Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 434  —  344. mál.




Fyrirspurn



til innanríkisráðherra um samskipti Landhelgisgæslunnar við norsk hermálayfirvöld.


Frá Birni Val Gíslasyni.


     1.      Er í gildi samsstarfssamningur milli Landhelgisgæslu Íslands og norskra hermálayfirvalda um upplýsingagjöf gæslunnar til norskra hermálayfirvalda eða norsku landhelgisgæslunnar sem greitt skuli fyrir með skotvopnum eða öðrum vopnum?
     2.      Veitir Landhelgisgæslan norskum hermála- eða löggæslustofnunum upplýsingar um veður og sjólag sem aflað er af Veðurstofu Íslands eða með sjálfvirka upplýsingakerfinu um veður og sjólag sem Vegagerðin starfrækir? Ef svo er, eru þær greiðsla fyrir skotvopn sem Landhelgisgæslan hefur fengið frá Noregi á undanförnum árum og á hvaða heimildum hvíla ráðstafanirnar?
     3.      Veitir Landhelgisgæslan norskum hermála- eða löggæslustofnunum upplýsingar um skipaumferð við Ísland sem aflað er með starfsemi Vaktstöðvar siglinga? Ef svo er, eru þær greiðsla fyrir skotvopn sem Landhelgisgæslan hefur fengið frá Noregi á undanförnum árum og á hvaða heimildum hvíla ráðstafanirnar?
     4.      Nýtir Landhelgisgæslan sér upplýsingar um veður og sjólag á hafinu umhverfis Ísland eða upplýsingar um skipaumferð við Ísland með einhverjum hætti til að afla stofnuninni tekna eða annars endurgjalds? Ef svo er, á hvaða heimildum hvíla þær ráðstafanir?
     5.      Með hvaða hætti verðleggur Landhelgisgæslan þá þjónustu sem hún veitir norskum hermála- eða löggæsluyfirvöldum og hvernig er verðið umreiknað í endurgjaldsmiðilinn, þ.e. skotvopn eða annan vopnabúnað, ef um hann er að ræða?
     6.      Hvernig er háttað innheimtu og tekjuskráningu vegna þeirrar þjónustu sem Landhelgisgæslan veitir norskum hermála- eða löggæsluyfirvöldum?
     7.      Hvernig er háttað greiðslum opinberra gjalda vegna þeirrar þjónustu sem Landhelgisgæslan veitir norskum hermála- eða löggæsluyfirvöldum?
     8.      Hvaða aðilar innan Landhelgisgæslunnar hafa heimild til að skuldbinda stofnunina með samningagerð um vopnakaup og hvaða kröfur eru gerðar í því sambandi?


Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.

    Í viðtali fréttamanns Ríkisútvarpsins við forstjóra Landhelgisgæslunnar í kvöldfréttatíma Sjónvarps 26. október sl. kom fram í máli forstjórans að Landhelgisgæslan veitir norskum hermálayfirvöldum ýmsar notadrjúgar upplýsingar „um umferð og veður og sjólag og annað því um líkt“ og fær Landhelgisgæslan skotvopn frá norskum hermálayfirvöldum sem endurgjald fyrir þá þjónustu samkvæmt því sem skilja mátti af orðum forstjórans.