Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 325  —  115. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um aðgengi handhafa rannsóknarheimilda að upplýsingum.


    Við vinnslu svars við fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir umsögnum allra lögregluembætta á landinu, þ.m.t. embætti sérstaks saksóknara. Svör bárust frá öllum embættunum nema lögregluembættunum í Borgarnesi og á Selfossi.

     1.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda á grundvelli sakamálalaga og sérlaga sent inn beiðnir um afrit af tölvupóstum til erlendra yfirvalda og stofnana og hversu oft hefur þeim verið hafnað? Á hvaða lagaheimildum eru slíkar beiðnir byggðar? Svar óskast sundurliðað eftir ári, handhafa rannsóknarheimilda, lagaheimild, móttökuríki og niðurstöðu.
    Í töflu 1 má sjá fjölda beiðna íslenskra stjórnvalda um aðstoð erlendra stjórnvalda við rannsókn sakamála og sem fólu í sér ósk um aðstoð til að afla afrita af tölvupóstum. Engri réttarbeiðni var hafnað en ein var afturkölluð að ósk rannsakenda hér á landi svo ekki reyndi á efndir. Í öllum tilvikum var um beiðni frá embætti sérstaks saksóknara að ræða.

Tafla 1. Fjöldi beiðna um afrit af tölvupóstum við rannsókn sakamála,
sundurliðað eftir ári og móttökulandi.


Ár

Móttökuland

Fjöldi alls

Bretland Lúxemborg Bandaríkin
2010 1 1 2
2011 1 5 1 7
2012 1 2 3
2013 0
Samtals 3 8 1 12

    Ísland er aðili að samningi Evrópuráðsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 en samningurinn var innleiddur hér á landi með lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Lögregla og ákæruvald ákveða hvernig haga beri rannsóknum sakamála, sbr. t.d. 52. og 53. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og þar með hvort leita beri eftir aðstoð erlendra yfirvalda.

     2.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda öðlast aðgengi að upplýsingum um staðsetningu einstaklinga í gegnum GPS-búnað símtækja þeirra og á grundvelli hvaða lagaheimildar? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, lagaheimild og ári.
    Ekki eru haldnar sérstakar skrár um hversu oft handhafar rannsóknarheimilda hafa öðlast aðgengi að upplýsingum um staðsetningu einstaklinga í gegnum GPS-búnað símtækja þeirra.
Í umsögnum fyrrgreindra aðila kemur m.a. fram að hægt er að fá upplýsingar um mögulega staðsetningu einstaklinga í gegnum GPS-búnað símtækja með nokkrum leiðum.
    Í fyrsta lagi er hægt að óska upplýsinga frá símafyrirtækjum í rauntíma en þá er yfirleitt um neyðartilvik að ræða, t.d. leit að fólki, en slík mál teljast ekki sakamál. Ekki er haldin sérstök skrá yfir slík tilvik heldur eru þau skráð í viðkomandi mál í lögreglukerfinu. Ekki er hægt að nálgast upplýsingar um fjölda þessara mála nema með því að yfirfara hvert einasta mál. Um öflun upplýsinga í framangreindum neyðartilvikum fer samkvæmt 52. gr. sakamálalaga, nr. 88/2008, og til þess að afla slíkra upplýsinga þarf dómsúrskurð samkvæmt XI. kafla sakamálalaga, nr. 88/2008.
    Í öðru lagi með því að fá afrit af notkun síma frá símafyrirtækjum samkvæmt XI. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. töflu 2.

     Tafla 2. Fjöldi tilvika hjá lögregluembættum landsins þar sem óskað var eftir útskrift af gagnanotkun síma og þ.m.t. upplýsingum um mögulega staðsetningu þeirra eftir því hvort beiðni byggði á heimild eiganda eða dómsúrskurði árin 2010–2013.

