Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 501  —  158. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði
og skemmtanahald, nr. 85/2007 (hæfi dyravarða).


Frá atvinnuveganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og hefur borist umsögn frá Alþýðusambandi Íslands.
    Í reglugerð nr. 585/2007 eru ákvæði um dyravörslu og hæfi dyravarða þar sem m.a. er mælt fyrir um að dyraverðir skuli vera að lágmarki 20 ára, megi ekki hafa gerst sekir um ofbeldis- eða fíkniefnalagabrot og að þeir skuli hafa lokið viðurkenndu námskeiði fyrir dyraverði. Með frumvarpinu er lagt til að sambærilegt ákvæði verði lögfest til að fullnægt sé áskilnaði 75. gr. stjórnarskrárinnar um að takmörkun á atvinnufrelsi skuli byggjast á lögum.
    Í 1. gr. frumvarpsins er ákvæði reglugerðarinnar tekið upp í lög en þó þannig að tiltekið er að dyraverðir skuli ekki á síðastliðnum fimm árum hafa gerst sekir um ofbeldis- eða fíkniefnabrot en engin tímamörk eru í reglugerðinni.
    Nefndin leggur til eina breytingu til lagfæringar á frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Í stað orðanna „2. mgr.“ í inngangsmálslið 1. gr. komi: 2. málsl. 1. mgr.

    Þórunn Egilsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 4. nóvember 2014.

Jón Gunnarsson,
form.
Þórunn Egilsdóttir,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir.
Kristján L. Möller. Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson.