Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 356  —  83. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um húsaleigu ríkisstofnana á Akureyri.


    Fyrirspurnin snýr annars vegar að leigu á fasteigninni Borgum á Akureyri og hins vegar að Fasteignum ríkissjóðs. Því er rétt að rekja í örstuttu máli forsögu leigu ríkisins á Borgum og aðkomu Fasteigna ríkissjóðs að henni. Á sínum tíma var talið mikilvægt að stuðla að uppbyggingu þekkingar- og tæknigarðs við Háskólann á Akureyri og því var tekin ákvörðun um að ýmsar ríkisstofnanir leigðu húsnæði og nauðsynlega rannóknaraðstöðu á háskólasvæðinu. Bygging og rekstur aðstöðunnar að Borgum voru í framhaldinu boðin út sem einkaframkvæmd þar sem verksali tók að sér að annast byggingu og rekstur fasteignarinnar út frá forsendum ríkisins og að ríkið mundi á móti leigja meginhluta hennar. Ákveðið var að Fasteignir ríkissjóðs yrðu leigutaki fyrir hönd ríkisins en endurleigðu síðan húsnæðið stofnunum ríkisins. Þetta var gert til að ríkið kæmi fram gagnvart leigusala á samræmdan hátt og til að hafa betri möguleika á tilfærslu húsnæðis milli stofnana ríkisins eftir því sem þörf krefði hverju sinni. Þess má jafnframt geta að Fasteignir ríkissjóðs heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og hefur stofnunin það hlutverk að hafa umsjón með og viðhalda fasteignum í eigu ríkisins.
    Leigu- og þjónustusamningurinn, sem ríkið gerði við framkvæmdaraðilann á grundvelli útboðsins, var til 25 ára. Framleigusamningar Fasteigna ríkissjóðs við stofnanir um einstök rými í rannsóknarhúsinu voru hins vegar flestir bundnir til 10 ára og er sá tími nú liðinn. Þrátt fyrir að nú sé í raun heimilt að segja samningunum upp samkvæmt samningum milli ríkisaðila hefur afstaða ráðuneytisins verið sú að fallast ekki á beiðni stofnana um uppsögn þeirra og leigu á öðru húsnæði utan Borga ef það hefur í för með sér að húsnæði þeirra að Borgum standi í framhaldinu autt og ónotað. Jafnvel þótt slík leiga utan Borga kunni að hafa í för með sér einhverja kostnaðarlækkun fyrir tiltekna ríkisstofnun ykjust útgjöld ríkisins samt sem áður í heildina sé horft til þess að Fasteignir ríkissjóðs, og þar með ríkissjóður, bera eftir sem áður leigukostnað af húsnæðinu á grundvelli hins 25 ára leigusamnings allt til ársins 2028.

     1.      Hversu mikið rými í fermetrum talið stendur autt að Borgum á Akureyri sem Fasteignir ríkissjóðs greiða leigu af?
    Fasteignir ríkissjóðs greiða ekki leigu af neinu auðu rými í rannsóknarhúsinu að Borgum.

     2.      Hvað hefur verið greitt mánaðarlega fyrir autt rými að Borgum á árinu 2014?
    Ekkert hefur verið greitt fyrir autt rými að Borgum á þessu ári, sbr. svar við 1. tölul.

     3.      Hvað hefur verið greitt árlega fyrir autt rými þar á árunum 2008–2013?
    Ekkert rými í rannsóknarhúsinu að Borgum hefur staðið autt á árunum 2008–2013 sem Fasteignir ríkissjóðs hafa greitt leigu af, sbr. svar við 1. og 2. tölul.

     4.      Hversu marga leigusamninga hafa Fasteignir ríkissjóðs gert á Akureyri, utan Borga, sem nú eru í gildi og hver er árlegur heildarkostnaður vegna þeirra?
    Fasteignir ríkissjóðs eru með átta gildandi leigusamninga á Akureyri, utan Borga, við ýmsar ríkisstofnanir. Umræddar stofnanir eru ríkisskattstjóri, Héraðsdómur Norðurlands eystra, sýslumaðurinn á Akureyri, Þjóðskrá Íslands, lögreglan, Heilsugæslustöðin á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri.
    Í einhverjum tilvikum hafa ríkisstofnanir hins vegar leigt húsnæði án milligöngu Fasteigna ríkissjóðs að fengnu samþykki viðkomandi fagráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis.     Heildarleigukostnaður samninga, sem Fasteignir ríkissjóðs hafa gert við ríkisstofnanir á Akureyri, utan Borga, er samtals 236.411.614 kr. á ári. Hér er í flestum tilvikum um að ræða húsnæði sem er í eigu ríkissjóðs þar sem leigugreiðslum stofnana er nær eingöngu ætlað að standa undir almennum rekstri og viðhaldi umræddra fasteigna.

     5.      Hversu margir húsaleigusamningar hafa verið uppsegjanlegir eða hafa runnið út síðastliðin fjögur ár hjá stofnunum ríkisins á Akureyri, utan Borga?
    Leigusamningar Fasteigna ríkissjóðs við stofnanir eru almennt uppsegjanlegir með fjögurra mánaða fyrirvara þegar hin leigða fasteign er í eigu ríkissjóðs. Sama meginregla gildir um samninga sem ríkisstofnanir gera við Fasteignir ríkissjóðs um eignir í eigu ríkisins og þá samninga sem gerðir hafa verið um Borgir. Þótt samningarnir að Borgum séu uppsegjanlegir eða útrunnir hafa stofnanir ekki sjálfdæmi um flutning. Jafnframt þótt uppsagnarákvæði sé til staðar í leigusamningum stofnana um húsnæði verður að taka slíka ákvörðun út frá heildarhagsmunum ríkisins og með samþykki hlutaðeigandi fagráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis sem fer með eignamál ríkisins.