Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 370  —  240. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014 (frádráttarliðir).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Breyting sú á 8. gr. laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sem hér er til umfjöllunar miðast við að stækka þann hóp sem mun ekki njóta fullrar niðurfellingar og þarf að sæta frádráttar vegna fyrri úrlausna. Af hálfu minni hlutans var ítrekað varað við því við setningu laganna á sínum tíma að 8. gr. skapaði margháttaða möguleika til mismununar og engin trygging væri fyrir því að sambærilegar reglur um frádrátt mundu gilda um fólk í sambærilegri stöðu (sbr. þskj. 1102 og 1105 í máli 485. máli á 143. löggjafarþingi).
    Með frumvarpinu er leitast við að bregðast við einni augljósri veilu sem er sú að einhverjar fjármálastofnanir auglýstu og beittu 110% leið til lækkunar skulda viðskiptavina sinna áður en samkomulag ríkisins og einstakra fjármálafyrirtækja um framkvæmd 110% leiðarinnar var gert. Þeir einstaklingar sem þannig fengu skuldir sínar lækkaðar hefðu því fengið óskerta leiðréttingu að óbreyttum lögum. Því verður mögulegt eftir breytinguna að láta sama frádrátt gilda um þessa einstaklinga og þá sem fengu 110% leiðina eftir samþykkt samkomulagsins.
    Með þessari breytingu er þó langt í frá girt fyrir alla mismunun. Í frumvarpinu er búið til nýtt hugtak „önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna“ og tilgreint að slíkt skuli koma til frádráttar með sama hætti og lækkanir eða niðurfellingar samkvæmt sértækri skuldaaðlögun og 110% leið. Ekki er í textanum skýrt hvað hugtakið „almenn“ merkir en af skýringum sem veittar voru fyrir nefndinni má ráða að skilyrði verði að um sé að ræða aðgerðir sem eru sama eðlis og þær aðgerðir sem stjórnvöld áttu hlut að til skuldalækkunar. Því koma eftir sem áður ekki til frádráttar leiðréttingunni aðrar aðgerðir einstakra fjármálafyrirtækja til lækkunar skulda að veðrými, hvorki þær sem tóku mið af greiðslugetu né þær sem voru án tillits til greiðslugetu. Slíkar aðgerðir voru sumar auglýstar opinberlega, svo sem aðgerðir sem fólu í sér höfuðstólslækkanir eða umbreytingar lánaforma, en fóru að stærstum hluta fram í beinum samningum skuldara við hverja fjármálastofnun. Þeir sem best stóðu að vígi í slíkum samningum fengu besta niðurstöðu. Ekkert tillit verður tekið til slíkra sérsamninga til skerðingar á leiðréttingu.
    Afleiðing þessarar lagabreytingar verður því sú ein að tryggja að þeir sem fóru almennar lánalækkunarleiðir sem almennt voru aðgengilegar öllum almenningi muni sæta skerðingu en þeir sem höfðu aðstöðu til að fá sérmeðferð og betri samninga í gegnum vinatengsl eða viðskiptatengsl fái leiðréttinguna óskerta. Hér er því enn eitt dæmi um að leiðréttingin nýtist best þeim sem eru í bestri stöðu og að þeir sem tóku almennum úrræðum sem í boði voru verða skertir til fulls.
    Sérstaka athygli vekur að ríkisstjórnarflokkarnir geri engan reka að því að bæta úr öðrum ágöllum niðurfellingarinnar, þótt ástæða hafi þótt til að leggja fram frumvarp til breytinga á þessari aðgerð. Skuldarar verðtryggðra lána, sem áður voru gengistryggð og var umbreytt í verðtryggð lán á grundvelli laga nr. 151/2010 og hafa ekki síðar verið dæmd ólögmæt, sitja áfram uppi með sína verðtryggingu og verðtryggðan forsendubrest. Sama á við um búseturéttarhafa, sem voru sérstaklega undanskildir áhrifum niðurfellingarinnar, þótt þeir sitji enn uppi með verðtryggð lán og fái meira að segja vaxtabætur greiddar vegna þeirra. Sama á við um leigjendur í lokuðum leigufélögum sem enn glíma við afborganir vegna verðtryggðrar leigu þar sem leigufélögin sem leigja þeim íbúðirnar fá enga leiðréttingu.
