Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 324  —  114. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um sendingu sönnunargagna með tölvupósti.


    Við vinnslu svars við fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir umsögnum allra lögregluembætta á landinu, þ.m.t. embættis sérstaks saksóknara. Svör bárust frá öllum embættunum nema lögregluembættinu í Borgarnesi.

     1.      Eru í gildi reglur eða formlegt verklag hjá stofnunum sem fara með rannsóknarvald um að sending sönnunargagna með tölvupósti frá utanaðkomandi aðilum, í kjölfar framvísunar á dómsúrskurði, skuli fara fram með dulkóðuðum hætti, og eins þegar kemur að sendingu á dómsúrskurði með tölvupósti þar sem krafist er afhendingar á sönnunargögnum? Ef svo er, hverjar eru þær reglur eða verklag og hvernig er farið með frávik? Ef svo er ekki, hvers vegna er ekki um slíkar reglur eða slíkt verklag að ræða? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Í umsögnum fyrrgreindra aðila kemur m.a. fram að sönnunargögn sem aflað er á grundvelli dómsúrskurðar eru almennt ekki send með tölvupósti frá utanaðkomandi aðilum. Þó eru tæknilegar upplýsingar frá símafyrirtækjum og bönkum til framkvæmdar á dómsúrskurði, sem í sumum tilvikum geta talist sönnunargögn, send með tölvupósti. Eru þá gerðar viðeigandi öryggisráðstafanir sem tryggja sendingu og meðferð gagnanna en aðferðin sem notuð er í þeim tilvikum verður ekki reifuð hér með vísan til öryggissjónarmiða.
    Dómsúrskurðir um heimild til þess að krefjast afhendingar á sönnunargögnum eru almennt ekki sendir frá lögreglu með tölvupósti nema til símafyrirtækja og banka.
    Með vísan til framangreinds hefur ekki þótt ástæða til þess að setja sérstakar verklagsreglur innan lögreglunnar þar að lútandi. Þó er sérstakt verklag viðhaft hjá lögreglu til þess að tryggja öryggi tæknilegra gagna vegna framkvæmdar á dómsúrskurðum.

     2.      Hefur Persónuvernd farið yfir reglur eða verklag hvað varðar sendingu sönnunargagna með tölvupósti til og frá stofnunum sem fara með rannsóknarvald? Ef svo er, hver var niðurstaða þeirrar yfirferðar?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hversu oft hafa sönnunargögn verið send með tölvupósti til handhafa rannsóknarvalds í janúar, febrúar og mars 2014 til fullnustu dómsúrskurðar? Svör óskast sundurliðuð eftir mánuði, stofnun og því hvort sönnunargögnin voru dulkóðuð eða ódulkóðuð meðan á sendingu stóð.
    Eins og áður sagði er almenna reglan sú að sönnunargögn eru ekki send með tölvupósti nema hvað varðar tæknilegar upplýsingar frá símafyrirtækjum og bönkum til framkvæmdar á dómsúrskurði, sem í sumum tilvikum geta talist sönnunargögn og eru þá gerðar viðeigandi öryggisráðstafanir. Ekki eru fyrir hendi upplýsingar um fjölda sendinga símafyrirtækja og banka til lögreglu á tæknilegum upplýsingum vegna framkvæmdar á dómsúrskurðum en taflan hér á eftir sýnir fjölda úrskurða í þeim málum sem tölvurannsóknardeild lögreglu sendi á símafyrirtæki í janúar, febrúar og mars 2014 og fjölda símanúmera sem óskað var upplýsinga um á grundvelli þeirra.

Fjöldi úrskurða og símanúmera sem óskað var upplýsinga um
frá janúar til mars 2014.

2014 Janúar Febrúar

Mars

Fjöldi úrskurða
5 4 6
Fjöldi símanúmera 17 8 7

    Ekki liggja fyrir upplýsingar frá öðrum lögregluembættum um dómsúrskurði sem sendir voru til banka á umræddu tímabili að undanskildu embætti lögreglunnar á höfuð­borgar­svæðinu en embættið sendi fimm úrskurði með ósk um afhendingu bankaupplýsinga á þessu tímabili.

     4.      Hvernig er framangreindum atriðum háttað hvað varðar samskipti handhafa rannsóknarvalds sín á milli annars vegar og milli þeirra og annarra stjórnvalda hins vegar?

    Almennt eru sönnunargögn ekki send með tölvupósti og vísast því hér til svars við 1. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar.