Ferill 54. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 466  —  54. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um byggingarvörur.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Fjólu Sigurðardóttur, Kjartan Ingvarsson og Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Rut Kristinsdóttur frá Skipulagsstofnun, Ingibjörgu Halldórsdóttur og Benedikt Jónsson frá Mannvirkjastofnun, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Rögnvald S. Gíslason og Jón Sigurjónsson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Vegagerðinni. Einnig barst nefndinni sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Frumvarp til heildarlaga um byggingarvörur var fyrst lagt fram á 141. löggjafarþingi (543. mál, þskj. 919) en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið var lagt aftur fram á 143. löggjafarþingi (61. mál, þskj. 61) og hlaut afgreiðslu umhverfis- og samgöngunefndar sem lagði til breytingar á frumvarpinu í áliti sínu (þskj. 369), sem fylgir með áliti þessu sem fylgiskjal. Í frumvarpi því sem nú er til meðferðar hafa breytingartillögur nefndarinnar frá síðasta þingi verið teknar til greina og felldar inn í frumvarpið. Þá hefur einnig verið brugðist við athugasemdum ESA sem bárust umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 17. febrúar sl., líkt og rakið er í V. kafla athugasemda við frumvarpið.
    Meiri hluti nefndarinnar vísar til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti nefndarinnar frá síðasta þingi. Við umfjöllun nefndarinnar nú kom fram að ekki væri víst að tilnefnd verði tæknimatsstofnun hér á landi, sbr. 5. og 6. gr. frumvarpsins, fyrst um sinn en í ákvæðunum er fjallað um tilnefningu tæknimatsstofnunar, tilkynningaryfirvald og tilkynnta aðila. Nýsköpunarmiðstöð Íslands var sá aðili sem framkvæmdi tæknimat hér á landi en það hefur ekki verið framkvæmt síðan 1994. Til að framkvæma tæknimat þarf sú stofnun sem það gerir að vera aðili að samtökum tæknimatsstofnana og sækja fundi þeirra reglulega. Fyrir nefndinni kom fram að nokkuð kostnaðarsamt væri að vera aðili að þeim samtökum og þar sem umsóknir um tæknimat hafa ekki borist í fjölda ára er Nýsköpunarmiðstöð Íslands ekki lengur aðili að samtökunum. Þá er ekki til staðar tilnefndur aðili hér á landi sem hefur faggildingu til að framkvæma mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika skv. VII. kafla reglugerðar (ESB) nr. 305/2011. Af því leiðir að þeir innlendu aðilar sem hyggjast fá vörur sínar vottaðar og CE-merktar þurfa að leita til prófunaraðila erlendis sem kann að leiða af sér meiri kostnað en ef hægt væri að leita til innlends aðila. Meiri hlutinn bendir þó á að ekki er skylda að tilnefna tæknimatsstofnun og þær sem eru tilnefndar annast tæknimat án tillits til landamæra. Þrátt fyrir framangreint er það mat meiri hlutans að nauðsynlegt sé að frumvarpið verði að lögum svo innleiða megi reglugerð (ESB) nr. 305/2011 með fullnægjandi hætti en reglugerðin er grunnreglugerð á þessu sviði.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgir Ármannsson og Elín Hirst voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. nóvember 2014.

Höskuldur Þórhallsson,
form.
Haraldur Einarsson,
frsm.
Katrín Júlíusdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. Róbert Marshall. Vilhjálmur Árnason.


Fylgiskjal.


Umhverfis- og samgöngunefnd:

Nefndarálit um frumvarp til laga um byggingarvörur.
(Þingskjal 369 í 61. máli á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)


