Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 498  —  243. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Rauða krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins,
Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Maríu Rún Bjarnadóttur frá innanríkisráðuneytinu, Atla Viðar Thorstensen og Þóri Guðmundsson frá Rauða krossi Íslands og Margréti S. Hjálmarsdóttur frá Einkaleyfastofu.
    Markmið frumvarpsins er að viðurkenna Rauða krossinn á Íslandi með formlegum hætti í lögum en frumvarpið felur í sér að sett verði sérstök lög um Rauða krossinn á Íslandi og merki félagsins. Kveðið er með skýrum hætti á um stöðu Rauða kross Íslands sem sjálfstæðs og óháðs félags sem starfi að mannúðarmálum í samræmi við Genfarsamninga frá árinu1949 og viðbótarbókanir við samningana frá 1977 og 2005 sem og að félagið gegni stoðhlutverki gagnvart stjórnvöldum í mannúðarmálum. Samkvæmt frumvarpinu er Rauði krossinn á Íslandi eina félagið hér á landi sem getur átt aðild að Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans.
    Samkvæmt frumvarpinu er merkjum Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins veitt sérstök vernd gegn misnotkun og kveðið er á um að öðrum en Rauða krossinum á Íslandi sé óheimilt að nota nafn félagsins og merki eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi. Nefndin ræddi þetta nokkuð og tekur undir þau sjónarmið að hér geti afar mikilvægir hagsmunir verið í húfi, þ.e. ef merkin eru misnotuð eða notuð í öðrum tilgangi en þeim er ætlað samkvæmt alþjóðlegum lögum. Í frumvarpinu er merki Rauða krossins lýst sem rauðum krossi á hvítum grunni. Fram kom á fundum nefndarinnar að rétt væri að skilgreina einnig merki Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til breytingartillögu þar að lútandi.
    Fram kemur í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins að hver sem án heimildar notar nafn eða merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans eða Rauða kristalsins eða nöfn eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum, ef brot er ítrekað. Nefndin fjallaði nokkuð um þessi refsiviðurlög. Útfærsla refsiákvæða og refsiviðurlög eru nokkuð mismunandi á milli Norðurlandanna, eins og rakið er í greinargerð frumvarpsins. Fram kom á fundum nefndarinnar að ákvæði frumvarpsins tæki mið af nýlegri löggjöf á Norðurlöndum þar sem miðað væri við sams konar refsiramma og tekur nefndin undir það.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Síðari málsgrein 1. gr. falli brott.
     2.      Við 2. gr.
              a.      1. mgr. orðist svo:
                     Öðrum en Rauða krossinum á Íslandi, Alþjóðaráði Rauða krossins og Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans er óheimilt að nota nafn Rauða krossins og merki hans, sem er rauður kross á hvítum grunni, merki Rauða hálfmánans, sem er rauður hálfmáni á hvítum grunni, eða merki Rauða kristalsins, sem er rauður ferningslaga tígulrammi á hvítum grunni, eða nöfn eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi.
              b.      Á eftir orðunum „Rauða krossinum“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: á Íslandi.

    Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. nóvember 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Óttarr Proppé.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Bjarkey Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.