Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 407  —  330. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um niðurfellingu aðflutningsgjalda af ódýrum vörum.


Flm.: Oddgeir Ágúst Ottesen, Ásmundur Friðriksson, Brynhildur Pétursdóttir,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur H. Blöndal,
Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að gera fyrir 1. janúar 2015 nauðsynlegar breytingar á reglugerðum nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, og nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, til að tryggja að:
     a.      ekki þurfi að greiða aðflutningsgjöld af vöru að verðmæti allt að 10.000 kr. óháð flutningsmáta hennar og því hvort kaupandi er einstaklingur eða virðisaukaskattsskyldur aðili,
     b.      niðurfelling eða endurgreiðsla aðflutningsgjalda vegna endursendingar vöru eigi ávallt við þegar vara er send til viðgerðar, henni er skipt eða skilað.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að gera nauðsynlegar breytingar á tveimur reglugerðum sem varða tollamál fyrir 1. janúar 2015 í þeim tilgangi að tryggja neytendavernd í póstverslun og tryggja betur samkeppni á markaði. Þær breytingar sem lagt er til að ráðherra verði falið að gera miða annars vegar að því að hækka lágmarksverðmæti vöru sem ekki ber aðflutningsgjöld úr 2.000 kr. í 10.000 kr. og hins vegar að tryggja að ekki þurfi að tvígreiða aðflutningsgjöld þegar vara sem keypt er erlendis frá er send til viðgerðar eða er skipt, svo og að aðflutningsgjöld séu endurgreidd þegar vöru er skilað.

Niðurfelling aðflutningsgjalda.
    Í skýrslu forsætisráðuneytis um tillögur að ráðstöfunum til að skapa póstverslun viðeigandi samkeppnisstöðu til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki, sem kom út í desember 2013, 1 er m.a. fjallað um niðurfellingu aðflutningsgjalda af vöru undir ákveðnu lágmarksverðmæti. Í skýrslunni er bent á að löng hefð sé fyrir slíkri niðurfellingu gjalda í öðrum löndum og öll ríki OECD, nema Ísland, fella niður aðflutningsgjöld á ákveðnar sendingar til einstaklinga. Þessu var þó breytt eftir útkomu skýrslunnar og gilda nú sömu reglur um einstaklinga og virðisaukaskattsskylda aðila hér á landi. Þannig ber vara sem hraðsend er til landsins ekki aðflutningsgjöld ef fob-verðmæti hennar er undir 2.000 kr. Fob-verðmæti telst verð vörunnar komið um borð í flutningsfar í útflutningslandi, sbr. 42. og 43. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru.
    Hér er um að ræða mjög lága viðmiðunarfjárhæð og t.d. var fjárhæðin tvöfalt hærri í Noregi árið 2012 2 og stefnt er að því að hækka hana í 500 NOK eða um 10.000 kr. á árinu 2015. 3 Í Svíþjóð er viðmiðunarverðmæti vara nánast tvöfalt hærra en í Noregi, þ.e. 1.300 SEK. Af löndum utan Evrópu má nefna að viðmiðunarfjárhæð er um 24.000 kr. (200 USD) í Bandaríkjunum, um 100.000 kr. í Ástralíu og tæpar 10.000 kr. í Kína. Með tillögunni er lagt til að viðmiðunarverð vöru sem ekki ber aðflutningsgjöld verði sambærilegt því sem er í Noregi. Vel mætti rökstyðja hærra viðmiðunarverð með vísan til reglna í öðrum löndum og þess að ofan á verðið bætist flutningskostnaður sem er almennt mun hærri þegar vara er send til Íslands en þegar hún er send til nágrannalanda okkar. Hér er hins vegar lögð til hófleg hækkun viðmiðunarverðs sem svo er hægt að endurskoða með tilliti til reynslu og þróunar í öðrum löndum.
    Sterk rök hníga til þess að fella niður aðflutningsgjöld á sendingum að ákveðnu verðmæti. Niðurfellingin tryggir jafnræði við önnur lönd, kostnaður við innheimtu svo lágra fjárhæða er hár og niðurfellingarreglan skapar jafnræði milli þeirra sem fara utan til að versla og þeirra sem versla erlendis frá án þess að fara af landi brott. Í skýrslunni kemur einnig fram að fulltrúar Neytendasamtakanna og talsmanns neytenda, sem sátu í starfshópnum sem vann tillögurnar, töldu að hærri verðmætaþröskuldur hefði góð áhrif á íslenskan efnahag. Þeir bentu á að yfirburðastaða íslenskra verslana væri mikil og gott væri að leitast við að jafna þá stöðu og tryggja með því samkeppni á markaði. Flutningsmenn taka undir þessi sjónarmið og telja brýnt að hækka lágmarksverð vöru sem ekki ber aðflutningsgjöld. Samkvæmt a-lið tillögu þessarar er fjármála- og efnahagsráðherra því falið að gera nauðsynlegar breytingar á reglugerð nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, til að tryggt sé að vörur að verðmæti allt að 10.000 kr. sem keyptar eru erlendis frá beri ekki aðflutningsgjöld, óháð því hvernig þær eru fluttar til landsins og hvort kaupandi er einstaklingur eða virðisaukaskattsskyldur aðili.

Niðurfelling eða endurgreiðsla aðflutningsgjalda vöru sem send er til viðgerðar, er skipt eða skilað.
    Samkvæmt b-lið tillögunnar er fjármála- og efnahagsráðherra falið að tryggja að þegar vara er send úr landi til viðgerðar eða til skipta þurfi ekki að greiða af henni aðflutningsgjöld þegar hún kemur aftur til landsins enda hafi þau þá þegar verið greidd þegar hún var keypt og að greidd aðflutningsgjöld fáist endurgreidd þegar vöru er skilað. Í reglugerð nr. 630/ 2008, um ýmis tollfríðindi, er til staðar heimild til að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld þegar vöru er skilað innan árs frá því að hún kom fyrst til landsins, sbr. 52.–54. gr. reglugerðarinnar. Þegar um er að ræða skil á vöru er auk þess gerð krafa um að hún sé ónotuð þó svo að margir seljendur vöru geri ekki sambærilega kröfu. Þessi ársfrestur er mjög skammur enda getur verið að vara sé ekki tekin í notkun strax og er því sú krafa að vara sé ónotuð mjög íþyngjandi. Flutningsmenn telja þó að setja megi ákveðinn þröskuld á notkun vörunnar þannig að ekki sé hægt að kaupa vöru til landsins og nota hana í nokkur ár en skila henni svo og fá aðflutningsgjöld endurgreidd. Það verður þó að telja ólíklegt að seljandi mundi heimila slík skil á vörunni og auðveldlega væri hægt að koma í veg fyrir slíka gerninga með því að breyta reglugerðinni og setja inn ákvæði um heimild tollstjóra til að ákveða hvaða gögn þurfi til að sanna að vara hafi verið send úr landi til skila, skipta eða viðgerðar. 4
    Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar er ekki gerð krafa um ákveðinn tímafrest þegar vara er send til útlanda til viðgerðar eða til skipta. Þó er tilgreint að varan þurfi þá að koma aftur til landsins innan árs frá því að hún var flutt út, en tollstjóri geti heimilað lengri frest. Ekki er þó tiltekið við hvaða aðstæður það sé gert eða hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að hljóta slíkan frest. Mikilvægt er að þessi frestur verði ekki til þess að einstaklingur þurfi að tvígreiða aðflutningsgjöld vöru, þ.e. fyrst við kaup og svo þegar varan kemur aftur til landsins úr viðgerð vegna þess að ársfresturinn var liðinn, t.d. vegna þess að viðgerð var flóknari og tók lengri tíma en áætlað var.
    Í reglugerðinni er ekki gerð krafa um að sami aðili sendi vöru til viðgerðar og keypti hana til landsins. Sanngirnismál er að hafi einstaklingur eða fyrirtæki keypt slíka vöru af innlendum aðila en ábyrgð á vörunni er útrunnin geti hann sent vöruna með sambærilegum hætti til viðgerðar, skila eða skipta og sá sem keypti vöruna upphaflega erlendis frá. Það kunna að koma upp tilvik þar sem innlendi seljandinn hefur hætt störfum og getur því ekki þjónustað kaupanda vegna viðgerðar, skila eða skipta, ekki er hægt að gera við vöru hér á landi eða kostnaður við viðgerð er langtum meiri hérlendis en ef varan er send til viðgerðar til útlanda. Flutningsmenn telja því að tryggja þurfi að sama regla gildi um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda í slíkum viðskiptum rétt eins og þegar upphaflegur kaupandi sendir vöru til viðgerðar eða skipta.
    Mikilvægt er að tryggja að neytendur geti skilað, skipt eða sent vörur til viðgerðar sér að kostnaðarlausu og á eins einfaldan hátt og mögulegt er, enda stuðlar það að aukinni neytendavernd í póstverslun.

Neðanmálsgrein: 1
1     Tillögur að ráðstöfunum til að skapa póstverslun viðeigandi samkeppnisstöðu til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki, desember 2013:
     www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/postskyrsla-2-12-2013.pdf
Neðanmálsgrein: 2
2     Viðauki I, tafla V í skýrslu forsætisráðuneytis.
Neðanmálsgrein: 3
3     www.regjeringen.no/nb/dep/fin/pressesenter/pressemeldinger/2014/Vil-heve-grensen-for-avgiftsfri-import-til-500-kroner-.html?id=770975
Neðanmálsgrein: 4
4     Sbr. kafla 3.4 um skil, skipti og viðgerðir á vörum í skýrslu forsætisráðuneytis, bls. 15.