Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 491  —  370. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um innflutning nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu.

Flm.: Unnur Brá Konráðsdóttir, Brynjar Níelsson, Pétur H. Blöndal.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem feli í sér að hagsmunasamtökum nautgripabænda verði heimilað að flytja inn, varðveita og afhenda innflutt nautasæði til sæðingar íslenskra kúa. Markmið frumvarpsins verði að efla stofn mjólkurkúa og auka hagkvæmni innlendrar mjólkurframleiðslu þannig að mögulegt verði að mæta innlendri og erlendri eftirspurn. Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en 30. mars 2015.

Greinargerð.

    Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem undirrituð var á Laugarvatni 22. maí 2013 er landbúnaður ein af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. 1 Þar kemur fram að ríkisstjórnin ætli sér að gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem hann stendur frammi fyrir og því sé m.a. brýnt að kanna hvernig unnt sé að auka verðmætasköpun í landbúnaði.
    Í 51. gr. búvörulaga, nr. 99/1993, er sett fram markmið fyrir X. kafla þeirra sem fjallar um framleiðslu og greiðslumark mjólkur. Þar kemur fram að stefnt skuli að því að almenn starfsskilyrði í framleiðslu mjólkurafurða stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði og að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni. Í 1. málsl. 9. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, kemur fram að markmið búfjárræktar, m.a. kúaræktar, sé að tryggja framfarir í ræktun búfjár í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni íslensks búfjár og búfjárafurða.
    Í stefnumörkun Landssambands kúabænda til ársins 2021 er m.a. gert ráð fyrir því að tryggja öruggt framboð hágæðamjólkur og -mjólkurafurða fyrir íslenska neytendur á hagstæðu verði, viðhalda góðri ímynd íslenskrar nautgriparæktar, að efla samkeppnishæfni greinarinnar og afla arðbærra útflutningsmarkaða. 2

Aukin eftirspurn eftir kúamjólk.
    Mikil eftirspurn er eftir mjólkurafurðum innan lands sem utan. Að margra mati mun áframhaldandi aukning eftirspurnar leiða til þess að innlend mjólkurframleiðsla nái ekki að fullnægja þörfum innanlandsmarkaðar. 3 Merki þessa hafa þegar sést. Í desember 2013 bárust fréttir af því að Mjólkursamsalan hefði flutt inn þrjá gáma af írsku smjöri til ostaframleiðslu. Ástæðan var sögð stóraukin neysla smjörs og rjóma og ófyrirséð minnkun mjólkurframleiðslu sumarmánuðina þar á undan. Á sama tíma var upplýst að Mjólkursamsalan hefði ekki getað staðið við gerða samninga um afhendingu smjörs til útflutnings og þyrfti að greiða gagnaðilum sínum samningsbætur af þeim sökum. 4
    Íslenski mjólkurkúastofninn er ekki stór. Við upphaf ársins 2011 voru nautgripir á Íslandi 72.773 og þar af voru um 25.711 mjólkurkýr. Hafði mjólkurkúm þá fækkað nokkuð frá árinu áður. Um 680 kúabú lögðu mjólk inn til mjólkursamlaga um þetta leyti. Árið 2013 framleiddu 22.509 árskýr að meðaltali 5.621 kg mjólkur hver.

Íslenski kúastofninn.
    Íslenski kúastofninn á rót sína að rekja til kúa sem fluttar voru til landsins á landnámsöld og virðast íslenskar kýr lítið sem ekkert blandaðar öðrum nautgripakynjum, enda hefur stofninn verið einangraður um langa hríð.
    Árið 1993 nam meðalnyt íslenskra kúa 4.163 kg mjólkur. Meðalnytin hefur aukist a.m.k. frá árinu 1997 eða sem nemur um 1.457 kg á ársgrundvelli. Aukningin er talin eiga rætur að rekja til kynbóta og bættrar fóðrunar. Þrátt fyrir það er afurðasemin mun minni en í algengustu kúakynjum nálægra landa. 5 Árið 2013 var meðalnyt íslenskra kúa 5.555 kg af orkuleiðréttri mjólk, þ.e. mjólk sem er stöðluð til nota við mælingar, hefur verið leiðrétt fyrir fitu- og próteininnihaldi og hefur þannig ákveðið orkuinnihald. Afurðahæsta bú landsins skilaði 7.693 kg á hverja árskú. Sé tekið mið af afurðaþróun undanfarinna 20 ára má gera ráð fyrir að nyt aukist að hámarki um 1,5% á ári næstu árin. Það þýðir að hún nær 6.100 kg af orkuleiðréttri mjólk árið 2020 og 7.100 kg af orkuleiðréttri mjólk árið 2030. Meðalafurðir hér á landi eru nú svipaðar og þær voru í Skandinavíu í kringum 1980. Meðalnyt í Danmörku árið 2013 var 9.603 kg á hverja árskú en afurðahæstu búin þar skila um 14.000 kg á árskú. Á eftirfarandi mynd má sjá samanburð á afurðaþróun á Norðurlöndunum undanfarin 20 ár.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Íslenski kúastofninn er það smár að sýna þarf sérstaka aðgæslu til þess að tryggja viðgang hans vegna skyldleikaræktunar. Þó svo að margir hafi talið erfðafræðilegt ástand stofnsins nokkuð gott verður ekki fram hjá því litið að þær skoðanir hafa tekið mið af aðstæðum stofnsins hér á landi. Stofninn hefur búið við um 9% skyldleikaræktarstuðul en það þykir í hærri kantinum sé tekið mið af ástandinu víða erlendis. Ef tryggja á að skyldleikaræktarstuðull íslenska kúastofnsins hækki ekki þarf að draga úr ræktunarstarfi. Slíkt verður aðeins gert á kostnað framleiðni hans sem færi minnkandi.

Tækniþróun (mjaltaþjónar).
    Gríðarleg tækniþróun hefur orðið í mjólkurframleiðslu síðustu áratugi. Ein stærstu framfaraskrefin voru stigin með innleiðingu mjaltaþjóna. Um áramótin 2013/2014 voru 129 mjaltaþjónar í notkun á 109 kúabúum. Slíkum búum hefur fjölgað, um fjögur bú árið 2012 og þrjú bú árið 2011, þrátt fyrir að kúabúum hafi almennt fækkað á sama tíma. 6 Lausagöngufjós með mjaltaþjónum eru afurðahæstu bú landsins að meðaltali ásamt því að vera að jafnaði stærstu bú landsins. Slík fjós eru eina fjósgerðin þar sem kúm hefur fjölgað verulega frá árinu 2009. Þá hefur nýting mjaltaþjónanna verið að batna, fjöldi árskúa á hvern mjaltaþjón hefur aukist úr 54,8 árskúm árið 2009 í 59,2 árskýr um áramótin 2013/2014. 7
    Í riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 15 frá 2007 birtust niðurstöður starfshóps sem falið var að bera saman rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu með íslenskum kúm og fjórum erlendum kúakynjum. Jafnframt var gerð könnun á vinnuþörf við mjaltir. Niðurstöðurnar bentu til þess að mikill munur væri á vinnuþörf í tilviki íslenskra og erlendra kúa. Í skýrslu starfshópsins kemur eftirfarandi m.a. fram: „Niðurstöður könnunarinnar benda til að mjaltir hér á landi séu umtalsvert vinnufrekari en erlendis en samkvæmt þeim má gera ráð fyrir að við bestu aðstæður séu afköst í mjaltabás hér á landi um 3,60 mínútur/grip/dag meðan sambærilegar tölur fyrir erlend kyn eru 3,05 mínútur/grip/dag. Mjaltir með mjaltaþjónum eru jafnframt nokkuð vinnufrekari hér á landi en gerist erlendis. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eyða íslenskir bændur að meðaltali 1,5 klst. á þjón á dag í mjaltir og öðru sem því við kemur miðað við 51 kú á hvern þjón. Þessi vinna felur í sér rekstur á kúm í mjaltaklefann, tölvuvinnu í fjósinu og aðstoð við mjaltir ef illa gengur, t.d. að setja hylkin á spenana handvirkt. Samsvarandi erlendar niðurstöður voru 0,5 klst. á þjón á dag, og með 54 kýr á hvern þjón.“ 8
    Ráðast þarf í gríðarlega fjárfestingu til að byggja upp rekstrarhæfar einingar í mjólkurframleiðslu. Hver mjaltaþjónn kostar um 20 millj. kr. Núvirði fjárfestingar í mjaltaþjónum á Íslandi nemur því um 2,6 milljörðum kr. Afköst hvers mjaltaþjóns geta því skipt sköpum ef fjárfesting í slíkum tækjum á að skila sér.
    Árið 2013 var nýting hvers mjaltaþjóns að jafnaði 320.000 lítrar. Mestu mældu afköst einstaks mjaltaþjóns á Íslandi það árið námu um 460.000 lítrum. Benda má á að í Danmörku er nýtingin að jafnaði umtalsvert meiri, þ.e. um 650.000 lítrar á ári á hvern mjaltaþjón en 900.000 lítrar á afurðahæstu búunum. Í Noregi er nýtingin minni en í Danmörku eða sem nemur 390.000 lítrum á ári og um 700.000 lítrum á afurðahæstu búunum.

Rekstrarhagkvæmni innlendrar mjólkurframleiðslu.
    Meginniðurstaða starfshóps Landbúnaðarháskólans var að verulegur ávinningur væri líklegur af því að skipta um kúakyn. Til grundvallar niðurstöðunni lágu sterkar vísbendingar um að nyt yrðu betri, kjötframleiðsla meiri, tíðni sjúkdóma lægri, og vinna við mjaltir minni. 9
    Niðurstöður rannsókna virðast benda til þess íslensk meðalkýr standi sig mun lakar en kýr í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hvað framlegð í mjólkurframleiðslu varðar. 10 Mismunandi mjólkurnyt er meginskýring þess. 11 Sterkar vísbendingar eru um að kúabændur geti bætt heildarafkomu sína með því að auka meðalnyt kúa sinna. 12
    Niðurstaða starfshóps Landbúnaðarháskólans var að helst mætti vænta árangurs af því að flytja inn kúakynið NRF (n. Norsk Rødt Fe) frá Noregi eða SRB-kynið (s. Svensk röd och vit boskap) frá Svíþjóð. 13
    Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að norska NRF-kynið sé mjög heppilegt til innflutnings. Í þessari tillögu er hins vegar gert ráð fyrir að heimild til innflutnings, geymslu og afhendingar sæðis verði opin og ekki bundin við tiltekið kúakyn, enda er óskynsamlegt að útiloka að annað kunni að verða uppi á teningnum síðar meir.

Áhættumat vegna innflutnings erfðaefnis.
    Í kjölfar umsóknar Landssambands kúabænda um leyfi til þess að flytja inn erfðaefni holdanauta frá Noregi óskaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eftir því að Matvælastofnun framkvæmdi áhættumat vegna innflutnings frá Geno Global Ltd. í Noregi. Annars vegar framkvæmdi stofnunin áhættumat miðað við innflutning á nautasæði og hins vegar miðað við innflutning á fósturvísum. Í tengslum við áhættumatið vann stofnunin skýrslu þar sem tekin eru dæmi um áhættuminnkandi aðgerðir vegna innflutningsins.
    Í stuttu máli voru niðurstöður áhættumatsins þær að litlar líkur væru taldar á því að smitefni bærust með sæði eða fósturvísum frá Geno Global Ltd. í Noregi. Þar sem afleiðingar þess að smitefni bærust hingað voru í nokkrum tilvikum taldar kunna að verða miklar voru lagðar til tilteknar aðgerðir í þeim tilgangi að draga enn frekar úr áhættu í tengslum við innflutninginn.
    Áhættumat Matvælastofnunar liggur fyrir. Verði tillagan samþykkt og í kjölfarið heimilað með lögum að flytja inn nautasæði ætti möguleikinn til að hefja innflutning sæðis frá Geno Global Ltd. að opnast innan tiltölulega skamms tíma.

