Ferill 82. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 355  —  82. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur
um viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum.


     1.      Eru viðskiptabankarnir með sameiginlegan gagnagrunn um viðskiptasögu einstaklinga?
    Leitað var upplýsinga frá Fjármálaeftirlitinu vegna fyrirspurnarinnar. Í svari Fjármálaeftirlitsins kemur fram að viðskiptabankarnir hafa ekki sameiginlegan gagnagrunn um viðskiptasögu viðskiptavina sinna. Á hinn bóginn hafa viðskiptabankarnir aðgang að gagnasöfnum fjárhagsupplýsingastofa, t.d. skuldastöðukerfi og vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf.

     2.      Var viðskiptasaga einstaklinga færð úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju og ef svo var, hvers vegna?
    Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá 9., 14. og 22. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda gömlu viðskiptabankanna þriggja til þeirra nýju kom fram að nýju bankarnir yfirtækju allar óefnislegar eignir og réttindi, þ.m.t. vörumerki og einkaleyfi, skráð sem óskráð, hjáheiti, gagnasöfn, hugbúnað og leyfi vegna þeirra, svo og öll sambærileg réttindi, hvort sem þau byggðust á samningi, skráningu, opinberum leyfum eða einhverju öðru. Gagnasöfn með upplýsingum um viðskiptasögu viðskiptavina gömlu viðskiptabankanna þriggja fluttust því yfir til þeirra nýju. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins, þar á meðal varðandi flutning gagnasafna með upplýsingum um viðskiptasögu viðskiptavina, voru teknar til að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.