Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 304  —  105. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa,
nr. 88/2003, með síðari breytingum (EES-mál).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Evu Margréti Kristinsdóttur frá velferðarráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Persónuvernd og Samiðn.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, þess efnis að fellt er brott skilyrði b-liðar 5. gr. laganna um að launamenn þurfi að skrá sig í virka atvinnuleit í uppsagnarfresti svo að krafa um bætur fyrir launamissi vegna slita á ráðningarsamningi njóti ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa. Í stað þess skilyrðis er lagt til að launamenn hjá vinnuveitendum sem hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eigi rétt á bótum fyrir launamissi í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi enda hafi þeir ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum atvinnurekanda eða hafið sjálfstæðan rekstur. Hafi launamaður hafið störf annars staðar eða hafið sjálfstæðan rekstur dragast þær tekjur sem hann aflar sér á því tímabili sem uppsagnarfrestur nær til frá bótum sem Ábyrgðasjóður launa greiðir.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að málið megi rekja til dóms Evrópudómstólsins í máli C-435/10. Í dómnum kemur fram að skv. 3. gr. tilskipunar 2008/94/EB, sem innleidd er í íslenskan rétt með lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, skuli tryggja launamanni lágmarksvernd þegar vinnuveitandi verður gjaldþrota með því að greiða ógreiddar launakröfur launamanns sem byggjast á ráðningarsamningi hans við fyrrum vinnuveitanda. Skv. 4. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjum heimilt að takmarka ábyrgðir við nánar tilgreindan tíma og hámarksfjárhæðir. Í dómnum kemur fram það mat dómstólsins að í 4. gr. tilskipunarinnar séu undanþágur frá henni tæmandi taldar og aðildarríkjum því ekki heimilt að kveða á um frekari takmarkanir, svo sem um að launamenn þurfi að hafa skráð sig sem atvinnuleitendur í kjölfar þess að missa störf sín vegna gjaldþrots vinnuveitanda. Í frumvarpinu er því lagt til að þessi takmörkun verði felld brott en nefndin bendir á að í ákvæðinu felst einnig að ef laun í nýju starfi eru lægri en í fyrra starfi skuli greiða viðkomandi bætur vegna launamissis sem nemur mismuninum en þó aldrei meira en hámarksfjárhæð laganna kveður á um og er það óbreytt frá þeirri framkvæmd sem viðhöfð hefur verið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. október 2014.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form.


Björt Ólafsdóttir,


frsm.


Anna María Elíasdóttir.Ásmundur Friðriksson.


Brynjar Níelsson.


Guðbjartur Hannesson.Páll Jóhann Pálsson.


Álfheiður Ingadóttir.


Óli Björn Kárason.