Kyngreint sæði.
    Tillagan felur í sér að ráðherra verði gert að beita tækjum sem hann ræður yfir til að heimila innflutning á sæði sem verður notað til að sæða íslenskar kýr. Markmiðið er að efla stofn mjólkurkúa og auka með því nyt þeirra. Til þess að sæðingin beri æskilegan árangur og uppbygging kúastofnsins verði markviss þarf að gera ráð fyrir því við frumvarpssmíðina að heimildin til að flytja inn, varðveita og afhenda sæði nái ótvírætt til kyngreinds sæðis.
    Í Noregi stendur félögum í nautgriparæktarfélögum til boða að sæða kýr með kyngreindu sæði úr bæði mjólkur- og kjötframleiðslukynjum. Með því að nota kyngreint sæði má auka líkur þess að kvígukálfar komi í heiminn og því á notkun sæðisins helst við á búum þar sem stefnt er að aukinni mjólkurframleiðslu. Að auki hefur kyngreint sæði verið notað þegar sæða á frumbyrjur en það hefur reynst þeim mun léttara að ganga með kvígur en nautkálfa. 14
    Kyngreint sæði gefur einnig möguleika á að lakari hluti mjólkurkúnna verði sæddur með holdanautasæði í þeim tilgangi að rækta upp blendingsnaut til kjötframleiðslu. Þeir gripir vaxa mun hraðar en nautgripir af íslenska stofninum og ná sláturstærð mun fyrr. Fanghlutfallið er 13% lægra við notkun á kyngreindu sæði en þegar um ókyngreint sæði er að ræða en miklar kröfur er gerðar um að sæðið sé af miklum gæðum.
    Notkun á kyngreindu sæði hefur aukist í nágrannalöndum okkar. Til dæmis hefur notkun á sæði sem ætlað er að gefa kvígukálfa aukist um 33% og holdanautasæði um 34% frá árinu 2012 í Noregi. Einna helst má rekja þessa auknu notkun til þess að verð á kyngreindu sæði hefur lækkað. 15 Auðvitað væri besti kosturinn sá að hægt væri að flytja inn sæði og kyngreina það á Íslandi. Ómögulegt er hins vegar að kyngreina frosið sæði. Þá er einfaldlega of kostnaðarsamt að kyngreina sæði til þess að það geti talist raunhæfur kostur fyrir íslenska aðila, það er einfaldlega of mikil vinna, búnaður er of dýr og kyngreiningin kallar á umfangsmeiri prófanir en mögulegar væru miðað við íslenskar aðstæður.

Tilraunaverkefni fyrst um sinn.
    Að mati flutningsmanna er eðlilegt að gert verði ráð fyrir því að innflutningur, varðveisla og afhending innflutts nautgripasæðis verði tilraunaverkefni fyrst um sinn. Benda má á að Búnaðarsamband Suðurlands á og rekur tilraunabúið á Stóra-Ármóti þar sem Landbúnaðarháskóli Íslands sér um tilraunaþátt starfseminnar. Samkvæmt 2. gr. áður gildandi laga nr. 29/1981, um tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands að Stóra-Ármóti, var aðalviðfangsefni tilraunastöðvarinnar alhliða tilraunastarfsemi í nautgriparækt með aðaláherslu á fóðrun og meðferð gripa. Á Stóra-Ármóti hefur áhersla verið lögð á hagnýtar rannsóknir. Viðfangsefni rannsóknanna hafa tengst vandamálum eða verkefnum nautgriparæktarinnar hverju sinni. 16

Efni tillögunnar.
    Hér er lagt til að Alþingi álykti að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að undirbúa og leggja fram á Alþingi lagafrumvarp sem feli í sér að hagsmunasamtökum kúabænda verði heimilað að flytja inn, varðveita og afhenda innflutt nautgripasæði til sæðingar íslenskra kúa. Sérstaklega er áskilið að markmið frumvarpsins verði að efla stofn mjólkurkúa og auka hagkvæmni innlendrar mjólkurframleiðslu þannig að innlendri og erlendri eftirspurn verði mætt.
    Mat flutningsmanna er að samþykkt tillögunnar eigi ekki að spilla verndargildi íslenska kúastofnsins. Þvert á móti má gera ráð fyrir að margir bændur muni kjósa að halda aðeins íslenskar kýr. Reynist þess þörf má gera ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi til að ráðist verði í mótvægis- og verndaraðgerðir samhliða framlagningu lagafrumvarps þess sem tillagan mælir fyrir um. Slíkt væri í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt Ríó-sáttmálanum, þ.e. samningnum um líffræðilega fjölbreytni. 17

Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá á vefslóðinni: www.stjornarrad.is/media/Rikjandi_rikisstjorn/stefnuyfirlysing-23-3-2013.pdf
Neðanmálsgrein: 2
2     Stefnumörkun 2021. Landssamband kúabænda 2011. Bls. 2. Sjá á vefslóðinni:
     www.naut.is/Files/Skra_0050805.pdf. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 3
3     „Grípa þarf til róttækra aðgerða svo að mjólkurframleiðslan nái að fullnægja innanlandsmarkaði.“ Bændablaðið 28. nóv. 2013. Bls. 16. Viðtal við Jóhann Nikulásson kúabónda.
Neðanmálsgrein: 4
4     „Írskt smjör í nokkrum íslenskum ostum“. Frétt birt á ruv.is 10. desember 2013:
     www.ruv.is/frett/irskt-smjor-i-nokkrum-islenskum-ostum. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 5
5     Kjötbókin, upplýsingaveita um íslenskt kjöt. Matís 2013. Sjá á vefslóðinni: kjotbokin.is/nautakjot/. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 6
6     „Enn eykst hlutfall mjaltaþjónamjólkur hér á landi.“ Bændablaðið 8. maí 2014. Sjá á vefslóðinni:
     www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/enn-eykst-hlutfall-mjaltathjonamjolkur-her-a-landi/158/. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 7
7     Snorri Sigurðsson: Skýrsla LbhÍ, þróun fjósgerða og mjaltatækni á Íslandi 2009–2011. Landbúnaðarháskóli Íslands 2011. Sjá á vefslóðinni: www.naut.is/Files/Skra_0051655.pdf. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 8
8     Samanburður á rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu með íslenskum kúm og fjórum erlendum kúakynjum, niðurstaða starfshóps. Rit LbhÍ nr. 15. Landbúnaðarháskóli Íslands 2007. Bls. 5. Sjá á vefslóðinni:
     www.lbhi.is/sites/default/files/gogn/vidhengi/thjonusta/utgefid_efni/RitLbhi/Rit_LbhI_nr_15.pdf. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 9
9     Sama rit, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 10
10     Gunnar Ríkharðsson og Jón Viðar Jónmundsson: Samanburður á íslenskum og norskum kúm í Færeyjum. Ráðunautafundur 1996. Bls. 16. Sjá á vefslóðinni:
     www.landbunadur.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/0/ee2bbd229b5536a400256b040039fcb1. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 11
11     Staða og þróunarhorfur í nautgriparækt á Íslandi. Rannsóknarráð Íslands 2001. Bls. 57.
Neðanmálsgrein: 12
12     Elvar Eyvindsson: Arðsemi kúabúa á Íslandi með tilliti til kúakyns og breytilegs kostnaðar. Lokaritgerð við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri 2005. Bls. 23–28.
Neðanmálsgrein: 13
13     Samanburður á rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu með íslenskum kúm og fjórum erlendum kúakynjum, niðurstaða starfshóps. Rit LbhÍ nr. 15. Landbúnaðarháskóli Íslands 2007. Bls. 7.
Neðanmálsgrein: 14
14     „Geno býður kyngreint sæði úr mjólkur- og kjötframleiðslukynjum“ Frétt á vef Landssambands kúabænda, dags. 20. nóvember 2012: www.naut.is/frettir/nr/134357/. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 15
15     „Notkun á kyngreindu sæði eykst um þriðjung í Danmörku“. Frétt á vef Landssambands kúabænda:
     www.naut.is/frettir/nr/188950/. Síðast skoðað 15. september 2014.
Neðanmálsgrein: 16
16     Búnaðarsamband Suðurlands: Ársrit 2013. Bls. 10.
Neðanmálsgrein: 17
17     Sjá umsögn Nautgripafélags Íslands um tillögu til þingsályktunar um verndun íslensku mjólkurkýrinnar til landbúnaðarnefndar Alþingis (193. mál á 128. löggjafarþingi):
     www.althingi.is/pdf/erindi/?lthing=127&dbnr=2223.
         Bréf landbúnaðarráðherra til Nautgripafélags Íslands um NRF-fósturvísa, dags. 3. apríl 2002. Sjá á vefslóðinni: www.atvinnuvegaraduneyti.is/verkefni/malaflokkar/landbunadur/ymis-mal/nr/6642. Síðast skoðað 30. september 2014.
         „LK vill blanda nýju erfðaefni í íslenska kúastofninn“. Bændablaðið 6. tbl. 2012. Sjá á vefslóðinni www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5606. Síðast skoðað 30. september 2014.
         Guðmundur Jóhannesson: „Innflutningur á nýju mjólkurkúakyni“. Freyr, september 1996. Sjá á vefslóðinni: saga.bondi.is/wpp/almhand.nsf/id/B883D6589786990B00256583006F1354. Síðast skoðað 30. september 2014.