Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 299  —  147. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen
um notkun plöntu-, sveppa- og skordýraeiturs.


     1.      Hvernig er eftirliti með skráningu og notkun plöntu-, sveppa- og skordýraeiturs háttað hér á landi?
    Samkvæmt 35. gr. efnalaga, nr. 61/2013, skulu þeir aðilar hafa markaðsleyfi sem setja plöntuverndarvörur, þ.m.t. illgresis-, sveppa og skordýraeyða, á markað hér á landi. Sem stendur hefur Umhverfisstofnun gefið út markaðsleyfi vegna 113 plöntuverndarvara á markaði hér á landi, sem byggist á heimildum í bráðabirgðaákvæði efnalaga. Listi yfir umræddar plöntuverndarvörur er birtur á vef Umhverfisstofnunar, www.ust.is.
    Óheimilt er að tollafgreiða plöntuverndarvöru nema markaðsleyfi hennar liggi fyrir og er tollstjóra heimilt að hafna tollafgreiðslu slíkrar vöru ef hún uppfyllir ekki skilyrði efnalaga, að fengnum tilmælum frá Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða sem eru settar samkvæmt þeim.
    Ný efnalög tóku gildi á síðasta ári og hefur Umhverfisstofnun á þessum tíma farið í eina almenna eftirlitsferð með plöntuverndarvörum á markaði, þ.e. í júnímánuði 2014, þegar mest er af þessum vörum á markaði. Þar var sérstaklega skoðað hvort tilskilin leyfi væru til staðar vegna þessara vara á markaði, en einnig hvort merkingar á þeim væru í samræmi við gildandi reglur þar um og öryggisblöð aðgengileg fyrir þá sem nota vörurnar í atvinnuskyni. Í eftirlitinu var farið í sjö fyrirtæki sem stunda markaðssetningu á þessum vörum og má ætla að þessi fyrirtæki séu samanlagt með yfirgnæfandi markaðshlutdeild hér á landi. Alls voru skoðaðar 60 plöntuverndarvörur og þar af voru gerðar athugasemdir við 10 vörur í þremur fyrirtækjum. Öll fyrirtækin hafa nú orðið við athugasemdum Umhverfisstofnunar og/eða tekið af markaði ólöglegar plöntuverndarvörur.
    Umhverfisstofnun ráðgerir að standa árlega fyrir eftirliti með plöntuverndarvörum á markaði og á næsta ári er gert ráð fyrir að beina athyglinni sérstaklega að merkingum á þessum vörum.

     2.      Hvaða upplýsingar liggja fyrir opinberlega um notkun slíkra efna hérlendis, þ.m.t. um tegundir, magn og dreifingu?
    Vitneskja um notkun á plöntuverndarvörum hér á landi byggist að stærstum hluta á upplýsingum um innflutning sem safnað er þegar veitt er áritun vegna tollafgreiðslu á þessum vörum. Við áritun ber að leggja fram vörureikning fyrir sendinguna og þar með fást upplýsingar um heiti og magn hverrar vöru. Þessum upplýsingum hefur verið safnað saman um árabil.
    Mikilvægt er að hafa í huga að þegar kemur að tollafgreiðslu á plöntuverndarvöru þá hefur þegar verið veitt leyfi fyrir markaðssetningu vörunnar á Íslandi og því liggja fyrir ýmsar upplýsingar um vöruna, þar á meðal um innihald virkra efna, en það er mikilvægt þegar gera þarf samanburð á notkun plöntuverndarvara á milli landa. Árlega eru fluttar til landsins milli 30–40 mismunandi plöntuverndarvörur sem innihalda 25–30 mismunandi virk efni. Í meðfylgjandi töflu má sjá að heildarinnflutningur áranna 2011–2014 nemur frá rúmlega tveimur tonnum upp í tæp fjögur tonn af virku efni á ári. Langmest er flutt inn af illgresiseyðum. Heildarmagnið sveiflast nokkuð á milli ára og helsta skýringin á því er væntanlega sú að talsvert er um að vörur séu aðeins fluttar inn annað hvert ár eða sjaldnar og þá nokkurra ára birgðir í senn.

Heildarinnflutningur á plöntuverndarvörum til landsins árin 2011–2014
og hlutfallsleg skipting eftir flokkum, byggt á innflutningsgögnum.

2011 2012 2013 2014*
Samtals flutt til landsins (tonn af virku efni á ári) 3,42 3,11 2,27 3,84
Illgresiseyðir 85% 86% 91% 84%
Sveppaeyðir 4% 2% 7% 9%
Skordýraeyðir 12% 13% 2% 7%
* Innflutningur til 1. október 2014.
         
    Í samanburði við nágrannalönd okkar í Evrópu er notkun á plöntuverndarvörum hér á landi afar lítil. Það sést til dæmis þegar skoðaðar eru upplýsingar frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) um notkun á plöntuverndarvörum í landbúnaði á tímabilinu 1992– 2011. Á Íslandi nemur áætluð notkun á plöntuverndarvörum í landbúnaði 0,043 kg af virku efni á hvern ha ræktaðs lands, í Noregi er sambærileg tala 0,84 kg/ha, í Svíþjóð 0,75 kg/ha og í Danmörku 1,6 kg/ha.