Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 394  —  323. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.


Flm.: Óli Björn Kárason, Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson,
Vilhjálmur Árnason, Pétur H. Blöndal.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd til að vinna að langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, lækkun á skuldum ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum. Nefndin verði skipuð þremur sérfræðingum svo sem á sviði hagfræði og fjármála. Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 30. apríl 2015 og lokaskýrslu 15. október 2015.
    Í áfangaskýrslu geri nefndin sérstaka úttekt á eftirfarandi eignum:
     a.      fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkissjóðs, beint eða óbeint,
     b.      eignarhlutum ríkissjóðs og annarra ríkisaðila (hlutafé og stofnfé) í fyrirtækjum,
     c.      öðrum eignum ríkisins og ríkisaðila, svo sem fasteignum og jörðum.
    Í lokaskýrslu leggi nefndin m.a. fram áætlað verðmat á eignarhlutum ríkisins og annarra ríkisaðila í fyrirtækjum, fasteignum og jörðum. Þá leggi nefndin mat á kosti þess og galla að selja einstök fyrirtæki að hluta eða öllu leyti. Nefndinni verði einnig falið að leggja fram tímasettar tillögur um sölu ríkiseigna og meta áhrifin á þróun skulda og vaxtagreiðslna ríkissjóðs.
    Nefndin áætli í lokaskýrslu fjárfestingarþörf í innviðum samfélagsins, sérstaklega í heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfi. Samhliða verði lagt mat á möguleika ríkisins til að ráðast í fjárfestingar í innviðum án skuldsetningar, svo sem með skatttekjum, vaxtasparnaði ríkissjóðs með lækkun skulda og/eða tekjum af sölu eigna hverju sinni. Nefndin geri einnig úttekt á efnahagslegum áhrifum af lækkun skulda ríkissjóðs og sölu ríkiseigna.
    Í vinnu sinni fái nefndin fullan aðgang að nauðsynlegum gögnum opinberra aðila.

Greinargerð.

    Skuldsetning ríkissjóðs og gríðarlegar vaxtagreiðslur hafa lamandi áhrif á íslenskt efnahagslíf og hamla getu ríkisins til að veita þá þjónustu sem ætlast er til. Möguleikar ríkisins til að lækka álögur á almenna launamenn og fyrirtæki eru jafnframt takmarkaðri en ella.
    Mikilvægt er að fram fari hreinskiptin umræða um stöðu ríkissjóðs og hvernig hægt er að lækka skuldir og draga úr lamandi vaxtagreiðslum. Ein forsenda þess að umræðan verði málefnaleg og án upphrópana er að allar upplýsingar um eignir og skuldir ríkisins liggi fyrir. Slíkar upplýsingar eru jafnframt forsenda þess að hægt sé að bera saman þá kosti sem Íslendingar standa frammi fyrir á komandi árum.
    Flutningsmenn telja því nauðsynlegt að skipuð verði nefnd sérfræðinga til að vinna að því að heildaryfirsýn fáist yfir eignir ríkisins og mat verði lagt á hugsanlega sölu þeirra, galla hennar og kosti, fjárfestingarþörf í innviðum og þróun skulda ríkisins.

Hærri skattar og lakari þjónusta.
    Á árunum 2009–2013 greiddi ríkissjóður alls um 368 milljarða kr. í vexti en fyrir þá fjárhæð væri hægt að reka Landspítalann í níu ár. Fjármagnskostnaður ríkisins hefði dugað til að byggja fjóra nýja Landspítala og endurnýja húsnæði og tæki.
    Fjármagnskostnaður ríkissjóðs á umræddum árum jafngildir því að hver fjögurra manna fjölskylda hafi þurft að bera um 4,5 millj. kr. í formi hærri skatta og lakari þjónustu. Að meðaltali greiddu íslenskir skattgreiðendur því liðlega sex milljarða kr. í vexti í hverjum einasta mánuði.
    Með nokkurri einföldun er hægt að halda því fram að Íslendingar standi frammi fyrir tveimur kostum:
    Það er hægt að selja ákveðinn hluta eigna ríkisins og greiða niður skuldir, lækka þar með vaxtagreiðslur og nýta fjármunina sem sparast til að byggja upp heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfi og lækka skatta.
    Eða: Taka ákvörðun um að eiga áfram fyrirtæki, fasteignir, jarðir og fleira, reyna að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs en sætta sig um leið við þungar vaxtagreiðslur á komandi árum, lakari þjónustu og hærri skatta.

Lækkun skulda.
    Lækkun skulda ríkissjóðs er eitt brýnasta verkefni samtímans og mikilvæg forsenda sóknar til bættra lífskjara. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs er þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 verður vaxtakostnaður liðlega 60% af greiddum tekjuskatti einstaklinga. Með öðrum orðum renna sex krónur af hverjum tíu sem ríkið innheimtir í tekjuskatt af einstaklingum til greiðslu vaxta.
    Ungt fólk horfir upp á að óhófleg skuldasöfnun rýrir lífskjör þess í framtíðinni. Fyrir tugþúsundir ungra karla og kvenna sem koma út á vinnumarkaðinn á komandi árum er ekki sérstaklega eftirsóknarvert að eiga hlut í banka eða öðrum fyrirtækjum í gegnum sameiginlegt eignarhald ríkisins, ef eignarhaldið er greitt í formi verri lífskjara – með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera.
    Þeir sem eldri eru en þó ekki síst þeir sem þurfa nauðsynlega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda eða fá aðra aðstoð verða að sætta sig við lakari þjónustu og minni aðstoð en ella. Miklar skuldir ríkissjóðs hafa því bein áhrif á daglegt líf þúsunda Íslendinga.