Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 465  —  5. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003,
með síðari breytingum (ríkisstyrkir o.fl.).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurberg Björnsson og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneyti, Gísla Gíslason og Val Rafn Halldórsson frá Hafnasambandi Íslands og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Hafnasambandi Íslands, Landssambandi fiskeldisstöðva, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.
    Málið var fyrst flutt á 141. löggjafarþingi (577. mál, þskj. 982) og aftur á 143. löggjafarþingi (234. mál, þskj. 342). Nefndin fjallaði þá um málið og afgreiddi það með nefndaráliti og breytingartillögu (þskj. 1144) sem fylgir með áliti þessu. Málið hlaut þó ekki endanlega afgreiðslu Alþingis vorið 2014 og var því endurflutt á yfirstandandi þingi með þeim breytingum sem umhverfis- og samgöngunefnd lagði til í áliti sínu á 143. löggjafarþingi, auk nokkurra tæknilegra breytinga sem raktar eru í 5. kafla athugasemda við frumvarpið.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sömu athugasemdir við framkvæmd 17. gr. laganna hvað varðar starfsemi fiskeldisfyrirtækja og komu fram fyrir nefndinni á síðasta þingi. Fiskeldisfyrirtæki greiða aflagjald skv. e-lið 2. mgr. 17. gr. laganna af framleiddum eldisfiski sem fluttur er úr kví um hafnarsvæði í sláturhús í landi. Aflagjaldið reiknast af helmingi heildarsöluverðmætis aflans eða á sama grundvelli og reiknað aflagjald frystiskipa. Athugasemdirnar snúa að því að aðilar telja að ekki sé um sjávarafla að ræða heldur fiskeldishráefni, enda sjá fyrirtækin sjálf um að koma fiskinum í kvíar þar sem hann er fóðraður og vex þar til hann er fluttur aftur að landi til slátrunar. Þá er verðmæti vörunnar ekki skýrt enda um vöru á mismunandi framleiðslustigi að ræða sem fær endanlegt verðmæti við sölu afurðar eftir slátrun, pökkun og útflutning til kaupenda. Af þessum sökum hafa komið fram þau sjónarmið að réttara sé að fiskeldisfyrirtæki greiði magntengt vörugjald í stað aflagjalds. Nefndin tekur undir þau meginsjónarmið sem búa að baki framangreindum athugasemdum. Fiskeldisfyrirtæki sem önnur fyrirtæki þurfa að greiða eðlilegt gjald fyrir afnot af höfnum landsins og það gjald þarf að finna út með eðlilegum og sanngjörnum hætti. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að skoðað verði nánar hvaða leiðir eru færar til að reikna út það gjald sem fiskeldisfyrirtæki greiða fyrir afnot af hafnarmannvirkjum. Nefndin bendir þó á að skv. 5. mgr. 17. gr. hafnalaga er höfn heimilt að gera langtímasamning við notendur hafnarmannvirkja um m.a. aflagjald vegna afnota af bryggjum, með endurskoðunarákvæðum ef forsendur breytast. Á þann hátt geta aðilar samið um greiðslu gjalda fyrir afnot af hafnarmannvirkjum á þann hátt sem tekur með betri hætti mið af þeirri starfsemi sem stunduð er.
    Að framansögðum athugasemdum virtum leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgir Ármannsson og Elín Hirst voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. nóvember 2014.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Haraldur Einarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Svandís Svavarsdóttir. Róbert Marshall.
Vilhjálmur Árnason.


Fylgiskjal.


Umhverfis- og samgöngunefnd:

Nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum,
nr. 61/2003, með síðari breytingum (ríkisstyrkir o.fl.).

(Þskj. 234 í 1144. máli á 143. löggjafarþingi.)