    Nefndin fékk á sinn fund Steinunni Fjólu Sigurðardóttur og Hafstein Pálsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Benedikt Jónsson og Ingibjörgu Halldórsdóttur frá Mannvirkjastofnun. Einnig fékk nefndin á sinn fund Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ferdinand Hansen frá Samtökum iðnaðarins, Eirík Rögnvaldsson frá Íslenskri málnefnd og Óskar Örn Jónsson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Nefndinni bárust umsagnir frá Íslenskri málnefnd, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Vegagerðinni. Einnig barst nefndinni sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu.
    Tilgangur frumvarps þessa er innleiðing og framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011 um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara sem samþykkt var af Evrópusambandinu 9. mars 2011. Reglugerðinni er ætlað að koma í stað tilskipunar ráðsins 89/106/EBE um sama efni, en áður hafði tilskipunin verið innleidd með reglugerð um viðskipti með byggingarvörur nr. 431/1994. Frumvarpinu er að auki ætlað að leysa að mestu af hólmi VIII. kafla laga nr. 160/2010, um mannvirki, en einnig eru gerðar breytingar á lögum nr. 75/2000, um brunavarnir.
    Nefndin telur að mikilvægt sé við innleiðingu á reglugerðinni að gætt verði ýtrustu hagkvæmni og útfærsla miðuð við eðli og stærð markaðarins hér á landi.
    Við umfjöllun um frumvarpið kom fram að slakað hefði verið nokkuð á kröfum um að leiðbeiningar og upplýsingar væru á íslensku. Í 4., 10. og 13. gr. frumvarpsins kemur þetta sérstaklega til álita. Í 4. gr. segir: „Yfirlýsing um nothæfi byggingarvöru skal lögð fram á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku.“ Í 10. gr. er fjallað um að allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg séu skuli vera á íslensku eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykki. Þá segir í 13. gr.: „Þegar byggingarvara er boðin fram á markaði skulu framleiðendur, innflytjendur og dreifendur sjá til þess að vörunni fylgi leiðbeiningar um notkun og upplýsingar um öryggi á íslensku eða ensku. Ráðherra er þó heimilt með reglugerð að ákveða að leiðbeiningar um notkun eða upplýsingar um öryggi byggingarvöru fyrir tilteknar vörur eða vöruflokka skuli vera á íslensku, með hliðsjón af notkunarsviði vörunnar og mikilvægi hennar með tilliti til grunnkrafna, sbr. 3. mgr. 4. gr.“ Nefndin telur að textinn eigi að meginreglu til að vera á íslensku en síðan megi birta hann á öðru tungumáli ef rök eru fyrir slíkri heimild. Sjálfsagt sé að leiðbeiningar um notkun og upplýsingar um öryggi séu á íslensku. Tekur nefndin undir ábendingar íslenskrar málnefndar sem vísaði í umsögn sinni í íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 12. mars 2009, en aðalmarkmið málstefnunnar er „að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags“. Þar sem um mjög hættulega vöru getur verið að ræða er lagt til, eins og að framan greinir, að meginreglan verði sú að texti merkinga skuli vera á íslensku. Nýti ráðherra sér heimild til að kveða á um annað í reglugerð er gert ráð fyrir að merkingar verði þá á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku. Hins vegar er ljóst að þetta verða undantekningartilvik, t.d. gæti þetta átt við þar sem almenn, víðtæk þekking og reynsla er fyrir hendi á notkun vörunnar og ljóst er að af vörunni stafi ekki augljós hætta eða þegar sérfræðingar nota hana vinnu sinnar vegna.
    Í umsögnum nokkurra aðila voru gerðar athugasemdir við orðalag í frumvarpinu. Á fundum nefndarinnar með fulltrúum ráðuneytisins og Mannvirkjastofnunar kom fram að umrætt orðalag væri í samræmi við orðnotkun í lögum um mannvirki. Við nánari skoðun telur nefndin að breyta megi orðalagi til enn frekara samræmis við orðalag mannvirkjalaga og leggur því til breytingar á nokkrum greinum. Einnig tekur hún undir nokkrar tillögur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og leggur til nokkrar breytingar til að auka á skýrleika laganna.
    Þá leggur nefndin til að fellt verði út ákvæði til bráðabirgða og krafan verði því sú við gildistöku laganna að tilkynntur aðili skuli hafa faggildingu. Lítur nefndin til þeirra röksemda er komu fram á minnisblaði Mannvirkjastofnunar, dags. 14. nóvember sl., en þar segir um bráðabirgðaákvæðið m.a.: „má efast um það hvort heimild ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpi til laga um byggingarvörur gengur í raun upp. Leiðin léttir e.t.v. eitthvað á ferli tilkynningar gagnvart þeim sem sækir um slíkt. Leiðin leggur hins vegar mun meiri stjórnsýslu á herðar tilkynningarstjórnvaldinu og skapar töluverða óvissu um hvaða reglur eiga við um matið. Óvíst er jafnframt hvort til er hér á landi aðili sem getur framkvæmt slíkt mat, þannig að það uppfylli kröfur Framkvæmdastjórnar ESB.“
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku skjali.
    Brynjar Níelsson og Jón Þór Ólafsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. desember 2013.Höskuldur Þórhallsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Haraldur Einarsson.Birgir Ármannsson.


Katrín Jakobsdóttir.


Róbert Marshall.Vilhjálmur Árnason.