Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 289  —  163. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um líffæraígræðslu.


     1.      Hversu margir eru nú á biðlista eftir líffæraígræðslu?
    Íslendingar á biðlista á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg eru eftirfarandi:
    Nýra. Tíu einstaklingar eru á biðlista eftir nýra frá látnum gjafa.
     Hjarta. Enginn er á biðlista sem stendur.
     Lifur. Einn einstaklingur er á biðlista eftir lifur frá látnum gjafa.
     Lunga. Einn     einstaklingur (barn) er á biðlista eftir lunga frá látnum gjafa.

     2.      Hver hefur verið meðalbiðtími eftir líffæri síðastliðin fimm ár úr látnum gjafa:
                  a.      á Íslandi,
                  b.      í Noregi,
                  c.      í Svíþjóð?

    Á Íslandi:
     Nýra. Meðalbiðtími eftir nýra frá látnum gjafa hefur verið 23 mánuðir. Biðtíminn hefur verið mjög mismunandi eins og jafnan er raunin eða frá tveimur mánuðum upp í 7,5 ár. Alls hafa fimm einstaklingar beðið í þrjú ár eða lengur. Flestir sem bíða svo lengi eftir nýra eru með hátt hlutfall mótefna í blóði gegn vefjaflokkasameindum mögulegra gjafa og því getur reynst erfitt að finna nýra sem hentar.
     Hjarta. 5 mánuðir (miðgildi).
     Lifur. Meðalbiðtími hefur verið um 7,5 mánuðir. Ef einstaklingur sem beið í 34 mánuði er undanskilinn væri meðalbiðtíminn um 5,5 mánuðir. Sjúklingar með bráða lifrarbilun eru ekki taldir með, enda ekki venjan.
    Í nokkrum tilvikum hefur biðtíminn verið of langur að mati lifrarlækna á Landspítala. Árið 2011 varð sjúklingur með lifrarfrumukrabbamein óskurðtækur eftir sex mánaða bið og því tekinn af biðlista. Árið 2012 lést sjúklingur sem var á biðlista fyrir bæði lifur og nýra. Einn einstaklingur sem fór í lifrarígræðslu árið 2013 beið í 16 mánuði. Þá beið annar einstaklingur í 34 mánuði, en ástand hans var reyndar stöðugt allan tímann.
     Lunga. 6 mánuðir (miðgildi). Hefur lengst frá 2010. Þrír sjúklingar biðu í um eitt ár.

    Í Noregi:
     Nýra. 9 mánuðir (miðgildi).
     Hjarta. 6 mánuðir (miðgildi).
     Lifur. 4–6 vikur (miðgildi).
     Lunga. 10 mánuðir (miðgildi).

    Í Svíþjóð, Sahlgrenska-sjúkrahúsið 2013:
     Nýra. Biðtími (miðgildi) einstaklinga sem ekki höfðu mótefni gegn vefjaflokkasameindum og gengust undir ígræðslu nýra:
         21 mánuður (3–42) í blóðflokki A.
         18 mánuðir (3–40) í blóðflokki B.
         43 mánuðir (5–62) í blóðflokki O.
         1 mánuður (0–10) í blóðflokki AB.
     Hjarta. Biðtími (miðgildi) var 57 dagar (1–665).
     Lifur. Biðtími (miðgildi) var 40 dagar (0–998)
     Lunga. Biðtími (miðgildi) var 62 dagar (0–758).

     3.      Hve margir látnir gjafar hafa komið til greina til líffæragjafar á Íslandi síðastliðin fimm ár? Hve margir þeirra voru samþykktir sem líffæragjafar? Hverjar voru ástæður þess að líffæragjafar voru ekki samþykktir? Hefur líffæragjöfum sem er hafnað fjölgað eða fækkað síðastliðin fimm ár?
    Alls voru 39 einstaklingar úrskurðaðir heiladauðir og komu því til álita sem gjafar. Þeir sem samþykktir voru sem líffæragjafar voru 18 talsins. Í 11 tilvikum var líffæragjöf ekki möguleg af læknisfræðilegum ástæðum. Aðstandendur neituðu í 6 tilvikum. Hlutfall þeirra líffæragjafa sem hafnað er hefur haldist svipað undanfarin ár.

     4.      Hvaða úrræði telur ráðherra heppilegust til að fjölga mögulegum líffæragjöfum?
    Reynsla annarra þjóða sýnir að grípa þarf til fjölþættra aðgerða til að fjölga látnum líffæragjöfum. Þau úrræði sem helst koma til greina til að fjölga látnum líffæragjöfum eru:
          Regluleg og markviss fræðsla og upplýsingagjöf til almennings.
          Fræðsla til heilbrigðisstarfsmanna um líffæragjafir og þjálfun þeirra til að ræða við aðstandendur um líffæragjöf.
          Að auðvelda þeim sem þess að óska að skrá vilja sinn til líffæragjafar á einfaldan hátt í rafrænan miðlægan gagnagrunn. Smíð á rafrænum gagnagrunni er langt á veg komin hjá embætti landlæknis.