    Á fundi nefndarinnar komu Sigurbergur Björnsson, Svana Margrét Davíðsdóttir og Björn Freyr Björnsson frá innanríkisráðuneyti, Valur Rafn Halldórsson og Már Sveinbjörnsson frá Hafnasambandi Íslands, Sigurður Kristmundsson og Róbert Ragnarsson frá Grindavíkurbæ, Sigurður Pétursson og Höskuldur Steinsson frá Landssambandi fiskeldisstöðva, Auðunn F. Kristinsson frá Landhelgisgæslunni, Eva Sigrún Óskarsdóttir og Halldór Zo.ga frá Samgöngustofu og Sigurrós Friðriksdóttir frá Umhverfisstofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Grindavíkurbæ, Hafnasambandi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi fiskeldisstöðva, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samgöngustofu, Samtökum verslunar og þjónustu og Umhverfisstofnun.
    Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps um endurskoðun hafnalaga sem þjóna þeim tilgangi að styrkja rekstrargrundvöll hafna og gera þeim kleift að aðlagast breyttri notkun. Einnig var bætt við ákvæðum um neyðarhöfn og heimild til að eiga og reka mannvirki vegna ferja.
    Umsagnaraðilar voru almennt hlynntir frumvarpinu. Í umræðu um málið kom fram að fulltrúar Hafnasambands Íslands í nefnd sem endurskoðaði núgildandi hafnalög hafi lagt til að í frumvarpi til breytinga á lögunum yrði styrkhlutfall til endurbóta 90% og nýframkvæmda 60%. Í umsögnum kom fram að hafnir hafi yfirleitt ekki bolmagn til að standa undir meira en 10% af framkvæmdakostnaði við endurbætur eða endurbyggingu. Nefndin styður framangreinda tillögu að nokkru leyti og leggur fram breytingartillögu þess efnis.
    Ljóst er að verði frumvarpið samþykkt þarf að setja skýrar reglur um þau skilyrði sem hafnir þurfa að uppfylla til þess að njóta framlags ríkisins til endurbóta eða nýframkvæmda. Æskilegast og eðlilegast væri að reglugerð um þetta verði sett af innanríkisráðherra og að fullt samráð verði haft við Hafnasamband Íslands um þær reglur sem útfærðar verða í þessu efni. Þá tekur nefndin undir þau sjónarmið að mikilvægt sé við útfærslu reglna um framlög ríkisins til framkvæmda að jafnræðis verði gætt milli hafna.
    Í 1. gr. frumvarpsins er fjallað um neyðarhafnir. Ljóst er að setja þarf reglugerð um atriði sem varða neyðarhafnir, en af hálfu hafnasambandsins er skýr afstaða þess efnis að þær hafnir sem flokkaðar verði sem neyðarhafnir hafi ekki af því kostnað. Því verði að tryggja neyðarhöfnum skaðleysi eins og evrópskar reglur geri ráð fyrir. Leggur nefndin til að haft verði samráð við hafnasambandið um útfærslu þeirra reglna sem settar verða um neyðarhafnir.
    Í umfjöllun um málið kom upp sú skoðun hjá nokkrum umsagnaraðilum að betra væri að nota hugtakið skipaafdrep en neyðarhöfn. Nefndin telur mikilvægt að gæta samræmis í hugtakanotkun við laga- og reglugerðarsetningu. Þykir því ástæða til að skoða hvor hugtakið „place of refuge“ verði skýrt sem skipaafdrep í íslenskum lögum og reglugerðum. Skilgreiningin yrði sú sama og áður: „höfn eða hluti hafnar eða öruggt skipalægi eða akkerislægi eða annað skýlt svæði sem Samgöngustofa auðkennir til að taka á móti nauðstöddum skipum.“ Hugtakið skipaafdrep yrði þá notað í þeirri rúmu merkingu að það nái jafnt yfir neyðarhafnir sem og aðra nánar tilgreinda staði sem mætti nota sem skjól fyrir skip í neyð. Þannig yrði notkun hugtaksins í fullu samræmi við skilgreininguna í tilskipun 2002/59/EB og þjónaði um leið þeim tilgangi að samræma hugtakanotkunina í íslenskum lögum og reglugerðum, auk þess að samrýmast skýringu annarra ríkja á sama hugtaki. Leggur nefndin því til að í stað hugtaksins neyðarhöfn verði notað hugtakið skipaafdrep.
    Þá voru gerðar athugasemdir við 17. gr. laganna „Gjöld“ og athygli nefndarinnar vakin á að í gjaldskrá nokkurra hafna á Vestfjörðum er fiskeldisfyrirtækjum gert að greiða aflagjald af framleiddum eldisfiski sem fluttur er úr kví um hafnarsvæði í sláturhús í landi. Fram kom að það er mat ýmissa að viðkomandi hráefni sé fiskeldishráefni en ekki sjávarafli og því verðmætið óskýrt enda er um „vöru í vinnslu“ að ræða eða vöru á mismunandi framleiðslustigi sem fær endanlegt verðmæti við sölu afurðar eftir slátrun og pökkun. Umsagnaraðilar töldu réttara að fiskeldisfyrirtæki greiði í stað aflagjalds, magntengt vörugjald af eldisfiski í vinnslu skv. b-lið 1. mgr. 17. gr. Með slíkri breytingu væri þjónustugjaldið magntengt en byggðist ekki á huglægu mati. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur að þetta atriði beri að skoða betur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „Neyðarhöfn“ í 1. gr. komi: Skipaafdrep.
     2.      Við 7. gr.
              a.      Í stað „75%“ í a-lið 2. efnismgr. komi: 85%.
              b.      Í stað „60%“ í b-lið 2. efnismgr. komi: 75%.
              c.      Í stað „50%“ í c-lið 2. efnismgr. komi: 60%.

    Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 2014.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir,
með fyrirvara.
Haraldur Einarsson.
Brynjar Níelsson. Katrín Jakobsdóttir. Brynhildur S. Björnsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.