Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 413  —  336. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um eflingu náms í mjólkurfræði.


Flm.: Jóhanna María Sigmundsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að ráðast í endurskoðun á tilhögun náms í mjólkurfræði þannig að tryggt verði að íslenskir nemendur komist að í slíku námi.

Greinargerð.

    Tillaga þessi gerir ráð fyrir gagngerri endurskoðun á tilhögun náms í mjólkurfræði. Flutningsmaður telur að það kerfi sem nú er stuðst við sé úrelt og ekki til þess fallið að tryggja sem besta þekkingu í faginu hér á landi.
    Mjólkurfræðin er grunnurinn að vinnslunni á okkar góðu mjólkurvörum. Rétt væri að mennta nýja mjólkurfræðinga til að fullvinna mjólkina í framtíðinni með íslensku vinnuafli. Mjólkurfræðingar starfa í mjólkurbúum, afurðastöðvum eða annars staðar í matvælaiðnaði við mjólkurvinnslu, framleiðslu mjólkurafurða, rannsóknir og vöruþróun. Mjólkurfræðingar geta einnig starfað í sælgætisgerðum og ölgerðum.
    Fram kemur á vefsíðu Mjólkurfræðingafélags Íslands að nám mjólkurfræðinga fari fram í Danmörku og að Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins sjái um allt skipulag á þeim málum. Mjólkurfræðinám er þriggja ára nám á framhaldsskólastigi sem endar með sveinsprófi og er það kennt í Kold College í Óðinsvéum. Námið samanstendur af bóklegum hluta og verknámi. Í fyrri hluta námsins eru tekin fyrir margvísleg grunnfög (10 vikur) en í síðari hlutanum er farið í sérhæfðara efni (40 vikna kennsla og verknám). Í lok kennslunnar þarf nemandi að skila lokaritgerð og þreyta munnlegt próf. Mismunandi er hvenær samningur nema tekur gildi og eru dæmi þess að nemi hafi þurft að bíða í töluverðan tíma eftir að hafa lokið bóknámsferlinu þar til loksins kemur að sveinsprófi.
    Verknám fer fram samhliða kennslu þar sem svokallað samlokukerfi er við lýði, þ.e. nokkrar vikur úti og nokkrar vikur heima til skiptis. Nemar halda sínum verkamannalaunum meðan á samningi stendur, ekki er hér um nemalaun að ræða eins og í svo mörgum öðrum iðngreinum.
    Óski fyrirtæki eftir að annast verklega hluta námsins þarf það að vera viðurkennt og er það í samræmi við reglur um starfsnám. Fyrirtækin verða að uppfylla ákveðnar kröfur svo að nemandi fái þjálfun og þekkingu í samræmi við inntak menntunarinnar. Fræðslunefnd þarf að samþykkja þá nemendur sem sækja um námið.
    Samstarf Íslands og Danmerkur varðandi mjólkurfræðinámið undanfarna áratugi byggist á samstarfi Fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins hér á landi og Kold College. Farið var að innheimta skólagjöld í náminu fyrir þremur árum og beinast þau eingöngu að erlendum námsmönnum í Danmörku. Þessi gjöld eru alveg óháð uppihaldi og ferðalögum.
    Það hefur ekki gengið að koma íslenskum nemendum á samning hjá dönsku mjólkursamlagi með þeim hætti að þeir geti tekið verklegu vinnuna á Íslandi og sloppið þannig við skólagjöldin. En vinna við að ná því í gegn hefur verið í gangi í nokkurn tíma en ekkert komið út úr henni. Einnig hefur verið skoðað hvort íslenskur mjólkuriðnaður geti og vilji taka á sig þær hækkanir á námskostnaðinum sem liggur fyrir.
    Dæmi eru um að nemendur hafi beðið í allt að fjögur ár eftir að komast í námið sem verður að teljast ansi langur biðtími. Fyrir liggur að enginn Íslendingur hefur farið á samning síðastliðin þrjú ár.
    Það er mat flutningsmanns að mikilvægt sé að kannaðar verði án tafar allar leiðir til að leysa þennan vanda og auðvelda íslenskum nemendum að komast í þetta nám og tryggja þannig að verkþekking á sviði mjólkurfræði verði áfram til fyrirmyndar hér á landi. Skoða mætti að taka upp og endurskoða samninga við Dani eða að ríkið nái með öðrum hætti að leysa úr þeim vanda sem þessi háu námsgjöld eru.