Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 415  —  81. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um lagabreytingar
vegna fullgildingar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.


     1.      Hvaða lögum og reglugerðum hefur verið breytt svo að fullgilda megi sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eftir að „tafla yfir lög og reglugerðir sem varða samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks“ var gefin út í apríl 2013?
    Ekki hefur verið ráðist í breytingar á lögum eða reglugerðum. Frumvarp til laga um breytta hugtakanotkun verður lagt fyrir Alþingi í haust en það frumvarp er nú í umsagnarferli á vef innanríkisráðuneytisins.

     2.      Er unnið að undirbúningi annarra breytinga á regluverki svo fullgilda megi sáttmálann?
    Já, og sú vinna stendur yfir bæði á vegum innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis. Löggjöf er varðar málefnasvið annarra ráðuneyta telst í samræmi við ákvæði samningsins. Samkvæmt fyrirliggjandi greiningu þarf að ráðast í lagabreytingar vegna 15 greina samningsins. Í samræmi við þingmálaskrá verður frumvarp til laga um breytta hugtakanotkun í löggjöf sem fyrr segir lagt fram á haustþingi 2014 en breytingar á lögræðislögum og breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga á vorþingi 2015.
    Þá felur fyrirhugað frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um innleiðingu mismunatilskipana Evrópusambandsins í sér breytingar sem nauðsynlegar eru vegna fullgildingarinnar. Að auki er unnið að undirbúningi frumvarpa varðandi 23. gr. samningsins og hluta 33. gr. samningsins og samráðsferli vegna 13. gr. samningsins er að hefjast í samstarfi innanríkisráðuneytis og Landssamtakanna Þroskahjálpar.
    Áætlað er að birta endurskoðaða greiningu á heimasíðu verkefnisins ( www.irr.is/crpd) ílok október eftir að ráðuneyti og hagsmunaaðilar hafa yfirfarið hana.

     3.      Hvenær er fyrirhugað að fullgilda sáttmálann?
    Samkvæmt verkefnaáætlunum ráðuneyta ættu öll frumvörp sem leggja þarf fram vegna fullgildingarinnar að koma fyrir Alþingi vorið 2015. Þegar lagabreytingar hafa átt sér stað þarf utanríkisráðherra að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi um fullgildingu samningsins.