    Við meðferð málsins í nefndinni og í þingumræðu hafa komið fram upplýsingar um stöðu niðurfellingarinnar. Af þeim má ráða að ekki hefur enn verið gengið frá samningum við banka og lífeyrissjóði um greiðslur ríkisins til fjármálafyrirtækjanna vegna niðurfellingarinnar. Vekur það furðu. Í andsvörum fjármálaráðherra í þingsal og hjá fulltrúum fjármálaráðuneytisins í nefndinni kom fram að samningur ríkisins og fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða yrði gerður opinber áður en greiðslur rynnu úr ríkissjóði til þessara aðila. Gera verður kröfu til þess að svo umfangsmikil og umdeild ráðstöfun ríkisfjármuna sé ekki hulin leyndarhjúp.
    Vert er að minna á að í 2. mgr. 2. gr. laganna er kveðið skýrt á um að í samningi milli ríkisins og fjármálafyrirtækja skuli hvorki skapast hagnaður né tap hjá samningsaðila vegna greiðslu ríkissjóðs á leiðréttingarhluta láns. Fram kom að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fylgdist grannt með framkvæmd niðurfellingar að þessu leyti, enda flækjustig mikið. Sem dæmi má nefna að í 1. mgr. 11. gr. laganna er gert ráð fyrir að leiðréttingarfjárhæð verði ráðstafað til lækkunar á kröfum sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu, svo fremi þær hafi ekki verið felldar niður gagnvart umsækjanda. Endurgreiðsla slíkrar kröfu, sem í eðli sínu er verðlaus þar sem skuldara eru nú færar leiðir til að losna auðveldlega við óveðtryggða kröfu með greiðsluaðlögun eða gjaldþroti, mundi fela í sér hreinan örlætisgerning gagnvart þeim banka sem fengi slíka greiðslu. Með sama hætti þarf að verðleggja ávinning banka og lífeyrissjóða af því að í 4. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um að greiðslujöfnunarreikningar verði fyrst af öllu greiddir upp, en bankar og lífeyrissjóðir hafa þegar samþykkt að þessar kröfur frestist og falli niður að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Fari svo að lánastofnanir innheimti ekki uppgreiðslugjöld vegna innborgana vegna niðurfellingarinnar en innheimti þau áfram hjá almenningi er álitamál hvaða áhrif slík mismunun hefði eða ætti að hafa á almennar heimildir til heimtu uppgreiðsluþóknunar. Þá er ótalið að lífeyrissjóður getur haft mikið óhagræði af uppgreiðslu láns við núverandi aðstæður þegar erfitt er um aðra fjárfestingarkosti innan hafta. Allir þessir þættir munu gera verðlagningu uppgreiðslunnar sem í niðurfellingunni felst mjög vandasama og auka á áhyggjur af því að í aðgerðinni felist fyrirgreiðsla við bankakerfið.
    Rætt var í nefndinni að nefndin tæki framkvæmd niðurfellingar til sérstakrar umfjöllunar við fyrsta hentugleika. Af hálfu minni hlutans standa þá vonir til að ráðherrar geti nú loks svarað þeim eðlilegu spurningum sem ítrekað hafa verið settar fram um tekju- og eignadreifingu þeirra sem munu njóta niðurfellingarinnar og ráðherrar gátu ekki svarað á liðnu þingi, sbr. 273. mál á 143. löggjafarþingi.
    Minni hlutinn mun sitja hjá við afgreiðslu málsins, enda eðlilegt að stuðningsmenn og talsmenn niðurfellingarinnar axli ábyrgð á henni og þeim margvíslegu frávikum sem hún og framkvæmd hennar fela í sér frá almennum meginreglum um réttlæti, jafnræði og lögmætar væntingar.

Alþingi, 20. október 2014.

Árni Páll Árnason,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.