Ár 2010 2011 2012 2013
Heimild eiganda 67 105 98 72
Héraðsdómur 240 254 198 166

    Í þriðja lagi með því að taka afrit af upplýsingum úr símum en í sumum tilvikum er þar að finna upplýsingar um staðsetningar einstaklinga. Þegar upplýsinga er aflað úr síma er það gert með samþykki rétthafa símans eða á grundvelli dómsúrskurðar sem heimilað hefur leit m.a. í síma, enda sími í þessu tilviki geymslustaður upplýsinga eins og heimili eða tölva, svo dæmi séu tekin. Krafa um leit og úrskurður um slíkt fer samkvæmt ákvæðum X. kafla sakamálalaga, nr. 88/2008. Ekki eru til skráðar upplýsingar um það í hve mörgum tækjum upplýsingar um GPS-staðsetningar voru til staðar né í hve mörgum tilvikum þær upplýsingar voru skoðaðar í þágu rannsóknar máls.

     3.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa verið lögð fram í sakamáli af hálfu ákæruvalds sönnunargögn sem fengin hafa verið af samskiptamiðlum? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda er aflaði gagnsins ásamt þeirri deild hjá honum er fór með rannsókn málsins, dómstól er tók á móti gagninu, samskiptamiðli og ári.
    Í umsögnum fyrrgreindra aðila kemur m.a. fram að erfitt sé að taka saman nákvæmar upplýsingar um fjölda framlagninga á sönnunargögnum sem fengin hafa verið af samskiptamiðlum í sakamálum án þess að yfirfara hvert mál. Þó tók lögreglustjórinn á Eskifirði fram að áætla mætti að fjöldi framlagninga á slíkum sönnunargögnum væri í tveimur málum á árinu 2010, tveimur málum á árinu 2011, engu máli á árinu 2012 og í einu máli á árinu 2013. Dómstóllinn sem tók á móti ákærumálunum var í öllum tilvikum Héraðsdómur Austurlands. Enn fremur tók lögreglustjórinn á Akranesi fram að áætla mætti fjölda framlagninga á slíkum sönnunargögnum væri í engu máli 2010, fimm málum 2011, einu máli 2012 og í fjórum málum 2013. Dómstóllinn sem tók á móti ákærumálunum var í öllum tilvikum Héraðsdómur Vesturlands. Þá bárust upplýsingar frá embætti sérstaks saksóknara til svars við fyrirspurninni. Lagði embættið 20 sinnum fram sönnunargögn sem fengin voru af samskiptamiðlum í sakamálum á árunum 2010–2013, nánar tiltekið einu sinni árin 2010 og 2011, átta sinnum árið 2012 og tíu sinnum árið 2013. Flest málin voru rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þ.e. 16, og hin fjögur fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Í öllum 20 tilvikunum voru lagðir fram tölvupóstar, fimm sinnum voru jafnframt lögð fram símtöl og einu sinni voru lögð fram svonefnd Skype-samtöl.

Tafla 3. Tölfræðiupplýsingar frá embætti sérstaks saksóknara.


Ár Héraðsdómstóll Samskiptamiðill Fjöldi
Reykjavík Reykjanes Tölvupóstur Sími Skype-samtöl
2010 1 1 1
2011 1 1 1
2012 6 2 8 2 1 8
2013 8 2 10 3 10
Samtals 16 4 20 5 1 20

     4.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda gert búnað upptækan og notfært sér upplýsingar sem á búnaðinum eru, eins og skilaboð notanda og símtalaskrá, án þess að dómsúrskurður hafi legið fyrir áður en upplýsingarnar voru skoðaðar? En á grundvelli dómsúrskurðar? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, dómstól og ári.
    Einungis er heimilt að gera búnað upptækan með dómi. Það er því hlutverk dómstóla að kveða á um upptöku búnaðar að undangenginni kröfu ákæruvalds í ákæru. Lögregla og ákæruvald hafa því ekki gert búnað upptækan án heimildar dómstóla. Ef í fyrirspurninni er átt við haldlagðan búnað þá fer leit í haldlögðum búnaði ekki fram nema að fyrir liggi samþykki viðkomandi eiganda eða dómsúrskurður, svo sem ákvæði sakamálalaga, nr. 88/2008, gera ráð fyrir.

     5.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda notfært sér tæknibúnað einstaklinga, sem þeir hafa gert upptækan, til þess að öðlast aðgengi að upplýsingum sem eru hýstar utan þess tæknibúnaðar sem um ræðir? Var beðið um dómsúrskurð í þeim tilfellum? Ef svo var, á hvaða lagaheimild grundvölluðust þær beiðnir? Var eiganda/eigendum búnaðarins í öllum tilfellum tilkynnt um það aðgengi handhafa rannsóknarheimilda og hvenær var það gert? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, þjónustu sem aðgangurinn er hjá (Facebook, Twitter o.s.frv.) og ári.
    Svo sem fram kemur í svari við 4. tölul. þá hafa handhafar rannsóknarvalds ekki heimild til að gera hluti upptæka heldur er upptaka í höndum dómstóla, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og vísast því til 4. tölul. er varðar þennan þátt fyrirspurnarinnar.

     6.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda krafist upplýsinga á grundvelli 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga? Hversu mörgum þeirra var hafnað? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, fjarskiptafyrirtæki, hvort það var gert á grundvelli almannaöryggis eða rannsóknar sakamáls, niðurstöðu beiðni og ári.
    Í umsögnum fyrrgreindra aðila kemur fram að embættin hafi aldrei krafist upplýsinga á grundvelli 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga nema að fengnu samþykki rétthafa eða samkvæmt heimild í dómsúrskurði í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og vísast til töflu 2 í svari við 2. tölul. Ekki er fyrir hendi tölfræði um það hversu oft var leitað upplýsinga hjá hverju fyrirtæki fyrir sig. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um það hversu oft beiðni var hafnað. Í töflu 2 er um að ræða fjölda dómsúrskurða og heimilda en ekki liggur fyrir í hve mörgum tilvikum gögn fengust frá símafyrirtækjunum né í hve mörgum tilvikum þau voru nýtt í þágu rannsóknar.

     7.      Hversu oft á árunum 2010–2013 hafa handhafar rannsóknarheimilda farið fram á úrskurð dómara um að leggja hald á bréf og aðrar sendingar á grundvelli 70. gr. laga um meðferð sakamála? Hversu mörgum þeirra var hafnað? Svar óskast sundurliðað eftir handhafa rannsóknarheimilda, dómstól, tegund sendingar (bréf, tölvupóstur, símskeyti, fjarskiptaumferð o.s.frv.), tegund brots sem verið var að rannsaka, niðurstöðu úrskurðar og ári.
    Í umsögnum fyrrgreindra aðila kemur fram að ekki hefur verið óskað úrskurðar á grundvelli 70. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, á þessu tímabili.

     8.      Hvaða eftirlit er haft með aðgengi handhafa rannsóknarheimilda í framangreindum liðum að persónuupplýsingum um einstaklinga sem geymdar eru í búnaði sem hefur verið gerður upptækur? Séu gögnin afrituð úr búnaði sem hefur verið gerður upptækur eða sótt á grundvelli aðgengis að slíkum búnaði, hvenær er þeim upplýsingum eytt?

    Um meðferð gagna sem aflað er við rannsóknir sakamála gilda ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Upplýsingum, svo sem upptökum af símtölum, hljóðupptökum, myndum og öðrum upplýsingum sem aflað er m.a. frá fjarskiptafyrirtækjum skal eytt jafnskjótt og þeirra er ekki lengur þörf. Hið sama gildir um afrit eða endurrit af slíkum upplýsingum, sbr. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008. Ef búnaður sem lögregla hefur lagt hald á við rannsókn sakamála er ekki gerður upptækur með dómi skal lögregla hlutast til um að skila búnaðinum til þess sem rétt á til hans, sbr. 2. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008. Sé búnaður gerður upptækur samkvæmt dómi fer um það sem gert er upptækt samkvæmt ákvæði 69. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Ef eitthvað af þeim upplýsingum sem finnast reynast vera sönnunargögn í máli verða þær upplýsingar hluti af gögnum máls og eru þær varðveittar á meðal rannsóknargagna og í framhaldi dómsgagna í viðkomandi máli.