Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 306  —  259. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum.

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi taka til allra launþega í landinu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað tölunnar „40“ í 1. mgr. og tvívegis í 3. mgr. kemur: 35.
     b.      Í stað tölunnar „8“ í 2. og 4. mgr. kemur: 7.

3. gr.

    Í stað tölunnar „40“ í 3. gr. laganna kemur: 35.

4. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um 35 stunda vinnuviku.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið felur í sér þá breytingu að í hverri viku skulu ekki vera fleiri en 35 dagvinnutímar sem vinna ber á dagvinnutímabili á virkum dögum og að jafnaði skuli unnar 7 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags.
    Þrátt fyrir að fjöldi vinnustunda á ári hafi dregist saman á undanförum árum er meðalvinnuvika á Íslandi, það sem af er árinu 2014, 40 stundir. Í skýrslum OECD sem mæla jafnvægi á milli vinnu og frítíma sést að Ísland kemur mjög illa út en þar er landið í 27. sæti af 36 þjóðum. Heildarvinnutími yfir árið er þó rétt undir meðaltali OECD-landa. Ein helsta ástæða þess að Ísland kemur illa út í vinnujafnvægismælingu OECD-landa er að Íslendingar vinna langa vinnudaga en heildarvinnutíminn helst tiltölulega lítill vegna þess að sumarleyfi er í lengra lagi. Heildarvinnutími er samt um þrjú hundruð klukkustundum meiri en hjá Hollendingum sem eru í efsta sæti. Tillagan myndi minnka heildarvinnutíma um u.þ.b. 230 klukkustundir á ári.
    Framleiðni á Íslandi er undir meðaltali OECD-landa. Frakkland, sem hefur verið með 35 stunda vinnuviku síðan árið 2000, er með talsvert hærri framleiðni en Ísland og er mun ofar í mælingunni um jafnvægi milli vinnu og frítíma. Danmörk, Spánn, Belgía, Holland og Noregur eru efst á þessum lista, þar er vinnutíminn styttri en á Íslandi en framleiðnin meiri. Í öllum þessum löndum eru greidd hærri laun nema á Spáni. Ekki er því hægt að útskýra meiri framleiðni né hærri laun með löngum vinnudegi. Þvert á móti er margt sem bendir til þess að styttri vinnudagur leiði til meiri framleiðni og meiri lífsgæða.
    Frumvarpið felur í sér að almennur vinnutími er styttur um klukkutíma á dag, eða úr átta klukkutímum í sjö. Víðs vegar eru verið að skoða mun róttækari breytingar. Svíþjóð er að gera tilraunir með sex stunda vinnudag og nýlega kynnti Thomas Brorsen Schmidt hugmyndir um fjögurra klukkutíma vinnudag. Að mati frumvarpshöfunda er sjö klukkutíma vinnudagur því hófsöm tillaga.