Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 382  —  117. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um mælingu á gagnamagni í internetþjónustu.


     1.      Hvernig eru mælingar á gagnamagni í fjarskiptaþjónustu og hraða á nettengingum gerðar? Hvaða mælitæki eru notuð og eru þau viðurkennd og vottuð?
    Mælingar á gagnamagni í fjarskiptaþjónustu eru gerðar hjá hverjum internetþjónustuaðila fyrir sig í sérstökum búnaði, þ.e. netskipti- og hugbúnaði sem honum fylgir. Hver þjónustuaðili greinir uppruna hvers gagnapakka og flokkar í mæld eða ómæld gögn og leggur saman gagnamagn hvers pakka sem síðan er gjaldfært fyrir samkvæmt gjaldskrá.
    Að mati Póst- og fjarskiptastofnunar er úttekt á mælingum á gagnamagni tæknilega flókin. Kemur það m.a. til af því að ekki hafa verið gefnir út viðurkenndir staðlar eða settar reglur um tæknilegar kröfur hér á landi til mælinga á notkun fjarskiptaþjónustu, hvort sem um er að ræða gagnaflutningsþjónustu eða annars konar fjarskiptaumferð. Er því ekki unnt að löggilda eða votta slík mælitæki samkvæmt sérstökum stöðlum eða reglum að óbreyttu lagaumhverfi.
    Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. reglna nr. 345/2005 um almenna heimild til að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu sem settar eru á grundvelli laga um fjarskipti, nr. 81/2003, getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist þess að reikningagerð sé gæðavottuð og mælitæki löggilt. Sjá má fyrir sér að útfæra megi þetta betur í lögum í takt við tækniþróun og aukna neytendavernd.
    Um mælingar á hraða gagnaflutningsþjónustu gilda reglur í evrópska fjarskiptaregluverkinu frá 2009 og er þar að finna heimildir til eftirlitsstjórnvalda um að setja reglur og kröfur um lágmarksgæði IP-fjarskiptaþjónustu. Þetta regluverk hefur enn þá ekki verið innleitt hér á landi og skortir Póst- og fjarskiptastofnun því viðhlítandi valdheimildir til að setja bindandi reglur um hvernig hraði gagnaflutningsþjónustu skuli mældur. Reglur um gæði IP-fjarskiptaþjónustu verður að skoða í tengslum við meginregluna um nethlutleysi (e. net neutrality) sem felur í sér að allt efni og þjónusta á internetinu eigi að vera almenningi aðgengileg án tæknilegra takmarkana og að uppfylltum lágmarksgæðum. Hefur áhersla á mikilvægi þessarar meginreglu farið vaxandi við framkvæmd evrópska fjarskiptaregluverksins síðastliðin ár. Í þessu tilliti vinnur evrópska fjarskiptaeftirlitsstofnunin BEREC að gerð viðmiðunarreglna um mæliaðferðir og lágmarksgæði IP-fjarskiptaþjónustu, m.a. í tengslum við meginregluna um nethlutleysi, en hún er sömuleiðis hluti af því Evrópuregluverki sem enn á eftir að innleiða hér á landi.

     2.      Telur ráðherra að mælingar á gagnamagni og hraða eigi að falla undir lög nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, og hefur það komið til skoðunar í ráðuneytinu?

    Gjaldmælingar vegna notkunar fjarskiptaþjónustu falla undir lög um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, enda gilda þau almennt um búnað og mælingar sem lagðar eru til grundvallar við gjaldfærslu í viðskiptum. Gjaldmæling á fjarskiptaþjónustu er ekki undanþegin lögunum. Sem fyrr segir er um flóknar og sértækar mæliaðferðir að ræða sem hvorki hafa verið útfærðar í stöðlum né reglum sem hægt er að byggja slíkt eftirlit á. Því gæti verið æskilegt að skerpa á lagastoð til að setja slíkar kröfur á sviði fjarskipta. Engu síður taka þessi tilteknu lög til þessara mælinga og gilda um þær þó betra væri að útfærslan í stöðlum og reglum væri nákvæmari. Ráðherra telur það koma til greina að skerpa á þessum lögum, líkt og áður hefur komið fram.