er vitað til þess að mál er varðað hafa meinta misnotkun á umræddum merkjum hafi komið fyrir dómstóla hér á landi. Hingað til hafa athugasemdir við misnotkun á merkinu verið gerðar með tilvísun til Genfarsamninganna og lagaákvæða á sviði viðskipta og samkeppni en ekki til skýrra og sérstakra ákvæða í innlendri löggjöf þar sem þau hefur skort. Rétt er því að tiltaka nákvæmlega að öðrum en Rauða krossinum sé eingöngu heimilt að nota merkið innan takmarkana Genfarsamningsins og þá samkvæmt sérstöku leyfi Rauða krossins á Íslandi.
    Talið er nauðsynlegt að tiltaka refsiákvæði í lögunum svo að þau veiti Rauða krossinum á Íslandi og merkjum alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans fullnægjandi vernd gegn misnotkun og villandi notkun. Að öðrum kosti verður ekki talið að lögin samræmist þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist um að setja nauðsynleg refsilög vegna brota á samningunum og bókununum.
    Nauðsynlegt er að íslensk löggjöf mæli fyrir um virk og nægilega ströng viðurlög gegn brotum á lögunum enda eigi stjórnvöld að tryggja að þeir sem brotlegir gerast séu látnir svara til saka fyrir brot sín. Tiltekinn refsirammi er settur í greininni og lagt til að misnotkun á nafni eða merki félagsins geti varðað fangelsi allt að sex mánuðum. Er það lagt til með vísan til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað annars staðar á Norðurlöndunum og fjallað er um í almennum athugasemdum við frumvarp þetta. Við ákvörðun refsingar á grundvelli ákvæðisins er á valdi dómara að ákveða hæfilega refsingu í einstökum málum með tilliti til umfangs og eðlis brots, ásetnings og brotavilja og því hvort um ítrekað brot telst vera að ræða. Þess skal einnig getið að ákveðin brot á reglum um notkun merkjanna teljast til stríðsglæpa í skilningi alþjóðlegra mannúðarlaga, sbr. m.a. vii. lið b-liðar 2. mgr. 8. gr. Rómarsamþykktarinnar og 5. mgr. 85. gr. bókunar I við Genfarsamningana.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð þar sem nánar verði mælt fyrir um framkvæmd laganna. Þar sem Rauði krossinn á Íslandi hefur og mun fyrirsjáanlega og eðli máls samkvæmt leitast við að standa vörð um nafn sitt og merki og verja það fyrir misnotkun er eðlilegt að reglugerðin verði sett að höfðu samráði við félagið og að þar verði jafnframt skýrt eftir því sem kostur er hvernig aðkoma félagsins að þessum málum skuli vera og hvernig samstarfi þess við stjórnvöld í þeim verður háttað.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um Rauða krossinn á Íslandi og merki
Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins.

    Markmið frumvarpsins er að viðurkenna Rauða krossinn á Íslandi með formlegum hætti í lögum en með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um Rauða krossinn á Íslandi og merki félagsins. Kveðið verður á um að Rauði krossinn verði sjálfstætt og óháð félag sem starfi að mannúðarmálum í samræmi við Genfarsamninga frá 1949 og viðbótarbókanir við samningana frá 1977 og 2005. Merki félagsins er veitt sérstök vernd gegn misnotkun og kveðið á um að öðrum en Rauða krossinum sé óheimilt að nota nafn félagsins og merki eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi. Félagið getur veitt leyfi til notkunar á merki félagsins í sérstökum tilvikum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.