Ferill 364. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 481  —  364. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun á slægingarstuðlum.


Flm.: Ásmundur Friðriksson, Vilhjálmur Árnason,
Páll Valur Björnsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða reglur um slægingarstuðul og færa þær í þannig horf að staða aðila eftir svæðum verði jöfn, t.d. með því að heimila breytilegan stuðul eftir veiðisvæðum og tímabilum.

Greinargerð.

    Þegar talað er um að slægja þá eru innyfli fjarlægð úr kviðarholi fisks. Hlutfall slógs er misjafnt eftir tegundum. Á vef Fiskistofu er slægingarstuðla að finna en slægingarstuðull er hlutfall slógs af vigtuðum óslægðum fiski. Samkvæmt Fiskistofu er slægingarstuðull þorsks 0,84. Það þýðir að þegar þorski er landað óslægðum, þá er 84% af fisknum dregin frá kvóta sem merkir að ef 1.000 kg er landað af þorski eru 840 kg dregin frá kvóta en 160 kg eru skráð sem slóg.

Sami slægingarstuðull um allt land.
    Slægingarstuðullinn er sá sami fyrir allt landið óháð veiðarfærum, veiðisvæðum, árstímum og öðru. Það er vitað að hlutfall slógs er mismunandi eftir því hvaða forsendur liggja að baki og það gefur því auga leið að almennur stuðull upp á 16% slóginnihald mismunar aðilum.
Algengt er á vertíð í janúar til maí á vertíðarsvæðum við Suður- og Vesturland að hlutfall slógs sé allt að 25–30% og jafnvel hærra. Sem dæmi má nefna, að ef gert er ráð fyrir að 26% slóg sé í fiski og honum landað óslægðum eru aðeins dregin 16% frá vigt, en með réttu ætti að draga 26% frá til að fá rétta vigt af slægðum fiski. Þarna tapast um 100 kg af hverju tonni sem landað er óslægðu.
    Líkt og fram hefur komið er mismunandi eftir því á hvaða stöðum, með hvaða veiðarfærum og á hvaða tímabili er veitt hvert slóginnihald þorsks er og því er unnt að hagnast á stuðlinum eins og hann er í dag. Á meðan margir hafa slóginnihald sem nemur 25–30% þá eru aðrir með slóginnihald sem nemur 6–10%. Því er unnt að hagnast á því að landa inn óslægðum afla.
    Flutningsmenn telja mikilvægt við endurskoðun reglna samkvæmt tillögugrein, að kveðið verði á um hærri slægingarstuðul á svæðinu frá Horni í austri að Látrabjargi í vestri frá 15. janúar til 15. apríl ár hvert.

Glötuð verðmæti.
    Lögð hefur verið áhersla á að nýta sjávarafurðir sem best og er því mikilvægt fyrir alla að nýta þau verðmæti sem geta skapast í greininni til fullnustu. Það gefur auga leið að þegar aðilar tapa á því að koma með afla óslægðan í land, þá munu þeir slægja hann úti á sjó og fleygja slógi fyrir borð. Þetta þýðir að þau verðmæti sem nota mætti ef fiskur væri slægður í landi tapast og verðmæti minnka. Það er því ekki einungis hagur þeirra sem starfa í greininni að leiðrétta þennan stuðul heldur þjóðarbúsins alls.
    Um þetta mál hefur verið fjallað oft og mörgum sinnum síðustu tvo áratugi og hafa margir lýst yfir áhuga á að koma breytingum í gegn en lítið gerst þrátt fyrir ábendingar frá þeim sem verst verða fyrir þessu. Á aðalfundi Samtaka fiskvinnslu án útgerðar 12. nóvember 2005 kom m.a. eftirfarandi fram í ávarpi þáverandi sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, í tengslum við þetta mál:
    „Vegna eindreginna óska hagsmunaaðila er nú gert ráð fyrir að slægingarstuðull verði afnuminn í nokkrum bolfisktegundum, þ.e. þorski, ýsu og ufsa, og er gert ráð fyrir að þær tegundir verði ávallt vigtaðar slægðar – gert er ráð fyrir að afla sé ýmist landað slægðum eða hann slægður í landi og vigtaður í kjölfarið. Kostirnir eru augljósir, aflaskráning verður nákvæmari og útgerðir munu ekki þurfa að sæta því að slóginnihald verði dregið af aflamarki þeirra.“
    Það er ljóst að sú leið að setja alla undir sama hatt með 16% slóginnihald mismunar aðilum sem starfa innan sömu greinar. Það er kominn tími til að breyta þessu og leiðrétta stuðulinn svo allir sitji við sama borð.